Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


NÓTTIN OG ALVERAN

smásaga eftir

Pjetur Hafstein Lárusson

 

        Myrkrið grúfði sig yfir borgina, þykkt og svart, og að því er virtist óafmáanlegt. Að vísu teygðu glampar ljósastauranna sig í átt til himins, en svo stutt, — svo óendanlega stutt. Og þaðan sem drengurinn stóð úti í glugga, sást ekki einu sinni til ljósastauranna, því hann átti heima í bakhúsi. Hvergi glytti í ljós í húsinu fyrir framan bakhúsið. Myrkrið eitt réð ríkjum og virtist þekja alla veröldina líkt og þykk voð.
        Og þó, — út í allt þetta myrkur varpaði máninn skímu sinni. Hún var að sönnu dauf og harla fjarlæg. En hún var þarna samt. Auðvitað var þessi mánaskíma þögul. Þó fannst drengnum, eins og með henni væri máninn að bera fram mótmæli gegn öllu þessu myrkri. Þögul mótmæli! Og þó voru þessi mótmæli ef til vill ekki svo þögul, sem þau virtust vera. Ef til vill var mánaskíman söngur, enda þótt drengurinn heyrði hann ekki. Eða var hann margbrotið tónverk ótal strengja, lúðra og alls annarrs, sem þulið gat mönnum heilu hljómkviðurnar til eyrna? Við slíkri spurningu kunni drengurinn engin svör. En honum flaug þetta í hug, vegna þess, að fyrir augum hans dönsuðu þær á svörtu himinhvolfinu, — stjörnurnar, svo smáar, en ótal margar. Já, þær dönsuðu og glitruðu af svo miklum gáska, að einhver hlaut að bera þeim dýrðaróma. Og hver annar en máninn gæti það verið, á þessum biksvarta himni, þar sem ekkert var að sjá, annað en hann og stjörnurnar?
        Enda þótt drengnum væri það ljóst, að hver stjarna væri sérstök eining út af fyrir sig, og bæri jafnvel heiti því til staðfestingar, rétt eins og hann sjálfur, þá leit hann á þær allar sem órofa heild. Var annarrs himininn sjálfur, sem umlukti jörðina og stjörnurnar, tungl og sól himinhvolfsins, já, var hann ekki hluti þessarar heildar? Og þessi heild, — var hún allt? Nei, hugsanlega var þessi heild ekki allt, kannske voru henni takmörk sett. Og þar með væri hún ekki óendanleg. Það sem er óendanlegt, er um leið takmarkalaus.
        Kennari drengsins hafði sagt börnunum frá sólkerfunum. "Jörðin okkar", hafði hann sagt, "er í einu af þessum sólkerfum. En þau eru fleiri". En honum hafði láðst að geta þess, hvort næsta sólkerfi væri handan þess sólkerfis, sem jörðin tilheyði, eða ef til vill umhverfis það. Eða var það kannske fyrir ofan okkar sólkerfi, eða fyrir neðan það? Það var aldrei að vita.
        Skorturinn á vitneskjunni um þetta, olli drengnum ómældum heilabrotum. Hann varð að vita, hvort til væri eitthvað, sem hægt væri að kalla "allt", eða hvort þetta orð væri aðeins blekking, sem spannaði það eitt, sem mannskepnan sæi, vissi eða skynjaði. Ef svo reyndist vera, fannst honum, sem orðið "allt", væri eins og hvert annað merkingarlaust hljóð.
        Það var langt liðið á veturinn. Þetta var þriðji veturinn, sem drengurinn hafði nýtt hverja stund, sem bauðst, til að horfa rannsakandi augum upp í myrkan næturhimininn og leita lausnar á þessari miklu ráðgátu: Hvað er allt! Hann var þess fullviss, að lausnina væri aðeins að finna í náttmyrkri. Myrkið er leyndardómsfullt, en birtan sem opin bók. Og svars við leyndardómum er hvergi að leita, nema í þeim sjálfum, síst af öllu í "opnum bókum". Þar þótti drengnum, sem ekkert væri að finna, utan það, sem vitað væri fyrir. Leit drengsins að lausn þess leyndardóms, sem dýpst hafði grafið um sig í huga hans, hlaut því að takmarkast við myrkrið. Hann var náttfari!
        Enda þótt hugur drengsins reikaði um himinhvolfið og hann beindi þar af leiðandi sjónum upp í háloftin, þá fór ekki hjá því, að honum yrði stöku sinnum litið niður í portið milli bakhússins og hússins við götuna. Og eitt sinn, einmitt þessa umræddu nótt, sá hann ekki betur en glytti í tvö skærgræn ljós í portinu. Við nánari athugun reyndust þetta vera glampandi kattarglyrnur. Kötturinn hlaut að hafa lokast inni í portinu, enda var því lokað á kvöldin.
        Kisa stóð þarna kyrr, drykklanga stund og horfði upp í gluggann, þar sem drengurinn var. Hún hafði sýnilega orðið hans vör. Og drengurinn horfði á köttinn, eða nánar tiltekið, horfði í augu hans. Ótal hugsanir tóku að brjótast um í kollinum á honum, hugsanir, sem smám saman urðu markvissari og beindust að sama umhugsunarefninu, sem svo lengi hafði gagntekið huga hans.
        "Augun eru tvö", hugsaði drengurinn. "Samt mynda þau eina heild. Og sú heild er hluti af haus kattarins, sem aftur er tiltölulega lítill hluti af kettinum". Já, og ekki þótti drengnum kötturinn stór hluti af portinu, sem þó var enn smærri hluti af borginni.
        Þannig hugsaði hann, uns hann komst að þeirri niðurstöðu, að þessi hugsun yrði aldrei hugsuð til enda. Og fyrst til væri sú hugsun, sem ekki yrði hugsuð til enda, þá væri til endaleysa.  Allt þetta hugsaði drengurinn, og bætti því við í huganum, að fyrst til væri endaleysa, þá væri það augljóst, að ekkert væri til, sem hægt væri að kalla "allt".
        Þreyttur og syfjaður, en fullur gleði þess manns, sem telur sig hafa ráðið lífsgátuna, kom drengurinn sér loks í rúmið. Hann sofnaði von bráðar, með sigurbros á vör.


Aftur á forsíðu