Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
Aftur
á forsíðu
NOKKRAR SMÁSÖGUR FRÁ
GEORGÍU
Pjetur Hafstein Lárusson og Grigol Matsjavariani
AÐFARARORÐ
Í október
árið 1992 birtist í Morgunblaðinu bréf frá ungum
Georgíumanni, Grigol Matsjavariani að nafni. Óskaði hann þar
eftir því, að komast í samband við Íslendinga, enda
hafði hann lært íslensku við erfið skilyrði og vildi auka
þekkingu sína á þeirri tungu. Er ekki að orðlengja
það, en bréf þetta skilaði þeim árangri, að
Davíð Oddson forsætisráðherra, bauð Grigol og konu hans,
Irmu Odevoladze til Íslands. Dvöldu þau hér frá
því í ársbyrjun 1993 og fram á vor.
Meðan
á dvöl þeirra hjóna stóð, varð ég
þeirrar ánægju aðnjótandi að kynnast þeim.
Það varð að samkomulagi með okkur Grigol, að ég
aðstoðaði hann við íslenskuþýðingar á
georgískum bókmenntaverkum. Því miður er ég ekki
sleipari í tungu Georgíumanna en svo, að ég skil ekki einu sinni
letrið sem þeir nota. Samvinna okkar Grigols takmarkaðist því
við það, að hann grófþýddi yfir á
íslensku, en ég slípaði þýðingar hans. Unnum
við þannig saman við þýðingu á helgisögninni „Píslarvætti hinnar heilögu Sjúsjanikar drottningar". Sú
sögn er frá fimmtu öld og kom íslensk þýðing hennar
út á vegum bókaútgáfunnar Fjölva árið
1996. Er það hin vandaðasta útgáfa, fagurlega myndskreytt af
georgískri listakonu, Dali Mukhadze að nafni. Verður ekki annað sagt, en
að sú útgáfa sé Þorsteini Thorarensen
bókaútgefanda til sóma.
Þegar þau Grigol og Irma
snéru heim til Georgíu vorið 1993, var ætlunin að samstarf okkar
Grigols héldi áfram. Póstsamgöngur milli landanna voru hins vegar
það ótryggar, að ekki gat af því orðið. En Grigol
hélt áfram að grófþýða georgískar
bókmenntir yfir á íslensku, enda hugðumst við hittast
þegar færi gæfist. Af endurfundum okkar varð þó
ekki. Þann 21. mars 1996 lenti Grigol í bílslysi, sem leiddi hann til
dauða, aðeins 33 ára að aldri.
Þegar Grigol lést,
hafði hann grófþýtt nokkrar georgískar smásögur
á íslensku. Skömmu eftir lát hans kom ekkja hans, Irma, til
Íslands, þar sem hún stundar nú íslenskumám við
Háskólann. Hafði hún þessi verk Grigols með í
farteskinu. Hef ég nú farið yfir þær þessara
grófþýðinga, sem hér birtast. Þess ber og
að geta, að Grigol vann ekki aðeins að þýðingum
georgískra bókmennta á íslensku. Hann þýddi
á móðurmál sitt ævisögu Jóns Arasonar eftir
Þórhall Guttormsson og kom sú bók út í Tbilisi
árið 1997. Sama ár komu út í einni bók,
þýðingar hans á íslenskum fornbókmenntum,
þ.á.m. Gunnlaugssögu ormstungu og Grænlendingasögu.
NOKKUR ORÐ UM HÖFUNDA SMÁSAGNANNA
Ilja Tsjavtsjavadze, höfundur smásögunnar Í gálganum fæddist
þann 27. október á því herrans ári 1837, í
sveit þeirri í austurhluta Georgíu, sem Kvareli heitir. Hann
þótti mikill þjóðmálaskröungur og andlegur
leiðtogi Georgíumanna. Tvítugur að aldri hleypti
Tsjavtsjavadze heimdraganum og hélt til St. Pétursborgar þeirra erinda,
að leggja stund á laganám. Þar dvaldi hann til ársins 1861 og
hafði dvölin í höfuðborg Rússakeisara mikil áhrif
á hann, bæði sem rithöfund og að öðru leyti.
Á þessum tíma voru skrifaðar merkar bókmenntir, sem urðu
hvati í listrænum efnum Georgíumanna. Ekki fór Tsjavtsjavadze
varhluta af því, enda tamdi hann sér jafnt evrópska sem
georgíska menningu. Skrifaði hann bæði ljóð og lausamáls
bókmenntir. Einnig stóð hann í útgáfu
tímarita. Árið 1873 þýddi Tsjavtsjavadze Lér
konung Shakespeares í félagi við Ivane Djavakhishvili. Einnig skrifaði
hann merkar ritgerðir, s.s. um bókmenntir og fræðslumál.
Þau urðu örlög þessa merka rithöfundar og
fræðinmanns, að hann var myrtur þann 30. ágúst
árið 1907.
Þá er að nefna
Giorgi Leonidze, höfund
smásögunnar Óskatréð. Hann fæddist þann 27.
desember árið 1898. Líkt og Tsjavtsjavadze var hann mikill þjóðmálaskröungur og var það ekki síst fyrir
forgöngu hans, að stofnað var þjóðminjasafn í
Georgíu, sem eftir dauða hans ber nafn hans. Giorgi Leonidze lést
þann 9. ágúst árið 1966.
Höfundur
smásögunnar, Dæmd reykjarpípa, Vazja Pshavela fæddist
árið 1861. Hann reyndi fyrir sér í
guðfræðinámi, líkt og alræmdur landi hans og
samtíðarmaður, sem ekki skal nefndur hér, en snéri sér
fljótlega að kennaranámi. Eftir að hafa lokið því,
var hann um tíma farandkennari, en settist loks að í
fæðingarsveit sinni og kenndi þar. Skáldverk sín, sögur,
smásögur, ljóð, bæði fyrir börn og fullorðna,
skrifaði hann á nóttinni. Einnig vann hann mikið við söfnun
alþýðukveðskapar. Ekki varð Pshavelta frægur af
verkum sínum í lifanda lífi, en þeim mun betur þekktur
eftir andlátið. Hafa verk hans verið þýdd á margar
tungur, m.a. rússnesku, ensku, þýsku og frönsku. Hann andaðist
í Tbilisi, höfuðborg Georgíu 27. júlí árið
1915.
Tsjola
Lomtatidze, sá er samdi smásöguna Grammófónninn, fæddist í héraðinu Tsjokhatári í
vesturhluta Georgíu, nánar tiltekið þar í sveit, sem kallað er Tsjatsíeti. Fæðingu hans bar
upp á 24. dag júnímánaðar, á því herrans ári 1879.
Ungur að árum tileinkaði Lomtatidze sér marxsma og var fyrir vikið rekinn úr skóla. Hann tók
virkan þátt í pólitísku starfi og naut um tíma gistivináttu keisarans, sem pólitískur fangi
í Úkraníu. Það var á árunum 1907 til 1914. Þá var hann látinn laus en fékk þó ekki að snúa
aftur heim. Hann lést í rússnesku borginni Saratov þann 11. september árið 1915.
Lomtatidze skrifaði verk sín, sem bæði eru í bundnu máli og lausu, á miklum umbrotatímum í
sögu rússneska keisaradæmisins. Þótti hann feta stigu raunsæishöfunda og byltingarsinna.
Akaki Cereteli, höfundur smásögunnar Tveir draumar, fæddist þann 9. júní árið 1840, í sveit
þeirri er Skhitori kallast. Er hún í vesturhluta Georgíu. Árið 1852 hóf hann nám í
menntaskólanum í Kútaisi, sem er stærsta borg Georgíu að Tbilisi frátalinni. Sjö árum síðar
lá leið hans til St. Pétursborgar, þar sem hann innritaðist í austurmáladeildina við
háskólann þar. Það var á þessum tíma, sem Cereteli hóf að skrifa. Eftir hann liggja ljóð,
smásögur og leikrit.
Cereteli þótti gamansamur maður og kalla Georgíumenn hann gjarnan „lævirkja Georgíu".
Heimildarmynd hefur verið gerð um ævi hans, sem og leikin kvikmynd. Akaki Cereteli lést árið
1915.
P.H.L.
ILJA TSJAVTSJAVADZE
Í GÁLGANUM
Grófþýðing: Grigol Matsjavaraiani. Yfirferð
þýðingar: Pjetur Hafstein Lárusson.
I Það var hásumar. Dalirnir og
fjallgarðurinn voru skrælnaðir af þurrki og höfðu
brugðið lit. Þann dag er við byrjum á sögunni, brenndi
sólin landið, svo það var glóðheit líkt og kyntur
ofn. Lémagna af hitanum drógu menn andann við illan leik.
Tvíhjólavagnarnir stóðu í röð við Lotsjinigil.
Svo mjög hafði sjatnað í ánni í gilinu, vegna
þurrkanna að hún læddist milli steinanna á gilsbotninum.
Vesælu vagneklarnir sem voru á leið til borgarinnar til að selja
þar vín, lágu undir vögnunum örmagna af hitanum og
snéru andliti sínu til jarðar. Allir sváfu þeir en nokkrir
strákar stóðu við árbakkann og heltu vatni úr
tréausum á griðunga, sem lágu í leti og glenntu upp ginin.
Fáein naut stóðu þarna jórtrandi með lokuð augu.
Þau slóu til halanum til að fæla burt flugur. Sólin
hélt til vesturs. Molluheitt loftið bærði á sér. Og
þessi þöguli staður lét til sín heyra. Smám saman
risu vagneklarnir á fætur og hristu af sér deyfðina. Þeir
helltu vatni á andlit sér og ráku eykin til að binda á
þau klafana. Dýrin höfðu farið út dalinn að bíta
þurrt gras eftir að hitinn frammi í dalnum varð þeim
óbærilegur. "Hei, ho-o-o, hí-hoj", heyrðist frá
vögnunum, "landeyðurnar ykkar" og ýmislegt þaðan af verra.
Nær griðungarnir voru bundnir á klafana og sá vagneklanna, sem sat
á fremsta vagninum reiddi upp svipuna til að mjaka dráttardýrinu
úr stað, komu tveir piltar niður gilið. Báðir klæddust
þeir hermannajakka úr vaðmáli. Annar þeirra bar stóran
Tsjerkeskanhatt á höfði sér. Hatturinn sat þannig á
höfði piltsins, að augljóst var, að hann var annars eign. Hinn
drengurinn bar gamaldags rússneska hermannahúfu. Sá með
Tsjerkeskenhattinn virtist vera 16 til 17 ára að aldri, hinn aðeins 14
eða 15 ára. Andlit þess eldra var ekki viðkunnanlegt; grönn hakan,
þreytuleg en þó snör og deplandi augun benti til þess, að
pilturinn sá væri ekki allur þar sem hann var séður. Yngri
staulinn líktist þeim eldri og þó ekki. Útlit þeirra
var svipað, en hann bauð af sér betri þokka. Svört og djúp
augu hans voru flöktandi. Hann yggldi brýrnar. Það var líkt og
með honum bærðist geðshræring, sem hann stillti sig um að
láta í ljós. "Sælir séuð þið",
sagði eldri drengurinn. "Komið þið sælir", svaraði
sá, sem fyrir vagneklunum fór. "Þið virðist vera á
leið til borgarinnar". "Þú átt kollgátuna", var
hrópað glettnislega af einum vagninum. Eldri sveinninn tók
spauginu brosandi, en sá yngri yggldi brýrnar sýnu meir enn fyrr.
Reiðin blossaði sem leiftur í andliti hans. Þó hamdi hann skap
sitt. "Ó, Guð formæli öllu ómenni"! hrópaði
sá eldri. "Við vorum í aðalsmannaskólanum, enda erum við
bræður göfugrar ættar". "Bedjan"! hrópaði nú
yngri bróðirinn og þaggaði niður í hinum með
augnaráðinu. Fljótlega tók Bedjan þó upp
þráðinn þar sem frá var horfið: "Já,
við bræður erum fyrirmenn. Faðir okkar sendi okkur peninga til að
við gætum leigt rússneskan hestvagn, til að flytja okkur heim í
sumarleyfi. Guð formæli öllu ómenni! Við sömdum við
Rússa einn um að hann færi með okkur til borgarinnar. En á
leiðinni varð hann drukkinn, sparkaði okkur úr hestvagninum og
hélt leiðar sinnar. Við sátum eftir með sárt enni.
Fúlmennið hvarf okkur sjónum með allan okkar farangur í
vagninum og átta rúblur að auki, sem hann hafði haft af okkur".
Nú var sem æði rynni á yngri bróðurinn. Hann
snéri baki í bróður sinn og vagneklana og einblíndi á
hina hnígandi sól. "Hann tók með sér frakka, sem
kostaði fimm túman", (50 rúblur), sagði Bedjan, eldri
bróðirinn. "En fjandinn hirði frakkann, hann er ekkert til að
drúpa höfði yfir, enda er faðir okkar stöndugur maður".
Sá yngri snéri sér að bróður sínum,
öllu reiðari enn fyrr. "Nei, nú er mér nóg
boðið, Bedjan", hvæsti hann í bræði sinni. Bedjan lét
orð hans sem vind um eyru þjóta og hélt áfram talinu.
"Við höfum soltið í tvo daga", sagði hann, "og vitum ekki
til hvaða bragð skal taka á þessum ókunnugu slóðum".
"Guð sé oss næstur", svaraði gamall ekill, sem sat á
einum vagninum. "Þekkið þið ekkert til í þessu
héraði? Það mætti halda að þið værið
í Tataralandi en ekki hinni kristnu Georgíu. Við skuldum gera ykkur
góða veislu með gnægð matar og víns. Svei þeim, sem
gert hafa á ykkar hlut! Og til borgarinnar skulum við koma ykkur. Hvorki skulu
regn né stormar eða sólbrenndir sandar hefta för ykkar".
Yngri bróðirinn lyfti brúnum. Svipur hans lýsti sýnilegri
velþókknun. Gleði skein úr yfirbragði hans, líkt og hann
fyndi nú í fyrsta sinn fyrir mannlegri gæsku og fagnaði henni um
leið. Gamli maðurinn opnaði matarskríni, færði
bræðrunum brauð og skengti þeim vín úr belg.
"Jæja Petre", ávarpaði gamli maðurinn sjálfan sig. "Jafnvel
hvolpar svelta ekki í hel í okkar blessaða landi, svo hverju
kvíðið þið? Svona nú, borðið, synir mínir.
Takið ekki þetta þurra brauð til marks um að við séum
nískir. Í nótt munum við gefa ykkur steikt kindakjöt, svo
ljúffengt að sjálfur Tyrkjasoldán mundi sleikja út um
biðist honum slíkt ljúfmeti". Petre tók báða
drengina upp í vagninn til sín. Að því búnu var
kallað til brottfarar og vangalestin hélt af stað. Rykið
þyrlaðist yfir þurran veginn. Þegar dró að
matmálstíma þá um kvöldið, slepptu vagneklarnir nautunum
í haga nærri útjaðri borgarinnar. Komust þeir þannig
undan nautaskatti. Þeir tóku bretti af vögnunum og kyntu bál. Petre
steikti kindakjöt handa hinum ungu gestum og veitti þeim aðrar
góðgjörðir, sem hann mátti. Að loknum snæðingi
lögðust menn þreyttir til hvílu og sofnuðu von bráðar.
Griðungarnir tvístruðust um beitilandið, en verðir gættu
þeirra. Petre breiddi kápu sína þar sem piltarnir skyldu leggjast
og sagði: "Þið eruð göfugir menn og afberið
því ekki, að liggja á jörðinni eins og við". Sveinarnir
lögðust fyrir og Petre nærri þeim. Hann leið útaf, sem
dauður væri. Það bjarmaði af degi. Vagneklarnir risu
á fætur. Petre hugðist vekja bræðurna, en sá
þá hvergi, eins þótt hann renndi augum yfir alla vagnana.
"Fjandakornið"! hrópaði gamli maðurinn, þegar hann hafði
fullvissað sig um, að yngissveinarnir höfðu laumast á braut.
"Þeir skulu eiga mig á fæti. Læðast burt, ekki nema
það þó", tuldraði hann í barm sér. "Einhverju
hljóta þeir að hafa stolið", bætti hann við". Petrer
sem fór til borgarinnar til að selja vín, var rændur! En hver
gerði þetta? Brjóstmylkingar! Vasarnir skornir af fötunum. Fjandinn
fjarri mér"! "Hafa þeir stolið miklu"? spurði einhver.
"Ekki svo miklu, að eigi verði bætt", ansaði Petre. "En söm
er mín smán. Ég hef verið rændur af brjóstmylkingum.
Nú er ég orðinn að viðrini í augum ættmenna minna og
nágranna. Ja, fyrst Georgíumaður setti upp rússneskan hatt er
útséð um samvisku hans". Hann lét sem sér
þætti lítið til skaðans koma og freistaði þess að
slá þessu öllu upp í grín. En í rauninni
skammaðist hann sín.
II
Fjögur ár liðu. Það var á öndverðu vori,
að Petre, þá hniginn að aldri, fór til borgarinnar til að
kaupa kvartstein. En hvernig fór hann? Jú, á sömu
sjálfsánægjunni og áður. Og heldur hafði hún
aukist, einhverra hluta vegna. Eftir ævintýrið, sem þegar er
rakið, hætti hann að aka vögnum. Sagði hann oft við syni
sína, með nokkrum trega, að ekki væri hann jafn röskur sem fyrr.
Nú sat eldri sonur hans á vagninum, en sjálfur lá Petre á
vínbelg líkt og Tyrkjasoldán, en leiðarhani var á vagni
sonar hans. Petre fagnaði sæmd hans og státaði af henni. Var hann hinn
kátasti og hugðist gleðja skrukku sína, er heim kæmi.
Petre varð tafsamt í borginni fáeina daga. Lestinni seinkaði einnig og
virtist aldrei ætla að halda af stað heimleiðis. Loks urðu menn
ásáttir um að halda heim í skini aftanröðuls. Petre
hafði keypt kvartsteininn. Hann ók vagninum að fjósi við
gistihúsið. Það var á hádegi. "Nú hef
ég ekkert fyrir stafni", hugsaði Petre. "Ráð væri að fara
á Avlabaritorg og leita tíðinda". Mikill fjöldi manna var
jafnan á torginu. Stóðu þeir víða skvaldrandi í
hópum og var af nokkur hávaði. Petre gekk að einum hópnum, til
að vita hvað þar væri á seyði. Þar var honum sagt
að áður en skotið yrði af fallbyssu á Makhatafjalli, yrði
maður nokkur festur upp á gálga. Aldrei á sinni
lífsfæddri ævi hafði hann séð slíka athöfn.
Fæturnir báru hann ósjálfrátt að
aftökustaðnum. "Mörg hef ég séð tárin falla
um dagana", hugsaði hann. "Ekki er úr vegi að horfa á þetta".
Fylgdi hann nú fjöldanum. Á Makhatafjalli ægði saman
mislitri hjörð. Þar reis gálgi mót himni og stóðu
hermenn vörð um hann. Fyrir framan hann var autt torg. Þangað var engum
hleypt. Litaðist Petre um og undraðist, enda hafði hann ekki fyrr séð
slíkt fjölmenni. "Gerum ráð fyrir því að
karlmennirnir séu komnir hingað sér til gamans. En konurnar; hvað
dregur þær hingað"? Hann var farið að gruna að allt
væru þetta eintóm trúðslæti. En þetta er ekki svo
slæmt, þótt henging ætti ekki að vera mönnum
þókknanleg sjón. Menn á ekki að hengja eins og ketti, enda
eru þeir börn Guðs. En hvað margar kerlingar hafa flykkst hingað!
Já, seint verður skemmtanahvöt kvenna fullnægt! Og hver var akkur
þess Armena, sem taldi mér trú um að hér skyldi fara fram
henging? Hélt hann ef til vill að sveitafólk léti ljúga
í sig hverju sem væri? Ekki hefði ég komið hingar, vitandi
að þetta væri aðeins skrípaleikur, svei mér
þá. En náttdimmur er hugur manna, þegar annarra dauði dregur,
enda dró mig hingað fýsn til að sjá mann hengdan. Víst
takast á syndir og gæði í smáum sálum. Svo er
nú það". Þannig hugsaði Petre þess fullviss að engin
alvara væri hér á ferðum. Loks æpti einhver upp yfir
sig: "Þeir eru að koma með hann"! Petre litaðist um og sá
dáta leiða mann nokkurn, klæddan rússneskum hermannafrakka. "Haltu
þig utan seilingar", hugsaði hann með sér, "trúðu ekki
þessum andskotum. Þetta er aðeins blekking. Gerðu þig ekki að
viðundri, enginn skal bera upp á þig afdalamennsku". En samt
olnbogaði hann sig áfram í mannþrönginni, til þess að
sjá sem best hverju fram yndi. Dátarnir gengu fram hjá honum í
lítilli fjarlægð og leiddu milli sín manninn í
hermannafrakkanum. "Fjandinn hafi það", sagði Petre
ósjálfrátt. "En hvað þeir eru líkir dátum! Og
þeir klæðast einkennisbúningum! Og ekki vantar að þeir hafi
lært að handfjatla byssur.". "Einmitt", sagði kerlingin, "svona
árans trúðar eru þessir borgarstrákar. Og
furðulíkir rússneskum pjökkum". Meðan á
þessari einræðu stóð varð Petre litið á manninn
í hermannafrakkanum. Hann virtist vera tvítugur að aldri eða þar
um bil. Honum var lítillega sprottin grön. Hann var nábleikur. Skyndilega
rann upp ljós fyrir Petre: "Drottinn minn dýri, þetta
hlýtur að vera trúðurinn sjálfur! Hef ég annars ekki
séð þennan mann? Almáttugur Guð, hjálpaðu mér
að rifja upp; hvar ég hef séð manninn". Þannig tuldraði hann
í barm sér en var þó engu nær.
"Borgarstrákur er hann að minnsta kosti", sagði hann loks. "Jæja,
ég hef svo sem séð urmul af ókunnugu fólki um dagana, hver
veit nema ég kannist við andlitið úr hópi þess? En
hvað hann er nábleikur, líkt og það eigi í raun og veru
að hengja hann. Nei, góðir hálsar, narri er ég ekki"!
"Örlög þín gera móður þína vesæla",
hrópuðu heldrikonur að manninum í hermannafrakkanum. Enn hvað hann
var ungur. Petre undraðist þessa háreysti. "Ja, víst er
sagt", hugsaði hann, "að meira sé hárið á höfði
kvenna en vitið í því. Samt eru þær slóttugar.
Hver veit nema þær vilji ólmar ljúga mig fullan, sveitamaninn!
Gættu þín Petre, láttu þær ekki snúa á
þig. Gerðu þig ekki að viðundri, háaldraða karlmenni!
Fjandinn hirði þennan borgarlýð, karla jafnt sem konur. Það
er eftir þessu pakki að spotta okkur sveitafólkið, rétt eins og
það standi skrifað utan á okkur að við séum
frábrugðin öðru fólki". "Auminginn þinn",
sagði kerling ein, "bara að þú hefðir verið skynsamur. Vertu
nú tryggur minningu móður þinnar". "Haltu áfram
að skvaldra sem þér líkar", sagði Petre við sjálfan
sig. "Til þess er þér trúandi. Og ég, enn einn
sveitaaulinn. Örlögin. Mannauminginn verður að deyja og foreldrar hans
munu loga í eldi sorgarinnar. Guð almáttugur, frelsa þú alla
kristna menn"! "Hafa allir bundist samtökum gegn mér, til þess
eins að hafa mig að fífli"? tuldraði Petre. "Það er best
ég forði mér sem skjótast, áður en þessar
kerlingar gera mig að viðundri". Hann forðaði sér,
lét sig hverfa í mannþrönginni. Einnig þar var ekki
þverfótað fyrir kerlingum. Það var sem innri maður Petre
væri tvískiptur; annars vegar vildi hann leita sannleikans, á hinn
bóginn var skömmin öllu öðru yfirsterkari. "En hvað
hann er ungur, auminginn", sagði einhver kerlingin. "Það er tæpast
að hann sé fæddur enn þá, dauðadæmdur maðurinn.
Að hugsa sér hvað lagt er á hjarta móður hans.
Algóður Guð, láttu mig aldrei þola neitt þessu
líkt", bætti hún við og barði sér á brjóst.
"Svei", muldraði Petre hneykslaður. "Að svo mikill mannfjöldi
skuli verja tíma sínum til þess eins að hæða mig og
spotta! Það er vissara að spyrja einskis. Meðan ég hef
hljótt um mig verð ég síður aðhlátursefni.
Gættu að þér Petre, gerðu þig ekki að
ginningarfífli þessara borgarslæpingja". Þannig
hugsaði hann, sannfærður um að allir væru í raun að draga
dár að honum, sveitamanninum. Honum þótti nú ráð
að forða sér. Það er ekki að spyrja að því,
þegar geðshræringin dregur menn á asnaeyrunum.
III Meðan á þessu gekk var
strákurinn í hermannafrakkanum leiddur til gálgans. Stóð
nú prestur honum á aðra hönd en embættismaður á
hina. Böðull, klæddur rauðri skyrtu, stóð fyrir aftan
þá. "Er þessi prestur jafn brjálaður öllum
hinum"? hugsaði Petre, þar sem hann horfði til gálgans. "Naumast er
slíkur leikur samboðinn geistlegri virðingu hans. Og hver skyldi hann vera,
þessi í rauðu skyrtunni? Það lítur helst út fyrir
að hann sé aðaltrúðurinn". Embættismaðurinn
dró fram blað og las. Þetta hlaut að vera hápunktur
sýningarinnar og endalok. Þetta hafði nú verið aldeilis
furðuleg skemmtun. Presturinn sagði eitthvað við strákinn. Petre
sperrti eyrun og reisti sig á tærnar. En hann heyrði ekki orð
prestsins, til þess stóð hann of langt frá gálganum.
Loks var strákurinn klæddur úr hermannafrakkanum og sveipaður
hvítum sekk, svo stórum að höfuðuð stóð ekki upp
úr honum. Böðullinn á rauðu skyrtunni tók um snöruna,
hallaði stiga að gálganum, snéri sér að vesalingnum og
hratt honum upp stigann. Að því búnu brá hann snörunni
um háls honum. Múgurinn þagnaði, líkast því sem
ekki slæi lengur hjarta í brjósti nokkurs manns.
Böðullinn spyrnti í stigann og felldi hann. Fólkið hélt
niðri í sér andanum uns allt var afstaðið. Þá
andvarpaði það, líkast því sem það hefði
orðið fyrir smávægilegum óþægindum. En í
gálganum sveiflaðist aumingja maðurinn fram og aftur,- fram og aftur. Hann
sparkaði út í loftið og sparkaði lengi.
Fólkið, sem skömmu áður hafði staðið á
öndinni, tók skjótt gleði sína og hafði jafnvel í
frammi spaugsyrði. Svo yfirgaf þessi skríll torgið og
tvístraðist. Allir hurfu á braut, ánægðir með að
hafa orðið vitni að þessum tryllta leik. Petre litaðist um. Hann
sá enga hermenn utan tvo, sem stóðu vörð við gálgann.
Allir hinir voru farnir. Böðullinn, sá í rauðu skyrtunni, skipti
um föt og hélt sína leið. Eftir hékk vesalingurinn í
gálganum, dauður og hreyfingarlaus. Petre horfði í kringum sig
í forundran. "Ja hérna, ljótur var nú leikurinn! Skyldi
annars hafa verið skipt á piltinum og sekknum og sekkurinn svo hreyfður til
með vír? Best væri að dægra í fjósi og sofa
almennilega. Skyldi maðurinn í raun og sannleika hafa verið hengdur? Nei,
fólkið hlyti þá að hafa fellt tár, í það
minnsta smávegis. Pilturinn er þó barn Guðs, en ekki eins og hver
annar köttur". Illur grunur ásótti Petre. Hann varð að
ganga úr skugga um, hvort hér hefði átt sér stað
raunveruleg henging eða aðeins verið um spaug að ræða.
Sannleikurinn yrði að koma í ljós! Hugðist hann ná tali af
einhverjum og spyrjast fyrir um málið. Gekk hann að ýmsum, sem
á vegi hans urðu en hikaði þegar á hólminn var komið.
Petre rölti áfram. Nú var hugurinn bundinn fjósinu
í Avlabari. Á ferð sinni sá hann vertshús. Þaðan
barst mikill skarkali. "Ætti ég að smokra mér inn fyrir",
hugsaði hann. "Hver veit nema ég verði einhvers vísari varðandi
það, sem gerst hefur? Svo er ekki að vita nema hér megi fá
sér eitthvað að narta í. Ekki veitir mér af, ég hef ekki
bragðað matarbita frá því í morgun". Hann gekk
inn í húsið, settist út í horn og pantaði sér
hálfa flösku víns. Nú skyldi slegið upp lítilli veislu,
þótt enga hefði hann þar gestina. Um leið og Petre settist, kom
ungur maður inn vertshúsið, fast á hæla hans. Hann var
klæddur í nabadi (hælsíða slá). Hann bað um
skriffæri, beygði sig yfir borð og tók til við að skrifa. Petre
einblíndi á manninn. Honum kom andlitið kunnuglega fyrir sjónir.
Ungi maðurinn hélt áfram að skrifa án þess að
líta upp. Tíminn leið, en Petre kærði sig kollóttan um
það. Hann starði á manninn um leið og hann mataðist, svo
löturhægt að með sama áframhaldi mundi maturinn endast honum fram
til kvölds. Ekkert komst að í huga hans nema þessi ungi maður.
Hann einblíndi á hann og reyndi að koma honum fyrir sig. Sólin
hneig til viðar, en Petre sat sem fastast fram eftir kvöldi. Loks stóð
hann upp og borgaði fyrir sig. Um leið og hann gekk út, leit hann sem
snöggvast á unga manninn. Því næst hraðaði hann
sér til Avlabari. Hann átti enn eftir nokkurn spöl að fjósinu,
þegar einhver lagði hönd á öxl hans. Petre snéri
sér við og sá að þetta var ungi maðurinn frá
vertshúsinu. Hann var hávaxinn og bar hatt, sem slútti niður að
augum. "Taktu bréfið", sagði sá ungi og læddi að
honum bréfi. "Ef þú ert ekki læs, skaltu fá einhvern til
að lesa þetta fyrir þig. Og þá skaltu hlusta með athygli.
Þér berast tæpast meiri tíðindi í bráð".
Ungi maðurinn hafði ekki fyrr sleppt orðinu, en hann snérist
á hæli og hélt leiðar sinnar, þó ekki hraðar en svo
að Petre náði að kalla til hans: "Hver ertu strákur?
Segðu til þín"! "Það skýrist í
bréfinu", hrópaði maðurinn og hélt áfram för sinni
án þess að líta við. Petre virti bréfið fyrir
sér, stakk því á sig og sagði með trega: "Bara að
ég kynni að lesa!... Skyldi hann reyna að ljúga einhverju í
mig? Nú jæja, sá lygur í sjálfan sig, sem lygi ber
í aðra. Hann er farinn og getur ekki spottað mig".
IV Petre skundaði nú til fjóssins
í Avlabari. Beið hann þess með óþreyju að vita
hvað í bréfinu stæði. Son átti hann, vel læsan,
enda hafði sá lært hjá presti. Bar Petre hratt yfir og hjartað
sló ört í brjósti hans. Honum þótti sem vegurinn
hefði lengst. Um síðir nálgaðist hann þó
fjósið, kófsveittur og var það með herkjum, að hann
næði andanum. Hann svipaðist um en sá engann. Vagneklarnir
höfðu farið á basar. Líkaði Petre það vel, en hitt
þó enn betur að hann fann son sinn. Hann lá í fjósinu
og svaf. Petre vakti hann. "Stattu á fætur og lestu fyrir mig þetta
bréf", sagði hann og rétti bréfið að syni sínum.
Sonurinn vaknaði, teygði úr sér og tók því
næst við bréfinu. "Hvar fannstu það"? spurði hann
föður sinn. "Ég fann það ekki, því var
lætt að mér á leiðinni", svaraði Petre og taldi
málið þar með útkljáð. Sonur hans opnaði
bréfið og féllu þá úr því
peningaseðlar. Urðu þeir feðgar furðu slegnir. Sonurinn hugðist
telja peningana, en því reiddist faðirinn og sagði í
ávítunartóni: "Heldurðu að nú sé
tími til að telja peninga? Lestu hvað í bréfinu stendur
áður en hjarta mitt springur úr forvitni"! Sonurinn hóf
upp lesturinn: "Strákurinn, sem hengdur var í dag var
bróðir minn"... "Hvað þá"! greip Petre fram í
fyrir syni sínum. "Þeir hafa þá í raun og veru hengt hann"!
Andlit gamla mannsins náfölnaði. "Hvað var það
þá, sem vakti kátínu fólksins? Jæja, lestu, lestu!
Ó, að augu mín væri lukt eilífu myrkri". "Hvað
segir þú faðir minn"? spurði sonur hans. "Þú talar eins og
þú værir sturlaður". "Lestu, ég er með
ráði og rænu", sagði Petre reiðilega og í mikilli
geðshræringu. Hann skalf líkt og hann þjáðist af
hitasótt. Sonur hans hugsaði sitt en hélt þó áfram
lestrinum: "Faðir okkar var fátækur aðalsmaður.
Þegar hann dó giftist móðir okkar öðrum aðalsmanni, sem
starfaði í borginni. Hafði hann af okkur arf okkar, skipti honum fyrir
vörur eða seldi fyrir peninga. Eftir sátum við með sárt enni.
Meðan við vorum enn á barnsaldri dvöldum við í sveit, en
móðir okkar og stjúpi höfðust við í borginni.
Þegar þau komu á dvalarstað okkar húðstrýktu
þau okkur, slíkar voru barsmíðarnar. Hungraðir og
klæðlausir reikuðum við um sveitina. Allir gengu í skrokk á
okkur, meira að segja vinnuhjúin, þá sjaldan þau lágu
ekki í leti. Ýmsum vandalausum blöskraði þessi meðferð,
án þess þó að hafast að. Þegar við svo komumst
á legg, losaði stjúpi okkar sig við okkur og sendi okkur á
herskóla. Þar var sál okkar eitruð með rússneskum
skömmum og formælingum. Auk þess vorum við nær dauða en
lífi undan barsmíðum, jafnt að nóttu sem degi.
Þetta var meira en við þoldum. Strukum við því í
skjóli myrkurs. Héldum við heim í sveit okkar. Þar komum
við okkur fyrir í gömlu húsi. En liðléttingar
spörkuðu okkur þaðan út. Þannig hröktumst við
á vergang, brauðlausir, heimilislausir, örvinglaðir og einmana. Engum
virtist sárna hrakfarir okkar. Við vorum öllum framandi. Fólk taldi
okkur aðeins þvælast fyrir sér. Héldum við nú til
borgarinnar, harðskeyttir menn og illgjarnir. Við hötuðumst út
í lífið sjálft og einkum þó stjúpa okkar. Og
við fjandsköpuðumst jafnt við góða menn sem vonda. Var
móðir okkar ekki undanskilin í þeim efnum. Öllum
mátti ljóst vera, að við höfðum verið rændir
föðurarfi okkar. En hverjum stóð ekki á sama um það?
Menn vildu hvorki veita okkur lið né vægð. Sú synd hvílir
jafnt á öllum. Það var ekki aðeins stjúpfaðir okkar,
sem rændi okkur, heldur allir, þú ekki síður en aðrir.
Ég á ykkur öllum grátt að gjalda og fyrir því
skuluð þið finna meðan ég lifi. Öll stöndum við svo
frammi fyrir Guði á hinsta degi. Þá verður ekkert undan
dregið. Manstu þegar þið voruð með vagnana í
Lotsjinigili? Minnistu tveggja stráka þar? Það vorum við
bræður. Þá höfðum við hvorki bragðað vott
né þurrt í þrjá daga. Aumingja bróðir minn laug
þig fullann. Mér var það ekki að skapi, en hvað var til
ráða? Einþykkur var hann, blessaður bróðir minn. Guð
varðveiti hann þar sem hann er nú. Hann einn var mér kær og
hollur verndari. En í dag horfði ég á hann hengdan! Ég skal
gjalda lífinu rauðan belg fyrir gráan meðan sálin er enn
í líkamanum. Þú huggaðir okkur, svo nærri
lá að gæska þín lýsti upp myrkrið í hjarta
okkar. Nóttina eftir kom mér ekki blundur á brá, þó
örþreyttur væri. Mér féll það þungt
þegar bróðir minn reis á fætur og tók að skera
vasana af klæðum þínum. En ég lét kjurt liggja.
Þá varð mér ljóst, að þú varst einnig
ræningi, því þú lést öðrum lýðast
að rænda okkur. Þess vegna gast þú ekki verið
góður maður. Eftir þetta héldum við til
borgarinnar, þar sem synd og gæska ganga hlið við hlið eftir
breiðum strætum. Þaðan í frá leið ekki sá
dagur, að við færum ekki ránshendi um annara eigur. Alla
þá, sem á vegi okkar urðu létum við bæta okkur
skort okkar. En reitt hjarta krefst stöðugt meira og meira. Fyrir tveimur
árum gerðist það svo, að örlaganorninar leiddu okkur að
húsi stjúpföður okkar. Móðir okkar var ekki heima.
Brutumst við inn og drápum stjúpa okkar. Hugðumst við að
því loknu spilla öllu, sem inni var. Ekki komum við því
ætlunarverki í framkvæmd, því brátt dreif þar
að lögreglumenn til að handtaka okkur. Mér auðnaðist að
flýja en þeir náðu aumingja bróður mínum.
Þú þekkir leikslokin, því í dag sástu hann
hengdan eins og kött. Þið stóðuð þarna öll og
horfðuð á hann deyja ykkur til gamans. Mér leið sem eldur
færi um mig logandi tungum. Ég skal hefna harma okkar bræðra!
Öll skuluð þið bæta mér skaðann. Ég hata
lífið en fyrirlít þó mannfólkið enn frekar.
Ég hef brennt allar brýr að baki mér. Við annan
brúarsporðinn stend ég,- þið við hinn. Á
dómsdegi mun úr því skorið, hverjir eru saklausir og hverjir
sekir. Guð grandskoðar hjarta hvers og eins áður en hann leggur
lóðin á vogarskálarnar. Ég held mína leið.
Síðasta æðin í hjarta mínu brast í gálganum
í dag. Þannig brast ég einnig að eilífu frá
jörðinni. Vertu sæll. Ef þig skyldi fýsa að
sjá mig, skaltu horfa á mig í gálganum, eins og þú
horfðir á bróður minn. Þar verða mín leikslok.
Mig langaði til að opna þér hjarta mitt eins og bók,
þótt ég viti ekki hvers vegna. Það er sem þungu fargi
sé af mér létt. Peningana þína færðu aftur
tífalda. Gæska þín barst sem glóð að hjarta
mínu, þar sem hún brennur enn, líkt og glóandi kol
þakin ösku. Ég veit að sú glóð mun kulna, enda ert
þú lagsmaður stjúpa míns. Þú hengdir
bróður minn! Þú leiddir hann til gálagans"! Sonur
Petre var furðu lostinn en af föður hans bogaði köldum svita.
"Hvað hef ég gert"? æpti gamli maðurinn upp yfir sig, skjálfandi
af ótta. "Hvað hefur hann Petre gamli eiginlega gert"? (1879)
GIORGI LEONIDZE
ÓSKATRÉÐ
Elepter djákni stóð á þorpstorginu. Þetta var að kvöldi dags og hann dreifði huganum á skrafi við bændur. Þetta var sá sami Elepter, sem mánuði fyrr hafði verið barinn til óbóta af hendur svona mislyndum gestum í afmælisveislu.
Hvers vegna hann heitir Elepter? Nú jæja, um téðan Elepter hafði sóknarpresturinn oftsinnis sagt: "Ætti ég tvo Eleptera, skyldi ég hiklaust hengja annan þeirra".
Elepter djákni var meira fyrir sopann en sálina. Sannast sagna var hann maður veisluglaður, drabbari, vínsvelgur! Við tíðasöng las hann helgiritin þurrlega, allt að því umlandi. En þegar hann vitnaði til þeirra orða hinnar helgu bókar, að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta, þá skorti nú hvorki kærleikann í röddinni né tilþrifin.Um sólarlag hurfu bændurnir til nauta sinna og þorpstorgið tæmdist. Þá stóð enginn frammi fyrir hinum aðgerðarlausa djákna, annar en hann Elíoz,-snauðastur bænda."Veistu ekki, þú hnípni bróðir", ávarpaði djákninn Elíoz, "að Vesjalind er vatn ódauðleikans.
Djákninn þreif könnu úr höndum stúlkunnar Abdiu, sem átti þar leið um. Hann bar könnuna að vörum sér. Fyrst rétt bergði hann á vatninu. Því næst svelgdi hann það í sig. Að því búnu sagði hann ofur rólega og líkt og sætkenndur af hamingju: "Karl minn góður, svei mér þá, veistu ekki hvar Vesjalind er"?
"Hvar er sú lind"? spurði Elíoz.
"Á Totrobianifjöllum"! (Hvítufjöllum)
"Og hvað læknar hún"?
"Hún er ekkert lyf, heldur óðdauðleikinn sjálfur"!
"Hvað er ódauðleiki"?
"Það er eilíft líf"!
Elíoz var mjög brugðið. Hann hörfaði aftur á bak.
"Ekki hirði ég um slíkt", sagði hann, þá loks hann mátti mæla. "Hvað stoðar að bæta písl við skort"?
"Ja, hvaðan kemur þér slíkt tal, vesæll maður? Þú og þínir líkar verðskuldið ekki að komast að Vesjalind"! Og djákninn blíndi óvildaraugum á Elíoz. Hann var í senn móðgaður og undrandi á manninum. Það krafðist furðulegs samblands af grófleika og fávísi, að hafna lind ódauðleikans, sem hann í þokkabót hafði sjálfur uppgötvað. En djákninn hafði erfiðað til einskis.
"Hann er fátækur maður, hann Elíoz. Hann er slíkur velsalingur, að hungraðir hundar hafa ekki hjarta í sér til að ræna frá honum bita", höfðu grannarnir gjarnan á orði. Samt stóð stöðug veisla fyrir framan kofa þessa jarðlausa og bjargarsnauða manns. En það var ekki hans veisla, heldur veisla grænna flugna. Fátækt, hungur og basl. Því skyldi Elíoz kjósa viðurstyggilegri fátækt sinni eilífðina sjálfa?
Elíoz var hjartahlýr maður og brennheitur draumóramaður. Miskunnarleysi tilverunnar hafði ekki megnað að slökkva hvern vonarneista í sálu hans. Og hann varðist veruleikanum, sem sótti að honum eins og klóhvasst rándýr, stundum í undarlegum draumum, sem virtust líkt og ortir upp úr sjálfum sér.
Um tíma leitaði hann hænu, sem hann trúði að verpti gulleggjum í tilteknu kjarri. Þegar sú leit bar ekki árangur, barði hann höfðinu við steininn. Nú reyndi hann að veiða óskafisk. Daginn út og daginn inn stóð hann úti í Ijoriá. Og sá lét nú hendur standa fram úr ermum. Hann leitaði þrotlaust, jós vatni í allar áttir, lagði net og reyndi meira að segja að klófesta fiskinn berum höndum. En allt kom fyrir ekki; óskafiskinn lánaðist Elíozi ekki að veiða.
En hann var ekki af baki dottinn. Nú einsetti hann sér að finna óskatré. Ef honum auðnaðist að eta ávöxt af greinum þess, kæmist hann samstundis í álnir.
Það var bjargföst sannfæring Elíozar, að ef hann hafnaði í skógi í nístingsfrosti miðrar janúarnætur, mundi hann sjá fagurlega blómstrandi óskatré. Engin önnur fegurð kemst í samjöfnuð við slíka sjón. Kæmist hann yfir þó ekki væri nema einn ávöxt trésins, rétt til að berja hann augum, mundi fátæktin hverfa veg allrar veraldar í skjótri svipan. Enn þann dag í dag veit ég ekki, hver taldi honum trú um þetta, né heldur hitt, hver eggjaði hann fararinnar, ef þá nokkur. Aðeins skal frá því greint, að á janúarnóttum, þegar himininn virtist ætla að bresta sökum heljarkulda, reikaði hinn tötrum vafni Elíoz aleinn um skóginn í þeirri von, að við sólarupprás mundu augu hans líta óskatréð.
"Óttast þú hvorki bjarndýr né úlfa, þegar þú ráfar vopnlaus um skóginn"? spurði fólkið.
Nei, í augum Elíozar blómstaraði óskatréð í rauðum og gulum litum. Allar ógnir voru víðs fjarri huga hans. Og þótt líkami hans væri tötrum búinn, ornaði hann sér við dagdrauma. Þannig bægði hann kuldanum frá. Kona hans og börn sárbændu hann að hætta þessum skógarferðum. En hann hélt uppteknum hætti. Með tímanum vöndust þau þessu og létu hann í friði. Þegar Elíoz snéri heim úr skógarferðum, hafði hann meðferðis skjóðu með eldiviði. Það líkaði fólki hans vel.
"Hvað er títt, Elíoz, hefur þú fundið óskatréð"? spurðum við stundum brosandi.
"Nei, en ég verð að finna það"! svaraði hann.
"En það er kalt í skóginum, þú titrar og skelfur í frosthörkunum. Hvernig heldurðu að þú finnir óskatréð"?
Loks var það einn vetrarmorgunn í nístandi kulda. O, já, það var nú daginn þann, þegar þeir komu með hann Elíoz liggjandi kaldan ná á sleða. Líkið höfðu þeir fundið undir tré;- tréinu hans Elíozar. Frostið prýddi það allskyns myndum. Vesalings maðurinn hafði þá í raun valið svona fallegt tré til að.
"Það var líkast því, sem tréð væri skreytt"! sagði Bodoveli skógarvörður, sem fyrir tilviljun hafði rekist á lík Elíozar í myrkum skóginum.
Já, þannig var það.
Kista Elíozar var gerð úr gisnum fjölum, sem rifnar höfðu verið úr kornhlöðu hans. Elepter djákni varð drukkinn í erfinu, svo sem hugur hans stóð til. Daginn eftir kvartaði hann undan timburmönnum.
Vesalings Elíoz gat ekki flúið ógnvekjandi veruleikann og varð óskatrénu að bráð.
Það eru ekki aðeins þeir, sem rímið leikur létt á tungu, sem geta kallað sig skáld. Margir arka um jörðina, uppljómaðir af skáldlegu amstri og hjartalagi. Og stórum draumum.
VAZHA PSJAVELA
DÆMD REYKJARPÍPA.
Þýðendur: Grigol Matsjavariani Pjetur Hafstein
Lárusson
1 Ekki skorti hana
staðfestuna, pípuna þá arna. Og göfug var hún og
víðfræg. Kvtisúneli bóndi dáði hana og
dýrkaði og tók hana helst ekki út úr sér. Hann
fagnaði hverjum morgni með því að kveikja sér í
pípunni um leið og hann reis á fætur. Það er
hæpið að nokkur ungur hirðir hafi haft aðra eins nautn af
því að nasa af ilmandi hungangsblómi og Kvtisúneli hafði
af angan tóbaksreyksins. Þegar hann reykti lyngdi hann aftur augunum;
slík var sælan. Úti og inni, í leik og starfi, hvarvetna og
hvenær sem var; þar sem pípan var, þar var Kvtisúneli
bóndi með litlu skinnhúfuna sína á kollinum.
"Drengur minn, gleddu mig nú og hlauptu eftir eldi", kallaði Kvtisúneli.
Og strákurinn var ekki seinn á sér að renna með brandinn til
föður síns. "Kona góð, komdu með eldinn"!
Og hvernig skyldi nú konan hafa brugðist við? Alltaf hlýddi hún
boði mannsins, kom með eldinn og sagði um leið: "Megir
þú brenna til kaldra kola, svo askan ein verði eftir af þér".
"Ja, ekki vantar í þig galopaháttinn, kona góð",
tuldraði Kvtisúneli í barm sér og hafði ekki fleira til
málanna að leggja, heldur tendraði í pípunni. Reykurinn
leið upp í loftið, lyfti sér hærra og hærra, breiddi
úr sér, spennist í strók og hvarf. Kvtisúneli lá
í sæluvímu. Jafnvel þótt konan formælti honum
þúsund sinnum, skyldi hann aldrei svíkja pípuna í
tryggðum. Reyndar var ekki laust við að hann væri brunninn.
Að vísu ekki hann sjálfur í bókstaflegum skilning. En
buxurnar hans og Tsjokha voru þakin brunagötum eftir glóð úr
pípunni. Og oft hafði legið nærri, að hann skaðbrenndist. En
hann hélt uppteknum hætti. Eitt sinn þegar hann var á gangi,
læsti eldur sig í fötin hans. Hann var svo heppinn, að ná
að kasta sér út í ána; annars hefði gamanið
tekið að kárna. Ótal sögur gengu um Kvtisúneli og
pípuna hans. Einhverju sinni barst það út, að hann hefði
kveikt í heyi. Og annað var eftir því. Nú jæja,
Kvtisúneli lifiði enn góðu lífi og vanrækti ekki
pípuna sína. Þegar Kvtisúneli brá undir sig betri
fætinum, þótti honum gaman að mæta einhverjum. Eftir að
hafa boðið góðan dag og spurt tíðinda, sagði hann:
"Tyllum okkur nú og reykjum. Ertu með tundur"? spurði hann
förumann svo í bróðurlegum tóni. Eftir að hann hafði
troðið í pípuna, en ekki fyrr, mátti yrða á hann,
nú eða þá hann lét dæluna ganga meðan eyrun
leyfðu. Kæmi hann að brúnni, kastaði hann mæðinni,
þótt engin væri og kveiki sér í pípu.
Þá fylgdi hann bárum árinnar eftir með augunum. Guð
má vita hvað hann hugsaði. En nautnin leyndi sér ekki.
Færi Kvtisúneli út á sólroðin akur til að
slá, horfði hann á döggina glitra á kornöxunum eins og
tár á brúðarhvarmi. Við slíka sjón gafst
tilvalið tækifæri til að kýla pípuna út með
tóbaki. "Það er best að reykja pípuna meðan döggin
glitrar á akrinum; ég legg þá bara þess harðar að
mér á eftir". Yfir höfði Kvtisúnelis
flögraði syngjandi fugl. En hann var of sljór til að nema sönginn:
"Rístu á fætur Kvtisúneli, karlinn minn. Nú er
ekki tími til að reykja. Dögg hindrar ekki sláttinn. Hvesstu
sigðina og sláðu til gagns. Hádegi nálgast og ekki er betra
að vinna í hitanum. Pípan hleypur ekki frá þér".
Eitt sinn rataði Kvtisúneli í ógæfu. Fyrir ykkur
hefði það verið eins og hvert annað smáræði, en fyrir
hann var það reginhörmung. Þar sem hann var í skóginum
að safna kurli, týndi hann pípunni. Einhvers staðar hafði
þessi forsmán slitnað frá belti hans. Kvtisnúneli leitaði
víða, en árangurslaust. "Davíð, drengurinn minn,
Miriam, lambið mitt", sagði hann til barna sinna: "Í Guðs bænum,
hreyfið nú skankana og gáið hvort þið finnið ekki
andskotans pípuna. Mér líður hreint bölvanlega, enda
gæti ég dáið úr pípuleysi. Þið hafið
haukfráa sjón; gangið nú um stiginn, þaðan sem ég
kom með kurlið. Kannske tapaði ég pípunni þar. Varla hefur
hún sokkið í jörðina eða flogið til himna".
Börnin hófu þegar leit að pípunni. "Hvað ertu
að syrgja fjandans tímaþjófinn, sem á eftir að ganga af
þér dauðum, vesæll maður"? kurraði í Kvaramezu konu
hans. "Vertu ekki að kássast upp á annarra manna jussu",
svaraði Kvtisúneli, "þér væri nær að sinna
þínum verkum. Það er skárra að þú bakir
brauðið en brennir það. Og vertu svo ekki að kenna mér, hvernig
ég á að sitja og standa", bætti bóndi við og dró
húfuna aftur á hnakka. Kvaramze langaði til að svara
bónda sínum, en lét kyrrt liggja, enda vorkenndi hún honum
pípuleysið og tók að leita hins glataða unaðar hans.
"Hér var gull, ekki pípa", tuldraði Kvtisúneli og hvessti augun
á stiginn, þaðan sem vænta mátti barnanna. Þau hlupu
fram og til baka um skóginn og leituðu pípunnar, en árangurslaust.
Móðir þeirra reyndist þeim hyggnari. Hún þekkti vel
venjur bónda síns. Þegar Kvtisúneli hafði reykt pípu
sína, var hann vanur að binda hana við belti sitt. Það var
því ekki ósennilegt, að pípan hefði slitnað
frá beltinu við kurltínsluna. Konan gekk því að kurlinu
og tók að róta í því. Og ekki varð hún
fyrir vonbrigðum, því þar fann hún lukkustert
Kvtisínelis. En hún lét það dragast, að sýna
bónda sínum pípuna. "Segðu mér nú
bóndi minn", mælti kerling. "Hversu oft viltu fara út í
skóg að safna kurli, ef ég finn pípuna þína"?
"Hefurðu kannske fundið hana"? sagði Kvtisíneli og spratt á
fætur, glaður í bragði. "Hirtu ekki um það.
Segðu mér heldur hve oft þú munir tína kurl".
Kvtisíneli draup höfði og velti því fyrir sér, hverju
svara skyldi. "Hvað oft"? hváði hann. "Einu sinni", sagði hann
svo eftir nokkra umhugsun. "Ekki þrisvar"? spurði konan.
"Ég skal fara eins oft og þú vilt; láttu mig bara ekki deyja
úr pípuleysi", kjökraði Kvtisúneli. "Gott og vel. En
segðu mér nú eitt; hvort þykir þér vænna um konu
þína og börn eða pípuna"? Kvtisúneli brosti
í kampinn og skellti svo upp úr. "Um pípuna", svaraði hann eftir
nokkra umhugsun. "Hún veitir mér unað, en þið armæðu.
En láttu mig nú ekki skvaldra þetta lengur; komdu með árans
pípuna. Þú þekkir skaplyndi mitt og vilt tæpast reita mig
til reiði". "Reiðstu ekki en tak í mót", sagði Kvaramze
og fékk Kvtisúneli pípuna. "Megi gæfan að eilífu brosa
við ykkur, heiðvirðu hjón", bætti hún svo við.
"Amen", svaraði bóndi. "Og Guð hjálpi þér kona
góð, að færa mér eldinn refjalaust þegar á
þarf að halda." Að svo mæltu blés hann í munnstykki
pípunnar, tók sér tóbak úr pungnum og néri
því í lófa sér. Í því bar börnin
að, móð og másandi og leið yfir því, að hafa ekki
fundið pípuna. "Guð blessi ykkur börnin mín og
fáist ekki um það, þótt þið hafið ekki
fundið pípuna, því það gerði hún
móðir ykkar". Og hann sýndi börnunum pípuna. "Komið
nú með brand", sagði hann, "það þolir enga bið".
Börnin hlupu heim í hús til að gera vilja föður síns,
en hann hvessti augun á dyrnar og nuddaði pípumunnstykkið milli
tannanna. Brátt fékk hann eldinn og fullkomnaði verkið,
tróð tóbaki í pípuna og bar að því eldinn.
Hann sveipaðist reyk og honum leið eins og Heilagur andi hefði vitjað hans.
2 Sveitungarnir höfðu safnast saman í
kirkjugarðinum og barst þaðan mikil háreysti. Eitthvað alvarlegt
virtist bjáta á; eitthvað, sem þarfnaðist skjótrar
úrlausnar. Þetta var í miðjum febrúarmánuði og
snjórinn hafði safnast í skafla við kirkjugarðsvegginn.
Kvtisúneli sat steinþegjandi og snéri baki í fólkið.
Andlit hans var sem kaldhamrað. Hann mændi á snjóinn, hélt
uppi í sér pípunni og saug hana hægt. "Þið
verðið að dæma hann; líf mitt er lagt í rúst. Allt
heyið mitt er brunnið til ösku. Það er eins og hver önnur
Guðs mildi, að takast skyldi að bjarga nautinu úr eldinum. Allt
kornið brann. Eldurinn bræddi tólin. Hvert á ég að fara
með nautið til að fóðra það, á þessum kalda
vetri" Þið bíðið eftir oddvitanum, en það er ekki til
neins; oddvitinn gefur engum neitt", sagði Bútlí. Hann var gráti
næst. Hann bar loðið belti um sig miðjan og höfuð hans var
vafið í þurrkklút. Hann studdi sig við staf. "Ég vil ekki
raska ró ykkar granna minna eða annarra, en hvað á ég að
gera; ég aumur maðurinn, sem á fyrir fjölskyldu að sjá"?
En til hvers að fella dóm? Væri það ekki eins og hver
önnur fyrirtekt? Væri ef til vill ráð að kyrkja manninn?
"Þetta hlýtur að vera drykkjunni í honum að kenna", sagði
einhver í hersingunni. "Ekki er ég nú viss um, að kenna megi
drykkjunni um," sagði einhver. "Réttara væri að huga að
pípunni, sem hann reykir nótt sem nýtan dag, enda vorum við ekki
svo augafullir. Þeir Berika og Kvtisúneli börðu að dyrum
hjá mér og fóru með hljóðfæraslætti og
gáska. Ég hafði gaman af og bauð þeim að ganga í
bæinn. Ég hélt þeim smá veislu, svona eins og efnin leyfa.
En eftir veisluna bað ég Kvtisúneli að staldra við; mig
langaði til að drekka með honum tvímenning. Hann gerði mér
þann heiður, að verða við ósk minni. Við útbjuggum
khinkali og sátum lengi að drykkju. Guð fordæmi þá stund!
Þegar tími var kominn til að ganga til hvílu, bjó ég
um rúmin. En Kvtisúneli mátti ekki heyra á það minnst,
að sofa í rúmi. Hann vildi ólmur fara út í
hlöðu og sofa í heyinu. Ég lét þetta eftir honum,-
hér sjáið þið afleiðingarnar; Berika er með öllu
óhuggandi". Fólkið hafði þegar kveðið upp sinn
dóm í huganum. En það vildi halda fornar hefðir í
heiðri og snéri sér að Kvtisúneli. "Komdu hingað",
kallaði það. En hann hreyfði sig ekki úr stað, þar til
kallað hafði verið nokkrum sinnum. Um síðir drattaðist hann
þó á fætur og skjögraði að hópnum, eins og
hann væri fótbrotinn. Þeir eldri brostu, þegar þeir
sáu tilburðina, en unglingarnir ráku upp skellihlátur.
Kvtisúneli stóð frammi fyrir samkumdunni, laut höfði og
steinþagði. Hann néri pípuna í höndum sér.
Föt hans, augnabrúnir og skeggið voru brunnin, öllum til
ómældrar skemmtunar. "Þú ert heppinn, að hafa ekki
brunnið til kaldra kola, karlinn", sagði einhver í glettnislegum tón.
"Nei, hann er ekki sá kjáni að kveikja í sjálfum
sér. Það má sjá það á snjónum,
hvernig hann hefur slökkt í sér", hrópaði annar.
"Guði sé lof, að sveitungi okkar skuli ekki hafa brunnið í hel",
sagði sá þriðji. "Það hefði verið öllum
fyrir bestu, ef ég hefði brunnið inni", sagði Kvtisúneli.
"Það hefði sparað okkur öllum mikil vandræði. Nú
bið ég ykkur þess, bræður og grannar, að þið
hugið vel að þessu máli. Ég hef valdið Bútlía
miklu tjóni. Ef ég hefði ekki drattast til hans í nótt,
hefðu hlaðan og fjósið ekki brunnið. En hann er nú
dálítið samsekur. Það var hann, sem hellti mig fullann í
stað þess, að láta mig drattast heim. Og Bútlía veit vel,
að þetta var óviljaverk en ekki af fjandskap gert. Þúsund
sinnum hef ég legið reykjandi í heyi án þess að kveikja
í því. Hvers vegna þurftu hlaðan hans og fjósið
að brenna? Þar er við örlögin ein að sakast!" Um leið og
Kvtisúneli tók sér orðið "örlög" í munn,
sló þögn á fólkið. Þegar hann varð þess
var, óx honum ásmegin, losaði tóbakspunginn af beltinu og
tróð sér í pípuna um leið og hann hélt
áfram máli sínu. "Hver hefði átt að bæta
fyrir dauða minn, ef ég hefði brunnið inni? Hefðuð þið
þá ekki lýst Bútlía sekan fyrir að hella mig fullann?
Ég hélt lífi og einnig það er verk örlaganna. Hugið
að því". Fólkið velti nú atburðum
næturinnar fyrir sér af hálfu meiri ákafa en áður.
Kvtisúneli taldi sér glötun vísa. En þá gerðist
nokkuð óvænt. Zúrab, gamall bóndi, hispurslaus og
frægur af samviskusemi, blandaði sér í málið. Hann var
vanur að segja skoðun sína upp í opið geðið á
hverjum sem vera skyldi,- jafnt ungum sem öldnum, enda hafði hann oft verið
tekinn í karphúsið, bæði af embættismönnum og
grönnum sínum. En ekki raskaði það háttum hans. Sterkur
rómur hans, líkastur öskri tígrísdýrs eða
eldingu, leysti jafnan allan vanda. Meðan fólkið var
niðursokkið í hugsanir sínar bar Kvtisúneli eld að
pípu sinni og tók að reykja í makindum. Og einmitt þá
heyrðist öskur hins gamla tígrísdýrs: "Væri
nú ekki ráð að hugsa?", þrumaði Zúrab og yggldi
hvassar brýrnar. "Og um hvað ættum við að hugsa?", svaraði hann
sjálfum sér. "Ég er ekki blindur og sé vel hvað
eldsvoðanum olli". Hann snéri sér að Kvtisúneli og hélt
áfram: "Það sem eldinum olli er þessi pípa, sem
þú sleppir ekki úr kjaftinum á þér, frekar en hundur
beini". Að svo mæltu sló Zúrab staf sínum svo
meistaralega í pípuna, að hún kastaðist inn í miðja
fólksþvöguna. Kvtisúneli varð svo agndofa, að það
leið þó nokkur stund, þar til hann áttaði sig á
því, hvað gerst hafði. "Örlög, Örlög!.
Örlögin hafa ekkert með þig og pípuna þína að
gera. Hér er minn dónur. Annars ætti ég nú ekki að
vera að slá stafnum í pípuna, heldur væri réttara,
að láta hann ríða á þér, rakkinn þinn!,
sagði Zúrab og horfði gneistandi augum á Kvtisúneli.
Brustu nú á mikil óhljóð meðal fólksins.
Það óð að pípunni og barði á henni,
bæði með höndum og fótum. Og allir skellihlóu.
Grár og gugginn sagði Kvtisúneli, þá loks hann mátti
mæla: "Jerimías, pípan mín". Og svo orgaði hann á
Zúrab: "Verðu hendur þínar skúrkur og gættu tungu
þinnar"! Hljóp hann nú til, pípu sinni til bjargar undan
pyntingunum. En sekur maður bjargar ekki sekri pípu. Og fólkið
grandaði henni.
3 Smám saman sljákkaði í
fólkinu, enda þótt vandin væri ekki að fullu leystur. Við
það gátu hvorki sá, sem fyrir skaðanum hafði orðið,
né samviska fólksins sætt sig. Sú staðreynd, að
pípan hafði verið brotin í smátt, mundi hvorki seðja
kýrnar hans Bútlía, né heldur reisa hlöðu og
fjós. Öllum var ljóst, að nú yrðu menn að láta
hendur standa fram úr ermum. Hér þurfti aðeins hvatningarorð og
allir mundu hlýða rödd samviskunnar. "Karlar", sagði
Zúrab, "væri þess nokkur kostur, skyldum við þvinga
Kvtisúneli til að bæta Bútlía skaðann, enda er hér
óvarkárni hans um að kenna. En þar sem Kvtisúneli er
snauður maður, er það skylda okkar að hjálpa
bágstöddum granna og meðbróður. Við skulum ekki snúa
baki við hefðum og siðum áa okkar, heldur styðja eftir mætti
við bakið á þeim, sem í ógæfu hefur ratað.
Ég skenki Bútlía eina heysátu.Komdu þegar þér
þóknast og náðu í hana. Og þegar þú byggir
nýja hlöðu og fjós, mun sonur minn hjálpa þér um
helgar". "Guð blessi þig", kallaði fólkið. "Ég legg
fram hey. Ég líka. Ég líka. Þessi orð
lauguðu marga brá fögrum tárum. Auk þess, sem Kvtisúneli
gaf Bútlía heysátu, lofaði hann að leggja granna sínum
til eyki innan tveggja daga, til að bera timbur. Bútlía þakkaði
sveitungum sínum. En Kvtisúneli var fjarri því að vera
þakklátur, vegna þeirra rauna, sem pípan hafði mátt
þola. Sækjandinn og sakborningurinn kysstust og sættust heilum
sáttum og þegar fólkið tíndist burt, fóru þeir
saman. Skæðar tungur breiddu út þann orðróm, að
þá um kvöldið hefðu þeir Kvtisúneli og
Bútlía drukkið brennivín úr sömu skál og ekki
lynnt látum fyrr en drukkið var í botn og þeir kumpánar
hefðu svarið hvor öðrum ævarandi bróðerni á
nýjan leik. Og sagan segir, að ekki hafi þeir látið undir
höfuð leggjast, að skála í shesnsobari*. (1910)
*Shesnosbari er vín, sem Georgíumenn skála í fyrir
framliðnum.
TSJOLA LOMTATIDZE
GRAMMÓFÓNNINN
Grammófónninn! Grammófónninn! Svo sannarlega hallmæli ég Edison fyrir að hafa fundið hann upp. Fanginn Stepka, kvenhatarinn sá, sór og sárt við lagði, að Edison hefði aldrei fundið upp grammófóninn, ef ekki væru til konur. Það var einhvern veginn svona, sem hann kom orðum að því: "Edison er sagður eiga vin, sem grunar að eiginkonan sé sér ótrú. Edison fann því upp grammófóninn, til að vinur hans gæti laumað honum í herbergi frúarinnar og hljóðritað það, sem þar færi fram". Já, það er ekki erfitt að vera kvenhatari eftir þetta. Og ekki vantaði nú, að grammófónninn raskaði ró okkar fanganna.
En sé Edison spakur að viti, þá er ég enginn kjáni heldur. Því til sönnunnar skal ég segja ykkur frá nokkru, sem henti okkur fangana. Ég var nefnilega fangi og barðist við grammófón. Og bar lægri hlut,-framan af. Það sakar ekki að láta þess getið, að fangelsisstjórafrúin varð fjandmaður minn. En satt best að segja, vorum við víst engir vildarvinir fyrir. Hún vissi, að ég var sósíalisti, en í hennar munni þýddi það orð sama og mannæta. Auk þess var henni kunnugt um, að ég bjó í synd, eftir að hafa kastað minni lögbundnu ektakvinnu á dyr. Ég hefði því ekki úr háum söðli að detta, ef fangelsisstjórafrúnni þóknaðist að bæta smá kafla í syndaregistur mitt. En það breytti ekki því, að í fangelsinu öðlaðist ég slíka frægð, að sjálfur Edison hefði aldrei getað látið sig dreyma um annað eins.
Einhvers staðar varð fangelsisstjórinn sér úti um sargandi grammófón. Þessi óáran söng hásum rómi, eins og fylliraftur með langvarandi barkarkvef, sem ekki hefur fest blund í þrjá daga og þrjár nætur. Í þokkabót heyrðist ekki annað frá honum en öldurhúsaslagarar.
Í fyrstu höfðum við gaman af þessum óhljóðum, enda voru þau tilbreyting í fábreytilegu fangelsislífinu. Fyrst þegar tónarnir heyrðust, stóðum við fangarnir á öndinni. Við dönsuðum og blótuðum, fullir aðdáunar. En eftir nokkra daga tók okkur að leiðast þessi söngur, uns þar kom, að við fyrirlitum hann óendanlega.
Eitt sinn, þegar fangi nokkur var barinn til óbóta, svo veinið í honum glumdi út um allt fangelsið og veggir þess nötruðu af óhljóðunum, þá barst úr grammófóninum í íbúð fangelsisstjórans, eftirfarandi söngur:
Sællega syndir máninn í ánni,
sveipast í faðmlögum næturþegnar.
Þá varð okkur föngunum það endanlega ljóst, að við gætum aldrei sætt okkur við grammófóninn. Frá þeirri stundu fyrirlitum við hann, uppfindningamann hans og þessa helvítismaskínu.
Kvöld nokkurt stóð fyrir dyrum henging eins félaga okkar. Um sólarlag var líkkista, vafin svörtum dúki, færð inn í fangelsið. Síðan var lagsmaður okkar leiddur undir hæð nokkra. Það náttaði. Við stóðum allir í sömu sporum og biðum skelfingaróps dauðamannsins. Og einmitt þá glumdi úr grammófóninum:
Ekkert vantar mig, vinur minn,
vil ég feginn horfa á þig.
Á þeirri stundu varð grammófóninn svarnari fjandi okkar en böðullinn og lögreglan samanlagt. Hvað er til ráða, til að losna við slíkan óvin?
Ég hef heyrt því fleygt, að hinar merkilegustu hugmyndir skjóti upp kollinum fyrirvaralaust. Ekki veit ég, hvað hæft er í því, en að minnsta kosti gerðist það þetta umrædda kvöld. Hugmyndin kom líkt og úr heiðskýru lofti. Við það tók ég gleði mína og fór að raula fyrir munni mér:
Ekkert vantar mig, vinur minn".
"Niður með grammófóninn! Nú skal hann ekki sleppa!" hrópaði ég.
"Hvað þá"? spurðu menn.
"Það er mitt mál. Sé Edison vitur maður, þá er ég enginn kjáni heldur.
Þannig var, að enda þótt náungakærleikurinn íþyngdi fangelsisstjóranum ekki úr hófi fram, hataði hann mig umfram aðra menn. Í mosanum utan við fangelsið óx blóm. Þetta blóm tók ég og gróðursetti það í mold. Morgunn einn veitti fangelsisstjórinn því athygli, að ég var að hlúa að blóminu. Þar með voru örlög þess ráðin. Hann læddist að blóminu, kattmjúkum skrefum, reif það upp og traðkaði á því. Þegar hann að því loknu hugðist halda sína leið, kallaði ég til hans:
"Ræturnar eru enn í moldinni og þær munu breiða úr sér". Þá hrópaði hann rámri röddu á fangavörð og skipaði honum að grafa ræturnar upp. Svona þótti honum vænt um mig. Og ég ákvað, að færa mér í nyt "kærleika" hans.
Ég settist við borð og skrifaði bréf, meðan ég raulaði lagstúf. Nú skyldi grammófónninn lúta í lægra haldi. Þetta skrifaði ég:
"Kæri vinur.
Mér líður vel og skemmti mér hið besta. Reyndar sit ég í fangelsi, en svo er Guði fyrir að þakka, að djöfullinn reynist ekki eins máttugur og prestarnir predika. Ég ætti nú að vita það, því fangelsisstjórinn er góðmennskan uppmáluð. Hann fyrirlítur ekkert nema pyntingar. Svo ég nefni dæmi, máli mínu til stuðnings, þá er bannað með lögum, að syngja í fangelsum. En hann fann ráð við því."
Ég skrifaði, að vegna söngbannsins, hefði fangelsisstjórinn séð aumur á okkur föngunum og ekki horft í eyrinn, heldur keypt forláta grammófón til að létta okkur lífið. Að lokum sendi ég hinum hávelborna móttakanda bréfsins kærar kveðjur.
Ég setti bréfið í umslag og afhenti það fangaverði. Senn var þess að vænta, að grammófónninn færi að hvæsa.
"Húrra! Grammófónninn þegir! Húrra!"
Í hádeginu var mér fært tómt umslagið. Það þýddi, að bréfið hafði verið "fangelsað", en ekki sent viðtakanda. "Húrra, strákar"!
Um kvöldið kom fangelsisstjórinn inn í klefa. Hann horfði á mig og spurði með illskufullu brosi:
"Hvað segir þú gott? Leiðist ykkur?"
"Já, reyndar", svaraði ég. "Það heyrist ekkert í grammófónunum".
"Ha-ha-ha". Fangelsisstjórinn glotti og sagðist hafa brotið grammófóninn. Hann horfði lengi á mig.
"Húrra strákar, niður með Edison og grammófóninn hans. Hver veit nema fangelsisstjórafrúin minnist mín bæði vel og lengi?
Enn þann dag í dag valda grammófónar mér óþægindum, ef ég heyri til þeirra í veitingarhúsum, þar sem frá þeim óma ýmis lög. En samt sem áður; sé Edison vitur maður, þá er ég enginn kjáni heldur.
(1910)
AKAKI CERETELI
TVEIR DRAUMAR
Þegar ég var tíu ára gamall var ég sendur í menntaskóla. Ég hafði erft hreysti föður míns en viðkvæmt og ástríkt hjarta móður minnar. Auk þess hafði ég fengið gáfur beggja foreldranna í vöggugjöf. Ég þurfti því ekki að beita mér sérstaklega, til að verða fyrirmyndar nemandi; ekki aðeins í bekknum, heldur í skólanum öllum. Kennurunum líkaði vel við mig og bekkjarbræðrunum þótti vænt um mig. Framtíðin blasti við mér.
Það er auðvellt að heilla ungmenni. Ef kennara og nemanda semur ekki, þá er sökin kennarans. Svo var Guði fyrir að þakka, að í skólanum var enginn til að leggja fægð á. Okkur skólapiltunum þótti vænt um alla kennarana og þó sérstaklega einn, sem við beinlínis dáðum. Að sitja í kennslustund hjá honum, var eins og að vera heima hjá sér. Við drukkum í okkur hvert orð sem hann mælti. Jafnvel fúxarnir álitu slæma einkunn frá honum ógæfuvott.
Eitt sinn, í sögutíma, fjallaði kennarinn um orrustuna við Mamaí. Með brostinni röddu, sagði hann frá því, hvernig Rússar komust undan oki Mongóla. Tárin runnu niður kinnar okkar. En þetta stóð ekki lengi; allt í einu ljómaði andlit kennarans og augu hans blikuðu eins og sól að loknu óveðri. "Og sjá", sagði hann, "þá kom þar Dimitryi Donskoj stórfursti og bróðir hans, Andrej frá Tverj við hlið hans. Og smám saman bar að fleiri bændafursta. Heilagur Sergej blessaði yfir krossinum og því næst hófst orrusta upp á líf og dauða. Mongólar voru sigurvissir, enda mun fjölmennari. En flótti flögraði ekki að Rússum. Nú skyldu örlög rétttrúnaðarins ráðast! Vígdjarfir menn, sem eiga trú og ættjörð að verja, ráðast á Mongólana. Meðan annar helmingur liðsins gerði árás, hvíldist hinn hlutinn. Þrátt fyrir þessa herkænsku, var nú illa komið fyrir Rússum. Þeir voru lémagna og lið þeirra tvístrað og óttaslegið. En skyndilega gaf þar að líta ókunugan mann, ríðandi hvítum fáki með spjót í hendi. Hann þýtur áfram, líkt og kólfi væri skotið og ber dauða og skelfingu í raðir Mongóla. Þá ávarpar hinn djúpvitri Andrej fursti hálfsigrað lið sitt: "Undraverð eru verk , Drottins. Hann hefur sent heilagan Georg oss til fulltingis! Áfram, Guð er með oss"! Veður hann nú mót guðleysingjunum líkt og valur. Og aðrir fylgja fordæmi hans og ráðast gegn hinum yfirlætisfullu fjandmönnum. Loks bergmálar siguróp um Kulikovodal".
Við urðum svo gagnteknir af frásögninni, að ósjálfrátt rákum við upp fagnaðaró. Kennarinn spratt upp og rauk á dyr. Það var eins gott að yfirkennarinn var ekki nærstaddur; þá hefði okkur verið sýnt í tvo heimana fyrir ólætin. Kennslunni var lokið þann daginn, en við sátum lengi í skólastofunni og fórum ekki hænufet. Okkur langaði til að sviðsetja orrustuna við Mamai. En allir vildu leika Rússa, en engir Mongóla.
"Hvað er að? Hvers vegna ertu svona seinn? Þú ert nábleikur!" sögðu foreldrar mínir, þegar ég kom heim. Auðvitað sagði ég þeim skilmerkilega frá því, sem gerst hafði í skólanum. Þau brostu. Svo strauk faðir minn mér ástúðlega um höfuðið og sagði eftir nokkra þögn: "Slíkt sem þetta hefur einnig gerst í Georgíu. Vissir þú það ekki?" Að svo mæltu gekk hann að bókaskápnum, tók þaðan lítið kver og rétti mér: "Líttu í þetta, þegar þú hefur unnið heimaverkefni þitt". Ég var fljótur að borða daginn þann, lauk heimaverkefninu og tók að lesa georgísku bókina. Og drottinn minn dýri, hvílík lesning! Hvílíkur fróðleikur! Sannir viðburðir héðan og þaðan. Á sama tíma og Rússar stundu undir klafa Mongóla, hrjáðu sömu örlög hina kristnu Georgíumenn. Í báðum löndunum gera þjóðirnar uppreisn, hvor út af fyrir sig, og frelsa lönd sín undan ánauð Mongólanna. Meðan Sergej biskup hvatti Rússa með bænum sínum, eggjaði Arsen biskup Georgíumenn. Í báðum löndunum þeysir heilagur Georg fram á hvítum hesti, kristnum lýð til fulltingis. Í Rússlandi fer Dimitri Donskoj fyrir hernum; hér er það Dimitri hinn hugrakki, sem gleður heilagan Georg.
Ég lá lengi vakandi í rúminu og lét hugann reika. Það var ekki fyrr en birta tók af degi, að ég sofnaði. Þá dreymdi mig eftirfarandi draum:
Kristur sat í hásæti sínu og geislaði af honum. Tveir jöfrar, sem báðir báru kórónur, fóru fyrir lýðum, Dimitri hinn hugrakki og Dimitri Donskoj stórfursti. Héldu þeir á krossum og báru þá að háskti Krists. Herir fylgdu jöfrum þessum, rússneskur á aðra hlið en georgískur á hina.
"Guð er með oss", sungu Rússarnir einum rómi.
"Guð mun tortíma fjendum vorum", kyrjuðu Georgíumennirnir á móti. Um leið gall við rödd af himnum ofan: "Undarlegt er, að þið skuluð syngja á svo ólíkum tungum, en þó er tónninn sá sami, himneskur og heillandi". Það var Kristur, sem svo mælti.
"Hér er dans", hrópaði ég og vaknaði við hávaðann í sjálfum mér.
Um morguninn mætti ég fyrstur allra í skólann. Skólastofan var gjörsamlega tóm. Meðan ég beið, fannst mér hvert andartak líða löturhægt. Ég beið þess í ofvæni, að bekkjarbræður mínir mættu heyra, hversu heillaður ég var. Um leið og þeir komu, sagði ég þeim frá því, sem stóð í georgísku kennslubókinni. Og þeir hrifust eins og ég hafði gert. Við ákváðum að segja kennaranum, sem átti að kenna okkur í fyrstu kennslustundinni, honum Alexej Petrovits frá bókinni. Sá yrði nú hrifinn!
Kennarinn kom, og við sögðum honum frá georgísku bókinni.
"Þetta fær ekki staðist", tuldraði hann. "Það hlýtur að vera lygi". Þá sýndum við honum kennslubókina.
"Já", sagði hann, "víst stendur þetta þarna, en það er nú samt rangt. Þið skuluð ekki trúa þessu". Að svo mæltu snéri hann sér að kennslunni.
Við skólabræðurnir vorum vissir um, að kennarinn væri veikur. Hann var einhvern veginn ekki með sjálfum sér þennan dag. Nei, hann var ekki eins og hann átti að sér að vera. Hann leit ekki einu sinni á okkur í lok kennslustundar, né heldur kvaddi hann okkur með brosi, líkt og hann var vanur.
Eftir nokkra stund kom yfirkennarinn og rakti úr okkur garnirnar. Og hann tók georgísku bókina og fór með mig til skólastjóra.
"Hvað gengur eiginlega á"? spurði skólastjórinn.
"Ekkert", svaraði ég undrandi.
"Ekki það nei", hvæsti yfirkennarinn. "Hvað er þetta þá eiginlega"?
"Þetta er georgísk kennslubók í sögu", sagði ég í hreinskilni minni. "Hér stendur það sama um Georgíu og Alexej Petrovtsj kenndi okkur um Rússland í gær".
Nú tók skólastjórinn til máls: "Heyr á endemi", sagði hann. "Veistu ekki að það er bannað að lesa georgískar bækur í skólanum? En þér nægir ekki að lesa þær, heldur spillir þú öðrum skólapiltum, með því að láta þá lesa þær líka".
"Ég hélt.auk þess ráðlegði faðir minn mér að lesa þessa bók".
"Faðir, faðir! Það var tekið á móti þér í þessum skóla, til þess að þú gleymdir föður þínum og öfum. Hér eigið þið að snúa ykkur til þeirra, sem koma í þeirra stað. Skilurðu það"? En ég gat alls ekki skilið þetta og snéri titrandi inn í kennslustofuna. Bekkjarbræður mínir slógu hring um mig. Þegar ég sagði þeim allt af létta af ferð minni til skólastjórans, urðu þeir jafn undrandi og ég.
Upp frá þessum degi var lögð fægð á mig í skólanum, án þess ég gæti skilið hvers vegna. Ekki sló ég slöku við lærdóminn frekar en áður, ærslaðist aldrei og sýndi öllum tillitssemi.eins og ég var vanur.
Kennimaðurinn, sem kenndi okkur kristnifræði, varð mér sár. Kallaði hann mig fyrir sig og spurði mig spjörunum úr. Ég opnaði honum sem guðsmanni, hjarta mitt og dró ekkert undan. Hann sagði: "Sonur minn, þú ert enn of ungur. Þú getur ekki enn þá skilið allt sjálfur og átt því að hlýða þér eldri mönnum. Þeir þekkja þarfir þínar betur en þú. Það er þeirra, að svara bæði Guði og mönnum fyrir þína hönd. Þetta er Guðs vilji, eins og Biblían hermir. Ég skal láta þig fá hana, svo þú getir lesið hana þegar tóm gefst til. Guð mun hugga þig.
Hann talaði af föðurlegri umhyggju, strauk mér um höfuðið og afhenti mér Biblíuna á forn-slafnesku. Því næst lét hann mig fara.
Ég tók mér nú fyrir hendur, að lesa þessa bók, en skildi fátt, sem í henni stóð. Hvað eftir annað leitaði ég til föður míns eftir aðstoð. Loks þraut hann þolinmæðina og sagði:
"Í Guðs bænum, láttu mig í friði! Kveldu hvorki mig né sjálfan þig. Ef þig langar til að lesa guðspjöllin, skaltu lesa þau á georgísku. Á þá tungu voru þau þýtt af dýrlingum í árdaga kristinnar trúar. Allt eldist, en tunga guðspjalla okkar er alltaf sem ný".
Tók ég þá að lesa guðsorðið á georgísku og varð mér við það rórra.
"Hvernig gengur þér með guðspjallið, lestu það"? spurði kennimaðurinn dag nokkurn.
"Já, að sjálfsögðu. Og ég les það ekki einungis, heldur ber ég það alltaf á mér".
"Gott er nú það. Viltu lofa mér að líta á"?
Ég rétti honum guðsorðið þegar í stað. Hann rak upp stór augu, hélt bókinni í annarri hendinni og virti hana fyrir sér. Loks spurði hann:
"Hvað er nú þetta"?
"Þetta er Biblían".
"Hvaða Biblía"?
"Þetta er Biblían á georgísku".
"Lét ég þig lesa þetta"?
"Ég skildi ekkert í því, sem þér sögðuð mér að lesa".
"Humm! Einmitt það já. Þú kastar frá þér heilögu riti allra rétttrúaðra kristinna manna, til að geta lesið þessa bók, sem skrifuð er á þessu líka hrognamáli. Það ætlar ekki að vera auðvelt, að koma þér til manns. Að svo mætlu grýtti hann bókinni í vegginn, svo blöðin þyrluðust í allar áttir. Ég stóð stjarfur í sögu sporum. Einhver undarleg tilfinning stakk mig í hjartað. Svo rauk ég af stað og man ekki hvernig eða hvenær ég kom heim. Ég man það eitt, að ég lagðist á grúfu í rúm mitt, huldi andlit mitt ofan í svæfilinn og hágrét. Foreldrar mínir stóðu yfir mér og reyndu að róa mig.
"Er tungumál okkar hrognamál"? spurði ég með grátinn í kverkunum.
"Hvað er að heyra, sonur minn? Ertu genginn af göflunum"? hrópaði móðir mín og lagði hönd á munn mér. "Þér er ekki sjálfrátt! Hafnaðu ekki Guði!".
"Það gerði ég ekki, heldur lærifaðirinn".
"Hvaða óþokki er það. Varla er hann kristinn? Hann hlýtur að vera guðleysingi!"
"Nei, nei, hann kennir kristin fræði".
"Hvernig má það vera, sonur minn? Gæti hann þá sagt annað eins?"
"Hann er ekki einn um að segja þetta, aðrir segja það sama".
"Þeir eru að spauga, þótt slíkt spaug sér syndsamlegt".
"Hvílíkt spaug! Hann slöngvaði frá sér bókinni, svo allir nemarnir hrukku í kút".
Foreldrar mínir horfðust lengi þegjandi í augu. Síðar sagði faðir minn:
"Elene, við tökum drenginn úr menntaskólanum. Enda þótt vankunnátta sé mikið ólán, þá er hún betri en sálarháski". Foreldrar mínir yfirgáfu herbergið hálfgrátandi. Þau skildu mig eftir niðursokkinn í örvinglan minni.
"Hvernig má það vera", hugsaði ég, " að tungumálið, sem heilagur Nino talaði, þegar hann boðaði þjóð okkar kristni, sé hrognamál? Að tungumálið, sem heilagir feður hafa um aldir notað til að þjóna Guði, sé óhreint? Hví höfum við kvalist fyrir Guð svo lengi, ef þessi tunga er honum ósamboðin? Fórnuðu píslarvottar okkar sér til einskis? Var öll okkar fortíð til einskis"?
Eftir því, sem ég spurið sjálfan mig fleiri spurninga, fylltist sál mín meira angri og kvölum, uns ég þreyttist svo, að ég féll í fasta svefn. Dreymdi mig þá annan draum. Mér þótti sem Kristur logaði í hásæti sínu. Í stað hans reis Anti-Kristur upp. Honum til beggja handa, stendur flokkur djöfla, leiddir af Júðum og þá ekki síst Kain. Gömul kirkja er brotnin og heiðið hof reist. Þar þjóna heiðnir prestar guðum sínum í makindum. Voru þeir ekki kristnir áður, sem nú þjóna goðum heiðingjanna? "Færum Mammon fórn", segja þeir. Villimenn hlaupa að með blóðuga hnífa. Þeir bera milli sín unga menn, sem þeir hyggjast fórna. Guð minn góður, enn hvað þeir líkjast kennurum mínum"! Og þessir ungu menn; eru þetta ekki bekkjarbræður mínir? Hví eru þeir leiddir til Heljar með valdi? Já, hér er Helvíti. Ég loga, ég missi ráð og rænu. En. Guði sé lof fyrir réttlæti hans! Skyndilega er sem ljós leiftir með miklum drunum. Eldingu slær niður og lýstur Anti-Krist. Hann fellur í hyldýpi ásamt öllum sínum árum.
Úr fjarska berst himnest ljós. Þar birtist Kristur, að dæma lifendur og dauða.
(1906)
Aftur á forsíðu