Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


Tönkur

eftir

Pjetur Hafstein Lárusson

 

      FÁEIN ORÐ UM TÖNKUR.

      Tönkur eru japönsk ljóð, sem lúta ævafornum bragarhætti. Í hverri tönku er 31 atkvæði, sem raðast niður á 5 ljóðlínur. Í fyrstu og þriðju ljóðlínu eru 5 atkvæði í hvorri línu, en í annarri, fjórðu og fimmtu ljóðlínu, eru atkvæðin 7 í hverri línu. Tönkur eru því í raun hækur, að viðbættum tveimur 7 atkvæða ljóðlínum í lokin. Raunar varð hækuformið að vissu leyti til, með því að menn styttu tönkur um það sem nam þessum tveimur lokalínum. Athugið einnig í þessu sambandi, formálann að hækum, sem einnig er að finna á heimasíðu minni, en þar er lítillega fjallað um tengsl hækuformsins við rengaljóð.

 

1

Situr á safni
vörður skjala og sögu.
Stundirnar renna
sem sandur milli fingra,
falla í gleymskunnar skaut.

2

Stjörnubjarminn dvín
er morgunn siglir að storð
gullslegnum seglum
nóttin í fjarskann hverfur
nýr dagur fyrir stafni.



Náttregnið kveður
taktfast á þakinu óð.
Fuglsnef undir væng
kúrir í hreiðri vinur
söngfuglinn ástar og lífs.



Mús skýst í holu
kötturinn læðist nærri
örlögum frestað
en aðeins um skamma stund
því skapadóm enginn flýr.



Stytta á torgi
er áminning þörf og góð
um dauða frægra
þótt oft skorti skilning þann
í speglasal trúðaheims.

6

Leikvöllur um kvöld
þögull staður án barna
og bíður morguns
líkt og lokuð blómkróna
væntir sólar að fagna.

7

Létt meðan lifi
geng ég glaður fram veginn
eins þó að halli
á stundum undan fæti.
Vænna er bros bölmóði.

8

Að spá í veðrið
er iðja þarfleg og góð
þótt tæpast rætist
spádómar allir um sinn
þá koma þeir síðar fram.

9

Hundur í bandi
teymdur feitur um götur
er engum líkur
nema þá öðrum hundi
sem knýttur er flokksböndum.

10

Nú gránar hárið
óðum á gömlum kolli
og hugur þrengist
en vitið þó vex um leið
á ská og skjön við heiminn.

11

Dómarinn setti
hér rétt eins og vera ber
og felldi þann dóm
að dæmt skyldi í nafni
laga, jafnt í dúr og moll.

12

Hatti ég lyfti
af höfði mér undurskjótt
um leið og ég sé
þingmann spakan af viti
eða söngþorsk á flugi.

13

Menntaður hani
sperrir sig hátt á priki:
„Sjá minn rauða kamb"
hann galar og gleymir því
sem innan höfuðsins er.

14

Af veðri má tjá
margar sögur og snjallar.
Stormur er vinsæll
fallinn til afreksverka
og hentar vel - á prenti.

15

Að vökva kollinn
er þörf nokkuð mikilvæg.
Þorsti er slæmur
eins og drykkjumenn vita
og ástand sem varast ber.

16

Skóli er stofnun
menntun og fróðleik til vegs
þótt segja megi
að gjarnan sé staðan sú
að meira vits væri þörf.

17

Ölfusá streymir 
lygn milli lágra bakka,
stöku flúðir þó.
Mýktarsprund frónskra fljóta
breiðir faðm sinn mót ægi.

18

Nóttin, hún kemur
dimm og djúp yfir landið.
Skarður er máni
ský yfir fjöllum sigla
sléttan er þögul og kyrr.

19

Maðkur í mysu
er lífrænt fóður til áts
og lystugur vel
sé bragðið undan skilið
-hæfir í ormagryfju.

20

Að lifa er nautn
sem vert er að huga að
meðan færi gefst.
Dauðinn er snemma á ferð
og minnugur vel á nöfn.

21

Kennitala er
úr ýmsum tölum samsett
fyrst ein, svo önnur.
En hver er þessi maður
- einn, sjö, núll, fjórir, átján…?

22

Að regnið sé blautt
er kenning gömul og ný.
Heyrt hef ég hennar 
getið á æðri stöðum
þó að regn verði botnfall.

23

Dauð fluga er dauð
og ekkert fram yfir það
þó suðað hafi
áður við ljósakúpul
og síst er hennar saknað.

24

Sé hundur hundur
víst má hann hundur heita.
Sé maður maður
er hæpið hann beri nafn
-maður er hundi líkur.

25

Meðan sigla ský
um himinsali víða
lít ég í spegil
og furða mig nokkuð á
stórkostlegri smæð minni.

26

Apríl er grimmur
segir Eliot gamli
þótt grimmd tímans sé 
jafnan og má rétt vera,
talin nokkuð svo afstæð.

27

Leitað að línum
að feta óvissa slóð
dulinna stræta
milli vonar og ótta
heimkoma harla óviss.

28

Faðir vor kallar
kútinn að þyrstum vörum
og liggur líf við
því sannlega er þorsti
tregbættur skaði og þurr.

29

Austur við Volgu
Babushka bruggaði seið.
Vestur í löndum
fannst ýmsum hann göróttur
og drukku hann helst á laun.

30

Lífið er túkall
reistur á rönd og valtur
sem drukkinn maður
með hugann á meiri dýpt
heldur en glóran leyfir.

31

Djúpmiðin könnuð,
efsta borðið vandlegast
sem vonlegt þykir
því tæpt er í dýpinu
að treysta leiðinni upp.

32

Undir þeim vængjum
svartra daga er flugu
inn í hjarta mitt,
tók dimm sorgin sér bólstað
að dvelja þar langa hríð.

33

Líf milli húsa
mannlíf að fjölmargra sögn
og má satt vera.
En sjá hve stundum er skammt
frá hundalífi til manns.

34

Í hringnum lífið
er draumi líkt, von og þrá
og þess oft beðið
sem fjarlægast vöku er.
Slíkt hæfir draumsins veröld.

35

Í djúpi daga
má kafa til botns í leit
að línum beinum.
En lífið er bugðótt leið
og leitin því tálsýn ein.

36

Daggardans stiginn
og darraðar fram á nótt.
Tryllt gerast sporin
í dansinum þeim grimma,
fátt er feigum til varnar.

37

Bláknöttur dansar
um víðan himingeiminn.
Hljómur úr fjarska
stýrir hér dansins takti
-hljómur úr dimmum fjarska.

38

Hvern dag skal kveðja
þótt gleði sé í ranni,
því nóttin kemur
með allar sínar sorgir
og hrundu skýjaborgir.

39

Sigli um innhaf
öldur lægri en forðum.
Brátt er landi náð,
minningar strangar munu
þó enn sækja á hugann.

40

Tíu eru tungl
töltandi víða um loft
hvísla þau ljóð ljúf
þeim í eyru er hlusta
og njóta hljóms sem þagnar.

41

Áleiðis nótt gekk
dimmblá mót björtum degi.
Morgunn frá myrkri
stefndi að faðmi sólar
ómaði söngur lífsins.

42

Legst mér að fótum
regnbarin heiðin og slétt.
Rann hér til forna
hraunstraumur dauða og elds,
allt er nú mosa hulið.

43

Hulið er þoku
fjallið frá rót til tinda,
land hjúpað dulúð.
Hafið í tíginni ró
ber þrá á kvikum öldum.

44

Máni veður ský
yfir nátthljóðu þorpi
á kaldri sléttu.
Haustvindar stilltir minnast
við laufvana trjárunna.

45

Gengur með veggjum
líkt og skuggi af manni
þögull sem gröfin.
Náköldum augum starir
í myrkrið og glottir kalt.

46

Að fallvalt sé líf
og dauðinn sjaldan fjarri
má líklegt telja.
En ber ei að teyga vín
meðan í glasi glitrar?

47

Að gefast á vald
því liðna sem þú áður
þráðir og dáðir
en er um eilífð horfið
-það eitt er sálarmorðið.

48

Lífið er vínber
sem kreistist ár frá ári
uns ei er eftir
annað en rúsína smá
og vínið sem minning ein.

49

Situr á svölum
sveittur við ljóðanna gerð
meðan stund kveður
og heilsar ný að bragði
og þannig áfram hringinn.

50

Að kasta perlum
í drafið fyrir svínin
er þarfleg iðja,
því ekki má nú svelta
sína eigin spegilmynd.

51

Að lifa er list
sem mun víst felast í því
að gera sem fæst
svo ekkert út af beri
og deyja svo með sóma.

52

Dvöl er í heimi
lífið frá fyrstu stundu,
ókunnugt fótum.
Landið sem iljar nema
draumur ei vöku fjarri.

53

Þá spurn vekur regn
hvers virði sé vætan sú
sem áfengislaus
fellur af himnum ofan
og sekkur í gljúpa jörð.

54

Þögnin er perla
og ekki öðrum gefin
en þeim sem njóta
friðar og dýpstu kyrrðar
þótt um þá næði stormar.

55

Rótt fellur myrkrið
yfir hvíta sléttuna
Gröf handan heiðar
sækir á huga minn fast
móðurminning - friðarleit.

56

Klukkan oss sýnir
tímans rölt áfram veginn
á gatslitnum skóm
og vissara að sóla
ekki skæðin þau arna.

57

Víst mun trú flytja
fjöllin á milli staða
sem fis í hendi
meðan trúleysið skorðar
jafnt fjöll sem frjálsa hugsun.

58

Náttmyrkrið svarta
liggur sem ógnar hrammur
yfir sléttunni
uns roðar í austrinu
röðull og birtu vekur.

59

Húmar að kvöldi
dökk voð læðist yfir land.
Vær gerist nú stund
og gengur á vit þagnar
fjær kveður þó árstraumur.

60

Nóttin sú helga,
dýrð sína má hún þakka
barni í jötu
og undarlegu ljósi
sem tíminn fær ekki slökkt.

61

Þú veig er glóðir
og kættir dapurt hjarta,
hvors var leikurinn,
-minn að þér í gáska lífs
þinn að mér,- dauðamanni?

62

Að lúta vilja
þess sem á torgum hrópar
og beygja hné sín
í fölskvalausri auðmýkt
er snauðum leið til ríkra.

63

Legg að fótum mér
fjarlæg lönd-framandi slóð.
Held svo heim á leið
og kemst á snoðir um það
að ég á hvergi heima.

64

Gegnum kýraugað
blasir hann við, mávurinn
á óljósri ferð
öðrum en honum sjálfum
yfir endalaust hafið.

65

Fugl syngur á grein
hrekur mig vordag bjartan
úr fleti mínu.
Slíkur söngur úr goggi
vekur hug minn til dáða.

66

Handan fljóts rís fjall
fuglum einum til farar
og bak við fjallið
má ef til vill líta bæ.
Slík mynd er hugarfóstur.

67

Fagna heilshugar
stormbörðum heiðarvegi
og regnvotri auðn
sem faðmar hann fjálglega.
Slíkur er sumra háttur.

68

Söngur að nóttu
regnið á þökum dansar.
Myrkrið eitt þögult
og þessi föli máni
siglandi milli skýja.

69

Stormur ber húsið
þungum höggum og blautum,
náttregnið bylur.
Himnarnir fella tárin
þyngri en tárum taki.

70

Fjall rís úr skógi
sem úr grænu laufskrúði
mót kyrrum himni.
Tign þess er þögul í ró
hverri engum fær dulist.

71

Nemum hér staðar
bróðir og blessum þá stund
sem gefst til næðis.
Barmafullur bikarinn
skal brátt tæmast og fyllast.

72

Snjór lýsir fjallið
máni minnist við hlíðar
yfir sléttunni.
Svo voldug ríkir þögnin
að vindurinn gnauðar ei.

73

Alda til himins
lyftir örmum á brimströnd,
lætur högg ríða
svo undan láta garðar
aflstyrkum höndum hlaðnir.

74

Hug ber til heiða
norður til djúpra dala
þar álfar kveða
kvæðin sín löng í steinum
-kveða þar mönnum huldir.

75

Syngur fugl á grein.
Hefur jafnan hver sitt nef
til slíkrar iðju
og óvarlegt að ætla
annars hljóð úr eigin búk.

76

Letin er dygðin
göfugust allra dygða.
Iðni er löstur
þreytunnar valdur og böls,
iðni er lúsarháttur.

77

Um loftin líður
glottandi mánaskarið
og skímu varpar
gegnum gluggatjöldin mín
á blað er ljóð senn lífgar.

78

Víst hefur þögnin
ótal augu og fögur
sú myndræna frú,
til yndis göngumóðum,
mönnum sem hvíldar leita.

79

Tehúsið stendur
kyrrlátt við lækjarbakka
og væntir gesta
meðan kvöldsólin hnígur
þögul handan fjallanna.

80

Blágeimur víður
heilsar mér sérhvern morgun.
Kónguló spinnur
sér vef á veggjum hússins
-ljóð mitt er þögult.

81

Endalaust streymir
fljótið að víðum ósi,
minnist við hafið
líkt og í ljúfum kossi
-stundum í trylltum dansi.

82

Við Jökulsá í Lóni

Áin að ósi
streymir um gráa sanda,
hjalandi bárur
dansa í sólargeislum,
roða slær á haustlaufið.

83

Hlusta á vindinn,
vetrarins herra gnauða
á veggjum hússins.
Hugur elskunnar minnar
reikar um spjöld sögunnar.

 

VETRARTÖNKUR

1

Norðurljós blika
sem ljóð á dimmum himni.
Máni veður ský.
Stjörnur sem silki bylgjast,
það algeims augnanna glit.

2

Ríður hann í garð
gamli Vetur konungur.
Enn fer hann sér hægt,
skimar vökulum augum:
Síst skal hér nokkru vægja.

3

Tré á berangri
eitt, utan skjóls af öðru
en miskunn Drottins,
standi hún þá til boða
í þessum harða heimi.

4

Nú berja stormar
hús mitt, úr norðri komnir
og köldum krumlum
klóra jafnt fjöll sem sléttu.
Slíkur er þeirra háttur.

5

Lágt fer nú sólin
um vetrarins himinhvolf,
skammur hver dagur
og hríðarstormar tíðir.
Senn er þó vors að vænta.

6

Er sól á lofti
hnígur til vesturáttar
og bjarminn hinsti
slokknar á myrkum himni
rís stjarna björt til lífsins.

7

Nú dansa stjörnur
kátar á myrkum himni
og gliti sáldra
augum þeirra til yndis
sem birtu og gleði þrá.

8

Kræklóttir fingur
vísa á gráan himin,
laufvana greinar
trjáa í vetrarböndum.
Snær hylur frostkalda jörð.

9

Nú kveðast þau á
kuldinn og myrkrið svarta,
náhvítur kuldinn.
Brátt mun þó sunna heilsa
björtum degi og fögrum.

10

Hvítkaldur vetur
fangar hug minn og hjarta.
Ég er leikfang hans
í grimmum hríðarklónum
og mildri auðn fannbreiðu.

11

Napur er kuldi
þessa harða vetrardags.
Snjór hylur fjallið
og vötn eru ísi lögð
eins og hjarta kaldlyndra.

12

Gnauðandi vindur
berst ofan af fjöllunum
hundi líkastur,
ýlfrandi milli húsa
þessa nöpru vetrarnótt.

13

Gegnum trjágreinar
brýtur hún sér leið, sólin
og varpar geislum
yfir vetrarhvíta þögn
sléttunnar, sem bíður vors.

14

Enn ríkir Vetur
kóngur storma og ísa
yfir hvítri storð.
En litprúð bíða vorblóm
fuglasöngs úr suðurátt.

15

Víðáttan þögul
leggst undir vetrarfeldinn
hvítan og kaldan.
Nátthjúpur dimmur kveður
drunga í sérhvert hjarta.

16

Hlusta á vindinn,
vetrarins herra gnauða
í upsum hússins.
Hugur elskunnar minnar
reikar um spjöld sögunnar.



VORTÖNKUR

1

Blóm brosa við sól,
ský ryðjast í vesturátt,
regnið hefur kvatt.
Þó tæpast til lengdar sé,
enda sjaldan langt undan.

2

Hið fegursta ljóð
er mildum vorblæ líkast
er bærist laufið
og blóm mót fuglum brosa
undir sólkrýndum himni.

3

Frjáls sért þú fugl minn
ljúfastur allra vina.
Vængir þig beri
víða um himinsali,
fagurt þinn söngur ómi.

4

Regnið ber glugga
grár er dagur og dimmur
sólarljós fjarri.
Berst þó að eyrum söngur
lóu um langveg komna.

5

Sjá, þarna situr
fagur þröstur á trjágrein
og sperrir stélið.
Heyra má sönginn snjalla
og blóm úr moldu spretta.

6

Ofan frá fjalli
seytlar vorlækur blíður,
leikur í bárum.
Senn munu fuglar kvaka
heimkomnir um langvegu.

7

Vor grær í hjörtum,
grösin í túni anga.
Í Edens ranni
sprettur mannlífsins flóra
ilmandi og litskrúðug.

8

Þar leiðin mín lá
hvar blasti við auðn og tóm.
Þó vaknaði von
er heyrði ég fuglasöng
berast með sunnanblænum.

9

Blær berst að sunnan
blíðastur minna vina.
Kveður við söngur
fugla um langveg komna.
Vermir sól blómskrúð fagurt.

10

Vorregnið fellur
og sveigir greinar trjánna.
Í ótal dropum
speglar sig morgunhiminn
síferskur eins og döggin.

11

Hvaðan ber þig að
vinur minn þöndum vængjum
með vor í hjarta
og sumarblik í augum,
þröstur um vegleið langa?

 

SUMARTÖNKUR

1

Ský siglir vestur
yfir græna sléttuna
mildan sumardag,
varpar á túnið skugga
skamma stund uns það hverfur.

2

Veröldin syngur
og dansar í brjósti mér.
Fagur er dagur
söngfuglar vekja skóga
vötn spegla sól í bláma.

3

Skýhnoðri leikur
glaður á heiðum himni.
Stígur á tindum
morgundans rísandi dags
loftsalapjakkurinn sá.

4

Sprettur blóm úr mold
litfagurt og ilmandi.
Söng ber að eyrum,
fugla langt um haf komna.
Vermir sól sumargróður.

5

Sumarið vaknar
í brjósti mér mildan dag,
blæ ber að sunnan.
Dansa í glasi geislar
ljúft glitrar vín til gleði.

6

Regnið sér leikur
glaðvært um víðar grundir
sumardag fagran.
Sól handan skýja blundar.
Hvers má vænta slíka stund?

7

Sumarnótt mildum
litum fer um norðurslóð.
Bærist í golu
birkitré grænt og fagurt,
blundar þar þröstur á grein.


8

Vindur úr suðri
blæs yfir þögla sléttu,
húmar að kveldi.
Óðum ber skugga yfir
þá hina bládjúpu kyrrð.

9

Síðsumarsólin
varpar dvínandi geislum.
Fölnar senn rósin
sem áður gladdi augu
og vakti ást í hjörtum.

10

Trjálundi undir
sit ég, grænum og fögrum
meðan regn fellur
og þröstur syngur á grein
sumarsöng yndis og lífs.

11

Dimmgrænar hlíðar
fanga af himnum regnið.
Lengra í fjarska
heldur hafið sína leið
til móts við ódauðleikann.

12

Nær dregur hausti
svalir gerast nú vindar.
Hópast í flokka
farfuglar, vorsins boðar
og haustsins á sama hátt.

13

Sóley í varpa
og ef til vill lamb á beit
í grænni fjallshlíð,
meðan lífið þýtur hjá
á skeiðvelli strætanna.

 

HAUSTTÖNKUR

1

Ský fara norðan,
svalir haustvindar næða,
blóm drúpa krónu,
lauf fýkur eftir götum.
Ég hita mér vatn í te.

2

Sól skín á himni
næða þó naprir vindar.
Lóu ber suður
haustið fetar sína leið
að mannanna hugskotum.

3

Nú næða vindar
naprir um haf og hauður,
sölnað fellur lauf
og vetrarmyrkrið nálgast
násvörtum vængjum þöndum.

4

Rökkrið fellur á
laufið roðanum slegið
og haustgulri þögn.
Hverfa nú sumarkvöldin
birtan dvín-söngur hljóðnar.

5

Laufkrónur fölna
farfuglar halda suður.
Vænta má vetrar
skjótt meðan myrkrið drýpur
yfir máttvana sálir.

6

Hestar í haga
narta í haustfölt grasið.
Stelpa að austan
lagfærir tíkarspena.
Vangarjóð spegilmyndin.

7

Hún læðist, þögnin
hæglát að huga mínum
í húmsins skjóli
andar haustið svölum blæ.
Hér ríkir kyrrð og friður.


8

Safnast á himni
ský yfir sjávaröldum,
þykknar í lofti.
Haustdynur kveður sér hljóðs,
regnvot er kveðjan og svöl.

9

Í nótt féll tært regn
á litfagurt haustlaufið.
Lúrði fugl á grein.
Brátt mun hann vængjum þöndum
berast að sólríkri strönd.

10

Grár gerist himinn
haustvindar naprir næða
um þögula borg.
Lífvana stræti hennar
lúta dauðanum auðmjúk.

11

Haustvindar næða
naprir um föla sléttu.
Farfuglar hópast,
stefna til suðuráttar,
halda til hlýrri landa.

12

Sölnað lauf á grein
fraus þessa hrímköldu nótt
er máni óð ský
og norðurljós sindruðu
á dimmu himinhvolfi.

13

Skrjáfar í laufi
gul, brún og rauð gerist tíð
á greinum trjánna.
Sumarið horfið á braut,
senn næða norðanvindar.

14

Gulur og rauður
litur á laufskrúð fellur
haustdaga milda
fljúga fuglar til suðurs,
senn næða norðanvindar.

15

Haust á laufskrúð slær
roða fögrum og mildum.
Fljúga til suðurs
syngjandi vinir ljúfir,
vetrarlangt bíðum við vors.

16

Haustmáni fölri
skímu á myrkrið varpar,
ský ber himinveg.
Merlar á tæru vatni
nöturleg kveðja og köld.




Aftur á forsíðu