Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


ÞAÐAN
SEM
RÖÐULL
RÍS


ÁSTARLJÓÐ
FRÁ
JAPAN

Þýðandi: Pjetur Hafstein Lárusson


HLEYPT ÚR HLAÐI.

    Ástarljóð þau, sem hér birtast í íslenskri þýðingu, falla undir það form japanskrar ljóðlistar, sem kallast tönkur.  Hver tanka samanstendur af fimm ljóðlínum og eru fimm atkvæði í fyrstu og þriðju línu, en sjö í hinum.  Elstu handritin, sem varðveita tönkur eru frá árinu 712, en talið er, að upphafs þessa ljóðforms sé að leita aftur til 7. aldar.   


                                                                              

Fáein orð um skáldin

 

Kakinomoto no Hitomaro
(? - 739)

Kakinomota no Hitimaro telst til öndvegisskálda  Japana og raunar fremstur þar í flokki, að áliti margra.  Áhrifa hans gætir víða í japönskum ljóðaskáldskap.  Ekki finnast heimildir um fæðingarár hans, en hann er talinn hafa gengið á fund feðra sinna árið 739.  Hann mun líklega hafa verið í þjónustu Mommu keisara, sem ríkti á árunum 697 til 707.  Ýmsir telja, að hann hafi sest í helgan stein í Iwami, sem sennilega er fæðingarstaður hans.  

Ono on Komachi
(834 -- 880)

Ono no Komachi þótti svo fögur framan af ævi, að í minnum var haft.  Hins vegar segir sagan, að á skapadægri sínu, hafi hún verið gömul og ljót betlikerling.  Hvað sem um það má segja, verður því ekki neitað, að þessi aðalskona telst til fremstu skálda Japans fyrr og síðar.  Erótísk ljóð hennar þykja með því besta, sem ort hefur verið þeirrar náttúru í heimi hér.

Akazome Emon
(? -- 1027)

Eins og títt var um japanskar skáldkonur fyrri alda, fyllti Akazome Emon flokk hefðarkvenna.  Bæði faðir hennar, Taira no Kanemori, sem raunar var skáld, og eiginmaður hennar fengust við stjórnsýslu.  Emon þykir standa framalega í flokki japanskra skálda.

Izumi Shikibu
(974--1034)

Izumi Shikibu fæddist árið 974 og lést árið 1034, sumir segja reyndar að andlát hennar hafi borið að höndum árinu fyrr. Hún var dóttir héraðsstjóra að nafni Oe no Masamune. Snemma á unglingsaldri var hún kölluð til keisarahirðarinnar. Þegar hún var um tvítugt, var hún gefin aðalsmanni nokkrum Tachibana no Michisada lávarði af Izumi. Þess má geta, að þá þegar hafði Shikibu getið sér orð fyrir skáldskap, bæði í bundnu máli og lausu. Ekki entist hjónabandið lengi, þar eð maður Shikibu lést ungur. Eftir það varð hún hjákona sonar keisarans og hét sá Tametaka. Sá varð og fljótlega dauðanum að bráð. Samskiptum skáldkonunnar við keisarahirðina var þó ekki þar með lokið, því nú tók hún upp ástarsamband við bróður hins látna prins, Atsumichi prins. Eftir þessi blómlegu samskipti við keisarafjölskylduna, giftist Shikibu öðru sinni. Seinni maður hennar hét Fujiwara no Yasumasa og var lávarður af Tango. Skömmu eftir aldamótin 1000 hverfur Shikibu loks frá hirðinni og mun eftir það hafa haldið sig fjarri heimsins glaumi.

Yosano Akiko
(1878 -- 1942)

Akiko var kaupmannsdóttir frá borginni Sakai, sem nú er hluti Osakaborgar.   Eftir að hafa útskrifast frá kvennaskóla, hélt hún til Tókíó, þar sem hún stundaði nám í skáldskapar- fræðum.  Kennari hennar var Yosano Hiroshi, misheppnað skáld, sem gerði sér óþarflega háar hugmyndir um eigin andagift, eins og gengur og gerist með þá, sem telja sig þess umkomna, að kenna öðrum, að skrifa bókmenntir.  Hvað um það; þessum manni giftist Yosano Akiko.  Ekki gekk það ektastand alveg samkvæmt viðteknum venjum, því bæði lögðu þau hjón ofurást á skáldkonuna Ymamkawa Tomiko.  Er ekki ósennilegt, að þau lesbísku ástarljóð Akiko sem hér birtast, séu tileinkuð henni.  Eftir að Tomiko lést árið 1909, stofnuðu þau hjón til félagsskapar um nýungar í skáldskap, enda var Hiroshi mikill aðdáandi frönsku simbólistanna, þótt ekki þætti hann hagur á þau efni, sem sækja mátti í þeirra smiðju.  Hvað viðkemur Akiko, þá skrifaði hún ekki einungis ljóð, heldur einnig sögur, bæði fyrir börn og ullorðna, Esseya" og ævintýri.  En þekktust er hún þó af ljóðagerð sinni, enda telja ýmsir hana eina meistara tönkunnar á síðari tímum.

Yamakawa Tomiko
(1879 -- 1909)

Um Tomiko hef ég fátt að segja.  hún lést úr tæringu árið 1909.   Frá ástarsambandi hennar við Akiko og eiginmann hennar hefur lítillega verið sagt hér að ofan, en það mun hafa hafist, eftir að Tomiko varð ekkja.  Ljóð það, sem hér birtist eftir hana er nær örugglega ort til Akiko.

 

 

 

 haekumynd1.jpg (5073 bytes)
(Mynd eftir Hans Christiansen)

 

 

Kakinomoto no Hitomaro
(? — 739)

Í bambusnum hvín
vindur á auðnar fjalli.
Hugur minn reikar
til hennar sem fjarri er
svo endalaust fjarri mér.

Sem ég las henni,
ástinni minni blómin
úr plómurunna
fann ég að armar mínir
urðu gegnvotir af dögg.

Rógburður sprettur
sem arfi í blómaslóð.
Stúlkan mín og ég
sofum saman undursæl
í faðmlögum unaðar.

Á haustin fellur
litskrúðugt lauf á fjalli.
Mætti ég hefta
för þess með norðanvindi
gæti ég enn séð hana.

Að morgni mun ég
síst bera kamb í hár mitt.
Alla nóttina
hefur það hvílt á svæfli
í hönd stúlkunnar minnar.

Meðan hjarta þitt
bast mínu styrkum böndum,
gránaði hár þitt.
Sú stund mun ei upprenna
að ég kasti því á glæ.

Litskrúðugt laufið
hylur gönguslóðina,
haustkul sveipar fjall.
Hvar skal nú leita hennar
sem berst um ókunna slóð?

Einn sit ég heima
í herberginu þínu,
við hlið rúmsins þíns
starandi á svæfil þinn
-- einn í þínu herbergi.

Þar beið ég ástar
minar þar til ég heyrði
af árum bátsins
hvar honum var róið fram
þvert yfir Himnafljótið.

Þegar ég kvaddi
ást mína við gröfuna
við Hipitiefjall
og gekk niður troðning þess
fannst mér einni ég dáinn.

Ástin mín bíður
svo grunlaus um þá staðreynd
að líkami minn
hefur tekið sér bólstað
í klettum fjallsins Kamo.


Ono no Komachi
(834 -- 880)

Þó bregði ei lit
í þessu tómarúmi
veraldar okkar
slær fölva á hjarta manns
líkt og á blóm að hausti.

Þú kemur ekki
þessa mánalausu nótt
þó bíð ég þín enn
sorg logar í brjósti mér
-- hjartað brennur til ösku.

Hann kom á minn fund
meðan svefninn seig á brár.
Hefði ég vitað
að þetta væri draumur
væri ég enn sofandi.

Hvíldarlaust geng ég
draumleiðir ein á þinn fund.
Leiftur ett af þér
í heimi vöku og lífs
--ó, slíkar unaðsnætur.

Er honum hulið
að ég er ekki þari
í brimrótinu
þar sem sjávargróðurinn
þvælist um að vild sinni?


Akazome Emon
(? -- 1027)

Nær hefði verið
að sofa þá löngu nótt
en að bíða hans
og horfa á mánaglóð
hníga að sjávaröldum.

Síst skyldi bíða
svefn er betri og draumar
en horfa á nótt
og sjá mánann sökkva hægt
í dimmblá sjávardjúpin.

 

Izumi Shikibu
(974 – 1034)

Rósir ég tíndi
og færði þær heim í hús.
Þær vekja þanka
um skarlatsrauðan litinn
á skikkju elskhuga míns.

Haustregn og snjórinn
valda mér vökunóttum,
frostrósir jafnan
veikbyggðar líkt og ást þín,
hverfa við sólarupprás.

Hulinn er stígur
sá er þú forðum gekkst um
til unaðsfunda,
kónguló spinnur þar vef
líkan glitrandi tárum.

Mun öllu lokið
handan þessa heims stunda
eða sú minning
lifa um eilífð alla
er áttum við hinstan fund?

Í þrá ég hlusta
á munkanna klukknahljóm,
ást mín er bundin
þér einum um alla tíð
eins milli klukknahljóma.

Ligg í rekkjunni,
úfið hárið mitt svarta
með öllu ókemt,
þrái hann snúi aftur
sá er hár mitt fyrstur strauk.

Aðeins í draumi
mun fundum bera saman.
Svæfil ég færi
sífellt í rúmi mínu,
ég festi ei blund í nótt.

Hví hef ég ekki
leitt hugann að því áður,
að líkama minn
sem minnist líkama þíns
eftirléstu til minja?

 


Yoasano Akiko
(1878 -- 1942)

Um nóttina féll
snjórinn og stjörnur fylltu
heiminn þar undir
hári mínu svo úfnu
umhverfis ásýndina.

Eitt sinn, hátt yfir
brotsjóum, fangaði ég
sem í leiftursýn
hvítan fugl draums og ástar
svo gagntekin unaði.

Bylgjandi hárið
í ranni ástarleikja
ilmur af liljum.
Mig dreymir þá ósprottnu
bleiku rós dagrenningar.

Í hörpu minni
er dularfullur hljómur,
ómurinn sem berst
djúpur frá brjósti mínu
-- djúpur sá leyndardómur.

Svartur hárflóki
þúsund þráða óreiða
tættra minninga
um okkar löngu nætur
svo eldheitra atlota.

Hann freistaði mín
til kveðjustundarinnar
og vísaði mér
frá sér. -- Ó, ilmur klæða,
klæða hans í myrkrinu.

Tölum ei um ferð
þessa sem okkar bíður,
væntum ei frægðar
né frama. -- Njótum ásta
við, og horfumst í augu.

Kvöldið þegar þú
hvarfst að eilífu á braut,
það kvöld skráðum við,
skráðum við tvö á súlu
ljóð um grænu greinina.

Haustkvöldið líður
ekkert varir án enda.
Örlög móta líf.
Farðu höndunum þínum
kraftmiklum um frjó brjóst mín.

Henni gef ég mig
á vald í draumum mínum
hvíslandi ljóð mín
í fögur eyru hennar
hvar hún sefur við hlið mér.

Á
sjötta degi
mánaðarins hneigðu sig
maður og konur
tvær á skilnaðarstundu
orðalaust og án kvaða.

Á liðnu hausti
köstuðum við þrjú hnetum
að vatnakarfa.
Stöndum nú tvö að morgni
og leiðumst loppnum höndum.

Í tálsýn minni
dvelur þú enn þá hjá mér,
þar sem ég geng nú
um fagra blómabreiðu
umvafin mánaskini.

Þrýstu brjóstin mín,
tak burt dularblæjuna.
Þar undir blómstrar
dimmrauð rósin -- já dimmrauð,
angandi þér til yndis.

Ljúfsár birtist hann
máninn, aðeins smátt og smátt,
andvarpi líkur 
sem vakið er af sælu
djúpt í pílviðarrunna.

Loks lít ég um öxl
ein, til ástríðna minna
og geri mér ljóst,
að ég hef sem blindingi
verið óhrædd við myrkrið.

 

Yamakawa Tomika
(1879 -- 1909)

Skarlatsrauð blómin
eftirlæt ég konunni
hverja ég elska
og hyl henni tárin mín
lesandi blóm gleymskunnar.

 
 
Aftur á forsíðu