Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
HÆKUR
UM
VORIÐ
1
Strá í fuglsgoggi
regnið leysir af hólmi
snæ yfir jörðu.
2
Fálmandi hendur
tvö ungmenni á göngu
það gerir vorið.
3
Vindar úr suðri
kvaka í lofti fuglar
langferð að baki.
4
Þungbúin skýin
sigla yfir heiðina
vorvindar næða.
5
Allra veðra von
þegar vor er í lofti
á norðurslóðum.
6
Vorvindar þýðir
fara hægt um lönd og höf
angan í lofti.
7
Kría úr lofti
steypist á leifturhraða
varpstöðvar nærri.
8
Lóan er komin
hátíð í hverju hjarta
í frónsku brjósti.
9
Söngur í lofti
að sunnan ber vængjaða
vini - langþráða.
10
Lömb leika í laut
hlaupa um víða haga
vors um græna grund.
11
Regngráum strætum
dylst borgin meðan væntir
sólríkra daga.
12
Þröstur syngur óð
lífi og gerir hreiður
í kirkjugarði.
13
Lækurinn seytlar
syngjandi fram mýrina
frjáls undan ísi.
14
Blánar í fjöllum
ár flæða yfir bakka
hún dansar - jörðin.
15
Mús skýst í haga
tófa liggur á greni
fálki á himni.
16
Vorvindar syngja
í nýsprottnu grasinu
regn vætir svörðinn.
17
Vor ber að garði
að vetri ósigruðum
lætur ei bugast.
18
Vorvindar blása
tíðindi nokkur í bæ
senn kemur lóan.
19
Fluga á nefi
flytur hlýleg tíðindi
vorið er komið.
20
Vorið hvíslar orð
blítt í mannanna eyru
bíðið mín vinir.
21
Gras í laut sprettur
lauf teygir sig mót himni
söngur í lofti.
22
Þær hendur eru
skapaðar til að leiðast
í gegnum vorið.
23
Vorblærinn kallar
alla til leiks og gleði
á grænum völlum.
24
Nú er suðrið sælt
og andar vindum þýðum
eins og Jónas kvað.
25
Lék lamb í haga
roðaský himna sigldu
vorið nam mæla.
26
Stræti undir fót
gefa regnvotar stéttar
ungum elskendum.
27
Krakkar í pollum
una dagana langa
hag sínum all vel.
28
Má bjóða þér te
að drekka á vertshúsi
nú, er vorið grær?
29
Ljóðpenni á skeið
tekur yfir hvíta örk
málar dans á blað.
30
Sælt er vorið grænt
Vetur konungur fallinn
söngur í hjarta.
HÆKUR
UM
SUMARIÐ
1
Blæ ber af hafi
fagnar blómskrúð í garði
og hjörtu sem þrá.
2
Lóan ber sumar
með söng sínum norður höf
á gróandi Frón.
3
Ástin er yndi
sumars er blómin gróa
í heitum hjörtum.
4
Blítt hjalar barnið
í fögrum blómagarði
sitt fyrsta sumar.
5
Sumarið syngur
og dansar í brjósti þér
mín ljúfa - mitt líf.
6
Blábjört nótt og kyrr
þögult um fjöll og firði
blóm í værð bærist.
7
Smár garður skáldsins
blóm við blóm án skipulags
fegurð á stangli.
8
Sumarljóð kveðið
henni sem hjarta minn ann
og hug minn hvetur.
9
Greið liggur leiðin
frá grænum sumardölum
að dýpstu rósemd.
10
Seytlandi lækur
skáld nýtur dýpstu kyrrðar
uns spóinn vellur
11
Öll drukkum við te
úti á veröndinni
laufið skrýddist kyrrð.
12
Fátt er eins dapurt
og einn sokkur hangandi
á þvottasnúru.
13
Mildum höndum fer
sumarið um gamlan mann
við sálnahliðið.
14
Grænar fjallshlíðar
varpa dimmum skugga fram
yfir sléttuna.
15
Dregur pensil létt
yfir hvíta örkina
lifnar skjótt fegurð.
16
Eldur á arni
logar að sumarkvöldi
hæka fest á blað.
17
Birkitré prýðir
garðinn minn sumarið stutt
og hýsir hreiður.
18
Kjötteinninn hitnar
nú nálgast máltíðin ljúf
og rauðvínsdrykkja.
19
Kötturinn leikur sér
hróðugur mjög að mýslu
í grimmum kjafti.
20
Dimm gerist nóttin
nálgast það, haustið svala
enn er þó sumar.
21
Borgin að morgni
rís sem kona af beði
brosir mót degi.
22
Ást í brjósti grær
sem sumarblóm í haga
ilmar af morgni.
23
Lítil börn að leik
á fögrum sumardegi
margs er að vænta.
24
Morgunsólin skín
á bláu himinhveli
örlar á manni.
25
Standa við vatnið
og bíða fiskjar í ró
það fylgir sumri.
26
Hvílumst við bakka
tjarnar þar sem lífið grær
og þögn er óður.
27
Þröstur í skógi
þar syngur hann sumarlangt
þögn, hér er lífið.
28
Fjöll blána fjarri
þegar dagana lengir
er stutt til drauma.
29
Skál sumri og sól
skál djúpblárri tærri lind
heill þresti á grein.
30
Fjallasýn fögur
óður á tungu leikur
sumarbjarta nótt.
HÆKUR
UM
HAUSTIÐ
1
Haust ber að garði
hægum, ákveðnum skrefum
gengur það í bæ.
2
Gránar í fjöllum
læðist að niðdimm nóttin
lauf fellur af trjám.
3
Rautt gerist laufið
gult og brúnt í haustsvala
krían flaug suður.
4
Haustlaufið bærist
hægt undan austanvindi
litadýrð dansar.
5
Haust lætur fallast
í kaldan vetrarfaðminn
frostrósir spretta.
6
Gengur einn áfram
föl stræti í hauströkkri
miðar hægt göngu.
7
Að hausti skrjáfar
í fölnandi laufskrúði
litbrigði dvína.
8
Hauströkkrið smýgur
hratt gegnum tímans möskva
þekur stund hverja.
9
Gnauðar í trjánum
norðanvindurinn napri
lauf berst loftvegu.
10
Gulur er akur
sumarsins skrauti sviftur
haustgulur akur.
11
Haustið er kona
gangandi dulda vegu
í gulum klæðum.
12
Haustið er fagurt
töfrandi geislum slegið
og litbrigðum skreytt.
13
Haustregnið bylur
á þakinu næturlangt
vær er mér svefninn.
14
Það rökkvar í kvöld
og máninn siglir sinn sjó
handan við skýin.
15
Hvers mega sín orð
þegar haustið um lönd fer
logandi skýjum?
16
Land hulið þoku
hauströkkrið ei yfir mér
heldur haustdrungi.
17
Nú fellur laufið
fölnað af greinum trjánna
haustblær strýkur kinn.
18
Börn á skólabekk
laufið dregur sinn lærdóm
fall er blómstri næst.
19
Regndropi fellur
af trjágrein á brúna jörð
brátt mjallarhvíta.
20
Hross ber fram veginn
gráan og votan haustdag
framlágir knapar.
21
Regndropaværðin
leggst eins og voð yfir land
ró hvílir hugann.
22
Hausthrammur liggur
þungur á landi og sjó
grár fyrir járnum.
23
Ós ber til sjávar
og telst vart til tíðinda
hann er grár, ósinn.
24
Rennur til réttar
forðinn væni af fjalli
munnfylli landans.
25
Ferð um dulda slóð
fara gráir haustdagar
mót hvítum vetri.
26
Fölva slær á gras
laufið krýnist litadýrð
senn þekur snær storð.
27
Þorpsgötur fyllast
börnum á leið í skólann
hausttáknin ungu.
28
Lækir verða ár
og árnar beljandi fljót
haustkveðjur fjalla.
29
Ber um loftsali
hratt til suðlægra stranda
fiðraða vini.
30
Kári hvín norðan
napur nú kveður sér hljóðs
hjúpur hauströkkurs.
HÆKUR
UM
VETURINN
1
Nú kárnar gaman
stormur um þorpið næðir
hvöss er vetrarkló
2
Fjallstindar hvítir
neðar þokar sér snjórinn
uns fönn hylur láð.
3
Frostrósir spruttu
fagrar í glugga mínum
horfna bernskutíð.
4
Foss reyrður böndum
klaka í ógnarkulda
sjálfur hugur frýs.
5
Líkust mildri hönd
leggur mjöllin líkn sína
yfir freðna jörð.
6
Norðurljós dansa
grænblá á svörtum himni
fax Pegasusar.
7
Undir fjallsrótum
liggur fagurskaptur steinn
snær hylur yndi.
8
Máni siglir höf
fullur á myrkum himni
glottir til jarðar.
9
Vetur konungur
hefur skrýðst klakakrónu
og sveipast stormi.
10
Nú næða vindar
naprir yfir sléttuna
hross safnast í höm.
11
Álútir ganga
þorpsbúar upp í vindinn
vetur í fangið
12
Hér sunnan heiða
er veturinn gjarnan grár
hvítur í minni.
13
Nístandi stormur
bítur helbláar kinnar
nöturlegur koss.
14
Norðanvindur blæs
napur yfir sléttuna
bylur hylur fjöll.
15
Fljótið ísi lagt
bláhvítur klaki þekur
vordrauma ljúfa.
16
Auðn þar sem spruttu
grösin um gróna velli
þá sumarblær kvað.
17
Ljós skín af jötu
stjarna í austri blikar
vetur úr sál fer.
18
Ljósastaur varpar
skímu mót svörtum himni
hrafn hverfur sjónum.
19
Morgunroði rís
örmjór en víkkar stöðugt
mót köldum degi.
20
Dimmt er himinhvolf
kaldlyndur siglir máni
glottir til jarðar.
21
Nær rekur hafís
snæfi þöktum annesjum
kalhvít er sú mynd.
22
Þorp undir fjalli
hengjur í hlíðum dorma
dauðahvítur snær.
23
Úr hvítri fjallshlíð
rísa sígræn grenitré
lífstákn í frera.
24
Yfir sveitina
berst mildur klukknahljómur
hvíta jólanótt.
25
Nokkuð er vetur
seinn á ferðinni í ár
ég sakna hans lítt.
26
Óbilgjarn jafnan
og mislyndur úr hófi
skröggurinn vetur.
27
Skammt milli myrkurs
dagskíman heldur daufleg
skuggar á ferli.
28
Nú þyngjast sporin
snjórinn dýpkar á götum
lund manna þyngist.
29
Hvert spor yfir fönn
liggur að vori blíðu
með lóunnar söng.
30
Þú þöguli snær
mjúk er hún, þín hvíta för
fjarlægi dauði.