Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


Pjetur Hafstein Lárusson

SVARTHOLSBRAGUR

 

        Rúmlega hálfri öld eftir að Reykjavík hlaut kaupstaðarréttindi, þ.e.a.s. árið 1839 voru íbúar hennar aðeins tæplega 900 að tölu, en landsmenn allir um 57.000. Þó var þessi smábær þegar orðinn höfuð-staður landsins, þótt hið æðsta vald íslenskra málefna lægi auðvitað enn í Kaupmannahöfn. En í Reykjavík sátu háyfirvöldin, stiftamtmaður og biskup. Reyndar bjó sá síðarnefndi rétt utan bæjarins, þ.e.a.s. á Laugar-nesi. En það er önnur saga.
        Eins og að líkum lætur, áttu ýmsir erindi til Reykjavíkur þegar vorvindar tóku að milda ásjónu landsins og strjúka af því klakaböndin. Sumir komu í verslunarerindum og embættismenn þurftu að gefa háyfir-völdunum skýrslu varðandi umsýslu sína. Líkast til hefur það verið í slíkum erindagjörðum, sem séra Guðmundur Torfason prestur í Kaldaðar-nessókn austur í Flóa, en búandi í Kálfhaga, brá undir sig betri fætinum og reið sem leið lá vestur yfir Hellisheiði og til Reykjavíkur.
        Þegar saga sú gerðist, sem hér skal rakin, var þessi ágæti klerkur rétt liðlega fertugur að aldri, fæddur að Hruna árið 1798. Bróðursonur hans, sá merki sagnaþulur Finnur Jónsson á Kjörseyri fjallar nokkuð um þennan frænda sinn í bók sinni, Þjóðhættir og ævisögur frá 19. öld, en það ágæta rit kom út á Akureyri árið 1945. Er við þá frásögn stuðst varðandi þann atburð, er varð kveikja þessara skrifa.
        Séra Guðmudnur Torfason var vinsæll meðal sóknarbarna sinna og annarra, sem honum kynntust. Hann var maður glaðsinna og alþýðlegur í framkomu. Hann var og vel að manni og glíminn. Þó var einn ljóður á ráði klerks, en hann var sá, að honum þótti sopinn harla góður. Sá veikleiki virðist ekki hafa verið fátíður meðal embættismanna gamla íslenska sveitasamfélagsins, hvað sem því hefur valdið. Sjálfsagt hefur þar margt komið til. Ef til vill hefur þetta bitnað hvað harðast á þeim, sem haldnir voru einhverri sköpunarþrá á andlega sviðinu. Víst er maður jafnan manns gaman, en tæpast sakar, að förunautar á lífsins rölti geti deilt með sér sameiginlegum hugðarefnum. Og séra Guðmundur Torfa-son var ekki alveg laus við skáldagáfuna, eins og sjá má á brag þeim, sem þessari frásögn fylgir.
        Nú er þar til að taka í þessari afdrifaríku Víkurferð séra Guð-mundar, að hann er á rölti um Aðalstræti. Fyrir utan hús Einars hattara Hákonarsonar, sem að heldri manna hætti kallaði sig Hákonsen, upp á danskan móð, enda með borgarabréf upp á vasann, hittir hann mann og taka þeir tal saman. Í hinni merku Reykjavíkursögu Klemensar Jónssonar segir frá því, að Einar hattari hafi verið drykkfeldur og legið í sífelldum deilum við fólk. „Af öllum borgurum bæjarins frá 1820 til 1845", segir þar „er hans oftast getið í þingbókum og sáttabókum bæjarins". Því er ekki ástæða til að ætla, að Einar hattari hafi alla jafna fundið hjá sér sérstaka hvöt til að andskotast út í brennivín, a.m.k. ekki hafi það gutlað í hans eigin glasi.
        Það þarf svo sem ekkert að draga það í efa, að séra Guðmundur hafi verið hreifur af víni þar sem hann stóð þarna upp við hús hattarans og ræddi við sinn kumpán. Eins og kunnugt er, er Íslendingum ekki tamt, að tala með miklu handapati svo sem alsiða er suður í löndum. Þetta vill þó breytast, þegar Bakkus tekur völdin. Og svo mikið er víst, að séra Guðmundi Torfasyni varð það á, að slangra hönd utan í rúðu í glugga á húsi hattmakarans. Ekki var það þó meira högg en svo, að rúðan var jöfn eftir sem áður. En slík vanvirða þótti Einari hattara högg þetta við sína persónu, að hann skundaði sem skjótast á fund Stefáns Gunnlaugssonar landfógeta, sem raunar gengdi einnig bæjarfógetaembættinu á þessum tíma, og lagði fram kæru.
        Ekki skal svo skilist við Einar hattara Hákonarson eða sen, að þess sé ekki getið, að árið 1846 gaf Sigurður Breiðfjörð skáld upp andann í herbergiskytru í húsi hans við Aðalstræti 8. Svo kaldranalega vill til, að í því sama húsi hafði áður búið um hríð, sá maður, sem með ritdómi hafði sýnt Sigurði Breiðfjörð „póetíst banatilræði". Er hér vitanlega átt við listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Ósagt skal látið, hvort Breiðfjörð sálaðist úr ófeiti, eins og þjóðsagan hermir eða mislingar urðu honum að aldurtila, svo sem fram kemur í ævisögu hans eftir Gísla Konráðsson.
        En hvað um það. Handhafi hins tvöfalda fógetavalds brá skjótt við kæru hattarans og hraðaði sér á vettvang „glæpsins". Þegar hann, vænt-anlega í fylgd Einars hattara, kom þangað, var klerkur þar enn í hróka-samræðum við félaga sinn. Blandaði fógeti sér í það spjall, að því er virtist með vinalegum hætti. Kom þar talinu, að hann bauð séra Guð-mundi að koma heim með sér og var það boð þakksamlega þegið. En þegar heim til fógeta kom, kárnaði gamanið. Fór hann með prestinn upp á loft og inn í herbergi eitt lítið, smeygði sér svo út um dyrnar og læsti guðsmanninn inni. Rann það brátt upp fyrir kirkjunnar þjóni, að hann var ekki staddur í kurteislegu heimboði, heldur hafði honum verið stungið í svartholið.
        Skal nú vitnað beint í frásögn Finns á Kjörseyri, en þar segir: „Þegar séra Guðmundur fór að litast um í herberginu, fór hann að gruna margt, og eftir nánari athugun sá hann, að fógeti hafði farið með hann í fangahúsið („svartholið"). Varð hann þá hamslaus af reiði, losaði fjöl úr þilinu og braut allt og bramlaði, og var nærri búinn að brjóta sig út, þegar opnað var, sem reyndar leið ekki á löngu. Því að sagt er, að Steingrímur biskup, hafi brugðið svo skjótt við, er hann heyrði hvað um var að vera, að hann hefði gleymt að taka höfuðfatið, og heimtaði hann harðlega, að landfógeti opnaði samstundis, því hann ætti ekkert með sína þjóna".
        Nú er það svo, að við siðaskiptin glataði kirkjan dómsvaldi yfir klerkum, nema hvað varðaði innri mál hennar. Sá vitri maður Stein-grímur biskup hefur því gert sér lítið fyrir og slengt sér aftur fyrir miðja sextándu öld í röksemdafærslu sinni. Líklegt verður þó að teljast, að hinnar raunverulegu skýringar á afgerandi viðbrögðum biskups við hand-töku séra Guðmundar sé að leita hjá móður sagnfræðinnar, þ.e.a.s. ætt-fræðinni. Þannig vill nefnilega til, að kona Steingríms biskups, Valgerður Jónsdóttir var ekkja Hannesar Skálholtsbiskups Jónssonar, en sá mæti kennimaður var afabróðir séra Guðmundar Torfasonar. Það má því með vissum hætti segja, að Steingrími biskupi hafi runnið blóðið til skyld-unnar. Þess ber og að geta, að á unglingsárum sínum hafði séra Guð-mundur verið í námi hjá Steingrími biskupi, sem þá var prestur í Odda á Rangárvöllum.
        Finnur á Kjörseyri lætur þess getið, að sannorðir menn hafi sagt sér frá þessum atburðum og hafi þeir rætt þá við „mann þann, er var með séra Guðmundi og vissi um þetta allt og var að því sjónarvottur. Það var mjög merkur maður, Hannes að nafni, er lengi bjó á Kaldaðarnesi" Er hér átt við Hannes Einarsson hreppstjóra.
        Því verður tæpast neitað, að Stefán Gunnlaugsson land-og bæjar-fógeti brást nokkuð harkalega við klögumálum Einars hattara, ekki síst þegar haft er í huga, hvaða orð fór af þeim litríka manni. Vera má, að þar hafi að einhverju leyti valdið sú staðreynd, að hann leit nokkuð stórt á embætti sitt og hefur því ef til vill látið röggsemina bera skynsemina ofurliði í þessu tilfelli. Því má heldur ekki gleyma, að drykkjskapur var mjög mikill í Reykjavík á þessum tímum og rystingar tíðar. Gerði Stefán sitt ýtrasta til að spyrna þar við fæti og auka menningarbrag bæjarins.
        Stefáni Gunnlaugssyni rann mjög til rifja það hálfdanska hrogna-mál, sem talað var í Reykjavík. Þann 7. febrúar 1848 lét hann festa upp auglýsingu, hrópa hana á götum bæjarins og tilkynna með trumbuslætti. Sú auglýsing hljóðaði svo: „Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Mætti þessi auglýsing enn vera ýmsum nokkur veg-vísir.
        Eins og áður hefur komið fram í grein þessari, var séra Guðmundur Torfason ekki alveg laus við daður við skáldagyðjunna. Svo mjög var honum misboðið varðandi þessa aðför að æru sinni, að hann orti að þessu tilefni átján erinda kvæði, sem frægt varð um Suðurland og jafnvel víðar undir heitinu „Svartholsbragur" og fer hann hér á eftir:

 

Svartholsbragur

Nýtt hef ég tekið tignarklæði,
tala þú ekki hátt við mig;
því ég hef vald og vilja bæði
í vesöld mestu að hreppa þig.
Þetta mér hræðslu orðið ól,
og því fylgjandi kveðju gól:

Þú, sem mórauðan dindil dregur,
dróst forðum gráan eftir þér.
Trón þinn var helst of tignarlegur,
tignin þó lítið mætti sér.
Þinn gat ei linast hroka haus
í hattinum fyrr en eitrið gaus.

Þó ódrengmennsku í þröngum kvíum
þinni sál banni að komast hátt,
mundir þú Babels byggja í skýjum
og betur til, ef hefðir mátt.
Vinsældarskortur orsök er,
ef einhver réttir stein að þér.

Þó átti Nimrod nokkuð hægra,
náunginn veitti honum lið.
Þú mátt auminginn lúta lægra
og láta hugann staldra við.
Þig vantar bæði lán og lag,
líka ráðdeild að vinna í hag.

Þú fékkst ei orðið, fór það illa,
falsið hafðir þú til þess nóg,
eihver kramara undirtylla,
aukið gæti sér fremur róg.
Unnið gætir þín eiturverk,
ei síður prang og níðingsverk.

Lukku fyrst enginn vill þér óska,
er ekki vert ég reyni það?
Þróist þér allskyns girndargróska,
sem getur fundið nokkurn stað.
Þá er mér von að aukist af
eitthvað, sem fyrr þér skemmtun gaf.

Þegar upp alið þessar dísir
þú hefur eftir mætti vel,
ég veit þið Níðhögg finna fýsir,
fáðu leyfi hjá kerling Hel,
fleyið er slíka bresti ber
bollinn er til, sem hæfir þér.

Sittu Naglfara niðri í austri,
Nástrandar til hann fleytir þér.
Þú átt ei von á þægra flaustri,
þar lentu sem að fyrir er
salur af beinum byggðum fyrr,
beint hvar í norður horfa dyr.

Saurkvísla bældur stýrið stundi;
storminum mót hann reyndi sig.
Rauðólfar setjast róður undir
réttkjörnir til að flytja sig.
Þeir hafa fyrri þjónkun veitt
þér og haft ekki á móti neitt.

Ef að mannfjandi ertu vinum,
sem ætíð kalla: Herra minn!
Hvað muntu vera vondur hinum,
sem vilja skerða heiður þinn!
Ó, að ég hefði tungutak
og tennur sem þú að naga á bak..

Oft hefur lágur löngum gefið
leiða byltu af slæmum hnykk;
það leikur varla á því efi,
að ósæmdin fylgir mörgum gill.
Slysin er jafnan þrælaþjóð,—
það er máltak, sem lengi stóð.

Eg þó hert geti á þér betur
einni náragjörð, það ei vil,
né þitt samvisku þvinga tetur,
því ég býst við að hún sé til.
En ef þig mæðir mæðu stríð,
mundu hvar hittumst eina tíð.

Í muggu og reyk um ókennt stræti
augað þá birtu tapað fær,
enginn veit hvað manni mætir,
mér varð að þessu líka í gær,
um götu þá ég greiða var
að ganga mér til skemmtunar.

Eg hitti mann, ef mann skal kalla,
mórauðri klæddist hempu sá,
þungur í spori var hann valla,
vel opinn þandi hvarma skjá,
baðaði höndum beint í loft,
blaðraði tungan út í hvoft.

Tveir eftir honum gleiðir gengu
gosar í þungum jötunmóð,
skörungar þeim við hendur héngu
hentugir til að skara í glóð,—
fótum stígandi þungt og þétt
að því líku skapi stillt og nett.

Hrukkóttur, einsýnn, herðalotinn
hrókur á eftir fylgdi þar;
hærður lítt, en þó hæruskotinn,
í hendi saurkvísl mikla bar.
Mér þótti varla vera tryggt
að væri ekki af honum fjósalykt.

Þeir hverir væri þá ég frétti
þann, sem ég hugði foringjann,
Hann yggldi sig og brýrnar bretti,
bragðljótur sagði: Ég er hann,
sem heiðurskransinn á höfði ber.
—Eg hugði að biðja fyrir mér.—

Göfugi herra, háleitasti!
ég hóf upp með því augun mín,
en hann á sama auga kasti
ætlaði ég meinti það til sín,
og segir: Þú mátt sýna mér
sæmri lotning en komið er.

    Ekki mun þetta svartholsævintýri séra Guðmundar Torfasonar hafa dregið úr vinsældum hans meðal sóknarbarnanna og skal ósagt látið, hvort það hafi að öðru leyti dregið einhvern dilk á eftir sér fyrir guðs-manninn. En þjóðsagan spinnur jafnan sína glitþræði. Svo vill til, að eftir að séra Guðmudnur orti Svartholsbraginn var eins og gæfan snéri baki við Stefáni landfógeta Gunnlaugssyni. Auðvitað hefur lundarfar hans þar ráðið mestu um. En almannarómur leit fram hjá því og taldi skýringarinnar að leita í bragnum. Þar með var sá mæti klerkur séra Guðmundur Torfason kominn í hóp ákvæðaskálda eins og Sigurður Breiðfjörð. Meira að segja mun síðari kona Stafáns, Jórunn Guðmundsdóttir, en þau gengu í hjónaband hálfum áratug eftir margnefndan atburð, hafa trúað bróður sínum fyrir því, að hún tæki sérstakt tillit til ættmenna séra Guðmundar Torfasonar, enda væri hann ákvæðaskáld. Þess má að lokum geta, að þau hjónin, Stefán Gunnlaugsson og Jórunn slitu samvistum. Fluttist Gunnlaugur eftir það til Kaupmannahafnar, og Jórunn raunar nokkrum árum síðar án þess að þeirra samband yrði upp tekið. En það er önnur saga.

 

Aftur á forsíðu