Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
HÆKUR
UM
MORGUNINN
1
Morgunroða slær
yfir fjallsins hvössu egg
vel fagnar sléttan.
2
Syngur í mýri
fugl í lognkyrri blíðu
merlar morgundögg.
3
Vormorgun nokkurn
úr rekkju reis blómarós
nekt sinni sveipuð.
4
Þú ljúfasti blær
er björtum morgni heilsar
kominn náttvegu.
5
Vaknar til lífsins
þorpið að liðinni nótt
haustsvalan morgun.
6
Auga í austri
opnast í svarta myrkri
morgunskíma ljúf.
7
Glóandi fingur
morgunroði á himni
lífsbálið kviknar.
8
Kaffi á könnu
rýkur í Edens ranni
kliður að morgni.
9
Morgunsól varpar
ljósi á sannindi þau
að enn er lifað.
10
Morgunsöngur fugls
vekur þá spurn í rekkju
hvort hæfi legan
11
Vormorgni fögrum
fagna fuglar í mýri
og ung, heit hjörtu.
12
Söngur í lofti
og morgunroði vekur
sjálft lífið til leiks.
13
Af nóttu fæddur
dimmri í djúpri rósemd
eldhuginn morgunn.
14
Morgunn úr djúpi
siglir í sólarbjarma
vestur mót degi.
15
Er rís í austri
glóbjartur morgunbjarmi
syngur lífið óð.
16
Þá blíður vindur
skógarins laufskrúð bærir
kveður morgundögg.
17
Í lundi bærist
lauf þá fögru morgunstund
kveður morgundögg.
18
Morgunblær hvíslar
leynda dóma í eyru
meðan andar þögn.
19
Sól skín í garði
svo árla að morgni dags
að enn má sjá dögg.
20
Regnboginn dregur
litfagra mynd og glæsta
á morgunhimin.
21
Undan myrkri rís
fjallshlíð sveipuð haustgráma
svala morgunstund.
22
Sól rís til hæða
glóandi himinperla
morgunbál logar.
23
Regnmorgun stríðan
kom haustið sem jafnan fyrr
til langrar dvalar.
24
Þá morgunsól rís
og geislum sínum varpar
rís af dvala.
25
Ljós úr myrkri rís
árroðans eldur vekur
vonir í brjósti.
26
Morgundögg vakir
hljóð í blómkrónu gulri
sóley í varpa.
27
Haustmildur andblær
vaknar í morgunroða
sól stefnir vestur.
28
Söngur í sefi
morgunskúrin sú ferska
minningar vekur.
29
Um hjarn að morgni
napur gusturinn næðir
hvíta vegleysu.
30
Heyr, morgunstundin
syngur lífinu lagstúf
lítið fagurt stef.
HÆKUR
UM
DAGINN
1
Dagslátta Drottins
góð hefur verið í dag
ilmar hey um tún.
2
Rignir gráan dag
skammt milli morguns og kvölds
haustvindar næða.
3
Dagur brá á leik
glitdans sté hann á bárum
sáldraði gleði.
4
Hver dagur er fræ
úr moldu nætur sprottið
ævintýr — svo þögn.
5
Úr myrkrinu rís
hver dagur fagurskaptur
og hnígur á ný.
6
Dagur mun rísa
úr svörtum næturhjúpi
sólstöfum vafinn.
7
Ekki morgunbál
aðeins hrollkaldur dagur
og birta sem dvín.
8
Dagur að kveldi
logandi ský svífandi
mót næturveldi
9
Lyftir frá höfði
dagurinn gráum hatti
og heilsar kvöldi.
10
Slóð rakin í fönn
frá morgunskímu til kvölds
slík var dagleið sú.
11
Að fagna degi
fyrr en úr myrkrinu rís
slíkt krefst bjartsýni.
12
Meðan þú lifir
dagur björtustu vona
fagna þeir blekktu.
13
Þögn, nú rís dagur
í logaglóð austursins
nótt má sín einskis.
14
Þröstur á trjágrein
syngur mót fegurð laufsins
slíkur er dagur.
15
Að liðnum degi
hvarflar hugur til baka
leynist þar minning?
16
Glampar af sunnu
á hjarni upp til heiða
líður að kveldi.
17
Nú brosir sólin
og blíðir vindar kyssa
roða í kinnar.
18
Hver syngur þar lag
ljúfra tóna fagurra
á laufgaðri grein?
19
Fagur er dagur
og óþarflega stuttur
á köldum vetri.
20
Ég elska daginn
og vil að hann verði enn
rétt eins og hann er.
21
Stormurinn næðir
og sveigir greinar trjánna
haustdaginn napran.
22
Aðeins ef eitt blóm
nær að brosa mót degi
er lífi fagnað.
23
Sól mun nú skína
langan daginn og blíðan
kvöldið þó nærri.
24
Rökkrið víkur hægt
undan komandi degi
nóvember dimmur.
25
Þar sigldu á brott
dvínandi sólargeislar
dagur laut vetri.
26
Dagur sem feiminn
drengur í rekkju nætur
leggst utan orða.
27
Dagurinn dansar
sprækur drengur að vori
sól er ástin hans.
28
Góðan daginn snót
má bjóða þér sólarljóð
að syngja fuglum?
29
Siglir mót birtu
fjall yfir sléttunnar ró
mildur er dagur.
30
Er hljóður dagur
hverfur í nætursvala
kyssir sunna sæ.
HÆKUR
UM
KVÖLDIÐ
1
Hljóður fer máni
leið sína um loftin dimm
stjörnurnar heilsa.
2
Roðaský svífur
um loftsali víðan veg
kyssir sól ægi.
3
Fullur máni skín
á blindfullan Hvergerðing
nálgast næturstud.
4
Kolsvart er myrkrið
utan hvað stjörnur blika
og snær lýsir storð.
5
Stjörnubjart hvíslar
haustkvöldið mér í eyru
„ég er ævintýr".
6
Nú hvíslar rökkrið
laufið á greinum bærist
kvöldið læðist að.
7
Hljótt læðist kvöldið
sem jafnan að huga mér
og býr sér bólstað.
8
Húmar að kveldi
dagsljós dvín um víðan völl
hjarn undir fæti.
9
Hnígur að bárum
hnígur að kvikum bárum
sól á vesturleið.
10
Læddist sem köttur
kvöldhúmið að landinu
bráðin lá í værð.
11
Rökkurstund fögur
rósemdin værir hugann
þögn kætir eyru.
12
Kvöldsöngur katta
telst tæpast fegurst lista
listilegur þó.
13
Fjall sekkur í húm
senn hyldur myrkrið svarta
landið nátthjúpi.
14
Ég er eign rökkurs
voð þess hylur mig auman
mann í smæð minni.
15
Því hvíslar rökkrið
ljóði í eyru mér nú
er haustkvöld bærist?
16
Sól lágt á lofti
ég fer mér hægt — samræmi
manns og himinhvolfs.
17
Meðan kvöld læðist
sveipað gráum loðfeldi
geng ég með veggjum.
18
Þögn — klukkan slær tólf
kvöldið kveður, nóttin kemur
gnauðar haust á skjá.
19
Gott kvöld kona góð
má bjóða yður kaffi
með mildum kvöldblæ?
20
Kvöldsins skugga ber
um þil og rjóða vanga
hvers má hér vænta?
21
Fegurst er kvöldsól
er roða slær á hafið
hjarta mitt logar.
22
Regnvotar götur
gráar í húmi kvöldsins
augu leita blóms.
23
Kvöldskuggar kveða
sér hljóðs — mig þyrstir í víf
þessa rökkurstund.
24
Kvöldinu ann ég
kyrrð þess og fjöri í senn
ráðgátum vafið.
25
Kvöldið læðist að
brátt hefur dagur sungið
lokasönginn sinn.
26
Margt er í leynum
hvíslað á aftanstundu
blóðheitum vörum.
27
Kyrr er þessi stund
og helg í rökkri mildu
nær er Drottins hönd.
28
Fagurt er rökkrið
hvert liggur kattarins leið
er líður á kvöld?
29
Kvöldið er hjúpur
kyrrðar og unaðsstunda
ljóðræn rökkurmynd.
30
Kvöldið er skógur
ferðafúsum að kanna
þar vil ég villast.
HÆKUR
UM
NÓTTINA
1
Djúpblá er nóttin
stjörnur á himni stíga
sinn seiðandi dans.
2
Dimm er sú nóttin
sem hugann myrkri sveipar
án vonar um dag.
3.
Björt er sumarnótt
lík gulli ofnum seglum
rík er hennar þögn.
4
Enn er nóttin ung
ólgandi í æðum mér
og til alls líkleg.
5
Nóttin er mér kær
í dimmum hjúpi sínum
sefar hún sorgir.
6
Þögul er nóttin
þögul og kyrr friðarstund
fjær belja stormar.
7
Sumarnótt fögur
þér vil ég óð minn kveða
meðan vötn sofa.
8
Djúpblá vötn sofa
í faðmi sumarnætur
bærir gola rán.
9
Mild er sú nóttin
er þögla að morgni ber
fjarri glaumi heims.
10
Nóttina les ég
sem svarta stafi á bók
fletti um síðir.
11
Með nótt í augum
fetar hún dimma götu
djúp er sorg hennar.
12
Sumarnótt fögur
hvíslandi blær í kjarri
refur á veiðum.
13
Nótt er mitt yndi
þögul, þykk og mjúk nóttin
trygglyndust stunda.
14
Opna bókina
lampaljós lýsir veginn
yfir blöð hennar.
15
Vínljúf er nóttin
ævintýri á vörum
ölvaðs sagnamanns.
16
Nóttin er kærust
systra minna og fegurst
í tiginni ró.
17
Svalur er andblær
djúpbjartrar sumarnáttar
við þögula strönd.
18
Náttmyrkrið sveipar
sléttuna mildri dulúð
og frelsi þagnar.
19
Náttkyrrðin blíða
þú helgust þagnarstunda
hægt siglir máni.
20
Nótt ber að dyrum
hæglátust allra gesta
slóð myrkri sveipuð.
21
Bjarta sumarnótt
hver ann ei brosi þínu
til rísandi dags?
22
Þögn — ljúf stund heilsar
fljúgandi svörtum vængjum
inn í hugskot mitt.
23
Skarðan mána ber
vítt um þögulan geiminn
marklaus gerast orð.
24
Ljós á lampanum
úti sækir kalt myrkrið
að gluggarúðum.
25
Hikandi geng ég
út í kalda vetrarnótt
hugsa um vorið.
26
Skíma í fjarska
þar mótar fyrir fjöllum
og daufum bjarma.
27
Enn liggja spor mín
á náttsvartri sléttunni
ég vænti birtu.
28
Nóttin er ómur
dimmur ómur af degi
heyr — hér grær þögnin.
29
Náttmyrkur yfir
landi og hafi grúfir
lágfóta læðist.
30
Dyn ber að eyrum
hófadyn og hart riðið
yfir kalt hjarnið.