Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


Mánaljóð

eftir

Pjetur Hafstein Lárusson

Mánaljóð I

Kom í nótt minn ljúfi vinur
ljósið bjarta á himni svörtum,
þú, sem ljóð á vörum vekur
ástarinnar þögla vitni,
þú, sem mildum bjarma vafinn
veitir vín úr gleðiskálum
sem og harms á duldum slóðum.

Máni kær á vinarfund
komdu til mín
einn í nótt.


Mánaljóð II

Blikar á himni silfurskál
öllum þeim svo kær
sem unna ró í ranni víns og ljóða.
Þú ljúfi máni, næturkyndill skær
sem silkimjúkum geislum varpar
um dimman næturgeim
og vísar vínsins bikar — bróður þínum
leið að þyrstum vörum
skálds í drykkjugleði.

 

Mánaljóð III

Frá glugga dreg ég tjöld
í kvöldsins húmi,
sjá máninn þarna fer
um himins víddir.
Hann heilsar mér
með sínu hvíta glotti
heldur svo áfram
rór sem jafnan áður.
Ég kasta kveðju,
veit við sjáumst síðar
á rölti okkar gegum þögn og tíma.


Mánaljóð IV

Heldur svona fullur fer
mánaskömm um himinhvolfið
veit upp á sig vömm en glottir
(sumir fela smán bak háði).
Ýmsum finnst til fyrirmyndar
þetta brölt á mána gamla,
hleypa lausum kenndum ljúfum
sem sá gamli háðskur vekur.
Margt er barnið mönnum kennt
sem máninn ætti í raun að feðra.
Aldan spök nú sandinn kyssir
góða nótt, senn máni kveður.

 

Mánaljóð V

Ó, að ég mætti vinarfundar njóta
á tunglskinsbjartri nóttu inn til dala,
þar sem að hjalar lækur blítt við sóley
og hundasúran ræðir spök við grasið.
Skyldi þá máni gamli glaður spegla
andlit sitt í ljúfu eðalvíni,
meðan að fögur ljóð á tungu léku
og æskan snéri aftur
til að blekkja.

 

Mánaljóð VI

Mánaljós á himni skín
speglar sig í mínum bikar
sá hinn gamli senuþjófur.
Stjörnur mega undan víkja
myrkrið sjálft er bjarma slegið.
Þér til heilla, himnaskröggur
upp skal hefja bikarinn
skála í botn og aftur fylla
nú er lag til gleðiláta.

 

Mánaljóð VII

Í rökkurkyrrð
ég vaki nokkra stund
og máni varpar skímu
inn um glugga.
Ég ber að vörum
bikar ljúfra veiga,
hugur hvarflar langt
á hennar fund
sem forðum kveikti
æskufuna minn.
Ég vænti þess
að falli um herðar hennar
gráir lokkar
líkt og um enni mitt.

 

Mánaljóð VIII

Vindur hvín í kulda nöprum
fellur hríð á freðna jörð.
Sléttan hylst og fjöllin einnig
undir hvítri vetrarvoð.
Hrafnar tveir á flugi krunka
ekkert æti er hér að fá.
Hátt á himni máni glottir
heimsins böli ofar settur.
Nú skal glasi í rökkri lyfta
bera að vörum eðalvín,
gleyma bæði sorg og sút
kátur drykkinn stinga út.

 

Mánaljóð IX

Kátur mjög í stjörnufansi
ljós sitt skína lætur,
gamli máni og fullur fer
um himinvegu víða.
Glettist ögn við feimnar stjörnur
og lætur svona í veðri vaka
að nánari mættu nú kynnin vera.
Er svo floginn, eins og gengur
út að sjónarrönd.
Þessa nýt ég og horfi glaður
á þennan leik úr mínum ranni,
(má hver muna fífil sinn
fegurri forðum tíð).
Vínsins bikar þyrstum vörum
kyssi ég góða nótt.

 

Mánaljóð X

Hátt ég lyfti glasi veiga
inn um glugga tunglsljós skín.
Glampa slær á glasið kúpta
vekur ljóð í brjósti mér.
Vínið flóir og kæti vekur,
máni kveður rökkuróð.
Sorg er fjarri — gleði ríkir
fögnum bræður vinafundi.

 

Mánaljóð XI

Meðan mjöllin þekur svörð,
meðan krummi sefur,
máni gamli um loftin fer
kastar bjarma fölum.
Hægt um himin líður hann
eins og aldri hæfir,
vekur þanka ljóðs og víns,
oft til ásta hvetur.
Leynir á sér, læðist um
lúmskur nautnahvati.

 

Mánaljóð XII

Nú skín sól á freðna velli
morgunn rís úr næturdjúpi.
Máni gamli dregur sig til hlés.
Standa á borðum glösin tón
sólargeislar flöskuglerið kljúfa
tæmt hvert tár
og dreggjar horfnar líka.
Bældur svæfill vitni ber
um sæld í myrkri ljúfu.
Liðin er sú tíð
brát gleymd og grafin.
Hitt skyldu menn í minnum hafa
að meðan sól og máni
deila með sér tíð og völdum
nálgast ellin, sú grafar systir.
Því skulu sveinar
glaðir mánans bíða
og kaupa flösku
— komu hans að prýða.

 

Mánaljóð XIII

I

Gegnum hlýja nóttu streymir
fljótið lygnt um breiða sléttu
speglar sig í bárum nettum
máni, hátt af stirndu hveli.
Í fjarska fjöll mót himni rísa
yfir akrabreiður víðar.
Undir skrúði laufs og angan
situr skáld og bikar ber
nokkuð ört að þyrstum vörum
horfir á fljótið í sig teyga
mánans kviku spegilmynd.

II

Ó, að ég mætti um fljótið langa sigla
á mánaljósi björtu um dimma nótt
eða sem knött í höndum tunglið bera
að gnægtarborði og tæma bikar víns,
svo hugsar skáldið meðan hvítur máninn
mynd sinni varpar yfir fljótsins ró.

III

Við fljótsins bakka vaggar kæna vært,
þá happafleytu nýta skal til farar
því nú hyggst skáldið veiða
í fljótinu mánans mynd.
Úti í miðri elfu af þóftu rís
í vínsins gleði, orðasmiðurinn slungni,
hann hallar sér að mánahvítum bárum
og fyrr en varir opnast vatnsins faðmur
og skáldið undir mánans líking hverfur.
Sjá, — gárur bæra vatnið skamma stund,
uns hverfa þær með Li Po — á dauðans fund.

Mánaljóð XIV
(Í minningu Stefáns Harðar Grímssonar)

Húmið sveipar þögla storð
siglir máni um rökkurhaf
— haustar að svölum ströndum.

Kyrr er sú hönd
sem penna dró
í hógværð yfir hvíta örk
og forðum lyfti glasi á vinafundi.

En greipt er í mánans mildu slóð
margt fagurt ljóð
mörg stund er hjörtu geyma.

 

Mánaljóð XV

Frá sólu þiggur máni sína birtu
og varpar daufri skímu á móður Jörð,
líkast sem ljóð
um ljúflingsblóm á engi
sem enga angan ber
að vitum mér
en vekur spurn um ilm
og ást í hjarta.

 

Mánaljóð XVI

Þarna siglir geims um höf
hvítum bjarma krýndur,
máni gamli í kyrrð og ró
bróðir minn og vinur.
Honum lyft til heiðurs skal
barmafullum bikar víns
og í skjóli þagnar hans
ást í meyjarbrjósti tendra.

Nei, hér skal látið staðar numið
nálgast roði mánaslóð.

 

Mánaljóð XVII

Komdu vina
vina mín unga og ferska,
komdu út í næturhjúpinn þykka
þar sem mánans milda ljós
varpar skímu yfir leynda dóma.
Þar við skuldum dansinn stíga
dansinn villta — dansinn tryllta,
láta blóð um æðar streyma,
finna vínsins höfgi tendra
ást í hjarta — vekja gleði bjarta.
Fram í morgunroðans bál
gleyma skulum hörðum heimi.
Njótum þess sem lífið gaf
dauðinn tekur.

Og hvað með það!

 

Mánaljóð XVIII

Hvíslar í laufi gola sumarnætur,
lækur til baka varpar mánans mynd.
Kyrr er nú mörkin — þögulir fjallatindar.
Nóttin er djúp í helgri kyrrð og friði.
Siglir um himinvíddir hvítur máni
ljúfastur vina, þeirra er ljóðum unna.

 

Mánaljóð XIX

Mánaglóð á himinhafi blikar
og varpar birtu inn um gluggann minn.
Dansar bjarmi í vínglasi á borði
ég bergi á, mig kætir ljúfur keimur,
að glasi tæmdu lækkar flösku í.
Og meðan máni enn á himni merlar
má telja víst, ég vínsins hylli njóti.

 

 

Aftur á forsíðu