Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
1
Ský sigla vestur
yfir græna sléttuna
mildan sumardag
2
Köttur í glugga
vindur á sléttunni hvín
húm værir hugann.
3
Snær á fjallinu
og haustið kveður sér hljóðs
með nöprum hlátri.
4
Þvottur á snúru
hangir í regnvotri værð
ský sigla á braut.
5
Undir kóngsfæti
lá vegurinn til austurs
hver var sjóli sá?
6
Reykjafjall vakir
yfir sléttunni í nótt
húmið boðar haust.
7
Gras grær á velli
blómin anga í beði
áin rennur stríð.
8
Nú andar þögnin
grenið skríður upp fjallið
hver blundar í hlíð.
9
Skógarstígurinn
hvíslar sögu í eyru
hér liggja mörg spor.
10
Stráhattur kælir
höfuð skálds í sólinni
húnveskur forðum.
11
Skuggsæll garðstígur
veit á sól handan runna
blómin bíða regns.
12
Blærinn bærir lauf
í iðandi trjám þorpsins
vindur að sunnan.
13
Undir heiðinni
kúrir þorpið í rósemd
kyrrð þess er fögur.
14
Kvöldkul af hafi
hrafnar fljúga í björgin
fjallið sveipast þögn.
15
Enn blundar Hekla
tröllkona elds og ísa
kraumar í iðrum.
16
Fugl syngur á grein
skáldið dregur upp penna
vorblær kyssir jörð.
17
Laufskáli myndar
hvelfing um mannanna spor
og hverfulleika.
18
Garðbekkur býður
gesti að dvelja um stund
í blómailmi.
19
Brúnn skógarstígur
dylst í grænni laufkrónu
slóð elskendanna.
20
Hverju hvíslar fjall
að sléttu þá vindur blæs
mannheimar sofa.
21
Marglitt laufskrúðið
fagnar svölum haustvindum
vængi ber við ský.
22
Hrafn sem tinnuflís
á bláum himni hverfur
sjónum í fjarska.
23
Blóm í beði grær
regnið svalar blöðum þess
litadýrð dansar.
24
Regnið leggur værð
yfir þorpsins grænu voð
hundur á rölti.
25
Morgunroði slær
bjarma á fljótsins helgi
líf kætir bakka.
26
Eyrarbakki fjær
handan grænnar sléttunnar
hafblámi sunnar.
27
Kögunarhól ber
fyrir Selfoss héðan séð
leiðin fjær hulin.
28
Eyjar í fjarska
hvíla á öldum hafsins
máni fer sér hægt.
29
Ingólfsfjall teygir
anga fram græna sléttu
vegur sker landið.
30
Fákarnir spretta
úr spori, glæst er förin
hófadyn ber vítt.
31
Hraun á heiðinni
angar af grænum mosa
neðan streymir fljót.
32
Hún hefur spunnið
sér vef í glugga mínum
sú margfóta frú.
33
Við stíginn grær blóm
ferðalúnum til yndis
dveljum hér um stund.
34
Ölfusið baðað
í sólarljósi björtu
vart ský á himni.
35
Á safni situr
vörður skjala og sögu
stundirnar flæða.
36
Sigla himinský
austur í átt að Heklu
sú gamla blundar.
37
Ofan af Kömbum
blasa Eyjar við sjónum
í tiginni ró.
38
Fjallasýn fagra
tæpast þó tígulega
ber fyrir augu.
39
Regnvotar götur
fölnandi laufið fellur
svo líður hver stund.
40
Málar í laumi
svo hógvær að litirnir
eru blaðljósir.
41
Hjónin með hundinn
draga vagn undir vörur
fram eilífðina.
42
Ferð gegnum tómið
þoka hylur heiðina
uns Ölfus brosir.
43
Nótt vefur örmum
sofandi sléttuþorpið
í þess myrku ró.
44
Hvar Varmá rennur
blundar þorp á sléttunni
þau fara sér hægt.
45
Krummi á flugi
krunkar yfir sléttuna
rámur ljúflingsljóð.
46
Mjúkur snjór fellur
sveipar þorpið blíðri værð
sorg handan sjónmáls.
47
Sjá, nú sunna rís
yfir sléttuna hvítu
mildar vetrarmynd.
48
Hrafn fer loftvegu
sá minn svartastur vina
með marglita sál.
49
Hestur í haga
einn - horfir vonaraugum
í bláan fjarska.
50
Ótt fellur regnið
líkt og barið sé á dyr
og biðlund fjarri.
51
Mávur á flugi
hafbláma fjarri og strönd
hvaðan ber þig að?
52
Vindur ber þorpið
sá napri í janúar
og missir ei marks.
53
Læða á göngu
sú snjöllust veiðiklóa
læðist um garða.