Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu

ÞÝÐINGAR Á SÆNSKUM LJÓÐUM

Nokkrar þýðingar úr bókinni "Því nóttin kemur", en hún kom út á vegum Bókmenntafélagsins Hringskugga árið 1990 og hefur að geyma þýðingar Pjeturs Hafsteins Lárussonar á nokkrum ljóða sænska skáldsins Gunnars Ekelöf. Norræni þýðingasjóðurinn styrkti útgáfuna.


Örfá orð um Ekelöf.

Gunnar Ekelöf fæddist árið 1907.  Ekki var hann fyrstur norrænna skálda til að yrkja með s.k. módernískum hætti, því nokkrir Finnlands-Svíar höfðu rutt brautina. En hann mun hafa verið brautryðjandi þessarar bókmenntastefnu í ljóðagerð Svía.

Ævi Gunnars Ekelöf verður ekki rakin hér. Í því sambandi má vísa til formála bókarinnar "Því nóttin kemur", og þó enn frekar til ævisögu hans, eftir Carl Olov Sommar, en hún kom út hjá Bonniers-forlaginu árið 1989 og er mikill doðrantur, upp á einar 632 blaðsíður.

Nokkur íslensk skáld hafa þýtt ljóð eftir Ekelöf, þ.á.m. Einar Bragi og Jóhann Hjálmarsson.

Gunnar Ekelöf lést árið 1968.

NAFNLAUST LJÓÐ

blómin sofa í glugganum og lampinn starir ljósi
og glugginn starir hugsunarlaust í myrkrið fyrir utan
sálarlaust afhjúpa málverkin það sem þeim var trúað fyrir
og flugurnar standa kyrrar á veggjunum og hugsa sitt

blómin halla sér að nóttinni og lampinn spinnur ljós
í horninu spinnur kötturinn ull að sofa á
við og við kraumar kaffikannan af vellíðan á eldavélinni
og börnin leika hljóð með orð á gólfinu

hvítdúkað borðið bíður einhvers
hvers fótatak aldrei berst upp stigann

lest sem borar sundur þögnina í fjarska
afhjúpar ekki leyndardóm hlutanna
en örlögin telja klukknaslögin högg eftir högg

SPYRÐU?

Viljirðu vita hvar mig er að finna
þá bý ég handan fjallsins.
Þangað er langt en ég er nærri.
Ég bý í öðrum heimi
en þú býrð í þeim sama.
Hann er allsstaðar að finna
en þó sjaldséður sem helíum.
Því heimtarðu loftfar að ferðast í?
Heimtaðu heldur síu fyrir köfnunarefni
eða kolsýru, vetni og annarskonar gas.
Heimtaðu síu fyrir allt sem aðskilur okkur
síu fyrir lífið.
Þú segist varla geta andað.
Einmitt! Hver heldurðu að geti andað?
Yfirleitt tökum við því með jafnaðargeði.
Spakur maður sagði:
"Það var svo dimmt að ég sá naumast stjörnurnar".
Hann átti bara við að það hefði verið nótt.

ÞVÍ NÓTTIN KEMUR

Því nóttin kemur
þegar gleði og harmur
hvíla saman í ró.

Þú sérð rökkrið leggjast hratt yfir
eins og klukknaóm
og gluggana kvikna einn af öðrum.

Innan þeirra hefur fólkið borðað sitt spaghettí
og án þess að leiða hugann að morgundeginum
sefur það brátt hvert hjá öðru.

Því nóttin kemur
Það er enginn morgundagur
Það er engin borg.

(Tilefni þessa ljóðs mun vera það, að þegar Ekelöf var eitt sinn staddur á Ítalíu, féll aurskriða á smábæ einn, ekki fjarri þeim stað, þar sem hann dvaldi. Manntjón varð og m.a. fórust þar brúðhjón. Þetta varð skáldinu að yrkisefni).

AÐ GETA HEYRT HVER ER

Að geta heyrt hver er hver í þessu lífi
og síðan, hikandi, án minnstu hugmyndar um endalokin
komist að niðurstöðu - ef til vill er það aðalatriðið
eða að tala ekki af sér
né heyra eftir geði sínu. En þá er mikils krafist.

Ekki hlutverk gagnrýnandans
heldur sjálfrýnandans.
Hver hefur sagt að þú sért góður?
Sá sem ann þér.
Hver hefur sagt að þú sért lítilsigldur?
Sá sem kemur þér ekkert við.
Hver hefur sagt þér að þú sért vondur og angrir?
Enn og aftur einhver sem elskar þig
en með öðrum hætti.

Víst er erfitt að vera frábrugðinn
en þó erfiðara, held ég, að vera vanafastur.

Ljóðaþýðingar úr sænsku, teknar úr bókinni "Tíu tungl á lofti", sem kom út hjá Fjölva árið 1992. Fimm fyrstu skáldin, sem hér eiga ljóð eru Svíar, hin fimm síðari eru útlendingar, sem sest hafa að í Svíþjóð og ort á tungu þarlendra.


HARRY MARTINSSON

Fæddur í Blekinge árið 1904, lést í Stokkhólmi 1978.

Harry Martinsson missti föður sinn tíu ára að aldri og ólst eftir það upp sem niðursetningur, þar til hann straun til sjós árið 1919. Hélt hann sig þar næstu sjö árin og mun m.a. hafa komið til Reykjavíkur á þeim ferðum sínum. Fróðir menn segja, að rekja megi upphaf skáldaferils hans til sjómennskunnar.

Í JÚNÍ

Síðustu stjörnur vorsins gægjast fram með daufu skini.
Smáar, mánafölar og bjarma sviftar.
Þreyttar á að sindra vetrarlangt
hvílast þær sumarbjartar nætur.


ARTUR LUNDKVIST

Hann fæddist árið 1906 og lést árið 1991. Ljóðskáld og þýðandi, aðalega suður-amerískra ljóða.

KONUAUGU

Augu þín eru svört
en lítill funi leikur í þeim.
Er það bros sálar þinnar
sem speglast í þeim
eða hvít framandi borg?

Augu þín eru svört
líkt og sjórinn í höfn að nóttu
sjórinn sem speglar borgarljósin.


0L0F LAGERCRANTZ

LAGERCRANTZ FÆDDIST Í Stokkhólmi árið 1911. Á árunum 1951 til 1960 var hann menningarritstjóri Dagens Nyheter og næstu fimmtán árin þar á eftir aðalritstjóri sama blaðs. Hann er einn afkastamesti þjóðfélagsrýnir Svía á þessari öld.

Meðan heilsan entist, var Lagercrantz nokkur tíður gestur á Íslandi.

Ljóð það sem hér birtist fjallar um örlög systur skáldsins, en hún svipti sig lífi.

AGNES CHARLOTTA

Enginn hirðir um gröf mína
né minnist mín
aldrei í dauðans nótt
óma mér lifandi raddir
Eitt sinn var ég lítil hnáta
með fléttur í hári
eina við hvort eyra og stóð
hljóð í dyragættinni
Sólin skein á blómamunstrað veggfóðrið
og í barnslegri hrifningu
horfði ég á móður mína
brosandi kemba hár sitt við spegilinn.


TOMAS TRANSTRÖMER

Hann er fæddur í Stokkhólmi árið 1931, sálfræðingur að mennt og hefur lengst af starfað við þá grein, auk skáldskapariðkana.

SVART PÓSTKORT

I
Dagatalið að fullu skráð, framtíðin óviss.
Kaðlinum nýtist þjóðvísa án ættlands.
Snjómugga á kyrrum sjó. Skuggar
brotna á bryggjunni.

II
Það hendir á miðri ævi að dauðinn komi
og slái máli á menn. Sú heimsókn
gleymist og lífið heldur áfram. En skartklæðin
eru saumuð í hljóði.


LUKAS MOODYSSON

Moodyson er fæddur árið 1969. Hann þótti þegar við útgáfu fyrstu bókar sinnar I hópi efnilegri skálda Svía. Undanfarið hefur hann fengist við kvikmyndagerð.

GUÐ ÁVARPAR ÞIG

Það finnst þegar í mér
og hefur alltaf fundist -
borðið, stólarnir, stjörnurnar,
bak þitt
sem talar svo hljótt svo hljótt til mín

Líkami minn fannst
í mér löngu fyrir fæðingu mína, hjólið
fannst í mér löngu áður en ég
uppgötvaði það
Og síminn
Og svefninn

Jörðin er í mér, dauðinn
er, himinn er

Ég er
Lengst inni í sjálfum mér
er ég Guð ég Guð
og mun vera þar
löngu eftir að þú ert farin
mun vera
löngu eftir að ég er farinn
mun ég vera
löngu eftir að ég hef hætt að draga andann.

---

Afi minn bar þrumu í
brjósti sér og hann lyftir mér upp
faðmar mig
eins og þeim dauðu einum er lagið

Innra óp hans sem þögn.
Ég kalla til hans.

Og hann fellur í gólfið
eins og þruma, eins og þung myrk mold.


MARIA WINE

Maria Wine er dönsk, fædd árið 1912. Hún giftist sænska skáldinu Artur Lundkvist og bjuggu þau í Svíþjóð. Maria yrkir á sænsku og þykir standa framarlega í hópi þeirra skálda sem það gera.

FRIÐUR

Ég sef andvaka svefni
ég bý í einsemd þinni.
Eitt er víst, - við tvö
erum og verðum eitt plús eitt
en einnig hitt að þessi plús
verður aldrei mínus.

Ég bíð svars
ljós eða myrkur.
Grátur er nærri
hann er alltaf reiðubúinn.
Gleðin vonbrigðum vönust
vakir fjarri.
Dokum við, sjáum
hvor kemur fyrr.

Mig svíður
að láta þig sjá það sem særir mig.
Ég ber í brjósti mér barlómsþörf
a.. hugsa í rauðu
þótt gangi í svörtu.

Ég sauma okkur inniskó úr mosa
og skugga fjarstaddrar blíðu
þvæ ég burtu
með minningu annarrar blíðu.

Ég sigli á syfjuðu fljóti
líkaminn er minn bátur
léttar bárur vagga mér.
Himinninn er mynd þín.
Ég hvíli með krosslagða arma.
Ég hvíli í friði.


HALLDÓRA BRIEM

Halldóra fæddist á Hrafnagili í Eyjafirði árið 1913. Hún fluttist til Svíþjóðar árið 1936 og lagði þar stund á nám og störf í húsagerðarlist. Halldóra lést í Stokkhólmi árið 1993.

UPPGÖTVUÐ

Í sjónhending sá ég sjálfa mig á göngu
þegar degi tók að halla

-- undrun
í gleði minni
hreyfði ég annan fótinn
fram fyrir hinn
og fann
að ég var ég
ein og
aðgreind
en ekki aðeins framhald
eða afleiðing
órjúfandi keðju

Heldur var ég
ég
á minni eigin göngu
meðan blánaði að kvöldi
og stjörnur fæddust!


CORNELIS VREESWIJK

Hann fæddist í Hollandi árið 1937, en fluttist með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar á unglingsaldri og bjó þar æ síðan. Hann var aðalega þekktur sem trúbador og féllu ljóð hans því í skugga söngsins, honum til mikillar mæðu. Hann lést árið 1987.

Ljóðið sem hér birtist er úr síðusta ljóðasafni skáldsins, "Till Fatumeh", en það kom út örskömmu fyrir fyrirsjáanlegan dauða þess.

TIL DEYJANDI SÖNGVARA

Dauðann ber hver í srjósti sér
sem fagurt djásn,
demant í brumhnappi.eða
sem djúpan leyndardóm.

Eigandinn hefur, þann dag
er leiðir saman liggja,
fundið þig.

Þá mun einskis krafist
-aðeins þegið!


GABRIELA MELINESCU

Gabriela Melinesco er rúmensk skáldkona, fædd í Búkarest árið 1942, en hefur búið í Svíþjóð í all nokkur ár.

AUGUN SEM GRÉTU

Eftir götunni gekk kona.
Engin þekkti hana né vildi vita
hví augu hennar voru svo raunaleg
líkust visnuðum rósum.

Ég sá hana oft
á ýmsum óþekktum stöðum.
Hún var ósnertanleg en augun grétu
og engin sagði henni neitt
sem gæti fært henni hamingju á ný.

Það er alvanalegt að ganga
fram á grátandi konur á strætum.
Allir telja þær vitskertar
eða þær eigi sér hvergi stað
að dylja sorgir sínar.
Hún ráfar meðal fólks
og í augum hennar má sjá
það sem maður aldrei sýnir öðrum.

Í djúpu augnaráði hennar
sé ég stundum móður mína
og þessi kona verður einmitt móðir mín
sem aldrei grætur heima
heldur gengur um götur
til að blanda tár sín regni
hún verður engin önnur en móðir mín
þegar hún kastar aftur stáltárum sínum
mót Guði.


Li Li

Li Li er Kínverji, fæddur í Shanghai árið 1961. Hann lagði lengi stund á sænskunám við háskólann í Peking, en fluttist til Svíþjóðar fyrir all mörgum árum. Þar er hann nú í útlegð, enda kínverskum stjórnvöldum lítt um skáldskap hans gefið. Ljóð það, sem hér birtist er ort eftir fjöldamorg kommúnista á stúdentum og ungu verkafólki á Torgi hins himneska friðar, 4. júní 1989.

TIL VINAR SEM DÓ 4. JÚNÍ

Ég hefði átt að fá
að lesa
nýju ljóðin þín
um þetta leyti árs
þegar fuglarnir
syngja í grænu laufi,
eða kveikja þér
í sígarettu
einhverja sumarnóttina.
En það er ekki alltaf sumarið
sem vorinu fylgir - stundum óvænt hret
grimmara vetri.

Nótt
grafarþögn - vísarnir
staðnæmast á 12.
Draumar villuráfandi sem fyrr.

Ég kveiki í sígarettu. Gömlu ljóðin þín
kasta bjarna á andlit þitt
þú opnar munninn
villt segja eitthvað.
M-Á-L-L-A-U-S
vélbyssuraddir
og skriðdreka. Augngota
frá blóðvellinum. Hinsta ljóð þitt
til einhvers sem lifir af.

Vísarnir skríða yfir 12
þeir hafa fullkomnað
endurtekningu.
Til er það sem
sem getur endurtekið sjálft sig
s.s. dagrenning
sem enn einu sinni mun rísa
upp úr blóðugum
sjóndeildarhringnum. En ekki þú, ekki háttur þinn
að reykja.

Líkt og þeir kristnu
tendra fjórða ljósið
kveiki ég
í fjórðu sígarettunni,- ég stæli
aðferð þína við að reykja
á miðnætti.




Aftur á forsíðu