Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


ÞÝÐINGAR Á FORNUM 
KÍNVERSKUM LJÓÐUM


Þýðandi: Pjetur Hafstein Lárusson



Kínverska skáldið Li Po fæddist í upphafi áttundu aldar, flestir segja árið 701, en aðrir árið 705. Um hitt eru menn sammála, að andlát hans hafi borið að höndum árið 762, sé miðað við tímatal kristinna manna. Hann var ekki aðeins eitt af höfuðskáldum Kína á tímum Tangkeisaraættarinnar, heldur telst hann enn þann dag í dag til merkustu skálda Kínverja. Andlát hans bar að með þeim hætti, að hann var drukkinn á kænu úti á fljóti og varpaði máninn mynd sinni á bárur þess. Hugðist skáldið koma höndum yfir mánann, en féll útbyrðis og drukknaði. Er þetta merkilegt í ljósi þess, að máninn er oft viðfangsefni kínverskra skálda og þá gjanan í bland við ástir og vín. Má m.a. sjá þessa merki í nokkrum eftirfarandi þýðinga á ljóðum eftir Li Po.

Tú Fú var samtímamaður Lí Po og var mikil vinátta með þeim skáld- og skálabræðrum, svo sem finna má dæmi um í skáldskap þeirra. Líkt og Lí Po, telst hann til höfðskálda kínverkrar tungu fyrr og síðar.

Wang Wei taldist eins og Li Po og Tú Fú, til mestu skálda Kínverja á Tangtímabilinu. Ýmist er talið að hann hafi fæðst árið 699 eða 701 og dánarár hans er einnig nokkuð á huldu. Segja sumir það vera árið 759 en aðrir 761. Hann var embættismaður keisarans, en lenti um tíma á yfirráðasvæði uppreisnarmanna og þjónaði þeim til að bjarga lífi sínu. Hins vegar tókst honum að koma boðum til keisarans og tjá honum hollustu sína. Hann var því tekinn aftur í keisaralega þjónustu eftir að uppreisnin hafði verið bæld niður. En sökum harms yfir því, að hafa ekki látið uppreisnarmennina drepa sig, frekar en að þjóna þeim, dró hann sig í hlé og hélt til fjalla. Þar lagði hann stund á búddadóm, skáldskap og málaralist.

Fjórða stórskáldið er Meng Hao-jan. Hann mun hafa fæðst árið 689 en lést árið 740. Hann var búddamunkur. Sagt er, að svo mjög hafi hann forðast athygli, að eitt sinn er keisarinn hafi átt leið um heimaslóðir skáldsins og litið við hjá því, til að gauka að því lítilræði, hafi Meng Hao-jan skriðið undir rúm sitt og falið sig þar.



Lí Po (Li Bai)
(Eftirmynd af fornri teikningu)

 Li Po

Á FJALLINU GRÆNA

Þú spyrð hví ég dvelji
á fjallinu græna;
með brosi ég þögull svara
því frjálst er mitt hjarta:
Sem blómaknippi berst með straumnum
að ókunnum ósi,
eins er minn heimur,—
handan seilingar þinnar.

 

Li Po

JÁTNING

Þar glóði vín á gullnum bikar
og æskusnót frá Wu
með augun sín brúnu skugga slegin
hún gekk á glitvefsskóm.
Væri´hún í samræðulistinni snauð
ó, hve fagur var söngur hennar!
Saman við drukkum og snæddum
uns í faðm minn hún hallaði sér.
Gat ég því hafnað
er lokkandi óskaði hún
bak við tjöldin
sem útsaumuð lótusblóm prýddu?

 

Lí Po

SILKISPUNI

Langt upp með ánni í Szchuan
ólmast vatnið sem hvínandi vorvindar.
Hvaðan berst mér kjarkur
til að ganga á hennar fund
yfir gljúfrin ógnardjúpu?
Grasið grær í þorpinu fyrir handan
þar silkiormar þögulir spinna.
Endalaust vinna hendur hennar þráðinn
allt fram til rökkurs þegar gaukur syngur.

 

Lí Po

FOSSINN Í LU SHAN

Sólsetrið streymir um fljótsins hleina
fossinn úr hæðum steypist án minnsta hiks.
Þrjúþúsund fet af sindrandi vatni
— Vetrarbrautin hellist af himnum ofan.

 
Lí Po (Li Bai)
(Eftirmynd af fornri teikningu)


Lí Po

Á DREKAHÆÐ

Drukkinn á Drekahæð í nótt
til eilífrar útlegðar dæmdur.

Iðandi máninn berst
um gula blómabreiðu.

Hattur siglir um vindaslóð
stiginn er dans í nótt í mánaskini
á brott — á brott.

 

Lí Po

DRYKKJUSÖNGUR TIL FJALLA

Til að drekkja gömlum sorgum
kneyfuðum við vínið ómælt
undir fögrum næturhimni.
Ekki hæfir til náða að ganga
meðan bjartur máninn skín.

Loksins lukti vínið augum
þar á nöktum fjallaklöppum,
jörð varð svæfill
— himinn sængurbreiða.

 

Lí Po

UM Tú FÚ

Á fjallinu rakst ég á Tú Fú
undir heitri ágústsól.

Heldur var ásýnd hans döpur
í skugga hattbarðsins stóra.

Fölur og fár var hann orðinn
frá okkar síðasta fundi.

Vesalings gamli Tú Fú, hugsaði ég,
enn kvelur hann skáldagyðjan.

 

Lí Po

FERÐ

Vínkrús ég lyfti í blómahafi
einn mun ég drekka — vinalaus.

Upp nú með bikarinn, seiddur skal máni,
hann og minn skuggi — og við verðum þrír.

En bindindið þjakar nú mána karlinn
og skuggi minn honum hljóður fylgir.

Þó mun ég flakka með mána og skugga,
glaður til enda vors.

Þegar ég syng, máninn dansar,
stigi ég dans, dansar skugginn einnig.

Ófullir deilum við gleði og sorgum,
drukknir höldum við hver sína leið.

Tryggu vinir, þó víða þvælumst,
aftur við hittumst á förnum vegi.

 

Lí Po

FLJÓTASÖNGUR AÐ HAUSTI

Tunglið glitrar í grændjúpu vatni,
hvítir hegrar fljúga í mánaskini.

Ungur sveinn heyrir
hvar snót tínir vatnahnetur,
syngjandi róa þau saman heim á leið.

Ath.

Þess má til gamans geta, að sú stafsetning á nafni Li Po, sem ég nota í ljóðabók minni, Áleiðis nótt, er röng, en þar skrifa ég Pó, þar sem á að standa Po. Orðið Po er til í ýmsum myndum, en merking þess er "Mjallhvítur". Upplýsingar þessar eru komnar frá Steingrími Gauta Kristjánssyni.



Tú Fú
(Forn mynd)

TUNGLSKINSNÓTT

Í nótt verður konan mín
að horfa ein á fullan mánann
yfir Fu-zhou.
Hryggur í bragði leiði ég hugann
að sonum mínum og dætrum
svo órafjarri.
Bernsku sinnar vegna
skilja þau ekki þennan aðskilnað
né muna þau liðna tíð í Chang´an.
Ljúflega flaksast blautt hár hennar
í ilmandi þokunni.
Armar hennar eru kaldir
og hvítir sem jaðe
í fögru mánaskini.
Nær munum við aftur halla okkur
að opnum glugga
meðan tunglsljósið
þerrar glitrandi tár okkar?

 

TIL WEI BA

Margra örlög eru
að eiga sjaldan vinafund,
eins og stjörnumerkin Shen og Shang
sem aldrei deila himni.
Ef ekki í kvöld
þá hvaða kvöld
skyldum við njóta birtu lampans?
Hve lengi mun okkur aldur og þrek endast?
Við erum þegar teknir að grána í vöngum.
Við spyrjum hvorn annan
hvað hafi á dagana drifið;
tölum um brostnar vonir,
svik og gömul hjartasár.
Hefði mig grunað
að ég gengi ekki um sali
þíns heiðraða heimilis í tuttugu ár!
Síðast er fundum bar saman
varstu piparsveinn.
Nú standa hér borsandi í röð
synir þínir og dætur
og heiðra vin föður þeirra.
Þau spyrja, hvaðan mig beri að
en áður en ég næ að svara,
sendir þú þau eftir víni og bikurum.
Í næturregninu er skorinn graslaukur
til bragðbætis með ferskum nýsoðnum hrísgrjónum
í bland við gult hirsi.
Um leið og þú talar um
hvað endurfundirnir hafi reynt á okkur,
skenkir þú tíu sinnum í bikarana.
En jafnvel eftir tíu bikara
er ég enn ódrukkinn,
aðeins snortinn af fölskvalausri vináttu þinni.
Að morgni skilja leiðir
báðir munum við sinna veraldarvafstrinu
og fjöll bera á milli.
Ég hverf þér sjónum
jafnt sem þú mér.

 

Tú Fú

KVEÐJA TIL YEN WO HÉRAÐSSTJÓRA
Á PÓSTSTÖÐINNI Í FENG JI

Langt að komnir hittumst við
til einskis ómar minn tregi
um grænar hlíðar,
því nú munu leiðir skilja.
Hvenær skal aftur bikar lyft
á göngu í mánaskini?
Sárt er þín saknað í hverri sveit
nú, á kveðjustundu.
Með ágætum hefurðu þjónað langa tíð.
Einn hverf ég nú
til þorps míns á bökkum fljótsins
— einn mun ég eyða ævidögunum hinstu.

 

HORFT TIL TAIFJALLS

Hvernig skal lýsa Taifjalli?
Sem turnar gnæfa tindar þess yfir Chi og Lu!
Hér hefur skaparinn guðlega fegurð meitlað;
hamrar þess kljúfa myrkrið frá árroðans eldi.
Titrandi hjarta, þú hefst upp til skýjanna hæða,
augu þín nema er fuglar á hreiður setjast.
Einn dag mun ég klífa þinn hæsta tind
og líta í sjónhending niður til lítilla fjalla.

 

NAFNLAUST LJÓÐ

Oft hef ég séð þig
í höllu furstans af Qi
og í veislusal Cui Jiu,
hef ég heyrt söng þinn.
Víst geta suðurslóðirnar
stært sig af háfjalla tign
og því, að mega líta þig aftur
þegar blómin fölna.

 

Wang Wei

NAFNLAUST LJÓÐ

Fjallaauðn
fjarri manna slóð.
Og þó má heyra
raddir þeirra og bergmál.
Sólargeislar koma á ný
til dimmra skóga
og varpa aftur
birtu á grænan mosa.

 

Wang Wei

KVEÐJA

Í fjallasal skildu leiðir
og meðan sól hné til viðar
lukti ég hliði mínu.
Að vori grær grasið á ný
en vinur minn
— mun hann snúa aftur?

 

Wang Wei

MINNING

Í suðri spretta berin rauð
svo greinar trjánna svigna
er vorið gengur í garð.
Tíndu nú fáein,—þess bið ég,
þá líð ég þér síður úr minni.

 

Wang Wei

KVEÐJA

Er sté ég af baki
til að dreypa á víni með þér
spurði ég hvert för væri heitið.
„Mín hjartans þrá er dulin", svaraðir þú
og hélst til hvíldar á Suðurfjöllum.
Einskis ég spurði frekar
en endalaust flutu þau hjá
hin hvítu ský.

 

WANG WEI

Hugsað til bræðra minna
í Shantung á níunda degi
hins níunda mánaðar

Einn sit ég heimaslóð fjarri
ókunnur öllum hér.
Hátíð er nú í garði
en hugur minn hvarflar heim.
Þar veit ég hæsta tind klífa
vasklega bræður mína,
varða með fjandafælu
og hugsandi hingað til mín.

 

Wang Wei

SKILNAÐASTUND AÐ VORI

Ei dugir að harma hvern dag
að hækki vor aldur.
Hvert vor í sinni dýrð
yngir ei gamla skarfa.
Njótum nú vínsins gleði,
kæri vinur,
hörmum ei það
að fölni blómsins skrúð.

 

Wang Wei

Í KOFA EINSETUMANNS
UNDIR MAGNOLÍTRÉ

Er dvínar dagur á hlíðarnar
haustsólin roða slær,
fuglar í flokkum fljúga
—ský sigla himinslóð.
Hvergi er kvöldþoku vært
á slíkri stundu.

 

MENG HAO-jan

Dögun að vori

Hve skjótt að morgni sól á himni rís,
og syngja fuglar lífinu lof og prís.
Í nótt er stormur næddi—tjáðu mér,
nærðu að telja þau blóm sem féllu hér?

 

Meng Hao-jan

VIÐSKILNAÐUR VIÐ WANG WEI

Einmana reika ég,
hvers er hér að vænta,
er einn ég aftur sný
á hverjum degi?
Hugurinn bundinn
fagurra blóma angan
og vinum svo órafjarri
—þeirra sakna ég mest.

Hver mun fyrir mér víkja
á alfaraleið?
Fáum í heimi hér
kunn er mín hjartans þrá.
Best er að troða,
einfarans slóð sem jafnan.

Nú loka ég garðhliði mínu,
sný baki í heiminn
og kveð.

 

Meng Hao-jan

TIL BÚDDAPRESTS

Ljúft var forðum
að liggja upp til heiða,
en nú má ég snauður
jafnt sem hrakinn líða.
Síst leitaði hugur
til þessara norðlægu slóða,
ó, að ég mætti nú meistara minn hitta
í skógunum fyrir austan.
Hér eldiviður
er seldur á verði kjörviðs.
Hugsjónum mínum glæstum
hnignar óðum.
Er sólin hnígur
næða naprir vindar
og skordýrasuðið
eykur mér mæðu þunga.

 

Meng Hao-jan

KVEÐJA TIL GAMALS VINAR Í YANGZHOU
SEND FRÁ BÁTI, SEM NÓTTIN HYLUR Á TONGLUFLJÓTI

Sorgarstunur apanna, heyri ég berast
frá dimmum hæðum.
Á bökkum fljótsins skrjáfar lauf í vindi
og máninn varpar skímu
á einmana bátinn minn.
Hingað til Jiande rek ég ei uppruna minn,
ég minnist fornra vina í Yangzhou
og get ei tára bundist,
þau renna mér um kinnar.
Ég sendi þau til hafs,
heim á leið til strandar langt í fjarska.

 

Meng Hao-jan

NÓTT Á JIANDEFLJÓTI

Bát minn ber
að dularfullri eyju.
Er sól til viðar hnígur
rís sorg mín enn á ný.
Í fjarska minnast tré
við himinvíddir
og máninn virðist nærri
á tæru vatni.

 

Meng hao-jan

HUGSANIR Á KÖLDUM HAUSTDEGI

Nú fella trén lauf
og gæsir fljúga suður,
um vatnið næða
naprir norðanvindar.
Mitt ból við bugðu stendur
á bökkum Xiangár,
svo fjarri Chu
sem skýjabrún á himni.
Hvert tár er þrotið,
slík er heimþrá mín.
Ég horfi einn á segl við sjónarrönd
og sál mín þráir ferju
er rökkrið fellur yfir lygnan sjó.

 

Meng Hao-jan

HUGSAÐ TIL GAMALS VINAR

Hve kvöldsins bjarmi vestan fjalla hárra
með skjótum hætti sest og máninn rís
í austri og varpar mynd sinni á vatnið.
Á höfði mér bærist hárið er nýt ég rökkursvalans
og halla mér í rósemd að opnum glugga.
Glaður vildi ég núna grípa í spil,
en hér finnst enginn, slíkra leikja til.
Dapur ég hvarfla huga til gamals vinar,
ó, draumsins ró mun fjarri mér í nótt.

                                                              




 
Aftur á forsíðu