Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
VÖKUBORG OG DRAUMS
Pjetur Hafstein Lárusson
HRINGRÁS TÍMANS
VETUR
VETRARNÓTT
B
orgin sefur
VOR
VORMORGUNN
Klakinn á Tjörninni þynnistuns
hverfur sá spegill vetrar.
Vængjaður vorþytur er kveðast á
þröstur og kría.
Regnvotum vörum
heilsast á gráum strætum
kumpánar Kvosarinnar.
Torgið í gleði kyssir
fráar iljar.
SUMAR
SUMARDAGUR
Sumarið syngur í blómskrúði Austurvallar
kjaga um grasbalann börn og drykkjurútar.
Áhyggjulausir dansa sólargeislar
á léttum bárum Tjarnarinnar.
Sjálf sorgin er farin í frí
og lögst í flakk
á afar hagstæðum greiðslukjörum.
HAUST
HAUSTKVÖLD
Vindar næða í skrælnuðu laufi.
Ég heyri þau falla
hin þungu högg kveðjustundarinnar.
Einfara ber yfir Torgið
skuggi, aðeins skuggi
án fylgdar.
Tregi fyllir hjörtu
þau bærast milli vonar og ótta.
Allt er hljótt
nema næðandi vindur í laufi
og þung högg kveðjustundarinnar.
SLÓÐ
PÓLITÍIÐ
Meðan þeir gengu "götuna fram eftir veg",
var hlutskipti þitt að hlykkjast um hana fram og aftur með stromphatt á höfði til merkis um stöðu og stétt og nefið í hvers manns koppi í laganna nafni. Slyngur að veiða sök upp úr brotagemsum. Sagður sannorður hversdags, í því hófi, sem að sögu fellur. |
Alexíus Árnason pólití: teikning úr Íslandsleiðangri Richards F. Burtons árið 1872 |
TVÖ DIMMBLÁ BLÓM
Tvö dimmblá blóm
spretta í garði við lygnan vog.
Tvö dimmblá blóm.
Ekki fölar myndir
liðinna daga
heldur kvikur tregi
líðandi stundar.
Og þó veit ég alföður
örmum vefja
þau dimmbláu blóm
er sorg mína bæra.
SJÓNHENDINGAR
GAMLI KIRKJUGARÐURINN
OG KÚRLANDS-ÞJÓÐVERJINN
Aðeins fallandi lauf.
Nei, garðurinn deyr ekki.
Laufskrúði krýndur mun hann gleðja
augu okkar að vori
anga sem aldrei fyrr
(þykir okkur jafnan).
Við munum ganga þrönga stíga hans
sum hönd í hönd
önnur ein og í þungum þönkum.
Hvað sem öðru líður munum við ganga
þessa sömu stíga
og dást að litbrigðum laufsins
þá sem nú
staðnæmast við stöku leiði
láta hugann reika
en segja fátt
þá sem nú.
En það verður ekki sama laufið
ekki sama laufið
og við ekki sama fólkið.
Far vel, ó þið fölgulu dagar uppskerunnar.
Far vel.
Þegar líða tekur á ágúst
læðist að óljós grunur um viðskilnað.
Ljúfsár tregi sækir á hugann
líkastur dökku skýi
sem enn hefur ekki tekist að dylja sólu.
Ekki enn.
Gamli Kúrlands-Þjóðverjinn
fer ekki lengur næmum höndum
um leiði Reykvíkinga.
Við höfum sett hann á eftirlaun
og nú bíður hann þess
að leggjast til hvílu
fjarri ættjörð sinni
meðal þeirra sem dauðir
vöktu honum þanka
um hverfulleik lífsins.
Aðeins fallandi lauf.
HELGUR MAÐUR FRÁ TURKESTAN
Hann
hét víst Sun Wu Koungh. Ég sá hann
iðulega í bænum á bernskuárum mínum, þennan hvíthærða öldung frá Turkestan, hingað kominn af duldum ástæðum, sem menn réðu lítt í. Hann mun hafa verið helgur munkur af reglu Zen-búddista. Göngu sinni lauk hann hér norður undir pól og var grafinn í Fossvogskirkjugarði. Síðar voru bein hans grafin upp og niður öðru sinni, þá í Mexíkó, þar sem auðugir áhangendur hans vildu njóta nærveru þeirra. Svona getur helgin lagst í flakk. |
Ljósmynd af styttu Guðmundar Elíassonar af zen-búddamunknum Sun Wu Koungh |
DÓSÓÞEUS TÍMÓTHEUSSON
Hvítfaxa gengur um bæinn
öldungur ennishár
með íbjúgt nef jafnt sem nafn
kynjað austan frá ströndum fornra sagna.
Að öðru leyti er maðurinn að vestan.
Hann gengur jafnan
með hendur fyrir aftan bak
líkt og áhyggjufullur herstjóri
nóttina fyrir einhverja af þessum úrslitaorrustum
sem engum úrslitum ráða
nema þá á landakortum.
Ólíkt slíkum kónum
brosir hann oftast
enda eru þeir dús,
heimurinn og hann.
Saman hafa þeir baðað sig
í mörgum sólargeislum
sem glitrandi stigu dans
á ljúfra veiga skálum.
UNDIR FÓTUM FÖRUMANNA
LAUGAVEGUR
Ormurinn langi
hvað er þér á höndum,
ætlarðu inn í Laugar eða niður í bæ?
Roguðust forðum
bakveikar konur og mæddar
með óhreinan þvott þessa bæjar
á bakinu inn í Laugar
og tandurhreint lín til baka.
Þeirra varstu Þrautagöngustígur.
Nú ertu allur annar, elsku karlinn
hellum lagður og malbikaður á milli.
Fráleitt að for og leðja hefti för
kvenna á rölti milli þinna búða.
Kínverskur ertu nú í annan endann
hinn er víst orðinn eineygt sjónarspil
og sendir öllum landslýð stofumyndir
af misþyrmdu fólki úti um allar jarðir.
Já, bernsku minnar fráu fóta gata
aldrei mun hattur minn lyftast
of hátt frá höfði
er heilsa ég þér
af tilhlýðilegri virðing.
TJARNARGATA
Undir Dauðramannabrekku
reistu þeir hús sín,— höfðingjarnir.
Þar ráðskuðust þeir með sálir hinna lifandi
eins og slíkra er siður.
Þeir dauðu í garðinum ofan götunnar
létu sér fátt um finnast
vitandi sem var
að brátt yrðu höfðingjarnir grafnir meðal þeirra
valdalausir með öllu.
Sömuleiðis héldu endurnar áfram
svamli sínu á Tjörninni
og töldu sig síst búa
á fínni stað en áður.
MYNDIR Á STANGLI
SVEFNVEIÐAR
Svefninn sökkvir öngli
í djúpa vornótt.
Ég bít á agnið
ljúfa draumastund.
Regndropadans á götunni
værir hugann.
Annars er borgin þögul og væntir dags
handan við himinbál og hafs
sem roðar austrið
fjarri draumi og vöku.
VIÐ BORGIN
Ég er borgin
garðar hennar, port og götur.
Saga hennar er saga mín
sól hennar, stjörnur og máni
mínir hnettir
mín himinblik.
Og borgin er ég
hugsanir mínar
sorg og gleði.
Saman höfum við lifað
og saman munum við deyja
mér.
BORGARFRELSI MANNS OG HUNDS
Svo frjáls ertu hundur
sem nemur spottans lengd
milli háls þíns
og handar þín herra.
Meira verður ekki krafist.
En hugðu að því
að frelsi herra
og helsi hunds
eru af sömu rót
spottans lengd.
GÖMUL MYND
Að hjóla gegnum Höfðaborgina, þennan reit fátæktar
og ömurleika, á nýju glæstu reiðhjóli,— það var ögrun,
skildist mér
síðar. Þó var mér á einhvern hátt þegar
ljóst, að ég verðskuldaði
grjótið, sem á mér buldi.