Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu

BRÉFIÐ

Smásaga eftir Pjetur Hafstein Lárusson

        Ágæti lögreglumaður.
        Ég gæti svo sem allt eins notað ávarpsorðin "hver sem þú ert", en ég kýs að ávarpa þig sem lögreglumann. Það geri ég í þeirri vissu, að bréf þetta muni eðli málsins samkvæmt, hafna hjá lögreglunni. Auðvitað veit ég ekki hver þú ert. En mér finnst skemmtilegra að ávarpa þig sem persónu heldur en að skrifa því embætti, sem þú starfar hjá. Vonandi fyrirgefur þú mér það.
        Ef til vill finnst þér að ég ætti að byrja á því, að gera einhverja grein fyrir sjálfum mér. Ég veit varla hvort þess gerist þörf úr því sem komið er, eða verður þegar þú lest þetta bréf. Málið snýst þá augljóslega ekki um mig, þegar öllu er á botninn hvolft, heldur um manninn í næsta húsi. Það er nú einu sinni hann, sem er gjörningsmaðurinn. Þó væri kannske réttara að segja, að hann væri sá gjörningsmaður, sem þú gætir náð til, því auðvitað á ég minn þátt í þessum verknaði. Eða telst það ekki að minnsta kosti óbein þátttaka í verknaði, að hindra ekki framgang hans þótt færi gefist? En sem sagt, eins og ekki þarf að segja þér, þá nærðu bara honum þarna í næsta húsi, - ekki mér.
        Það atriði er ekki til í lífi nokkurs manns, að ekki eigi það sér einhvern aðdraganda, sama hve smátt það er. Þú mátt ekki misskilja mig. Svo kaldhæðinn er ég ekki, að ég vilji halda því fram, að það sem gerst hefur þegar þú lest þetta bréf, sé smáatriði. Síður en svo. En allt byrjaði þetta ósköp hversdagslega. Eða svo var í það minnsta að sjá.
        Ég var nýfluttur suður og hafði leigt mér þessa herbergisboru við Grettisgötu eftir auglýsingu í dagblaði. Eins og þú auðvitað veist, er þetta gaflkytra undir súð. Þú veist svo sem líka, að eigendurnir, hjón á miðjum aldri, búa á neðri hæðinni. Nei, ég þarf víst ekki að segja þér það. En sennilega veistu ekki hvernig lífi þau hjónin lifa, ef líf skyldi kalla. Að vísu er það rannsóknarefni þínu óviðkomandi en gæti nýst þér síðar.
        Maðurinn er bifvélavirki á verkstæðinu, sem stendur beint á móti húsinu. Mér skilst að hann hafi unnið þar þessi þrjátíuogfimm ár, sem hann hefur gangsett annara manna pjáturdósir.
        Móðir hans, hverja hann blessar í bak og fyrir, þegar hann er fullur, hafði víst talið honum trú um, að hann væri í það minnsta Caruso norðursins. Óneitanlega bendir það til þess að hann hafi haft söngrödd þegar stuttbuxurnar voru að slitna utan af honum. En sú tíð er löngu liðin. Þetta nægir honum þó til að spila plötur með téðum Caruso frá því tappinn fýkur af fyrstu flösku helgarinnar um klukkan sex á föstudagskvöldum og þar til síðasta glasið lekur úr höndum hans, aðfararnótt hvers mánudags.
        Hann hefur svo sem fleira fyrir stafni meðan hann drekkur en að hlusta á stórsöngvarann og dásama minningu móður sinnar. Þannig er, að hann hefur það til siðs í ölæði sínu, að berja konuna af því kappi, sem ýmsum lífsleiðum mönnum er tamt, þegar brenglaðar tilfinningar þeirra streyma frá hjartanu og út í hnefana, án þess að heilinn sé fær um að veita teljandi mótstöðu. Í þrjá mánuði hef ég búið í þessu húsi. Ég minnist þess ekki að hafa séð konuna óbarða þann tíma. Ýmist eru augu hennar sokkin í litríkri glóð, nefið brotið eða axlirnar hrokknar úr liði. Um síðustu helgi drýgði kappinn svo þá dáð, að handleggsbrjóta konugarminn. Til þess notaði hann skiftilykil en slík tól virðast til margra hluta nytsamleg.
        Þess gerist tæpast þörf að segja þér, að vesalings konan æpir jafnan og skrækir undan barsmíðunum. Framan af veru minni hér í húsinu kom ég henni stundum til hjálpar. Fyrst þegar það gerðist dugðu fortölur mínar ekki karlinum, svo ég knúði lítillega upp á kjamma hans. Þá sljákkaði í honum og upp frá því var hann hræddur við mig. En þegar ég varð þess áskynja, að eftir barsmíðarnar var það fastur liður, að þau hjón gengju til rekkju nokkra stund, hætti ég að skilja þessa síbörðu konu. Ég er ekki meiri bjargvættur en svo, að mér er um megn að bjarga fólki, sem ég skil ekki. Svo ég hafði ekki frekari afskipti af þessum frumstæðu samkvæmisleikjum þeirra hjóna. En þetta var nú útúrdúr.
        Eins og ég sagði áðan var upphaf þess, að þú hefur þetta bréf undir höndum ósköp hversdagslegt. Ég hafði búið hér í rúman mánuð. Það var haustkvöld. Regnið dansaði á þakinu, streymdi niður rennurnar og ég tóbakslaus. Ég hefði varla nennt út í sjoppu, nema vegna þess, að ég ætlaði að skrifa fram á nótt og vanhagaði því um tóbak. Það var ekki langt að fara í sjoppuna. Samt var ég hundblautur þegar þangað kom. Og mátti ekki seinna vera.
        Ég hef löngum haft gaman af að skjalla fagrar konur. Því gat ég ekki á mér setið að tilkynna afgreiðslustelpunni í sjoppunni, ljómandi snoturri snót, að roðinn í kinnum hennar væri upplífgandi mótsögn við gráma þessa drungalega haustkvölds. Hún tók skjallinu brosandi um leið og hún afhenti mér tvo sígarettupakka. Á heimleiðinni rakst ég á mann, vel við aldur. Hann hímdi upp við húsvegg og bjástraði við að kveikja sér í pípi. Þegar ég var í þann veginn að ganga fram hjá honum, spurði hann mig, hvort ég gæti ekki bjargað sér um eldspýtu. Regnið hefði slökkt í þeirri síðustu, sem hann var með á sér. Ég dró eldspýtnastokk upp úr vasa mínum og rétti honum. Honum tókst að glæða í tóbakinu, þakkaði mér fyrir og rétti mér stokkinn. Örskamma stund horfðumst við í augu; báðir þegjandi. Að því búnu kvöddumst við. Ég heyrði að maðurinn gekk í humátt á eftir mér. Ég leit ekki um öxl þegar ég kom að útidyrunum hjá mér. En ég vissi af honum. Fremur snotur maður að sjá, utan augun. Þau voru hvöss og bitur.
        Þegar heim kom settist ég við skrifborðið, kveikti mér í sígarettu og byrjaði að skrifa. Skrifborðið stendur undir þessum eina glugga herbergisins. Hann veit beint að glugga í næsta húsi. (Hvað er ég annars að segja þér þetta? Líklegast situr þú einmitt við skrifboðið mitt meðan þú lest þetta bréf). Þótt ég sæti oft við skrifborðið, hafði ég aldrei veitt glugganum á móti neina sérstaka athygli. Þegar ég settist, sá ég að slökkt var innan hans. En skömmu síðar kviknaði ljós. Gamall maður gekk að glugganum og dró tjöldin frá. Hann reykti pípu.
        Upp frá þessu tók ég að verða þess var, að aldrei var ég fyrr sestur við þetta margnefnda skrifborð, en maðurinn á móti dró gluggatjöldin frá og kveikti ljós í herberginu. Ég gat ekki sér að hann væri að fylgjast neitt sérstaklega með mér. En það er ekki alveg marktækt, því ég hef þann vana að bogra yfir ritvélinni þegar ég skrifa og veiti því umhverfinu takmarkaða athygli. Svona gekk þetta fyrir sig allnokkur kvöld í röð og reyndar langt fram á nótt. Ég verð að viðurkenna, að svo fór að lokum, að forvitni mín var vakin. Hvað gat manninum eiginlega gengið til með þessari ljósasýningu? Og hvers mátti ég vænta? Hvað vissi ég nema mér stafaði ógn af honum?
        Nú gæti ég best trúað, að þú veltir því fyrir þér, hvers vegna ég hafi ekki bara dregið gluggatjöldin mín fyrir, fyrst maðurinn á móti dró sín frá. Ég gerði það. En eins og þú getur hæglega gengið úr skugga um, þá eru gluggatjöldin í herbergi mínu þunn og næsta gegnsæ.
        Lengi vel sá ég ekkert í herberginu á móti, annað en dyrnar. Þú veist að þær standa beint andspænis glugganum. Jú, og svo auðvitað vegginn, sem dyrnar eru á. Svo var það fyrir tveimur dögum, að ég sá, að þessi veggur, og einnig dyrnar, hafði verið málaður. Það er svo sem virðingarvert að mála hjá sér herbergi. Bæði ber það vott um dugnað og eljusemi og eins getur það sýnt vissa smekkvísi, þé litavalið þesslegt. Smekkur fólks er margbreytilegur. Sumir vilja hafa herbergi sín í ljósum litum, jafnvel glannalega ljósum. Aðrir eru gefnir fyrir dempaðri liti og þannig mætti lengi telja. En ekki minnist ég þess, að hafa fyrr séð svart herbergi. Ég sé að vísu ekki nema þennan eina vegg og dyrnar á honum. En ég get mér þess til, að fyrst maðurinn málaði þetta svart, þá hljóti hann að hafa gert slíkt hið sama við allt herbergið.
        Hvort að mér sótti beygur? Ég segi það nú kannske ekki. En heldur þótti mér ónotalegt að skrifa þessa nótt.
        Þú ert í þannig starfi, að þér beinlínis ber að hnýsast í annara manna mál. Ég hef hins vegar alltaf leitt slíkt hjá mér, enda var amma mín vön að segja, að þeim mun minna sem ég vissi um aðra, þeim mun betra. Of mikil vitneskja um fólk, er engum til góðs, sagði gamla konan. En ég verð að játa, að eftir þessa nótt var forvitni mín vakin.
        Mér þótti ekki ráðlegt, að spyrja húsráðendur mína. Ekki var ósennilegt, að þau hjónin vissu sitthvað um manninn í næsta húsi. Nei, það var beinlínis næsta v&iacutest. En jafn öruggt mátti telja, að ekki hlytist neitt gott af því, að blanda þeim í málið. Því brá ég mér út í sjoppu og ræddi lítillega við hina kinnarjóðu afgreiðslustúlku þar. Ég vissi sem var, að spjallið það veitti augum nokkurt yndi, eins þótt upplýsingar hennar kynnu að verða af skornum skammti. En ég kom ekki aldeilis að tómum kofanum. Blessuð stúlkan reyndist þá vera alin upp í hverfinu og ekki beinlínis í samræmi við áðurnefnda lífsreglu hennar ömmu minnar, að best væri að vita sem minnst um annað fólk. Í það minnsta var hún óþrjótandi fróðleiksbrunnur um manninnn í húsinu við hliðina á mér.
        "Hann fæddist í þessu húsi og hefur alltaf átt heima þar", sagði hún og tyggjókúla þandist yfir hálft andlit hennar uns gúmmíið hvarf milli óþarflega sterkmálaðra varanna. "Guð, það eru örugglega hundrað ár síðan mamma hans dó. Síðan hefur hann verið þarna einn, allan tímann".
        Í ljósi þess, að stúlkan virtist tæpast orðin tvítug, þótti mér óviðeigandi að spyrja hana, hvort hún hefði einhvern tíma séð móður hins dularfulla nágranna míns, enda hæpið að minni hennar næði aftur til landshöfðingjatímabilsins. Hins vegar áræddi ég að spyrja hana, hvort maðurinn hefði aldrei unnið neitt. "Unnið? Nei, ég er alveg viss um að hann hefur aldrei unnið neitt". Það vottaði fyrir sannfæringarglampa í augunum.
        "En menntun"? spurði ég.
        Jú, það var altalað í hverfinu, að hann hafi byrjað að læra guðfræði, en farið próflaus yfirum.
        Þykir þér ekki, ókunni maður, líkt og mér að það séu nokkuð nöturleg örlög, að vera geðveikur menntamaður og próflaus að auki? Ekki svo að skilja, að geðveiki sé ekki alltaf til ama. En hún hlýtur að leggjast nokkuð þyngra á þá, sem horft hafa á tækifæri lífsins renna sér úr greipum, heldur en hina, sem aldrei hafa átt þess kost, að reyna andlegan mátt sinn.
        Ég eyddi gærdeginum að mestu á kaffihúsi. Ég fer alltaf á sama kaffihúsið, enda er það í grendinni. Auk þess liggja dagblöðin þar frammi. Mér þykir þægilegt að sökkva mér í þau, þó aðeins þennan eina dag vikunnar. Þannig fæ ég staðfestingu þess, að það er ekki aðeins mitt líf, sem er fáfengilegt. Eitt stríðið hér og annað þar, bílslys í Borgarfirði og gjaldþrot frystihúss suður með sjó. Allt telst þetta til tíðinda á síðum dagblaðanna, þótt það sé aðeins hluti þess forgengilega lífs, sem allir lifa. Á þessu kaffihúsi sitja gjarnan bóheimar og listamenn. Milli þeirra kastast hálfkveðnar vísur, líkt og þeir vilji forðast náin kynni. Í eyrum mér láta orð þeirra sem lækjarniður. Þú veist, að þó að hver einstakur vatnsdropi í læk renni á braut og hverfi að eilífu, þá kemur annar svo viðstöðulaust í hans stað, að það er sem um sama dropann sé að ræða.
        Jæja, hvað sem því líður, þá settist ég snemma við ritvélina í gærkvöldi. Granni minn á móti dró gluggatjöldin frá eins og hans er siður. Þá blasti við mér undarleg sjón. Ég sá, að á svartan vegginn, nátar tiltekið við hliðina á dyrunum, hafði hann málað hvítan kross. Þetta tákn gat ekki verið öðrum ætlað en mér. Renndi hann ef til vill grun í, að kristindómi mínum væri eitthvað áfátt? Ætlaði þessi uppflosnaði guðfræðinemi sér þá dul, að gera úr mér sannkristinn mann? Mér var það hulið. Hitt duldist mér ekki, að þessi hvíti kross á svörtum vegg, gat ekki verið án merkingar.
        Fram eftir nóttu bjástraði ég við að skrifa. En eins og þú sérð ef þú flettir blaðabunkanum í efstu skrifborðsskúffunni til hægri, þá átti ég erfitt með að halda hugsunum mínum í rökréttu samhengi. Ótti? Nei, ekki ótti, heldur óþol þess manns, sem skynjar að mikil tíðindi eru í vændum, án þess að hann geti gert sér grein fyrir eðli þeirra, orsökum eða afleiðingum.
        Sunnudagur. Ég vaknaði við þung slög kirkjuklukknanna á holtinu. Syfjuðum höndum fálmaði ég eftir sígarettu og eldspýtum á kollinum, sem ég nota sem náttborð. Það er nú einu sinni svo, að tóbak er aldrei betra né áhrifaríkara en á fastandi maga.
        Sennilega leikur þér forvitni á að vita, hvernig ég eyddi þessum degi. En ég hef alltaf gætt þess, að lifa fábreytilegu lífi. Og það sem er fábreytilegt skiptir ekki máli. Þessi dagur leið tíðindalaust, allt þar til ég settist við skrifborðið. Ég hafði hugsað mér, að halda áfram skrifum mínum, þar sem frá var horfið. En um leið og ég settist niður, varð mér litið til þess gamla á móti. Og þá sá ég nokkuð, sem varð til þess, að ég ákvað að skrifa þér þetta bréf. Hvíti krossinn var á sínum stað á svarta veggnum. En ég tók eftir nokkru, sem opnaði augu mín fyrir því, hvers vegna gamli maðurinn hafði málað hvítan kross á svartan vegg, þannig að ég kæmist ekki hjá því að sjá hann.
        Ég þykist vita, að þegar ég hef sagt þér frá því, sem við mér blasti, muni þig undra, að ég skuli ekki hafa forðað mér, sérstaklega í ljósi þess, að ég skildi þegar í stað, hvað ég átti í vændum. Má vera, að þú spyrjir þig þeirrar spurningar aftur og aftur. En sparaðu þér ómakið, lagsmaður. Ég skal leiða þig í allan sannleikann. Ég hef þegar sagt þér, að ég sækist eftir fábreytilegu lífi. Það kemur ekki til af því, að ég telji að lífið hafi ekki upp á neitt að bjóða. En ég hef alla tíð óttast það, sem ég ekki þekki. Vissulega gæti verið gaman, að hafa nánara samneyti við konur, en að skjalla þær á förnum vegi. En það gæti líka haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Eins er það með bóheimana og listamennina, sem ég sé alltaf á kaffihúsinu á laugardögum. Hugsanlega væri það ómaksins vert, að kynnast þeim örlítið nánar. En það er aldrei að vita til hvers þau kynni gætu leitt. Í stuttu máli sagt; ég lifi en lifi þó ekki!
        Fyrirgefðu að ég skuli leggja fyrir þig spurningu. Ég geri það í ljósi þess, að þú þarft aðeins að svara henni gagnvart sjálfum þér. En hvort telur þú þann mann, sem í raun er lifandi dauður, lifandi eða dauðan? Það sem ég sá í herbergi gamla mannsins nú í kvöld, vakti þessa spurningu í huga mér og veitti mér jafnframt svar. Á þverbita krossins hafði hann letrað nafn mitt, fæðingardag og daginn í dag. Samstundis vissi ég, að þessi undarlegi nágranni minn, taldi mér ekki fleiri lífdaga þörf. Og hef alla tíð verið lifandi dauður. Dauðamaður! Því ákvað ég, að láta slag standa og fara hvergi. Í fyrsta skipti á ævinni skyldi ég mæta einhverju óvæntu, án þess að renna af hólmi,- eins þótt það kostaði mig lífið, sem ég hvort sem er hef aldrei lifað. Það er langt liðið að miðnætti. Gamli maðurinn hefur staðið við gluggann í rúman hálftíma og horft á mig. Augu hans eru ekki lengur hvöss og bitur. Þau lýsa aðeins einskonar hlutleysi. Ég veit hvað ég á í vændum. Ekki í smáatriðum, en meginatriðið er mér ljóst.
        Hann opnar gluggann. Ég sé hann lyfta riffli. Hann leggur skeftið að öxl sér. Miðar. Miðar á mig.  Klu
 
 

Aftur á forsíðu