Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


Hækur frá víðum völlum

eftir

Pjetur Hafstein Lárusson

 

      NOKKUR ORÐ UM HÆKUR.

      Á 15. öld hófst sú gerð kveðskapar, sem nefnd er "renga", til vegs, austur í Japan. Sá háttur var hafður á, við gerð rengaljóða, að þau voru hvert um sig, ort af nokkrum skáldum sameiginlega. Ýmist var hvert erindi 17 atkvæði (5 atkvæði í fyrstu og síðustu línu en 7 atkvæði í millilínunni), eða 14 atkvæði í tveimur línum, 7 í hvorri. Erindunum var svo slegið saman í langt ljóð og taldi hvert þeirra vanalega 100 erindi. Þótti við hæfi, að gæta nokkurs virðuleika í rengaljóðum.
      Á 17. öld leystu hækur (haikai), rengaljóð af hólmi. Atkvæða og línufjöldi í hækum er sá sami og í renguerindum. Aftur á móti var upphaflega sá munur á rengaskáldskap og hækum, að meðan rengaskáldin sveipuðu sig hátimbruðum alvarleika, gáfu hækuskáldin sig glaðværð og kímni á vald, jafnvel með nokkuð svo óhefluðum hætti. Í fyllingu tímans hafa hækur tekið á sig fágaðra yfirbragð og að því leyti svarið sig í ættina.
      Sá er einnig munur á hækum og rengaskáldskap, að hækurnar standa einar; ekki þarf að skeyta þeim saman, til að úr þeim verði ljóð. En oft sakar ekki, að beita þeirri list, að lesa milli línanna.
Hækur fjalla gjarnan um tímann, t.d. árstíðirnar, nú eða þá ástina, svo sem ber við í öllum greinum mannlegrar tjáningar. Áður voru hækuskáld mun bundnari, hvað efni varðaði, en nú er.
      Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld breiddist hækuformið út til Vesturlanda og er nú nokkuð vinsælt á þeim slóðum. Aðeins ein hækubók hefur komið út á íslensku, "Meðan þú gefur" eftir Gunnar Dal (Fjölvaútgáfan 1996). Í bók Einars Sveinssonar, Eos sem Helgafell gaf út árið 1968, eru tólf hækur sem höfundurinn kallar "þríhendur." Ellefu þeirra eru frumortar, en einn þýdd. Þess utan hafa ýmsir fengist við að þýða hækur og yrka eitthvað í líkingu við þær, án þess að fylgja réttu formi. Verður hver og einn, að gera upp hug sinn til slíkrar iðju.
      Það skáld, sem talið er, að eigi heiðurinn af því, að hafa hafið hækur til vegs og virðingar er Basho Matsuo, sem uppi var á árunum 1644 til 1694.
Eins og sjá má, fylgja þessum hækum mínum nokkrar vatnslitamyndir. Hans Christiansen, myndlistamaður í Hveragerði á heiðurinn af gerð þeirra. Eru þær seldar sem gjafakort í Smiðjunni, handverkshúsi, Breiðumörk 26, Hveragerði og er hæka skrifuð á hver kort. Smiðjan er opin alla daga milli klukkan 13.00 og 18.00, nema mánudaga. Hvert kort kostar 550 krónur.
 

bók

 

Hækur frá víðum völlum

1

Vorið hneigir sig
fyrir laufskrúði sumars
sem hausti lýtur.

2

Ef haustið er rautt
og gult á greinum trjánna
er brottför þess hvít.

3

Nóttin bregður lit
er stíga stjörnur dansinn
á dimmum himni.

4

Morgunroðinn slær
geisla á tehús skáldsins
þegar ljóð fæðist.

5

Stjörnubjarminn dvín
er morgunn siglir að storð
gullslegnum seglum.

6

Náttregnið kveður
taktfast á þakinu óð
fuglsnef undir væng

7

Ský sigla vestur
yfir græna sléttuna
mildan sumardag.

8

Köttur í glugga
vindur á sléttunni hvín
ró værir hugann.

9

Gullregn í blænum
bærist undurrótt meðan
fuglsins stef hljómar.

10

Mús skýst í holu
kötturinn læðist nærri
örlögum frestað.

11

Sé haldið vestur
hverfur austrið í fjarska
sól skín að baki.

12

Vorregnið vekur
mér jafnan þanka slíka
hvenær ilma blóm?

13

Grasið í vindi
syngur sumrinu lagstúf
sjá, hér býr ástin.

14

Snær á fjallinu
og haustið kveður sér hljóðs
með nöprum hlátri.

15

Sé lífið dauða
háð líkt og regnið skýi
hvert fellur það þá?

16

Ærulaus maður
á sína einustu von
í minnisleysi.

17

Ljóðið er bundið
hugsun, tónum og litum
minning í orðum.

18

Þvottur á snúru
hangir í regnvotri værð
ský sigla á braut.

19

Undir kóngsfæti
lá vegurinn til austurs
hvaða konungs þá?

20

Trúin flytur fjöll
fjöll varpa trú yfir grund
sé trú nógu heit.

21

Blóm brosa að sól
ský ryðjast í vesturátt
regnið hefur kvatt.

22

Kútur við rúmgafl
ó, tæra vín á bikar
unga vökunótt.

23

Reykjafjall vakir
yfir sléttunni í nótt
húmið boðar haust.

24

Gras grær á velli
blómin anga í beði
áin rennur stríð.

25

Nú andar þögnin
grenið skríður upp fjallið
hver blundar í hlíð.

26

Skógarstígurinn
hvíslar sögu í eyra
hér liggja mörg spor.

27

Birtan dvín aldrei
þeim augum sem brosandi
horfa á heiminn.

28

Hér hangir á vegg
liðinna tíma minning
mynd horfins vinar.

29

Morgundögg glitrar
dagur til lífsins vaknar
nótt víkur á braut.

30

Auðnuspor fagna
hverjum fæti er ratar
eftir þeirra slóð.

31

Stráhattur kælir
höfuð skálds í sólinni
húnverskur forðum.

32

Þröstur syngur óð
okkur báðum til yndis
í kyrrum skógi.

33

Skuggsæll garðstígur
veit á sól handan runna
blómin bíða regns.

34

Regnskýin hrannast
upp á hvelfdum himninum
og bíða fallsins.

35

Stytta á torgi
er áminning þörf og góð
um dauða frægra.

36

Fiskur í vatni
syndir til yndisauka
hvassri veiðkló.

37

Sú gamla syngur
sinn söng með eigin nefi
á ekki önnur.

38

Sól hnígur og rís
glitrandi á festingu
eilífðarinnar.

39

Hundur leggur skott
milli lúinna lappa
slíkt hæfir ýmsum.

40

Værir þú fjarri
dveldi hjarta mitt þó nær
þér sem ég elska.

41

Siglir skip að strönd
er myrkrið hjúpar sæinn
löng er leið heiman.

42

Blærinn bærir lauf
í iðandi trjám þorpsins
vindur að sunnan.

43

Undir heiðinni
kúrir þorpið í rósemd
kyrrð þess er fögur.

44

Víð er mánaslóð
elskendur í kjölfarið
halda draumvegu.

45

Kvöldkul af hafi
hrafnar fljúga í björgin
fjallið sveipast þögn.

46

Nóttin er þögul
nóttin er dul og þögul
og ráðgáta mín.

47

Hús stendur á hæð
þaðan sér vítt til vega
þó innan sjónmáls.

48

Skjaldböku ber hratt
yfir þegar þess er gætt
hverju trúað er.

49

Enn blundar Hekla
tröllkona elds og ísa
kraumar í iðrum.

50

Ástin er lífið
söngur þess, gleði og sorg
brosandi tár.

51

Að elska er líf
hatrið er dauða bundið
ástin er lífið.

52

Vínið er tær lind
sem morgundögg á blómi
merlar sæla þess.

53

Æskuárin græn
á víðum sumarvelli
hvítt er í norðri.

54

Einn er guð himna
og jarðarsmiðurinn snjall
mannpeð þess gættu.

55

Að stíga dansinn
er máninn glætu varpar
slíkt hæfir glöðum.

56

Spekingur situr
lífs með í kolli gátu
og spaklega spurn.

57

Fugl syngur á grein
skáldið dregur upp penna
vorblær kyssir jörð.

58

Fögur fjallasýn
er sem bikar á vörum
nautn og vekur spurn.

59

Tregaslóð gengin
senn rökkvar yfir vegi
heyr, hvaðan gustar?

60

Laufskáli myndar
hvelfing um mannanna spor
og hverfulleika.

61

Skýin hrannast upp
það boðar storm úr vestri
kyrrðin ríkir enn.

62

Kettlingur malar
í fangi duldrar konu
rökkurstund í værð.

63

Logn undan stormi
hvín í bráðræði vinda
þá nótt er úti.

64

Garðbekkur bíður
eftir gesti að dvelja
í blómailmi.

65

Regnið hylur fjöll
gerist nú grár dagurinn
sól handan skýja.

66

Vínbúðin brosir
mót lúnum göngumanni
velkominn vinur.

67

Rautt á flöskunni
ó, þú ljúfra drauma vín
ég drekk þína skál.

68

Brúnn skógarstígur
dylst í grænni laufkrónu
slóð elskendanna.

69

Morgunkyrrð rofin
lóunnar söng í varpi
ann sól þeirri stund.

70

Hverju hvíslar fjall
að sléttu þá vindur blæs
mannheimar sofa.

71

Ástarorð hvísluð
meðan morgunn rís austan
sól heilsar landi.

72

Svefn sígur á brá
bókin hallast að höfði
ljóðið minnist við drauma.

73

Kónguló spynnur
smáflugum grimmdar örlög
í fögrum vefi.

74

Hundur í bandi
skáld, sem þráir frægðarorð
hvor sér spegilmynd.

75

Orð bera hugsun
sé viturlega talað
heimskum hæfir þögn.

76

Ástina segir
hún lítt til að treysta á
en mun þó vona.

77

Sé haldið austur
liggur leiðin til vesturs
hnattarins lögun.

78

Að bresti þau bönd
er tryggðin knýtti forðum
sú gamla saga.

79

Að hlátur lengi
dvöl í lífsins táradal
má hlálegt telja.

80

Í æðum skáldsins
renna ólgandi straumar
strönd handan sjónmáls.

81

Einmana hestur
bítur í haga grasið
um niðdimma nótt.

82
Kyrr lind í haga
nærri hvítri jökulrót
brúnn hestur á beit.

83

Marglitt laufskrúðið
fagnar svölum haustvindum
vængi ber við ský.

84

Hrafn sem tinnuflís
á himni bláum hverfur
sjónum í fjarska.

85

Í grænum lundi
syngur þröstur að morgni
lífi til dýrðar.

86

Líf af lífi grær
ó, ljúfi sumartími
senn gulnar hausti.

87

Blóm í beði grær
regnið svalar blöðum þess
litadýrð dansar.

88

Grasið teygar dögg
morguninn rís úr rökkri
síðsumarnætur.

89

Sumarsins rósemd
vakir yfir fjallstindi
fugl situr á klöpp.

90

Regnið leggur værð
yfir þorpsins grænu voð
gömul kona á rölti.

91

Morgunroði slær
bjarma á fljótsins helgi
líf kætir bakka.

92

Ölfusá streymir
þögul og lyng til sjávar
þó hvískra flúðir.

93

Hvað berst með laufi
grænum lit þess og angan
vegleysu stríða?

94

Rótt er við vatnið
á bökkum þess hugurinn
dvelur í friði.

95

Söngur úr sefi
söngur úr dimmu sefi
skáldsins dýpsta værð.

96

Ljóðið er söngur
í hjarta þess sem lifir
ómar mót myrkri.

97

Máni siglir höf
dimmra skýja vetrarnótt
rok í kjölfari.

98

Einu skrefi nær
er maður guði sínum
við fagra hugsun.

99

Eyrarbakki fjær
handan grænnrar sléttunnar
hafblámi sunnar.

100

Kögunarhól ber
fyrir Selfoss héðan séð
leiðin fjær hulin.

101

Spói vellur óð
vori með sínu nefi
sól skín í heiði.

102

Eyjar í fjarska
hvíla á öldum hafsins
máni fer sér hægt.

103

Hvítmáluð húsin
í rökkri undir fjalli
nær sér til hrossa.

104

Ingólfsfjall teygir
anga fram græna sléttu
vegur sker landið.

105

Fákarnir spretta
úr spori, glæst er förin
hófadyn ber vítt.

106

Enn tifar klukkan
á veggnum sinn hæga söng
þó hratt fljúgi stund.

107

Kvöldið er fagurt
tigin ró þess og mildi
storð í rökkurværð.

108

Heitt te á könnu
silkidúkur á borði
aðeins tveir bollar.

109

Tveir vinir drekka
skál sinna ljúfu drauma
vínið vekur þrá.

110

Fjallið vekur spurn
hversu hátt er á tind þess
ef hann er þá til.

111

Ótt ber hann um tún
slyngasta sláttumanninn
og slær hvergi af.

112

Tár fellur í glas
ó, þú hin ljúfsára nautn
drottning einsemdar.

113

Fluga á sveimi
suðar kringum ljósið
daufur er bjarmi.

114

Sumarstund líður
hægt mót svölu hausti
morgunkyrrðin ljúf.

115

Hraunið á heiðinni
angar af grænum mosa
neðan streymir fljót.

116

Skáldfáki riðið
geyst um loftsali víða
stjörnuhröpin tíð.

117

Í grænum lundi
liggur leyndardómur dýr
gamall og þó nýr.

118

Kvöldsól á himni
ég lyfti rauðu glasi
henni til heiðurs.

119

Hún hefur spunnið
sér vef í glugga mínum
sú margfóta frú.

120

Við stíginn grær blóm
ferðalúnum til yndis
dveljum hér um stund.

121

Rór hverja stundu
dvelur hann í skel sinni
hæglætismaður.

122

Torgið er vegur
að heiman og aftur heim
lúnum til hvíldar.

123

Gosbrunnur svalar
mér þyrstum á langri för
áfram skal halda.

124

Bjórvembill kjagar
drekkandi yfir torgið
þorstanum svalað.

125

Kvöldsvalinn lokkar
af götukrá inn í hús
þar skal nú teygað.

126

Öldungis réttmæt
er skoðun sú og útbreydd
að öl sé bölsbót.

127

Vatnið í fjarska
er huldið grænum skógi
sól varpar geislum.

128

Ugla að kveldi
vælandi á grænni grein
sjálenst sumarkvöld.

129

Þungskýjað nokkuð
yfir slegnum ökrum
vindur af hafi.

130

Slóðin er ei löng
og auðrakin oft milli
vonar og ótta.

131

Syngur í skógi
fuglinn sem leynt fer augum
en gleður eyrun.

132

Fagurt er sumar
og elskar öllu heitar
mannabörnin smá.

133

Refur í skógi
svangur leitar hann ætis
yrlingum smáum.

134

Fuglinn á hreiðri
sá væntir tæpast mikils
um niðdimma nótt.

135

Málari á blað
dregur myndina snjalla
hver ann slíkri sjón?

136

Regn á jörð fellur
grátt er nú um að litast
skógar þó grænir.

137

Hér má heyra söng
fugla í grænum lundi
ljúfa morgunstund.

138

Gengur í grasi
háu og fer sér hægan
refur að nóttu.

139

Leitar leiðar út
úr ógöngum smáfuglinn
með val að baki.

140

Víst dregur hafið
hugann að djúpsins niði
í sérhverri sál.

141

Morgunstund, ég nem
brjóst hennar bærast sem ann
ég öllu heitar.

142

Sofandi drengur
á vit hvaða ævintýrs
bera þig draumar?

143

Í landi Kaj Munks
leitar á hugann sú spurn
hvers frelsið krefjist.

144

Sumarregn fellur
blíðlegt á danska akra
uppskeran nálgast.

145

Hljótt ber vind um skóg
hvíslar í laufi eikur
sumarkvæði ljúft.

146

Danmörk er ljúf snót
Ísland glottandi rusti
þó af sömu rót.

147

Kóngur ríður hægt
en af festu fram götu
böðlar fyllast beyg.

148

Öl skal nú kneyfa
og ekki af sér draga
nætur né daga.

149

Foxfort sögðu þeir
réttnefni sannast vera
á rósemdar slóð.

150

Eskiholt sunnan
Atlansálanna djúpu
borgfirsk sú minning.

151

Hólakot nefnist
skjól undan borgarþyti
fjörður í huga.

152

Kóngsins nýja torg;
þar má nú flestu trúa
í sunnan golu.

153

Api í búri
frændi minn hvort sem þú ert
Blöndal eða Briem.

154

Dvelur sumarlangt
í heimi sem hún skapar
fjarri borgarþys.

155

Greifahöll nokkur
stendur rétt utan vegar
napurt blæs sagan.

156

Siglir hver sinn sjó
samskipa engum öðrum
land fjarri sjónum.

157

Horfir á akur
dregur liti á striga
skapandi festu.

158

Fortíð og framtíð
báðar svo fjarri nútíð
í tímahraki.

159

Klukkan slær sín högg
svo ótt sem jafnan áður
og þó undrumst við.

160

Páfugl á göngu
sperrir sitt litríka stél
ráðherra garðsins.

161

Fredriksberg Have
þar undum við nokkra stund
ljúfan sumardag.

162

Hæka er hugsun
mynd í huganum dregin
í mildum litum.

163

Heimurinn er stór
en fætur þínir smáir
leggðu samt í hann.

164

Ljósið í lofti
logar á einni peru
máni veður ský.

165

Á hækuslóð geng
ég við vatnið fagurblátt
undir laufkrónu.

166

Vindur blæs sunnan
þýður, rétt bærir laufið
fluga sest á blóm.

167

Snigill á spretti
hleypur á sína vísu
skógur að baki.

168

Fífill í varpa
hún nálgast, slátturvélin
blessuð sólin skín.

169

Símastaurinn rís
upp úr iðandi kjarri
ber hvort sín boðin.

170

Bleikan mána ber
um himinhvolfin dimmu
sigð á langri för.

171

Visku minnar ljós
mun lagt undir mæliker
og léttvægt fundið.

172

Mikið er fífill
smár undir kýprustrénu
en bjartari því.

173

Bein konunganna
liggja í glæstum kistum
tímans tönn nagar.

174

Gamla sagnabarn;
keisarinn enn berrassa
allt við það sama.

175

Hermenn á flakki
grænklæddir mömmustrákar
að friða heiminn.

176

Liggur á jörðu
flugvöllur kyrr eins og steinn
þó skal haldið heim.

177

Ef loftið er blátt
má telja víst það sé
jafnframt nokkuð hátt.

178

Far vel Reykjavík
þorpsborgin lítils hugar
en stórra orða.

179

Blóm í kjarri vex
í skjóli grænna trjáa
fugl syngur á grein.

180

Blóm í haga vex
dafnar í sumarblíðu
farðu þér hægt haust.

181

Sól í sunnanblæ
heilsar á sumardegi
pjakknum honum mér

182

Ljúft er að vera
ungur í fögrum heimi
draumlöndum bundin.

183

Yndið þitt mesta
fegurst sýn augna þinna
spegilmyndin þín.

184

Skýjum ofar ber
mig loftvegu heim á leið
far vel, danska grund.

185

Hvað er haginn grænn
ef lamb er hvergi á beit
augu án sjónar.

186

Söngur í lofti
álftir ber yfir vatnið
borsa augu vors.

187

Sú er trú tryggust
sem úr efa er sprottin
leitandi sálna.

188

Heitast elska ég
frið þinna blíðu augna
huldukona mín.

189

Ég svaf eins og steinn
meðan sól reis á himni
fagurt að vakna.

190

Sérdeilis fagur
er dagurinn og ríkur
af veðurblíðu.

191

Ölfusið baðað
í sólarljósi björtu
vart ský á himni.

192

Veðrið er víðast
umræðuefni dagsins
stef innan lagsins.

193

Sólin á tölti
um himinhvolfið bjarta
líkt og foli knár.

194

Skip siglir heiman
yfir höfin víð og breið
land hverfur sjónum.

195

Á safni situr
vörður skjala og sögu
stundirnar flæða.

196

Ég handar þinnar
leita um niðdimma nótt
þú ljós á vegi.

197

Hverja sál blessar
Drottin á vegleið strangri
heim liggur leiðin.

198

Heppnir menn stinga
sig sjálfa á rauðri rós
óheppnir á drós.

199

Að fagurt sé haust
er gömul saga og ný
þó vetur boði.

200

Sólin stígur dans
augum til yndis í leik
á ljúfum nótum.

201

Syng lífinu óð
meðan dagurinn dansar
vítt um himingeim.

202

Friður í hjarta
er syngur vor í lofti
og grösin grænka.

203

Birta í huga
hvers þess sem elskað getur
í sannri auðmýkt.

204

Sigla himinský
austur í átt að Heklu
sú gamla blundar.

205

Ofan af Kömbum
blasa Eyjar við sjónum
í tiginni ró.

206

Stjörnur stíga dans
á næturhimni myrkum
sköpun til dýrðar.

207

Lífið segja þeir
lotterí, og mikið rétt
það vinna fáir.

208

Svefninn sækir að
þyngir brá og værir hug
nem brátt draumalönd.

209

Dapurt er lífið
í dauðans dimma skugga
svörtust nóttin sú.

210

Rós þér til yndis
með litlu ljóði gef ég
að gleðja hug þinn.

211

Hugarró mér berst
með sunnanblænum milda
þá vorið lifnar.

212

Klukkan hún tifar
tíðindi varla teljast
högg hennar markviss.

213

Fjallasýn fagra
tæpast þó tígurlega
ber fyrir augu.

214
Regnvotar götur
fölnandi laufið fellur
svo líður hver stund.

215

Göngum áleiðis
ein, helga stund með Guði
- óendanleiki.
216

Grimm gerast örlög
rjúpu greni nærri
saddur mun rebbi.

217

Bros augna þinna
færir mér vor í hjarta
mín sól á himni.

218

Að kenna er list
að læra þó enn meiri
það þjálfar eyrun.

219

Ég elska lífið
jafn undarlegt og það er
í dulúð sinni.

220

Dansað á rósum
slíkt er þyrnum stráð iðja
stingur í iljar.

221

Að holdið sé hey
má til sanns vegar færa
hart er heyleysi.

222

Rökkurslóð gengin
nokkur harmur að baki
sól í sjónmáli.

223

Gjallandi lúðrar
allir þeir glæstu herir
og kirkjugarðar.

224

Happ er þögn manna
þegar syngur í skógi
fugl á vordegi.



Aftur á forsíðu