Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar
Árið 2008 var öld liðin frá fæðingu Steins Steinarrs, jafnframt var þetta ár fimmtugasta árstíð hans. Þær vangaveltur sem hér fara á eftir, eru skrifaðar í tilefni þessa. Hér er ekki um að ræða annað en samhengislausar vangaveltur um skáldið, samtíð þess, ljóð þess og líf.
Komi einhver til með að nýta sér þessi skrif á prenti, netinu eða með öðrum þeim hætti, sem flokkast getur undir fjölmiðlun, er hann vinsamlegast beðinn um, að læða að því orði að höfundi þessara pistla.
18.1.2008
Hann hét Aðalsteinn og var skráður Kristmundsson, hvort sem það á við rök að styðjast, eða hitt er sannara, að eitthvað hafi verið til í gróusögum fyrir vestan um faðerni drengsins. En svo mikið er víst, að hvorki verður úr því skorið, né heldur skiptir það máli. Hitt er nokkurs um vert, að þegar piltur þessi óx úr grasi, hneigðist hugur hans til skáldskapar. Tók hann sér þá skáldanafnið Steinn Steinarr.
Í ár er liðin öld frá fæðingu Steins, en hann fæddist á Laugalandi í Nauteyrarhreppi, vestur við Ísafjarðardjúp þann 13. október árið 1908. Ekki náði Steinn Steinarr háum aldri; hann lést í Reykjavík 25. mai 1958 og er því, auk aldarafmælisins, fimmtugasta árstíð hans í ár. Þá er þess og að geta, að höfuð verk hans, ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið, kom út í árslok 1948 eða fyrir sextíu árum. Raunar segja sumir, að nokkur vafi leiki á því, hvoru megin áramótanna ljóðaflokkurinn hafi komið út. Flestir hallast þó að því, að það hafi verið fyrir áramót. En um það gildir hið sama og um faðernið; það skiptir ekki máli. Hitt er meira um vert, að íslenskur skáldskapur er annar eftir útkomu Tímans og vatnsins en fyrir hana, og höfðu þó ýmis ljóð þess bálks birtst áður.
Steinn Steinarr hefur haft meiri og djúpstæðari áhrif á íslenskar bókmenntir, en margur hyggur. Um það má deila, hvort bókmenntir móti tíðarandann eða mótist af honum. Sjálfur hallast ég að því síðar nefnda. En það breytir ekki því, að Steinn Steinarr er á sinn hátt, tákngervingur okkar tíma. Hann er spegilmynd þeirra þúsunda, sem yfirgáfu þýfða túnbleðla forfeðranna og þá mýrafláka, sem vætt höfðu fætur þeirra um aldir, til þess, að freista gæfunnar í litla borglíkinu suður við Faxaflóa. Upp frá því var hann gestur Reykjavíkur og barn hennar í senn; næmt eyra hennar og þrjóskufull rödd.
Það má ekki minna vera, en ég freisti þess, að varpa nokkurri mynd á Stein Steinarr í þeim skrifum mínum, sem hér birtast þetta árið. Það nægir nefnilega ekki, að taka ofan fyrir slíkum mönnum, þegar þá ber fyrir augu með einum eða öðrum hætti, og halda svo áfram göngunni, eins og ekkert hafi í skorist.
19.1.2008
Oft hefur tómhyggju borið á góma í umræðum um skáldskap Steins Steinarrs. Ég get ekki fallist á, að hann sé skáld tómhyggjunnar. Vissulega er Steinn skáld efans. En efinn er ekki höfnun á æðri gildum, eins og tómhyggja, heldur leit að þeim. Hvort hann hafi hneigst til dulhyggju í einhverri mynd? Visssulega má sjá þess merki í sumum ljóða hans. Og svo mikið er víst, að hann gekk kaþólsku kirkjunni á hönd, en dulhyggjan er snar þáttur í kaþólskri trú. Raunar vilja sumir gera lítið úr kaþólsku Steins Steinarrs. En mér er það til efs, að maður með hans geðslag hafi gerst kaþólikki upp á grín.
Enda þótt Steinn væri stundum opinskár í skrifum sínum, jafnt í bundnu máli sem lausu, var hann dulur maður. Í verkum sínum opinberaði hann vissa þætti í eðli sínu; aðra ekki. Hann átti sinn heim. Því til staðfestingar er eftirfarandi frásögn:
Fyrir all nokkrum árum átti ég viðtal við systurson Steins, Harald Guðbersson myndlistarmann, á síðum Morgunblaðsins. Þar segir Haraldur m.a. frá því, að þegar hann, barnungur lá á sjúkrahúsi fyrir sunnan, fjarri fjölskyldu sinni, kom Steinn frændi hans reglulega til hans, bæði til að stytta honum stundir, eins eins til að færa honum liti og pappír. Sjúkrahúslega Haraldar var löng, enda þjáðist hann af tæringu. En aldrei brást það, að Steinn vitjaði hans. Engir af hinum fjölmörgu spjallfélögum Steins vissu þó um þennan frænda hans, hvað þá heldur um samband þeirra. Þetta var hluti þess heims, sem Steinn átti fyrir sig og hleypti ekki óviðkomandi að.
Þau voru mörg, mýraljósin í lífi og ljóðum Steins Steinarrs. Vissara að fara varlega í skrifum um slíkan mann og verk hans.
25.1.2008
Steinn steinarr var ekki aðeins með okkar bestu ljóðskáldum; hann var og hagur á óbundið mál. Síðustu æviárin bjó hann ásamt konu sinni, Ásthildi Björnsdóttur, suður í Fossvogi. Ráku þau þar lítilsháttar hænsnabú, sem ekki var fátítt á þeim árum umhverfis bæinn. Einnig herbergjuðu þau hundtík, en slík var á þeim tímum í trássi við reglur Reykjavíkurborgar þar um.
Nú voru góð ráð dýr, þau hjónin vildu hvorki láta tíkina, né brjóta veraldleg lög og reglur. Var því brugðið á það ráð, að skrifa bæjarráði bréf, sem stílað var á Gunnar Thoroddsen borgarstjóra. Bréfið birtist í heildarsafni Steins árið 1964 og fer hér á eftir:
„Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri.
Það er upphaf þessa máls, að við undirrituð eldri hjón, til heimilis að Fossvegsbletti 45 við Sléttuveg í Reykjavík, höfum undanfarin 2 ár haldið hundtík eina, mórauða og gamla nokkuð. Vel er okkur ljóst, að slíkt uppátæki stríðir í móti lögum og rétti þess bæjarfélags, hverju við tilheyrum. En allt um það höfum við, svo sem oft vill verða, bundið nokkurn kunningsskap og jafnvel vináttu við þetta fátæklega kvikindi, svo og það við okkur, eftir því, sem næst verður komizt.
Nú höfum við síðustu daga orðið þess greinilega vör, að æðri máttarvöld hyggjast láta til skarar skríða gegn hundtík þessari, og sjáum við ekki betur en að í nokkurt óefni sé komið. Þess vegna spyrjum við yður, herra borgarstjóri, hvort þér getið í krafti embættis yðar og þó einkum af yðar snotra hjartalagi veitt okkur nokkra slíka undanþágu frá laganna bókstaf, að við megum herbergja skepnu þessa, svo lengi sem henni endist aldur og heilsa. Við viljum taka það skýrt fram, að tíkin er hógvær og heimakær, svo að einstakt má kalla nú á tímum. Hún er og sérlega meinlaus af sér, og köllum við það helzt ljóð á hennar ráði, hvílík vinahót hún auðsýnir öllum, kunnugum sem ókunnugum. En kannski veit hún betur en við, hvað við á í slíkum efnum, og skal ekki um það sakazt.
Með vinsemd og virðingu
Reykjavík 18.1.1957
Steinn Steinarr
Ásthildur Björnsdóttir "
Ja, skyldi ekki margur þyggja þá friðsemd, sem fram kemur í þessu bréfi til borgarstjóra Reykjavíkur?
26.1.2008
Af fáum skáldum fer meiri sögum en af Steini Steinarr. Það eitt dugði, að hann var mikill kaffihúsamaður og nestor þeirrar skáldakynslóðar, sem umbylti íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja síðustu öld. Raunar má segja, að Steinn hafi rutt þeim brautina. Hann var og hnyttinn í tilsvörum og gat verið meinhæðinn. Annað eins berst nú út.
En hvern mann hafði þetta meinhæðna skáld að geyma? Ljóð hans bera það með sér, að þar fór dulinn maður, enda orti Steinn í samræmi við sjálfan sig, svo sem gerist um mikil skáld. En honum var ekki tamt að flíka tilfinningum sínum; meinhæðnin stafaði ekki af meinlegu innræti, hún var brynja hans og skjöldur.
Ég þekkti Stein Steinarr ekki persónulega, enda ekki nema sex ára snáði, þegar hann lést. En allt frá því ég var um tvítugur að aldri, hef ég reynt að mynda mér skoðun á persónu hans, ekki aðeins út frá því sem eftir hann liggur, heldur einnig með samtölum við þá sem þekktu hann í lifanda lífi. Niðurstaða mín er sú, að Steinn hafi verið bældur maður. Vera má, að sú skoðun mín sé röng, en mig langar þó, til að sýna eitt dæmi, máli mínu til staðfestingar.
Unnur Baldvinsdóttir hét kona. Hún var tvígift. Síðari maður hennar var Veturliði Gunnarsson listmálari. Ég þekkti þau hjón vel, síðustu æviár Unnar. Hún sagði mér eftirfarandi sögu:
Jón Pálsson frá Hlíð hafði verið kostgangari hjá móður hennar, þegar Unnur var enn á barnsaldri. Þótti henni eftir það vænt um Jón. Henni var því mjög brugðið, þegar hún heyrði það í fiskbúð, að lík Jóns hefði fundist í sjó í Reykjavík. Sem kunnugt er, veit enginn nákvæmlega, hver örlög hans urðu. En það er önnur saga.
Á þessum tíma var Unnur í gift sjómanni og átti tvö börn á unga aldri. Maður hennar var á sjónum og hún gat ekki fengið neinn, til að líta eftir börnunum, þegar útför Jóns skyldi gerð. Eitthvað hafði hún ámálgað þetta við kunningja sína. Svo mikið er víst, að rétt áður en útförin skyldi hefjast, er bankað hjá henni. Þegar hún kemur til dyra stendur Steinn Steinarr þar. Hafði hann enga vafninga á, heldur ýtti Unni til hliðar og gekk inn, um leið og hann sagði: Það er best þú farir". Fleirir voru þau orð ekki, en Steinn sat yfir börnum Unnar, meðan hún fylgdi Jóni Pálssyni frá Hlíð hinsta spölinn.
Ég veit ekki hvað þetta segir öðrum. En með tilliti til vináttu Steins og Jóns, þykir mér þetta lýsa bældri hjartahlýju.
1.2.2008
Sú var tíð, að Reykjavík var móðir fárra. Aftur á móti fóstraði hún við barm sér fjölda fólks úr öðrum landshlutum, sem leitaði hjá henni ásjár, oft án sýnilegs tilgangs. Steinn Steinarr var einn slíkra förumanna. Hann mun hafa borið þar að garði skömmu eftir 1930, þá rétt rúmlega tvígugur piltur að vestan. Síðasta árið, sem hann lifið, 1958, skrifaði hann frásögn af þessu flandri sínu til höfuðstaðarins og fer fyrri hluti hennar hér á eftir:
„Á sólbjörtum morgni fyrir meira en hálfum mannsaldri síðan, stóð ég á bryggjunni, þar sem nú heitir Ægisgarður, og litaðist um. Þetta var Reykjavík, endimark drauma minna, jafnt hamingju og harma, og loksins var ég kominn alla leið. Enn í dag man ég, hvað ég var undarlegur innvortis, ég gat ekki hugsað nokkra hugsun til enda, bara laumaðist áfram með pokann minn á bakinu í einhvers konar sóttheitri leiðslu. Í miðju Austurstræti rankaði ég við mér andspænis litlu búðarskilti, sem á var letrað: Amatörverzlun Þorleifs Þorleifssonar. Þetta er nú meiri ritvillan, maður, hugsaði ég, það stendur amatörverzlun í staðinn fyrir matvöruverzlun.
En nú voru góð ráð dýr. Ég þurfti að komast upp á Njálsgötu 12 til fólks, sem hafði lofað að vera mér innan handar. Og hvernig átti mér að takast það? Ég spurði fjölda manns til vegar og fékk alltaf góð og reið svör, en það kom mér að litlu haldi. Eftir tveggja klukkustunda villuráfandi hringsól tókst mér þó að finna hið umrædda hús.--
Síðan hef ég verið Reykvíkingur. Og þessi borg varð fóstra mín og önnur móðir, ævinlega fremur mild og ljúf í viðmóti, þegar þess er gætt, að ég var mikill pörupiltur og brekabarn."
Steinn heldur áfram frásögn sinni og geta menn lesið hana í kvæðasafni hans og greina.
En nú bætist við frásögn úr annarri átt, þótt sama eðlis sé. Árið 2002 kom út samtalsbókin „Frá liðnum tímum og líðandi", en þar tók ég tali fjóra heiðursmenn, þ.á.m. Jón frá Pálmholti en hann kom til Reykjavíkur, svo sem hálfum mannsaldri, eftir að Steinn Steinarr hóf að slíta skósólum sínum á götum borgarinnar. Gef ég nú Jóni orðið, eftir að hafa spurt hann, hvenær leið hans hafi legið til Reykjavíkur:
Það var árið 1954, þá fór ég í Kennaraskólann. Þegar ég kom í bæinn þekkti ég þar ekki nokkurn mann. Í vasanum hafði ég miða með nöfnum og heimilisfangi fólks úr Hörgárdal, sem flutt hafði suður. Þau höfðu búið á Bakanda; Sigursteinn Júlíusson og Lilja Sveinsdóttir frá Flögu, systir Jóhanns magisters. Á þessum miða stóð, að þau byggju við Njálsgötu.
Ég hafði komið suður með rútu. Út úr henni sté ég við Kalkofnsveg, þar sem afgreiðsla B.S.Í. var þá. Ég sá þarna götukort af bænum og reyndi að átta mig á því, hvar Njálsgata væri. Eftir það lagði ég af stað yfir Lækjartorgið og upp Bankastræti. Síðan tek ég beygjuna þaðan upp Skólavörðustíginn. Ég taldi að það mundi vera stysta leiðin á Njálsgötu. Auk þess sýndist mér færra fólk á þeirri leið, heldur en á Laugavegi. Ég er svo að huga að því að spyrja til vegar. En það var eins og allir væru að flýta sér. Loks mæti ég lágvöxnum manni í gráum frakka og spyr, hvort hann geti sagt mér, hvar Njálsgata byrji? „Já, já," svarðai hann. Og hann snýr við og gengur með mér spölkorn upp Skólavörðustíginn og bendir mér á staðinn, þar sem Njálsgata byrjar og segir mér að halda þar áfram. Ég kvaddi þennan ágæta mann og gekk áleiðis að hinu fyrirheitna húsi.
Svo er það einhvern tíma veturinn eftir, þegar ég var kominn í Kennaraskólann, að ég er staddur niðri á Lækjartorgi, ásamt einhverjum, sem ég hafði þá kynnst. Þá sé ég þennan mann ganga eftir Torginu og inn á Hressingarskólann. Ég spyr kunningja minn, hvort hann viti, hver þetta sé. „Þetta", segir kunningi minn, „þetta er Steinn Steinarr." Steinn Steinarr var því fyrsti maðurinn, sem ég talaði við í Reykjavík. En nánari urðu „kynnin" ekki.
Og segir ekki meira af samskiptum þessara tveggja skálda, Steins Steinarrs og Jóns frá Pálmholti. En ég velti því stundum fyrir mér, hvort það hafi ekki verið hlutskipti Steins, að vísa andans mönnum á Njálsgötu með einum eða öðrum hætti.
2.2.2008
Fjarri sé mér, að gera Steini Steinarr upp hugmyndir um hamingjuna. Sennilega hafa þau verið málkunnug, skáldið og þetta mjög svo þráða víf, sem svo margir hafa misskilið í skilningi sínum. En einhvern veginn hefur mér jafnan þótt kvæði Steins, „Hamingjan og ég", lýsa kíminni sátt hans við lífið, lán þess og ólán, án þess hann beinlínis tæki ofan fyrir því.
Hamingjan og ég
Ég og hamingjan skildum aldrei hvort annað,
og eflaust má kenna það vestfirzkum framburði mínum,
en hún var svo dramblát og menntuð og sunnlenzk í sínum,
og sveitadreng vestan af landi var hús hennar bannað.
Það hæfir ei neinum að tala um töp sín og hnekki,
og til hvaða gagns myndi verða svo heimskuleg iðja?
Samt þurfti ég rétt eins og hinir mér hjálpar að biðja,
en hamingjan sneri sér frá mér og gengdi mér ekki.
Og loksins varð sunnlenzkan eiginleg munni mínum,
og málhreimur bernskunnar týndist í rökkur hins liðna.
Ég hélt, að við slíkt myndi þel hennar gljúpna og þiðna,
en þá var hún orðin versfirzk í framburði sínum.
8.2.2008
Piltstauti sá, Aðalsteinn Kristmundsson, er hóf að rölta um götur Reykjavíkur undir því meitlaða nafni Steinn Steinarr, var úr hópi þessa auðnulausa fólks. Var síst að undra, að hann smíðaði sér skáldanafn úr grjóti.
Með fáum undantekningum svo sem Bólu-Hjálmari og Stephani G. Stephanssyni höfðu Íslendingar vanist því, að höfuðskáld þeirra væru ættgöfugir menntamenn eða í það minnsta hempuklæddir kirkjunnar þjónar fram til dala, eins og t.d. séra Jón Þorláksson á Bægisá. Lágmarkið var, ef menn ætluðu sér inngöngu í höllu Braga, að þeir ættu til gildra bænda að telja. Þeir sem neðar voru settir í mannvirðingarstigann, en ortu þó, kölluðust „alþýðuskáld" og þótti miður fínt á betri bæjum.
En sem sagt, skömmu eftir glanshátíðina miklu á Þingvöllum árið 1930, fer hann að mæla göturnar í höfuðstaðnum, þessi niðursetningur að vestan. Reyndar naut hann þess, umfram marga slíka, að hann var heppinn með fóstur. En það er önnur saga.
Ekki er að orðlengja það, að piltur þessi lagðist í skáldskap, með þeim árangri, sem alþjóð þekkir. Vissulega var Steinn Steinarr ekki hið eina skáld sinnar tíðar, sem alþýða þessa lands ól af sér. Það var meira að segja annar niðursetningur í skáldahópnum, þótt lítið færi fyrir honum, hógværðarinnar vegna, og á ég hér við „hreppsómagahnokkann" Örn Arnarson. Og ekki má gleyma Reykjavíkurskáldinu Vilhjálmi frá Skáholti.
Steinn var síður en svo einn um það, sinnar kynslóðar, að yrkja vel. Auk Arnar Arnarsonar og Vilhjálms frá Skáholti má nefna skáld eins og Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson og raunar fleiri. En með fullri virðingu fyrir þeim og öðrum, sem nefna mætti í sömu andrá, er Steinn Steinar það skáld síðustu aldar, sem varpar ljósi, jafnt á gengna slóð, sem og veginn fram. Hann er sá steinn, sem stærstur er í vörðu íslensks skáldskapar allar götur aftur til Jónasar Hallgrímssonar.
9.2.2008
Einhvern tíma sá ég því haldið fram á prenti, að Steinn Steinarr hefði átt það til, að nefna ljóð sín út í loftið. „Chaplinvísa, model 1939" var sérstaklega nefnd í því sambandi. En er þessi nafngift ljóðsins út í bláinn? Tæpast.
Víst er ég vesall piltur
af vondum heimi spilltur,
og þankinn fleytifylltur
af flestra sorg og neyð.
Um þessar götur gekk ég
og greiða lítinn fékk ég,
af sulti ei saman hékk ég,
og svona er margra leið.
Þetta er fyrsta erindi ljóðsins og þarf ekki frekari vitna við. Umrenningur Chaplins og fyrrum niðursetningurinn Steinn Steinarr, sem fetaði sig um götur Reykjavíkur, eru einn og sami maðurinn.
Ég var úrkastsins táknræna mynd, ég var mannfélagssorinn,
og mér var hvarvetna synjandi vísað á braut,
og þrjózkan, sem lágvöxnum manni í blóðið er borin,
kom bágindum mínum til hjálpar, ef allt um þraut.
Þannig hljóðar þriðja erindið í ljóði Steins, „Að fengnum skáldalaunum".
Nei, það er ekki ætlan mín að nota Stein Steinarr sem rafnagnsinnstungu og koma honum í samband við tvö göt á vegg. En séu umrenningur Chaplins og hann ekki einn og sami maðurinn, þá eru þeir í það minnsta sömu náttúru.
15.2.2008
Glöggir menn hafa orðað það við mig, þeim þyki ég hafa tekið nokkuð stórt upp í mig í sjöunda pistli mínum um Stein Steinarr, þar sem ég segi um hann: „Hann er sá steinn, sem stærstur er í vörðu íslensks skáldskapar allar götur aftur til Jónasar Hallgrímssonar."
Þess misskilnings virðist gæta, að þarna sé ég að setja gæðastimpil á Stein og þá væntanlega Jónas í leiðinni. Því fer fjarri. Ég ætla mér ekki þá dul, að kveða upp úr um það, hvert góðskálda þjóðarinnar sé öðrum úr þeim hópi fremra. Slíkt háttalag væri marklaust, enda byggist svo kallað mat á skáldskap á geðslagi hvers og eins. Það er létt verk, að greina milli skálda og bögubósa, en lengra verður ekki gengið í þeim efnum.
En þótt mörgum hafi verið gefið, að yrkja vel á liðinni öld og þeirri næstu þar á undan, þá breytir það ekki því, að Jónas Hallgrímsson er rödd Íslands á 19. öld og það svo eftirminnilega, að ómur þeirrar raddar er ekki þagnaður enn. Á sama hátt er Steinn Steinarr rödd lands og þjóðar á 20. öldinni og ber enn hátt. Þessi tvö skáld eru einfaldlega boðberar sinna tíma, vængjatök þeirra eru borin uppi af vindum nýrra hugmynda. Stefnur og straumar hafa komið og farið. En á vissan hátt hefur jafnan blásið úr þeirri áttinni, þar sem þessi tvö skáld hafa staðið.
16.2.2008
Þeir voru jafnaldrar, Steinn Steinarr og Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur og báðir synir borgarinnar, hvort á sinn hátt. Steinn var sem kunnugt er fóstursonur hennar, enda framburður hans vestfirskur framan af ævi, eins og þar stendur. Aftur á móti var Sverrir borinn og barnfæddur Reykvíkingur.
Eins og fram hefur komið í þessum pistlum mínum um Stein, sá ég hann aldrei, a.m.k. ekki mér vitanlega. Og eiginlega þekkti ég Sverri Kristjánsson ekki heldur. Þó léttum við tvisvar saman á borðum, en það er annar handleggur.
Ég ætla mér ekki að fjalla um ritverk Sverris hér, en þar fór mikill hagleiksmaður orðs og sögu. Þegar hann lést, árið 1976 þótti mér strengur brostin í lútu Reykjavíkur. Mér varð þá hugsað til hans og annarra, sem settu svip á borgina, meðan hún var enn í allra augum, sú unglingshnáta, sem hún hefur ævinlega verið. Gildir þá einu, þótt sumir séu svo miklir sveitamenn, að rugla henni saman við rosknar hefðarborgir álfunnar, hvort heldur er á Temsárbökkum eða við Tíberfljót.
Settist ég þá niður og skrifaði eftirfarandi prósaljóð, sem svo birtist í ljóðabók minni, „Túkall á rönd", þá um haustið. Eins og sjá má, er hér skirfað í anda Steins Steinarrs, enda efnið öðrum þræði hugsað, sem minning um þá Stein og Sverri, sem og aðra, sem þá höfðu rölt um stræti borgarinnar.
21.2.2008
Sá fjölhæfi og ágæti listamaður Steingrímur St. Th. Sigurðsson kom eitt sinn sem oftar fram í útvarpi. Í umrætt skipti ræddi hann um samskipti þeirra Steins Steinarrs og Magnúsar Ásgeirssonar þýðanda. Raunar mismælti Steingrímur sig og talaði um Magnús Á. Árnason listmálara í stað Magnúsar Ásgeirssonar. En þau mismæli staðfesti hann síðar við mig í samtali. Í þessu útvarpsviðtali hélt Steingrímur því fram, að um tíma hefði Steinn verið svo háður dómgreind Magnúsar á skáldskap, að hann hefði tæpast birt ljóð, án þess, að bera það undir hann. Fór svo að lokum, að Magnúsi tók að leiðast þetta, og tók fyrir þessa „þjónustu" enda mat hann skáldskap Steins mjög mikils og taldi það því ekki á sínu valdi, að bæta hann.
Um það leyti, sem títtnefnt útvarpsviðtal við Steingrím var flutt, tók ég viðtöl fyrir Moggann og ræddi þá nær eingöngu við gamla menn, sem höfðu frá ýmsu að segja, öðru en eingöngu sjálfum sér, svo sem alsiða er meðal yngra fólks og miðaldra. Til að fá þessa sögu Steingríms staðfesta, og eins til að koma því á prent, að Steingrímur hefði þarna verið að tala um Magnús Ásgeirsson en ekki Magnús Á. Árnason, spurði ég einn viðmælanda minn, Dósóþeus Tímótheusson um þetta mál. Dósóþeus, eða Dósi, eins og hann var jafnan kallaður, var bæði vinur Steins og Magúsar Ásgeirssonar. Og hann var fljótur að staðfesta frásögn Steingríms. Ekki man ég nákvæmlega hvenær ég tók þetta viðtal við Dósa, sem vel að merkja fæddist árið 1910 og lést árið 2003. En þetta var ekki löngu fyrir aldamótin. Þegar þarna var komið sögu var Dósi farin að tapa skammtímaminni. En hann var eldklár, þegar talið barst að liðnum tímum.
Dósi var skáldmæltur vel. Hann birti stöku sinnu ljóð í tímaritum en hélt skáldskap sínum lítt á lofti. Af kynnum mínum við hann held ég, að hann hafi metið skáldgáfu Steins svo mikils, að honum hafi þótt það jaðra við framhleypni af sinni hálfu, að flíka eigin ljóðum. Hann var þá ekki einn um það, sinnar kynslóðar. Til að skáldagáfa Dósa fari ekki fram hjá lesendum, langar mig til að birta hér fyrsta erindið í kvæði hans, „Kysstu mig vor". Bæði erindið og titill ljóðsins bera vott hinum rómantíska hugblæ Dósa. Gott væri, ef einhver gæti sent mér það, sem á kvæðið vantar.
Kysstu mig vor
eftir Dósóþeus Tímótheusson.
Kysstu mig vor, þú komst yfir sæinn í dag,
í kvöld er ég þögull og reika um strætin og torgin.—
Syngdu á fiðluna þína ljúflingslag,
langt úti í blámanum týndist að eilífu sorgin.
23.2.2008
Í ellefta pistli mínum um Stein Steinarr fjallaði ég um
samskipti hans og Magnúsar Ásgeirssonar. Þegar það spjall var komið á netið,
minntist ég þess, að Jóhann Pétursson, sem margir þekkja, sem Jóa vitavörð,
ræddi þetta mál í viðtali við mig, sem birtist í bókinni „Frá liðnum tímum og
líðandi" (Skjaldborg 2002). Þar spyr ég hann út í þetta og staðfestir hann, að
Steinn hafi verið háður Magnúsi, hvað þetta snertir.
í síðara bindi ævisögu Steins Steinarrs eftir Gylfa Gröndal (JPV-útgáfan 2001),
19. kafla, segir frá ferð þeirra hjóna, Steins og Ásthildar Björnsdóttur til
Mallorcu vorið 1954. Þau hjónin voru ekki ein á ferð; með þeim voru þeir Ólafur
H. Einarsson kennari og fyrrnefndur Jóhann Pétursson. Ekki skal sá kafli rakin
hér, að öðru leyti en því, að þar kemur fram, að það hafi farið í taugarnar á
Steini, að félagar hans skyldu verða vitni að því, hve háður hann var Ásthildi
varðandi erlend tungumál. Hann las að vísu ensku „lítilsháttar á bók", en
framburðurinn var slakur.
Og víkur þá enn sögunni að Magnúsi Ásgeirssyni. Magnús lærði norrænu við Háskóla
Íslands, þótt hann lyki ekki prófi fremur en margir mætir menn. Eins og
ljóðaþýðingar hans bera með sér, sem og valið á þeim ljóðum, sem hann þýddi, var
hann vel menntaður, þótt próflaus væri. Það var Steinn hins vegar ekki. „Kjörin
settu á manninn mark", segir Örn Arnarson í ljóði sínu um Stjána bláa. Og ef til
vill lærðist Steini Steinarr aldrei, að meta sjálfan sig til fulls. Guði sé lof,
að honum skyldi þá gefin þrjóskan.
29.2.2008
Föðurlandsást tekur hvergi á sig bjartari mynd, en í bláma fjarlægðarinnar.
Þannig hefði ljóð Jónasar, Ég bið að heilsa, hvergi getað verið ort, nema í
Kaupmannahöfn, en á tímum skáldsins var sú borg Íslendingum útlandið sjálft.
Ekkert ljóð íslenskt kemst nær því, að teljast þjóðkvæði, þótt nafn skáldsins sé
öllum þekkt. Líklega væri helst við hæfi, að kalla það þjóðarljóð, svo djúpar
eru rætur þess í hjörtum Íslendinga.
Rúmri öld síðar, rís Ísland úr hafi fyrir augum Stein Steinarrs, sem þá er á
heimlið eftir dvöl sína á Mallorca. Það er 26. mai árið 1954. Þann dag yrkir
hann ljóð sitt, Landsýn.
Hér kveður heldur en ekki við annan tón en hjá Jónasi forðum. Ástarjátningin til
fósturjarðarinnar og þjóðarinnar er að sönnu einlæg hjá báðum skáldunum. En
meðan ást listaskáldsins góða er sveipuð rómantískum bláma, og er eftir því
skilyrðislaus, bærist sú tilfinning í brjósti Steins, að þrátt fyrir ástina, sem
hann ber til fjallkonunnar, hafi þau bæði sína vankanta, skáldið og hún. Þetta
er ástarjátning “þrátt fyrir allt,” ef svo má að orði komast. Bæði eru þessi
ljóð ættjarðarljóð. En Jónas Hallgrímsson yrkir sitt ljóð í veruleika draumsins,
meðan ljóð Steins Steinarrs er ort í veruleika vökunnar. Í draumsýn Jónasar er
Ísland frjáls og saklaus snót með rauðan skúf í húfu sinni og klædd peysu að
hætti sveitafólks þess tíma. Í vöku Steins er landið hins vegar fullþroskuð kona
þeirrar náttúru, að lítt er við hæfi, að bera sögu hennar á torg.
1.3.2008
Sem mér í gær, var gengið um götur Kaupmannahafnar, tók ég mér ferð á hendur í
Fiolestræde, sem er helsta fornbókaverslunargata borgarinnar. Erindið var, að
leita að norrænum þýðingum á kínverskum ljóðum frá Tang-tímabilinu, en það er
kennt við keisaraætt, sem ríkti á árunum 618 til 906. Þetta tímabil var
blómaskeið kínverskrar menningar og þá ekki síst ljóðlistar. Og ferðin í
Fiolestræde var ekki til einskis; þarna fann ég bókina Kinesisk poesi fra
T'ang-tiden, ljóðaþýðingar eftir Ninu Fønss. Bókin er frá árinu 1968. Og hvað
skyldi þetta koma Steini Steinarr við?
Jú, í formála bókarinnar, fjallar þýðandinn um muninn á evrópskri ljóðlist og
kínverskri. Einn helsti munurinn er, að sögn þýðandans, að kínverjar yrkja mjög
um forgengileik mannlegrar tilveru, meðan evrópsk skáld eru á öðrum slóðum í
sínum ljóðum. Ekki ætla ég mér þá dul, að freista þess, að gera úttekt á
evrópskri ljóðlist. En þó er ég ekki frá því, að hinn danski þýðandi hafi nokkuð
til síns máls. Íslenskur skáldskapur er þó undanskilinn; hann er meira í ætt við
kínverska ljóðlist en evrópska, hvað þetta tiltekna svið varðar. Sennileg
skýring er sú, að kínversk og íslensk skáld bjuggu flest í sveitum, eða áttu að
minnsta kosti uppruna sinn þar, meðan evrópsku skáldin voru borgarbúar.
Forgengileiki lífsins er sveitamönnum jafnan ljósari en borgarbúum, enda sjá
þeir líf kvikna að vori og hníga til viðar að hausti.
Steinn Steinarr er gott dæmi þess, sem að framan segir. Því miður hef ég verk
hans ekki við hendina þessa stundina og get því ekki nefnt ákveðin dæmi. En
tæpast þarf að bera skært ljós að skáldskap hans, til að sjá, að fallvaltleiki
lífsins er gjarnan innan seilingar.
7.3.2008
Það var ekki oft, sem Steinn orti um kunningja sína a.m.k. þannig að nafn þeirra
kæmi fram. Þó dugðu ekki minna en tvö ljóð um einn þeirra, Jón Kristófer, eða
Jón Sigurðsson, eins og hann hét réttu nafni. Kristófersnafnið gaf Steinn honum,
rímsins vegna í því ljóði, sem fyrst skal nú nefnt. Þessi ljóð eru; „Þegar Jón
Kristófer Sigurðsson lét úr höfn, stóð Herinn á bryggjunni og söng", sem birtist
í „Spor í sandi" og „Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni
Sigurðssyni fyrrverandi kadett". Það má sjá í „Ýmsum kvæðum."
En hver var hann, þessi Jón Kristófer Sigurðsson kadett í Hernum? Hann var á
sinni tíð þekktur maður í bæjarlífinu í Reykjavík, en Breiðfirðingur að uppruna
og átti kyn sitt m.a. að rekja til Fagureyjar, fæddur 1912 en lést í Reykjavík
1992. Lífshlaup hans var með ólíkindum ævintýralegt. Þannig var hann ekki aðeins
verið kadett í Hjálpræðishernum. Hann þjónaði nefnilega í breska hernum í síðari
heimsstyrjöldinni, ýmist sem korpáll eða sergent, svona eftir því, hvorum hann
veitti betri þjónustu í það og það skiptið, Bretakóngi eða Bakkusi konungi.
Reyndar gerðist hann liðhlaupi frá þeim báðum, en það er önnur saga.
En hér skal ekki fjallað um lífshlaup Jóns Kristófers kadetts í smáatriðum,
aðeins vísað á bókina „Syndin er lævís og lipur", en þar tekur Jónas Árnason
kappann tali. Það verður enginn svikinn af þeirri lesningu.
Sjálfur naut ég þeirra forréttinda að kynnast Jóni á efri árum hans. Ekki var
hann alveg hættur að þjóna Bakkusi konungi, þótt sú þénusta væri reyndar orðin
harla stopul.
Það var sama hvernig á stóð hjá Jóni, hann var jafnan sami séntilmaðurinn í
framkomu og alltaf gekk hann klæddur eins og greifi, enda aristókrat að
eðlisfari. Eitt sinn gekk ég fram á hann, þar sem honum hafði runnið í brjóst á
bekk á Lækjartorgi. Slaufan og hatturinn voru vitanlega á sínum stað og
jakkafötin eins og Haukur pressari hefði rétt lokið við að fara höndum um þau.
Nú jæja, ég settist hjá kappanum og vakti hann. Þegar hann rumskaði, reisti hann
höfuðið, sem hafði sigið niður á bringu, með hátignarlegum blæ, leit fyrst á
mig, svo torgið og loks aftur á mig og sagði, með þann virðuleik í röddinni, sem
aðalsmönnum einum er í blóð borinn: „Það er ekki lengur hægt að vera róni í
Reykjavík." „Einmitt það," svaraði ég. „Hvað veldur svo hörðum örlögum?" Og ekki
stóð á svari Jóns kadetts: „Það er ekki lengur eftir einn einasti maður í
strætinu, sem hægt er að ræða við um Eyrbyggju, hvað þá heldur Heimskringlu."
Síðan hné höfuð aftur að bringu og kadettinn hélt á ný á vit drauma sinna.
Þannig menn orti Steinn Steinarr um, því þeir voru hluti af hans heimi,—hans
fólki.
8.3.2008
Á spjalli mínu um Stein í gær, má skilja, að Jón Kristófer kadett hafi einn
kunningja Steins, notið þess heiðurs, að skáldið hafi ort um hann tvisvar. Þetta
er rétt að því leyti, að bæði kvæði Steins um kadettinn, eru ort að honum
lifandi, enda átti það fyrir Jóni Kristófer að liggja, að standa yfir moldum
Steins. Hinu skal haldið til haga, að tvisvar orti Steinn um Jón Pálson frá
Hlíð. Síðara kvæðið leit Jón Pálsson frá Hlíð þó ekki sjálfur, a.m.k. ekki hér
megin grafar, því það er minningarljóð um hann. Fyrr hafði Steinn hins vegar ort
um hann „Híðar-Jóns rímur" og birtist brot þeirra í heildarsafni því, sem kom út
að Steini látnum.
Minningarljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, „Til minningar um misheppnaðan
tónsnilling", hefur farið fyrir brjóstið á sumum, en það birtist í „Spor í
sandi." Telja ýmsir ljóð þetta raunar lítt við hæfi. Og víst er um það; þetta er
nokkuð svo kaldranalegt erfiljóð. En gætum að; ljóðið er ort í ávarpsstíl. En
hinn látni er ekki ávarpaður í eintölu: „Vort líf, vort líf, Jón Pálsson",
o.s.frv. Þarna eru rakin harla hrakleg örlög listamanns. En það leynir sér ekki,
að Steinn telur sig deila þessum örlögum með hinum látna.
Í fjórða spjalli mínu um Stein Steinarr sagði ég frá þeirri bælingu, sem kom í
ljós, þegar hann kom heim til gamallar vinkonu Jón Pálssonar frá Hlíð, á
útfarardegi hans, Unnar Baldvinsdóttur, til að gæta barna hennar, svo hún kæmist
í kirkjuna. Sú saga lýsir tilfinningaríkum og góðhjörtuðum manni, sem er of
bældur, til að tjá tilfinningar sínar í orðræðu við annað fólk. Er það ekki
einfaldlega það sama, sem kemur fram í ljóðinu „Til minningar um misheppnaðan
tónsnilling?" Og er ekki hugsanlegt, að ljóðið sé öðrum þræði, eins konar
„minningarljóð" um brostnar vonir þeirra beggja, Jóns Pálssonar frá Hlíð og
Steins Steinarrs?
14.3.2008
Á spjalli mínu um Stein í gær, má skilja, að Jón Kristófer kadett hafi einn
kunningja Steins, notið þess heiðurs, að skáldið hafi ort um hann tvisvar. Þetta
er rétt að því leyti, að bæði kvæði Steins um kadettinn, eru ort að honum
lifandi, enda átti það fyrir Jóni Kristófer að liggja, að standa yfir moldum
Steins. Hinu skal haldið til haga, að tvisvar orti Steinn um Jón Pálson frá
Hlíð. Síðara kvæðið leit Jón Pálsson frá Hlíð þó ekki sjálfur, a.m.k. ekki hér
megin grafar, því það er minningarljóð um hann. Fyrr hafði Steinn hins vegar ort
um hann „Híðar-Jóns rímur" og birtist brot þeirra í heildarsafni því, sem kom út
að Steini látnum.
Minningarljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, „Til minningar um misheppnaðan
tónsnilling", hefur farið fyrir brjóstið á sumum, en það birtist í „Spor í
sandi." Telja ýmsir ljóð þetta raunar lítt við hæfi. Og víst er um það; þetta er
nokkuð svo kaldranalegt erfiljóð. En gætum að; ljóðið er ort í ávarpsstíl. En
hinn látni er ekki ávarpaður í eintölu: „Vort líf, vort líf, Jón Pálsson",
o.s.frv. Þarna eru rakin harla hrakleg örlög listamanns. En það leynir sér ekki,
að Steinn telur sig deila þessum örlögum með hinum látna.
Í fjórða spjalli mínu um Stein Steinarr sagði ég frá þeirri bælingu, sem kom í
ljós, þegar hann kom heim til gamallar vinkonu Jón Pálssonar frá Hlíð, á
útfarardegi hans, Unnar Baldvinsdóttur, til að gæta barna hennar, svo hún kæmist
í kirkjuna. Sú saga lýsir tilfinningaríkum og góðhjörtuðum manni, sem er of
bældur, til að tjá tilfinningar sínar í orðræðu við annað fólk. Er það ekki
einfaldlega það sama, sem kemur fram í ljóðinu „Til minningar um misheppnaðan
tónsnilling?" Og er ekki hugsanlegt, að ljóðið sé öðrum þræði, eins konar
„minningarljóð" um brostnar vonir þeirra beggja, Jóns Pálssonar frá Hlíð og
Steins Steinarrs?
15.3.2008
Ljóð eiga það til, að læða að manni undarlegum hughrifum. Auðvitað verða þessi
hughrif ekki skýrð, frekar en aðrir huglægir þættir mannlegrar tilveru. En þar
með er ekki sagt, að ekki sé hægt, að velta hlutunum fyrir sér. Þannig hafa mér
jafnan þótt nokkur líkindi með ljóðum Steins Steinarrs og sænksa skáldsins
Gunnars Ekelöf. Gunnar var árinu eldri en Steinn og lifði hann í áratug. Hann
telst brautryðjandi módernismans í sænskri ljóðagerð. Ýmis íslensk skáld hafa
þýtt eftir hann einstök ljóð, s.s. eins og Jóhann Hjálmarsson og Einar Bragi.
Sjálfur gaf ég, árið 1990, út bók, með þýðingum mínum á nokkrum ljóða hans. „Því
nóttin kemur", nefnist sú bók, og dregur nafn sitt af einu ljóði, sem þar má
lesa. Í þýðingu minni er það á þessa leið:
Því nóttin kemur
þegar gleði og harmur
hvíla saman í ró.
Þú sérð rökkrið leggjast hratt yfir
eins og klukknaóm
og gluggana kvikna einn af öðrum.
Innan þeirra hefur fólkið borðað sitt spaghettí
og án þess að leiða hugann að morgundeginum
sefur það brátt hvert hjá öðru.
Því nóttin kemur
Það er enginn morgundagur
Það er enginn borg.
Til fróðleiks má geta þess, að ljóð þetta orti Ekelöf á Ítalíu, eftir að bær
einn, sem var ekki fjarri þeim stað, hvar hann dvaldi, varð fyrir aurskriðu.
Hlaust af því margra bani. En það er annað mál.
Í sjálfu sér er þetta ljóð ekki líkt neinu, sem Steinn orti. Og þó leynist þarna
einhver skyldleiki. Hverfulleikakenndin í þessu ljóði Ekelöfs minnir mig mjög á
Stein. En það vantar kaldhæðnina. Steinn var meistari kaldhæðninnar, þegar hann
vildi það við hafa.
21.3.2008
Það hendir, að ég fái viðbrögð frá ættingjum Steins, við spjalli mínu um hann.
Fyrir það er ég þakklátur. Í framhaldi af vangaveltum mínum um kaþólsku Steins í
2. spjalli, þann 19. janúar s.l., skrifaði einn þeirra mér og benti mér á, að
menn skyldu ekki vanmeta þátt trúarinnar í lífi og ljóðum Steins. Ég er honum
sammála; kristinnar trúar gætir víða í ljóðum hans. En það fer gjarnan dult,
eins og fleira í eðli og verkum þessa margslungna manns.
Nú er föstudagurinn langi og því ekki úr vegi, að birta Passíusálm nr. 51. Ég er
ekki frá því, að ýmsir haldi, að þetta sé gamankvæði, eða að minnsta kosti ort í
hálfkæringi. En því fer fjarri, að mínu mati. Enda þótt þetta ljóð sé sveipað
nokkuð svo kæruleysislegum blæ á ytra borði, er það í rauninni trúarlegt ákall.
Gerðu ekki margir sér ferð á Golgata, forðum tíð, til skemmta sér yfir kvölum
Krists? Og er firring okkar ekki slík, að okkur er tamt, að líta jafnvel sárustu
kvöl náunga okkar sem hálfgerð leiðindi—og ekkert umfram það? En hér kemur
ljóðið og dæmi svo hver fyrir sig.
Passíusálmur nr. 51
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.
Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni
og mógult hár.
Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?
22.3.2008
Verk Steins og raunar einnig maðurinn sjálfur, hafa orðið viðfangsefni fjölda
listamanna í ýmsum greinum. Listmálarar hafa málað myndir af honum og spreytt
sig á ljóðum hans, tónlistamenn hafa gert lög við ljóðin, sum í léttum dúr,
önnur í öðrum anda eins og gengur. Og ekki má gleyma því, að Steinn er yrkisefni
margra skálda.
Í bókinni 36 ljóð eftir Hannes Pétursson, en hún kom út hjá Iðunni árið 1983, er
eftirfarandi ljóð um Stein. Það er númer 33 í bókinni en ber einnig heitið
„Steinn, 1958". Tekið skal fram, að ljóð þetta er ort löngu eftir andlát Steins.
Í bláum augum hans
hefur búið um sig stolt:
Nú er ekkert framundan
nema firnindi þagnarinnar.
Vel tekst mér, bræður
að brenna, smám saman, upp
með hallmæli sumra
í hári mínu og skeggrót
með lofburð annarra
í liðum mínum og beinum.
Nú er ekkert framundan
nema firnindi þagnarinnar.
Þó bregður fyrir
í bláum, kúptum augum hans
væng blekkingarinnar
sem hann barðist í móti
ljósum væng
vonar, fyrirheits…
Og enni hans verður snögglega
sem allt hafi tilgang:
Lífið, það er líf
á langferð undir stjörnunum.
Að deyja, það er aðeins
hin alhvíta hreyfing.
Eitt sinn hafði Steinn orð á því, að ljóð væru í raun sendibréf milli skálda.
Auðvitað er þetta dulítið hæpin fullyrðing, eins og sumt, sem Steinn kastaði
fram, oft í hálfkæringi. En þó leynast í henni viss sannindi. Ekki úr vegi, að
fleiri fái notið slíkra „sendibréfa", jafnvel þótt hinn eiginlegi viðtakandi sé
horfinn yfir móðuna miklu.
28.3.2008
Í spjalli mínu um Stein, þann 8. mars. s.l. (spjalli nr. XVI)
fjallaði ég um minningarljóð hans um Jón Pálsson frá Hlíð, sem ýmsum þykir
nokkuð svo kaldranalegt. En eins og ég tel mig færa rök fyrir í því spjalli,
fjallar kvæðið ekki aðeins um nöturleg örlög Jóns, heldur einnig örlög Steins
sjálfs.
Minningarljóð Steins um Eggert Snorra Ketilbjarnarson, sem fórst með togaranum
Apríl, er af allt öðrum toga. Þetta er sonnetta og læt ég hana fylgja hér.
Reyndar er ljóð þetta það fyrsta, sem birtist eftir Stein á prenti, en það var í
Lögréttu, þann 18. mars 1931. Birtist það undir nafninu Aðalsteinn
Kristmundsson. Steinn Steinarr var enn ekki í heiminn borinn, ef svo má að orði
komast. Til fróðleiks má geta þess, að Þorsteinn Gíslason var útgefandi og
ritstjóri Lögréttu.
Ég minnist þín í vorsins bláa veldi,
er vonir okkar stefndu að sama marki,
þær týndust ei í heimsins glaum og harki,
og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.
Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,
og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.
Þú leiðst í burt frá lágum jarðarseimi,
í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum.
Ég sakna þín, ég syrgi fagran vin,
í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,
er hóf sig yfir heimsins dægur-glys.
Á horfna tímans horfi ég endurskin,
ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,
frá hreinni sál með hárra vona ris.
Ólíkt því, sem gerist í minningarljóðinu um Jón Pálsson frá Hlíð, er það
söknuðurinn einn og sorgin, sem hér kemst að. Hér yrkir Steinn af hjartans
einlægni; hálfkæringurinn, sem gjarnan gætir í ljóðum hans, er víðsfjarri. Það
leynir sér ekki, að vinátta þeirra Steins og Eggerts Snorra hefur staðið djúpum
rótum, enda voru þeir bernskuvinir. Samband Steins og Jóns frá Hlíð var hins
vegar fyrst og fremst í bæjarslarkinu í henni Reykjavík. Þar í liggur munurinn á
þessum tveimur minningarljóðum.
Því hefur oft verið haldið fram, að skáldaferill Steins spanni aðeins fjórtán
ár. Er þá miðað við útgáfuár fyrstu bókar hans, Rauður loginn brann, 1934 og
þeirrar síðustu, Tíminn og vatnið, 1948. En minningarljóðið um Eggert Snorra er
ort þremur árum fyrir útkomu „rauða logans brennandi". Það eitt lengir
skáldaferilinn, sem því nemur. Auk þess er enginn viðvaningsbragur á þessu
ljóði. Því er mun nær, að telja, að skáldferill Steins nái yfir tvo áratugi en
fjórtán ár. Það er tæpast hægt að telja það mjög skamman feril, miðað við
æviskeið Steins, þegar þess er gætt, að hann lést aðeins tæplega fimmtugur að
aldri.
29.3.2008
„Kanske har du aldrig varit till" er titill á bók Maj-Lis
Holmberg, þar sem hún birtir þýðingar sínar á ýmsum ljóða Steins Steinars,
þ.á.m. Tímanum og vatninu. (Eins og það kom út árið 1956 með 21 erindi í stað 13
erindum eða kvæðum, eftir því, hvernig á það er litið) í frumútgáfunni 1948.
Maj-Lis Holmberg var finnlands-svíi og kom bókin út í Helsingfors, fyrsta útgáfa
árið 1973, önnur útgáfa árið eftir og sú þriðja árið 1979. Ekki er mér kunnugt
um, hvort bókin hefur verið gefin út eftir það.
Í eftirmála bókarinnar fjallar Maj-Lis Holmberg m.a. um vangaveltur manna um
tilurð Tímans og vatnsins. Vísar hún í því sambandi til greinar Sveins Skorra
Höskuldssonar í Skírni árið 1971. Er hún, eins og Sveinn Skorri, á þeirri
skoðun, að ljóðið sé ekki ort í einni samfellu og því hæpið, að túlka það sem
ástarljóð í eiginlegri merkingu þess orðs. Ég tek undir það.
Að svo miklu leyti, sem Tíminn og vatnið er ástarljóð, er það ástarljóð, ort
ástinni sjálfri til vegsemdar og hverfulleikanum, sem allt eins má kalla
dauðann. Og eru til samstígari elskendur, þegar öllu er á botninn hvolft? Sakar
nú tæpast, að lesa ljóð Steins, „Ástin og dauðinn", sem birtist í „Ferð án
fyrirheits", 1942.
Ástin og dauðinn
Að elska er að deyja þeim dauða,
sem duftinu heitast ann,
að deyja er að elska hið auða,
sem enginn lifandi fann.
Í unglingsins ástarloga
og öldungsins feigðargrun
er sáðkorn af sama toga,
með samskonar tilætlun.
Þótt hjartað ei hamingju fyndi,
hún hlotnast því eitthvert sinn,
því dauðinn er ást þín og yndi,
og ástin er dauði þinn.
4.4.2008
Mér varð dulítið á í messunni í spjalli mínu um Stein Steinarr á laugardaginn í síðustu viku (XXII spjalli). Það vitna ég í eftirmála Maj-Lis Holmberg í bók hennar, Kanske har du aldrig varet till, en í henni birtir hún þýðingar á ljóðum eftir Stein. Vitnar hún þar til greinar eftir Svein Skorra Höskuldsson um tilurð Tímans og vatnsins og segir hana hafa birtst í Skírni árið 1971. Þetta tók ég upp eftir henni í spjallinu á laugardaginn var. Þegar ég svo hugðist lesa greins Sveins Skorra í Skírni, greip ég í tómt. Aftur á móti skrifaði hann langa og ítarlega grein um tilurð Tímans og vatnsins á því herrans ári 1971. En hún birtist ekki í Skírni, heldur í afmælisriti dr. Steingríms J. Þorsteinssonar prófessors. Umrædd grein Sveins Skorra Höskuldssonar, Þegar Tíminn og vatnið varð til, er viðamikil lesning upp á einar fjörutíu blaðsíður. Vert er að vekja athygli á henni, fyrir þá, sem áhuga hafa á tilurð einstakra ljóða. En mig langar til að taka mér það bessaleyfi, að birta hér fyrsta ljóð Tímans og vatnsins í sænskri þýðingu Maj-Lis Holmberg.
5.4.2008
Það er vissara að fara varlega í að skilgreina ljóð; poems
should be, not mean. Það er nefnilega galdur í hverju góðu ljóði. Enda þótt
menn séu ekki lengur bornir á bál fyrir kukl, er ég ekki frá því, að hitnað hafi
svolítið undir sumum, sem ganga langt í að skilgreina skáldskap. Ekki ferst mér,
að mótmæla því, að menn fjalli um skáldskap eða aðra andans iðju sín á milli og
beri jafnvel skoðanir sínar þar að lútandi á torg. En engum dyrum skyldi lokað,
þegar hugur manna er annars vegar, skálda sem annarra.
Því kemur mér þetta í hug, að ýmsir hafa orðið til, að taka nokkuð stórt upp í
sig varðandi Tímann og vatnið. Eins og ég hef áður rakið, hefur því
gjarnan verið haldið fram, að ljóðið sé ástarljóð, ort til einnar og sömu
konunnar. Þá er þeirri staðreynd vikið til hliðar, að ljóð þetta, eða réttara
sagt ljóðaflokkur, er ekki ort í samfellu, heldur á löngum tíma og að mestu birt
í bútum, allt þar til það kom út í frumgerð sinni árið 1948. og síðar með
viðbótum 1956. Það útilokar að vísu ekkert, en veikir þó óneitanlega kenninguna
um Tímann og vatnið sem ástarljóð í hefðbundnum skilningi þess orðs.
En njótum vafans; hann eykur bæði dýpt ljósins og ágæti þess.
11.4.2008
Ýmsir hafa orðið til, að semja og flytja lög við ljóð Steins
Steinarrs. Sumir hafa gert það samkvæmt þeirri reglu, að list sé eftir því
betri, sem hún er síður við alþýðu skap. Verður hver að hafa sinn háttinn á. En
til allrar hamingju eru hinir fleiri, sem samið hafa skemmtileg og um leið góð
lög við ljóð Steins. Má í því sambandi nefna hið ágæta lag Ragga Bjarna við
ljóðið Barn.
Flest ljóða Steins henta vel til söngs. Þó eru þau vandmeð farin, sem að líkum
lætur. Þær eru fleiri en ein, hliðarnar á ljóðunum þeim arna. Á því hafa ýmsir
farið flatt, í slagaragerð við ljóð Steins Steinarrs. En nóg um það.
Bergþóra
Þann 15. febrúar s.l. hefði söngvaskáldið Bergþóra Árnadóttir orðið sextug, en
hún lést þann 8. mars á síðasta ári. Nú hafa lög hennar, í hennar eigin
flutningi, verið gefin út, fimm diskar í öskju, og má þar heyra rúmlega 100 lög.
Útgefandi er bóka- og tónlistaútgáfan Dimma. Af þessum rúmlega 100 lögum, eru 12
við ljóð eftir Stein. Má þar nefna ljóð eins og Hin mikla gjöf, Hljóð
streymir lindin í haga og Vöggugjöf.
Ástæðulaust væri, að láta þessa getið hér, nema sakir þess, að túlkun Bergþóru á
ljóðum Steins Steinarrs er mjög einlæg og eftir því góð, enda var hún
ljóðasöngvari í sérflokki.
Tvennir tónleikar hafa farið fram undanfarið í tilefni þess, að sextíu ár eru
liðin frá fæðingu Bergþóru. Ég fór á þá síðar, í Grafarvogskirkju nú um daginn
og sé ekki eftir því.
Það er óhætt, að mæla með skífusafni Bergþóru Árnadóttur, ekki aðeins við þá,
sem unna góðri tónlist, heldur einni við aðdáendur ýmissa skálda, s.s. Tómasar
Guðmundssonar, Páls J. Árdal og síðast en ekki síst Steins Steinarrs.
12.4.2008
Í gær fjallaði ég um lögin hennar Bergþóru Árnadóttur við ljóð
Steins Steinarrs. Eins og lesendur geta séð, nefndi ég nokkur þeirra. Nú hefur
einn bloggvina minna vakið athygli á því, að ég sleppti “einu fallegasta og
einlægasta” lagi Bergþóru, en það gerði hún við ljóðið Verkamaður .
Já, mikið rétt, lag Bergþóru við þetta ljóð Steins er bæði fallegt og einlægt.
En einhvern veginn hefur mér alltaf þótt þetta ljóð Steins skera sig úr öðru,
sem eftir hann liggur. Ég get ekki að því gert, að mér finnst í því holur rómur.
Ljóðið birtist í fyrstu bók skáldsins, Rauður loginn brann, sem kom út
árið 1934. Það sama ár var hann rekinn úr Kommúnístaflokknum, þar sem hann hafði
verið félagi í svo sem tvö ár. Raunar má geta þess, að upphaflega birtist ljóð
þetta í Rétti, 1. hefti ársins 1933. Þá var enn ólokið því verki, að
sparka Steini úr Kommúnístaflokki Íslands.
Ljóðið Verkamaður fjallar sem kunnugt er um verkamann, sem lætur hverjum
degi nægja sína þjáningu, uns þar kemur, að stéttarbræður hans rísa upp til
blóðurgar baráttu, í hverri hann lætur lífið. Mér finnst þetta ljóð vera
sósíalrealísk samsuða, sem hefði sómt sér ágætlega í stalínísku “bókmenntariti”
austur í Moskvu. En Steinn er ungur maður og leitandi, þegar hann yrkir þetta
ljóð. Sjálfur hef ég ekki úr háum söðli að detta í þessum efnum; pólitískur
skáldskapur, sérstaklega ungra og óreyndra manna, er yfirleitt barnalegur.
Bergþóra Árnadóttir var hrifnæm listakona og lag hennar við Verkamanninn
hans Steins er gert á umbrotatímum, kenndum við 68-kynslóðina. Í því ljósi ber
að líta það.
18.4.2008
Aldrei fór það svo, að Steinn Steinarr drekkti kóngsins böðli,
líkt og Jón Hreggviðssong gerði forðum, eða gerði ekki, eins og þar stendur. En
þó var hann dæmdur sakamaður, engu síður en kristsbóndinn á Rein. Um þennan dóm
farast Sigfúsi Daðasyni svo orð í ritgerð sinni, Maðurinn og skáldið Steinn
Steinarr, sem lesa má í bókinni Sigfús Daðason, ritgerðir og pistlr,
er Forlagið gaf út árið 2000. Þar segir m.a.:
Þar kom að Steinn var dæmdur, bæði í héraði og hæstarétti, fyrir kommúistísk
ofbeldisverk unnið árið 1933. Því næst birtir Sigfús frásögn Alþýðublaðsins
af þessu máli, frá 27. febrúar 1935, en hún hljóðar svo:
Á mánudaginn féll Hæstaréttardómur í hinu svonefnda hakakrossmáli á
Siglufirði. Fimm kommúnistar höfðu sumarið 1933 ráðist á gálgakrossfána, sem
blakti á stöng á húsi þýska ræðismannsins á Siglufirði, og skorið hann niður.
Þóroddur Guðmundsson hét sá er var fyrir hópnum. Þeir Steinn Steinarr skáld og
Eyjólfur Árnason hjálpuðu honum, en Gunnar Jóhannsson og Aðalbjörn Pétursson
stóðu álengdar og horfðu á. Konsúllinn kærði þennan niðurskurð flaggsins, og
voru þeir Þóroddur, Steinn og Eyjólfur dæmdir í þriggja mánaða fangelsi, en
Gunnar og Aðalbjörn í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa verið
vitundarvottar. Hæstiréttur breytti ekki dómi Þórodds, Gunnars og Aðalbjarnar,
en stytti fangelsisdóm Steins og Eyjólfs í tvo mánuði. Dómurinn er ekki
skilorðsbundinn. Þessi dómur sýnir glögglega hverskonar réttur er til hér á
landi, einn fyrir verkamenn og annar fyrir burgeisa.
Og lýkur hér tilvitnun í Alþýðublaðið.
Það skal tekið fram, að hvorki Steinn né félagar hans, þurftu að sitja af sér
þessa dóma. Eigi að síður ber þeim heiður fyrir þann verknað, sem þeir voru
dæmdir fyrir. Því skal þessu haldið til haga.
Steinn var ekki eina skáldið í hópi hinna dæmdu; forsprakkinn, að mati
hæstaréttar, Þóroddur Guðmundsson, sem jafnan kenndi sig við Sand í Aðaldal, var
á sinni tíð þekkt skáld, þótt nokkuð hafi fennt yfir nafn hans síðari árin. En
það er önnur saga.
20.4.2008
Stundum mætti ætla, að örlögin hafi kímnigáfu. Eins og sjá má á
ljóði Steins, Hallgrímskirkja (líkan), var hann ekki par hrifinn af byggingu
þess mikla mannvirkis. Kvæðið hljómar svo:
Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir
og horfði dulráðum augum
á reizlur og kvarða:
51x19+18-102
þá útkomu læt ég mig
raunar lítils varða.
Ef turninnn er lóðréttur
hallast kórinn til hægri.
Mín hugmynd er sú,
að hver trappa sé annarri lægri.
Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir,
og Hallgrímur sálugi Pétursson
kom til hans og sagði:
Húsameirstari ríkisins!
Ekki meir, ekki meir!
Nei, ég ætla ekki að fjalla um Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Þó þykir mér,
sögulegs samhengis vegna, rétt að geta þess, að í turni þeirrar kirkju starfa
Jón Pálsson, framkvæmdastjóri Hins ískenska biblíufélags. Og er nú síst að
undra, þótt lesendur greini ekki samhengið. En það er þarna samt. Þannig er
nefnilega mál með vexti, að árið 1976 var Jón Pálsson nemandi við háskólann í
Wisconsin, vestur í Bandaríknunum. Skáldlega þenkjandi ungur maður og lét sig
ekki muna um, að þýða Tímann og vatnið á tungu staðarmanna. Þýðingin
birtist svo í tímariti háskólans, Universty Writers, umrætt ár. Merkilegt má það
þykja, að kápa tímaritsins er, í bak og fyrir, prýdd gamalli ljósmynd af
kartöflubændum. Slíkir sómamenn mundu lengi hafa sett svip sinn á mannlífið,
þarna á bökkum Vatnanna miklu. Það verður ekki af þeim skafið, Ameríkönum; þeir
eru praktískt þenkjandi menn.
Nú hefur minn gamli kumpán, gert mér og lesendum þessa spjalls, þann greiða, að
leyfa mér að birta úr þessari þýðingu. Kann ég honum þakkir, og þykir ekki úr
vegi, að byrja á byrjuninni.
THE TIME AND THE WATER
1
The time is like the water
and the water is cold and deep
as is my own consciousness.
***
And the time and the water
flow randomly to perish
whitin my own consciousness
***
Lítum svo á þýðingu Jóns á 14. ljóði Tímans og vatnsins:
14
The sunshine,
the storm,
the sea
***
I have walked in the green sand
and the green sand
was evrywhere around me
like a sea in the sea.
No
Like a numerous-winged bird
flies my hand away
into the mountain.
***
And my hand sinks
like a bomb
deep into the mountain.
Loks skal svo birt þýðing Jóns Pálssonar á 21. og síðasta ljóði Tímans og
vatnsins.
21
Flowing water
rising-blue day,
voiceless night.
***
I have made my resting place
in a half-closed eye
of eternity.
***
Like astonishing flowers
grow distant worlds
out fram my long-slepping.
***
I feel the dark turn
like a metal wheel
around the axis of the light.
***
I feel time´s resistance
fall exhausted
through the soft water.
***
While the eternity watches
my vague dream
flowing from its eye.
Væri nú ekki athugandi, að röskir bókaútgefendur söfnuðu saman þýðingum á ljóðum
Steins í tilefni aldarafmælis skáldsins og gæfu þau út?
25.4.2008
Árið 1942 kom út bók Steins, Ferð án fyrirheits. Nafn
bókarinnar er dæmigert fyrir skáldið, enda notaði hann það aftur, þegar hann
sendi frá sér heildarsafn ljóða sinna árið 1956, þó all nokkuð stytt.
Steinn Steinarr átti sér ekki ferðaáætlun þessa heims og kærði sig ekki um slíkt
plagg. Og honum duldist ekki, að það var ekki hans, að skipuleggja ferðina,
handan móðunnar miklu eða grufla í þeim óstignu sporum. Hann var eins fjarri
spiritisma og hægt var. Spor í sandi var titill bókarinnar, sem út kom,
næst á undan Ferð án fyrirheits.
Í báðum þessum bókatitlum felst sama hugsunin; næsta alda máir burt spor í sandi
og sá, sem skilið hefur sporið eftir sig, á sér tæpast fyrirheit á ferð sinni um
fjöruna, að minnsta kosti ekki það, að marka hana sporum sínum. Þrátt fyrir
þetta hafa ekki aðrir orðið til þess, að marka íslenska ljóðagerð sporum sínum á
okkar tímum, með viðlíka hætti og Steinn Steinarr. Raunar felst engin mótsögn í
þessu; skáldskapur er fjöruferð, þar sem haf mætir landi og skáldið á það val
eitt, að ganga öðru hvoru á hönd; hafinu, sem seiðir fram ljóð þess, eða
landinu, sem elur það.
26.4.2008
Í spjalli mínu um Stein Steinarr, númer XXVII, föstudaginn 18.
þ.m. fjallaði ég um þátttöku hans í því að skera niður hakakrossfánann við
bústað vararæðismanns Þjóðverja á Siglufirði, þann 6. ágúst 1933. Vitnaði ég þar
í ágæta ritgerð Sigfúsar Daðasonar um Stein, Maðurinn og skáldið Steinn
Steinarr, sem birtist í greinasafni Sigfúsar, Ritgerðir og pistlar,
útgefandi Forlagið árið 2000. Eins og fram kemur, bæði í grein Sigfúsar og
spjalli mínu, hét sá Þóroddur Guðmundsson, sem fór fyrir þeim vaska flokki ungra
manna, sem skar Hitlers-flaggið niður. Mér varð það hins vegar á, án tilefnis úr
grein Sigfúsar, að draga þá ályktun, að umræddur Þóroddur Guðmundsson, hafi
verið Þóroddur Guðmundsson frá Sandi.
Nú hefur ágætur maður og fróður, bent mér á, að hér er ekki rétt með farið.
Þóroddur Guðmunds-son, sá sem hér um ræðir, var verkalýðsleiðtogi á Siglufirði,
fæddur 21. júlí 1903, látinn 3. október 1970. Hann sat um tíma á alþingi. Um
leið og þakka þessa ábendingu, biðst ég afsökunar á þessum leiðu mistökum mínum.
Eins og mér var bent á, kemur hið sanna vel í ljós í ævisögu Steins eftir Gylfa
Gröndal. Þætti mér vænt um, ef lesendur brigðust skjótt við og létu mig vita,
fari ég oftar með rangt mál.
En fyrst þátttaka Steins í fánamálinu á Siglufirði er til umræðu, er vert að
geta þess, að hann batt ekki lengi trúss sitt við kommúnismann. Dvöl hans í
Kommúnistaflokki Íslands stóð aðeins í u.þ.b. tvö ár, eins og áður hefur komið
fram. Steinn Steinarr var skilyrðislaus hatursmaður alls valds; mátti þá einu
gilda, hvort það veifaði hamri og sigð eða hakakrossi. Í þessu sambandi er vert
að lesa viðtal Helga Sæmundssonar, sem birtist í Alþýðublaðinu 19. september
1956, en þá um sumarið hafði Steinn farið fræga ferð til Sovétríkajanna ásamt
fleiri listamönnum. Einnig má benda á grein Steins í sama blaði 25. nóvember
1956, þar sem skáldið veitist harkalega að Sovétríkjunum fyrir innrásina í
Ungverjaland þá um haustið. Og Steinn lét ekki þar staðar numið; þann 20 júlí
1957 lætur hann Halldór Laxness fá það óþvegið í Alþýðublaðinu, fyrir þátttöku
hans í svokölluðu 6. heimsmóti æskunnar. Öll þessi ritverk er að finna í
heildarsafni Steins, Kvæðasafni og greinum.
2.5.2008
Það er þetta með fegurð ljóða; ætli fari ekki best á því, að
telja hana til álitamála, rétt eins og höfgi víns eða blæbrigði lita og tóna. En
það breytir ekki því, að það ljóða Steins, sem mér þykir fegurst, ásamt „Tímanum
og vatninu" er „Það vex eitt blóm fyrir vestan", sem birtist í „Ferð án
fyrirheits"1942. Væri nú fróðlegt að vita, hvort ekki eru einhverjir á sama
máli.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
Það vex eitt blóm fyrir vestan,
og vornóttin mild og góð
kemur á ljósum klæðum
og kveður því vögguljóð.
Ég ann þessu eina blómi,
sem aldrei ég fékk að sjá.
Og þangað horfir minn hugur
í hljóðri og einmana þrá.
Og því geng ég fár og fölur
með framandi jörð við il.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
og veit ekki, að ég er til.
Þess má til gamans geta, að á mínum yngri árum, heyrði ég fólk gera því skóna,
að ljóð þetta væri ort, vegna barns, sem Steinn hefði átt í meinum, vestur á
fjörðum. Það er fráleit tilgáta, komin frá jarðbundnu fólki, sem heldur, að ekki
sé hægt að yrkja um annað en það, sem er eða hefur verið í raunheimi. Fjölmörg
þeirra bestu ljóða, sem ort hafa verið, eiga sér enga stoð í svo veraldlegum
leiðindum. Ef enginn heimur væri til, nema sá, sem á verður þreifað, væri heldur
ekki til skáldskapur, né aðrar listir og þar af leiðandi ekki tilfinningar. Líf
í slíkum heimi væri óbærilegt og það tæki því ekki, að færa það til bókar, nema
þá hjá skattinum.
3.5.2008
Eins og lesendur geta séð, svaraði Þorsteinn Sverrisson spjalli
mínu í gær. Þá birti ég ljóð Steins „Það vex eitt blóm fyrir vestan", til marks
um fegurð sumra ljóða hans. Ekki mótmælti Þorsteinn því vali, en benti þó á
ljóðið „Hvíld", sem birtist í „Spor í sandi" árið 1940, því til sannindamerkis,
að víða glóir gullið í ljóðum Steins. Ég tek undir með Þorsteini, „Hvíld" er
fagurt ljóð. Því skal það birt hér, fyrir þá, sem ekki hafa ljóð skáldsins undir
höndum.
Hvíld
Dúnmjúkum höndum strauk kulið um krónu og ax,
og kvöldið stóð álengdar hikandi feimið og beið.
Að baki okkar týndist í mistrið hin langfarna leið,
eins og léttstigin barnsspor í rökkur hins hnígandi dags.
Og við settumst við veginn, tveir ferðlúnir framandi menn,
eins og fuglar, sem þöndu sinn væng yfir úthöfin breið.
Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og lokið sé leið,
þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn.
Ég sé þetta ljóð fyrir mér, sem sambland málverks og tónverks, í heitum litum og
dimmum tónum. Listgreinar verða ekki aðskildar, frekar en moldin og grasið
9.5.2008
Gott ljóð er eins og eðalvín; það þarfnast ekki skýringa, aðeins þyrstra vara. En rétt eins og menn geta gert sér það til gamans, að kynna sér uppruna góðs víns, þá spillir það ekki, að þekkja bakgrunn ljóða. Því er þessa getið hér, að fyrir nokkru fjallaði ég um ljóð Steins, Til minningar um misheppnaðan tónsnilling, þar sem hann minnist vinar síns Jóns Pálssonar frá Hlíð. Annað erindi þess ljóðs hljóðar svo:
Oss vantaði ekki viljann, þótt verkið reyndist lakt.
Vér létum Tarantella,
Nocturne, La Campanella.
Svo gall við hæðnishlátur:
Hvað hefði Friedman sagt?
Ég verð að játa, að ég hef aldrei velt því sérstaklega fyrir mér, hver hann var, þessi Friedman, sem þarna er nefndur. En svo gerist það, eftir að ég fjallaði um ljóð Steins um Jón Pálsson frá Hlíð, að ég fæ tölvupíst frá Pétri Knútssyni, lektor í ensku við Háskóla Íslands, þar sem hann er að velta því fyrir sér, hver hann hafi verið, þessi Friedman, sem Steinn nefnir í ljóðinu. Upphófust nú þó nokkrar vangaveltur. Um tíma leiddu þær okkur á slóðir Bellmans, en hann orti m.a. um vin sinn Friedman, sem líkt og Jón frá Hlíð var tónlistamaður, en dulítið á skjön við hinn eina sanna tón, hvar sem hann er að finna.
Nú jæja, í samræðum nafna míns við félaga hans í Hugvísindadeild kom í ljós, að tvisvar á fjórða áratug síðustu aldar, 1935 og 1938, kom hingað til lands pólskur píanóleikari að nafni Iganz Friedman (1882 til 1948) og hélt tónleika í Reykjavík. Hann þótti með snjallari Chopin túlkendum. Vafalaust hefur þessi maður borist í tal á kaffihúsum borgarinnar, en Steinn Steinarr var sem kunnugt er, þaulsetumaður á slíkum stöðum. Já, og má raunar merkilegt heita, hafi þennan margrómaða píanósnilling ekki borið á góma í Unuhúsi, þar sem Steinn tæmdi margan kaffibollann um dagana. Því skal það haft fyrir satt, að nafni minn Knútsson hafi, í félagi við sína kumpána, leyst gátuna um það, hver hann var, Friedman sé, er Steinn Steinarr nefnir í fyrrnefndu ljóði um Jón Pálsson frá Hlíð.
10.5.2008
10 mai. Í dag eru 68 ár liðin frá því Bretar hernámu Ísland. Ekki er ætlunin að fjalla um hernámið hér, eða hernámsárin, aðeins minnast lítillega á skrif Steins, sem tengjast stríðsárunum hér heima og víðar.
Stundum vill gleymast, að Steinn Steinarr var ekki aðeins ljóðskáld; í fórum hans er einnig að finna óbundið mál, þar á meðal þrjár merkilegar lýsingar hans á bæjarbragnum í henni Reykjavík á hernámsárunum. Þær birtust í Helgarblaðinu haustið 1940; Haustharmar 30. september, It´s a long way, 7. október og Sjö gegn Þebu 14. sama mánaðar. Allar þessar greinar eru í Kvæðasafni og greinum. Það verður enginn svikinn af lestri þeirra.
Þau eru ekki mörg, ljóðin, sem Steinn orti um stríðið eða í tengslum við það. Flest birtust þau í Ferð án fyrirheits 1942; Hugsað til Noregs, Minnismerki óþekkta hermannsins, Imperium Britannicum og Nýtt kvæði um stríðið. Síðar kom svo kvæðið Mr. Churchill. Þá má nefna ljóðið Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld, en það birtist í Spor í sandi. Háðið og kaldhæðnin sjaldan langt undan, án þess dregið sé úr alvöru málsins.
Í fyrr nefndum greinum Steins frá haustinu 1940 er eins og þetta mikla skáld slitinna skósóla á götum Reykjavíkur sé á vissan hátt orðinn gestur á framandi slóðum, enda þótt hann reyni sem heimamaður, að halda sínu striki. Það er eins og ýmislegt beri honum fyrir sjónir og til eyrna, sem áður hefði þótt í ólíklegra lagi. Greinin Sjö gegn Þebu endar svo:
Ég gekk fram hjá mörgum gluggum og horfði á auglýsingaspjöld, sem eru höfð þar til þess að græða á stríðinu. Það eru meiri lifandis ósköpin, sem allir geta þénað á þessu stríði. Ég þekki vinnukonu suður í Hafnarfirði, sem hefur fjögur hundruð og eina krónu á mánuði, fyrir utan allt hitt, sem enginn veit um. Fyrir nokkrum dögum var ég sjálfur nærri því búinn að græða tvær krónur á því að vita, hvar Þórsgata er.
Svo mörg voru þau orð. Ég er ekki frá því, að þjóðin sé enn á rölti um Skólavörðuholtið, í von um, að geta grætt lítilræði, á því að vita, hvar Þórsgata er.
16.5.2008
Menn eignast sjaldnast vini á kaffihúsum, ef til vill kunningja; jafnvel aðdáendur eða goð, viðhlæjendur, hugsanlega samsærisbræður, þegar níða skal skóinn af einhverjum, sem fjarri er eða hefja glóp til skýjanna. En sem sagt, vináttuböndum bindast menn tæpast á kaffihúsum, frekar en skip frá ólíkum slóðum, sem mætast í framandi höfn.
Steinn Steinarr var kaffihúsamaður. Á þeim slóðum átti hann sína kunningja og aðdáendur. Og einnig fórnarlömb, þegar látið var svíða undan meinlegum athugasemdum. En mér er til efs, að hann hafi verið vinmargur maður. Fjöldinn dáði ekki skáldskap hans, meðan hann lifði; síst af öllu fólk af hans kynslóð. Og þó svo hefði verið, þá eru vinir eitt, aðdáendur annað. Það var helst, að yngra fólkið hefði mætur á þessu skáldi, sem batt í ljóð hugsun, sem tæpast var þekkt hér norður á hjara veraldar:
Að veruleikans stund og stað
er stefnt við hinztu skil,
því ekkert er til nema aðeins það,
sem ekki er til.
Á þessu erindi endar ljóðið „Andi hins liðna," sem birtist í „Ferð án fyrirheits," 1942. Tæpast er hægt, að ætlast til þess, að þjóð, sem kynslóðum saman hafði nært sál sína á náttúrulýrik og þjóðernisstefnu í bland við rómantíska upphafningu, eins þótt annað og hvassara væri ort í landinu á sama tíma, hafi dáð þann er orti, eins og fram kemur í erindinu hér að framan.
Nú jæja, Steinn var sem sagt kaffihúsamaður. Síðustu æviárin orti hann ekki, að heitið gæti, helst að hann setti saman vísur, sér til dægrastyttingar. Enda þótt hann væri ekki dáður sem skáld, nema af ungum skáldum og öðrum sveimhugum, þá þótti hann þó orðinn „fínn félagsskapur", hjá þeim, sem þurftu að gjalda návist slíkra manna í gulli, eða víni, nákvæmninnar vegna. Og hann var víst ekkert að stugga við nýríkum lögfræðingum og heildsölum, meðan þeir tóku sér hlé frá amstri dagsins og settust að sumbli. Þarna var um að ræða gagnkvæmt, þegjandi samkomulag; þjónar Mammons skenktu í glösin, en skáldið veitti þeim nærveru sína, af náð sinni og þorsta.
Hvernig skyldi það nú aftur hljóma, ljóðið „L'homme statue?" Jú, það er víst svona:
Ég stóð á miðju torgi
ég var tákn mín sjálfs
og fólkið starði og starði.
Það þokaði sér nær mér
og þekkti mig til hálfs,
svo fór það fyrr en varði.
Mitt leyndarmál er auður,
sem ég lét því ekki í té:
Ég er lifandi, og dauður.
17.5.2008
Eitt þeirra ljóða, sem Steinn birti ekki á bók fyrr en í „Ferð án fyrirheits, ljóð 1934 - 1954," er ljóðið „Hin mikla lest". Það hljóðar svo:
Hin mikla lest,
sem alltaf fram hjá fer,
hún flytur samt sem áður
burt með sér,
sem fanga í luktum vagni
vitund þína.
Sem fanga í luktum vagni
burt þig ber
á bak við það, sem var
og það sem er.
Og þögult ljós
mun þér í augu skína
frá sverðsins egg,
sem sigrar tvíeind þína.
Já, það er þetta með tvíeindina; hvaða kerling skyldi það nú vera? Eins og allir aðrir hópar, smáir sem stórir, höfum við Íslendingar ríka tilhneigingu til að leggja áherslu á ímyndaða samstöðu okkar. Þið vitið, 17. júní og allt það. En í raun er samstaðan ekki einu sinni til í einstaklingum, hvað þá heldur hópum, að nú ekki sé talað um heilum þjóðum. Steinn Steinarr er fyrstur íslenskara skálda, til að benda á þetta. Þessarar tvíhyggju gætir víða í ljóðum hans; jafnvel má halda því fram, að hún sér rauði þráðurinn í verkum hans. Ef til vill er það einmitt þess vegna, sem hann er svona dulur en um leið augljós í skáldskapnum, eins og við öll á þessari undarlegu en um leið skíru göngu okkar, frá vöggu til grafar, þar sem sverðið klýfur loks tvíeind okkar.
23.5.2008
Næst komandi sunnudag, þann 25. mai, verður liðin hálf öld frá andláti Steins Steinarrs. Ýmisir urðu til að minnast hans, bæði í bundnu máli og lausu, sem von er, enda var það tvímælaslaust kvatt áhrifaríkasta skáld sinnar aldar á landi hér. Einn þeirra, sem skrifaði minningargrein um Stein, var Sigurður A. Magnússon, en hún birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 1. júní. Í niðurlagi minningargreinarinnar farast Sigurði svo orð:
„Unga kynslóðin vottar Steini ekki virðingu sína og þakklæti vegna þess að hann hafi brotið gömul goð eða gert yngri skáldum lífið léttara. Ef nokkuð er, hefur hann gert þeim lífið erfiðara, því hann hefur hækkað markið, krafizt algers heiðarleiks, hlífðarlausrar sjálfsögunar og ókvikullar hollustu við listina. Hann hefur „heimtað” það af ungum skáldum að þeir séu ferskir, ekki vegna þess að það nýja sé ævinlega betra en hið eldra, heldur vegna þess að það er oftast ósviknara, sannara”.
Þarna hittir Sigurður A. Magnússon í mark, að því undanskildu, að hæpið er að fullyrða, að það nýja sé oftast ósviknara og sannara því eldra.
Steinn Steinarr orti ekki af íþrótt, þótt vopnfimur væri. Hann hafði enga þörf á því, að stunda leikfimiæfingar sálarinnar frammi fyrir áhorfendum. Lárviðasveigs krafðist hann ekki. Hann krafðist þess eins, að skilyrðislaus trúnaður ríkti milli skálds og ljóðs. Pólitísk hollusta varð að víkja fyrir þrotlausri sannleiksleit. Fáum var það ljósara en Steini Steinarr, að hugsjónir og hugsanir fara sjaldan saman, þegar stjórnmál eru annars vegar. Sú markaðshyggja, sem listir eru nú ofurseldar, var honum framandi, enda fyrirbærið óþekkt á æviskeið hans, nema þá í bíóbransa vestur í Hollywood, þar sem Laxness hafði forðum gengið um stræti með glampandi frægðardrauma í augum. En það er önnur saga.
Steinn Steinarr lagði okkur sporgöngumönnum sínum aðeins eina skyldu á herðar; skylduna að efast.
24.5.2008
Steinn Steinarr orti sér hvorki til frægðar né þess veraldarframa, sem goldinn er með þjónkun í von um endurgreiðslu í gulli. Hann orti einfaldlega vegna þess, að hann gat ekki annað. Hann var uppreisnarmaður og orðin voru vopn hans, hvort heldur þeim var beitt í ljóði eða lausu máli á prenti, eða þá til leiftursókna á kaffihúsum, stundum af lítilli sanngirni. En þess verður tæpast krafist af stríðsmönnum, að spjótalög þeirra og sverðshögg hafni jafnan þar sem skyldi.
En það var ekki aðeins í orðræðum kaffihúsanna, að Steinn gætti ekki sanngirni um menn og málefni. Hann gat einnig verið heldur hvass í greinum sínum og viðtölum, sem við hann voru tekin, eins og ég hef raunar þegar fjallað lítillega um í þessum þáttum mínum. Steinn Steinarr var nefnilega blessunarlega laus við þann kvilla, að vera maður gallalaus. Eins og allir dauðlegir menn, var hann maður ljóss og skugga.
Ljósið, sem frá honum stafar er bjart og skært, skuggarnir dimmir og kaldir. Þannig er því oftast varið með þá menn, sem eru mikillar fyrirferðar. Og fyrirferð Steins, ekki aðeins í skálskap Íslendinga, heldur andlegum efnum yfirleitt, er slík, að fram hjá honum verður ekki gengið. Í ljósi þessa er merkilegt, hversu vel yfirvöldum menntamála, jafnt ríkis sem borgar, tekst að skjóta sér undan því, að minnast hans á aldarafmælinu. En ef til vill er þögn þeirra manna, sem meta lífið í því einu, sem mölur og ryð fá grandað, helsti virðingarvotturinn, sem þeir geta sýnt skáldi sem Steini Steinarr. Er hann þá vel að þeirri virðingu kominn.
Á morgun, sunnudag, er fimmtugasta ártíð Steins. Í því sambandi er vert að benda á líkræðu Sigurbjörns Einarssonar, síðar biskups, en hún birtist í síðara bindi ævisögu Gylfa Gröndal um Stein. Um hana segir Gylfi réttilega: „Slík snilldarverk er ekki unnt að stytta eða vitna til, heldur ber að birta þau í heild sinni.” Í ljósi þeirra sanninda hvet ég fólk til að lesa líkræðuna.
Já vel á minnst, ævisaga Steins eftir Gylfa Gröndal; ég hef stöku sinnum vitnað til hennar áður, en ekki fjallað um hana sem slíka, hvað sem síðar verður. En athyglisvert er, að í raun kallar Gylfi þetta verk sitt ekki ævisögu, heldur „leit að ævi skálds.” Sjaldan hef ég séð ævisöguritara sýna viðfangsefni sínu slíka virðingu.
29.5.2008
Eins og ég sagði í spjalli mínu um Stein Steinarr þann 23. mai s.l., lagði hann okkur sporgöngumönnum sínum aðeins eina skyldu á herðar; skylduna að efast. Steinn var efahyggjumaður umfram annað. Sumir hafa ruglast dulítið í ríminu í því sambandi og dregið trúhneigð hans í efa. En þeim yfirsést eitt; efinn er leit og sá einn leitar, sem trúir. Hinn trúlausi efast hvorki né leitar; hann hafnar.
Trúarhneigð Steins ætti að vera ljós, hverjum þeim, sem les ljóð hans "Kvæði um Krist", er birtist í bókinni "Ljóð". Nú þykist ég vita, að einhverjir bendi á ljóðið "Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna" og telji það kollvarpa þessari fullyrðingu minni. En það ágæta ljóð segir mér ekki neitt um trúarlíf Steins, enda ort í þeim hálfkæringi, sem honum var svo tamur, að við hvers manns augum blasir. En hálfkæringur er huliðshjúpur; annað ekki.
Það hvarflar ekki að mér, að halda því fram, að Steinn hafi verið trúarskáld í almennri merkingu þess orðs. En jafn fjarstæðukennt væri að halda því fram, að hann hafi verið trúlaust skáld.
31.5.2008
Því miður komst ég ekki á tónleikana í Gamla bíói í gærkvöldi, eins og fyrirhugað var, en þar voru flutt lög við ljóð Steins. En ég hef mér það til afsökunar, að jarðskjáflti reið yfir Suðurland, en ég bý í Hveragerði og því í nógu að snúast. Aftur á móti fór dóttir mín með vinkonu sinni og líkaði þeim vel.
Willy Brant kansalari Vestur-Þýskalands hér á árum áður, lét eitt sinn hafa það eftir sér, að sá maður, sem ekki væri blóðrauður bolsi á sínum yngri árum, væri illa innrættur, aftur á móti væru vitsmunir hans ekki alveg sem skyldi, ef hann væri ekki farinn að hægja á róttækninni á miðjum aldri. Þetta er kenning út af fyrir sig og skal ekki rædd hér. Hins vegar er það athyglisvert, að enn þann dag í dag, hálfri öld eftir dauða sinn, höfðar Steinn Steinarr mest til ungs fólks. Hvers vegna? Ef til vill verður þeirri spurningu aldrei svarað. En grunur minn er sá, að efahyggja Steins og skilyrðislaus kröfuharka hans í eigin garð, ráði hér nokkru um.
Í þeim ljóðum Steins, sem ekki eru beinlínis ort til gamans, leitar hann dýpri sanninda mannlegrar tilveru og kemur víða við í þeirri leit. Ljóðið "Hin mikla gjöf" úr bókinni "Ferð án fyrirheits", 1942, er gott dæmi þessa:
Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt
og mannleg ránshönd seint fær komist að,
er vitund þess að verða aldrei neitt.
Mín vinnulaun og sigurgleði er það.
Margt getur skeð. Og nú er heimsstríð háð,
og hönd hvers manns er kreppt um stál og blý.
En eitt er til, sem ei með vopni er náð,
þótt allra landa herir sæki að því.
Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hált,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskirverði maður: Lífið sjálft.
Boðskapur þessa ljóðs er í senn sannur og skilyrðislaus. Hann er svo sannur, að allir þeir, sem varðveita barnið í hjarta sínu geta gert boðskap þess að sínum. Aðeins þeir, sem gangast upp í því að fullorðnast, eins og það er kallað, komast hjá því, að skilja ljóðið.
6.6.2008
Í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, seinna bindi, bls. 60 stendur eftirfarandi, þar sem fjallað er um sænsk skáld á þeim tíma, sem Hannes Sigfússon og Steinn Steinarr eru í Svíþjóð eftir seinna stríð: „Vinsælastur allra var hins vegar Nils Ferlin (1898—1961) en hann var á margan hátt líkur Steini Steinarr sem skáld. Kvæði hans eru undarlegt sambland af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni.” Og fylgir fleira á eftir, sem ekki verður þulið hér.
Að sumu leyti get ég tekið undir með Gylfa, en þó ekki alfarið. Vissulega gætir í ljóðum beggja þessara skálda, „samblands af viðkvæmni, skopi og kaldhæðni.” Undarlegt þykir mér það þó ekki, líkt og Gylfa, þegar hann fjallar um Ferlin. Þvert á móti; þetta er rökrétt og í fullu samræmi við líf þeirra Steins og Ferlins. En kaldhæðni þeirra er af ólíkum toga og mér finnst hún eiga sér dýpri rætur í ljóðum Steins en Nils Ferlins. Og skyldi engan undra. Fjölskylda Ferlins átti að vísu við fjárhagslega erfiðleika að etja, eftir að hann missti föður sinn, þá á unglingsaldri. En það sem af því leiddi, voru hreinir smámunir, miðað við það sem Steinn mátti þola í þeim efnum. Aðskilnaður frá foreldrum og systkinum, og það fyrir sakir fátæktar, veldur slíku sári í sálarlífi hvers barns, að hæpið er að nokkru sinni grói um heilt, eins þótt viðkomandi barn lendi hjá góðu fólki, eins og Steinn Steinarr vissulega gerði. Það er einmitt þangað, sem ég hygg, að rekja megi kaldhæðnina, sem svo oft gætir í ljóðum Steins og lausamáli. Og í samræðum var hann beinlínis frægur fyrir kaldhömruð tilsvör og athugasemdir, sem undan sveið. Þannig tala þeir einir, sem hafa djúp sár að dylja. En dæmi hver fyrir sig; nokkur ljóða Ferlins eru til í frábærum þýðingum Magnúsar Ásgeirssonar.
En fyrst minnst er á Nils Ferlin langar mig til að segja smá sögu í sambandi við hann. Fyrir mörgum árum bjó ég í Stokkhólmi. Eitt sumarið, sem ég bjó þar, starfaði ég hjá garðyrkjudeild borgarinnar í hverfi, sem heitir Spånga. Vinnufélagar mínir voru ekki beinlínis bókmenntalega þenkjandi og allt í lagi með það. En hvað um það. Dag einn, þegar lítið var að gera, fórum við á flakk í annað hverfi, Öster Malm. Ólíkt Spånga, er það svo kallað „fínt hverfi.” Segir ekki af ferðum okkar, fyrr en við komum í kirkjugarð, þarna í þessu „fína” hverfi. Heyri ég þá allt í einu, að versktjórinn rekur upp ramakvein og fylgdu því ósvikin blótsyrði, enda maðurinn borinn og barnfæddur í því ágæta verkamannahverfi Söder Malm, eða Söder, eins og það kallast í daglegu tali, en þar voru blótsyrði hér á árum áður notuð eins og sumir nota mola með kaffi. Þessum mínum ágæta verkstjóra þótti í það minnsta ótækt, að hefja nokkra setningu án blótyrðis.
En hvað skyldi hafa valdið blótsyrðaflaumnum í þetta sinn? Jú, hann hafði þá gengið fram á gröf Nils Ferlins. „Hvernig í djöfulsins, andskotans helvíti hefur þeim dottið í hug, að jarða Nils Ferlin hér í þessu líka sótsvarta helvítis snobbhverfi, en ekki í Gömlu Klöru (bohemahverfinu, þar sem Ferlin var á heimavelli.)
Þessi verkstjóri var ekkert fyrir bókina, frekar en aðrir vinnufélagar mínir þetta sumarið. Ég efast stórlega um, að hann hafi lesið eitt einasta ljóð eftir Nils Ferlin, nema þá í barnaskóla, skyldunnar vegna. Hitt er svo annað mál, að auðvitað hefur hann heyrt lög flutt við ljóð skáldsins, enda ljóð Ferlins vinsælt viðfangsefni „kompónista” af öllum gerðum og sortum. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er það, að skáldið skyldi hvíla innan um sína líka. Það þarf ekki endilega mikla þekkingu, til að eiga sér sína eigin menningu, þótt sérstæð sé.
7.6.2008
Sum skáld verða samvaxin ljóðum sínum, önnur viðskila við þau, eins og gengur. Í mínum huga er Steinn Steinarr eitt þeirra skálda, sem ekki verða greind frá ljóðum sínum, né ljóðin frá skáldunum. Önnur íslensk skáld sömu náttúru eru, svo dæmi séu tekin, eru séra Hallgrímur Pétursson, Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson. Svo eru það hin skáldin, sem verða viðskila við ljóð sín, ekki vegna þess, að skáldskapur þeirra sé lakari en hinna, sem að ofan eru nefndir, heldur vegan hins, að þjóðin hefur ekki sveipað þá dulúð þjóðsögunnar. Þetta á m.a. við öndvegisskáld eins og Grím Thomsen og Jóhannes úr Kötlum. Þrátt fyrir allt er lífshlaup þeirra eitt, ljóð þeirra annað. Svo eru það skáld, sem einhvern veginn standa þarna mitt á milli, til að mynda Hannes Hafstein, Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson. Mætti nefna fleiri.
Mér er ljóst, að þessi niðurröðun mótast eingöngu af mínu eigin hugarfari. Margir eru mér því væntanlega ósammála. Vissulega væri gaman, ef þeir létu álit sitt í ljós. Vafalaust er til að mynda Davíð frá Fagraskógi óaðskiljanlegur frá ljóðum sínum í huga ófárra ljóðaunnenda. Og hvar skyldi Jóni úr Vör raðað niður í þessu samhengi?
13.6.2008
Steinn Steinarr var ekki aðeins skáld; hann var einnig ágætur hagyrðingur. Aftur á móti var hann ekki stækur bindindismaður. Eitt sinn sat hann að sumbli með Ásgeiri Jónssyni, járnsmið, sem gamlir Hvergerðingar kalla fyrsta Hveragerðisskáldið. En það er önnur saga og verður ekki rakin hér. Eins og gengur og gerist, tóku þeir drykkjubræðurnir að kasta fram vísum og reyndu vitanlega ekki að gera of mikið hvor úr öðrum. Steinn varð fyrri til og kvað til Ásgeirs:
Þó að Herrans handaflaustur
hafi ei vandað skapnað þinn,
á þig nelgdist nógu traustur
nesjamennskusvipurinn.
Þetta er nokkuð vel kveðið, svo sem vænta mátti af skáldinu. En Ásgeir lét Stein ekki eiga neitt hjá sér, heldur svaraði að bragði:
Vel tóks Drottni að gera gripinn,
gleymdist varla nokkur lína.
Dalamennsku sauðasvipinn
sveið hann inn í ásýnd þína.
Það dugir ekki alltaf að vera skáld, til að kveða menn í kútinn.
14.6.2008
Ljóðlist, tónlist og myndlist; allar eru þessar greinar af sama meiði. Hrynjandi margra ljóða er í rauninni tónlist, hvort sem ljóðin eru rímuð eða ekki. Í flestum ljóða Steins er hrynjandi og myndmálið leynir sér ekki. Þannig er „Tíminn og vatnið” á sinn hátt málverk í orðum.
Síst er að undra, að ýmsir myndlistamenn hafa sótt sér viðfangsefni í ljóð Steins og þá ekki síst „Tímann og vatnið.” Nægir þar að nefna Þorvald Skúlason, en þeir Steinn voru miklir vinir. Og enn eru listmálarar að fást við þennan magnaðaljóðaflokk. Þannig hefur Sigurður Þórir nú málað mynd við hvert erindi flokksins, eins og hann birtist í endanlegri gerð. Fyrirhugað er, að hann haldi sýningu á þessum verkum sínum í haust. Það verður fróðlegt að sjá afraksturinn af þessari glímu myndlistamannsins við skáldið.
20.6.2008
Okkur nútímamönnum hættir til, að fá ekki notið þess, sem við ekki skiljum, eða að minnsta kosti teljum okkur skilja, enda þótt sá skilningur sé oft í hæpnara lagi. Okkur reynist erfitt að trúa á Guð, vegna þess, að við höfum ekki rekist á hann á förnum vegi. Og listir vilja vefjast fyrir okkur, nema þær séu settar upp í formúlu, það er að segja, einskonar reiknisdæmi sálarlífsins.
Fyrr í vikunni fjallaði ég um nýja útgáfu á ástarljóðum Páls Ólafssonar. Benti ég þá meðal annars á, hvernig hin svo kallaða bókmenntastofnum skilgreinir hann sem alþýðuskáld. En hver er merking þess orðs? Sé því slegið upp í orðabók Menningarsjóðs, kemur eftirfarandi skýring í ljós: Alþýðuskáld er rithöfundur eða skáld, sem fjallar helst um efni hugstæð alþýðu eða tekur á efninu á alþýðlegan hátt. Svo mörg voru þau orð.
En hver er merking þeirra? Mér vitanlega er tæpast hægt,að raða hugðarefnum fólks niður á stéttir. Er ástin hugstæðari kerfisfræðingum en afgreiðslufólki í skóverslunum? Tæpast. Og eru heimspekilegir þankar bundnir við heimspekinema og kennara þeirra? Ég held varla.
Skilgreiningarglaðir menn, sem meðal annars tala um alþýðuskáld, ættu að velta fyrir sér ljóðagerð og raunar einnig öðrum skrifum Steins Steinarrs. Segjum til dæmis, að ljóðið Hjálpræðisherinn biður fyrir þeim synduga manni Jóni Sigurðssyni fyrrverandi kadett, sé ort við alþýðuhæfi. Er Steinn þar með skilgreindur sem alþýðuskáld? Ekki vantar, að háðið í ljóðinu liggi ljóst fyrir hverjum sem vera skal. En hvað þá um Tímann og vatnið? Það ljóð er einungis hægt að skynja; ekki skilja. Er Steinn Steinarr þá alþýðuskáld, mínus Tíminn og vatnið og önnur þau ljóð hans, sem fremur eru ætluð lesendum til skynjunar en skilnings?
Vissulega getur verið bæði skemmtilegt og fróðlegt, að setja skáldskap í víðara samhengi. En það breytir ekki því, að hver nýtur lyktar með eigin nefi.
21.6.2008
Í fyrra bindi ævisögu Steins minnist Gylfi Gröndal nokkuð á Ágúst Vigfússon, kunningja Steins, og segir frá því, að þeir Steinn og Ágúst hafi verið félagar í vegavinnu árið 1930. Ágúst fæddist árið 1909 en lést í hárri elli árið 2000. Hann var áratugum saman kennari í Bolungarvík, en fluttist til Reykjavíkur á sínum eftri árum, þar sem hann gerðist dyravörður í Hálskólabíói. Ég kynntist honum nokkuð, þegar ég starfaði sem blaðamaður á „Nýju landi-frjálsri þjóð”, málgagni Samtaka frjálslyndra vinstrimanna á árunum kringum 1970. Hann var einn af þessum reiknimeisturum stjórnmálanna, sem geta sagt fyrir um kosningaúrslit með fárra atkvæða skekkju. En það er önnur saga.Ágúst fékkst nokkuð við rímnagerð og var auk þess ágætlega pennafær maður á laust mál. Hafði enda frá ýmsu að segja. Hann var nýtinn vel á skrif sín, birti þau gjarnan fyrst í Lesbók Morgunblaðsins, flutti þau síðan í útvarpinu og gaf þau loks út á bók. Útsjónarsemi hefur aldrei þótt til baga, hvorki í hópi kennara né dyravarða.
Í einum sagnaþátta sinna, er birtist í bókinni Mörg eru geð guma, 1976 segir Ágúst einmitt frá atviki, sem henti, þegar þeir Steinn voru saman í vegavinnunni sumarið 1930. Steinn var, eins og menn vita, ekki til stórræðanna í verklegum framkvæmdum. Vinnuframlag hans í vegavinnunni var því víst með allra minnsta móti. Fór loks svo, að verkstjórinn hellti sér yfir hann að mannskapnum áheyrandi og rak hann úr vinnunni. Ágúst lýsir þessu vel og segir, að skáldið hafi hvergi látið sér bregða við skammir verkstjórans, né heldur brottreksturinn. Að skammarræðunni lokinni strunsaði verkstjórinn á braut, en Steinn hélt í humátt á eftir honum. Þegar skáldið náði til hins reiða manns, sáu verkamennirnir, að þeir tóku tal saman, en ekki greindu þeir orðaskil. En skáldið kom aftur í hópinn og var þarna til hausts. Og þótt hann hafi unnið lítið fram til þessa, þá vann hann þó öllu minna, það sem eftir var sumars. Var ekki annað að sjá, er verkstjórinn léti sér það vel líka.
Nokkrum árum síðar lá Steinn á gólfinu hjá Ágústi í hálfan annan mánuð, eftir að hafa misst leiguherbergi sökum auraleysis. Ágúst spurði hann þá, hvernig á því hefði staðið, að hann hefði haldið vinnunni þarna um árið, þrátt fyrir brottreksturinn. Steinn sagði honum þá, að hann hefði orðið þess var, að verkstjórinn var hjátrúarfullur. Því neytti hann færis eftir reiðilesturinn, og taldi honum trú um, að hann væri ákvæðaskáld. Og hver vill ekki frekar njóta samlyndis við slíka menn en líða fyrir fjandskap þeirra?
27.6.2008
Hvenær telst einstakt listaverk eða lífsverk listamanns sígilt? Þeirri spurningu verður seint svarað. Nútímamenn eru sem kunnugt er, svolítð á sprettinum og láta sig því ekki muna um, að tala um sígild verk fólks, sem enn er nánast á æskuskeiði. Slík fullyrðing hlýtur að teljast nokkuð hæpin. Frumskilyrði þess, að listaverk geti talist sígílt, er að það lifi meðal fólks, kynslóðum eftir að höfundur þess er genginn á vit feðranna. Í raun þurfa tímarnir að hafa breyst mjög, milli þess, að listaverk verður til og þess, að hægt sé að kalla það sígilt.
Passíusálmar séra Hallgríms eru sígilt listaverk, vegna þess, að þeirra verður ekki síður notið af nútímamönnum, en samtíðarmönnum séra Hallgríms. Við getum að vísu ekki sagt, að þeirra sé enn notið með sama hætti og gerðist á 17. öld, til þess skortir okkur þekkingu. En þeir eru eigi að síður lifandi í vitund þjóðarinnar, þótt aldir séu liðnar frá sköpun þeirra og fátt með sama hætti nú og var á dögum séra Hallgríms Péturssonar.
Vissulega er ekki nema hálf öld liðin frá andláti Steins Steinarrs. Það telst að sönnu ekki langur tími í sögu þjóðar, jafnvel ekki þjóðar á gelgjuskeiðinu, eins og við Íslendingar erum í ýmsu tilliti. En á þessum fimmtíu árum, hafa orðið slíkar breytingar í landinu, að ýmislegt, sem áður var sameiginleg þekking allra, er nú horfið í rökkur hins liðna. Og um leið hefur margt verið hafið til vegs, bæði í andlegum og veraldlegum efnum, sem menn hefðu áður goldið varhug við. Samt lifa ljóð Steins góðu lífi með þjóðinni. Þess vegna má óhikað telja þau sígild.
28.6.2008
Halldór Laxness skrifaði minningargrein um Stein og fórst það vel úr hendi, eins og við var að búast. Samt verður ekki undan því litið, að niðurlag greinarinnar er svolítið undarlegt. Þar segir: „Karlmennskuhug, þrjósku, ósáttfýsi við heiminn, óbilgirni eins og presturinn sagði í gær, þessa eiginleka átti Steinn Steinarr betur útilátna en flestir menn, auk snilldarinnar. Af hans dæmi munu ung skáld læra að standa sig í lífinu; og sömuleiðis deyja.
Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður.” Svo mörg voru þau orð.
Hér skal ósagt látið, hvort ung skáld geti, eða hafi getað sótt í smiðju Steins, hvað það varðar, að læra að standa sig í lífinu. Sú fullyrðing verður þó að teljast nokkuð hæpin. Hitt er vitanlega út í hött, að hann hafi verið lærimeistari komandi skáldakynslóða í því að deyja. Svona skrifa menn einfaldlega til að bera stíl sinn á torg; ekki til að leita sannleikans.
Vissulega er það rétt hjá Laxness, að Steinn Steinarr hafði það af, að vera á móti öllum heimsveldunum. Þó það nú væri; hvernig gat annað verið um mann, sem var það eðlislægt, að hata allt vald og draga í efa allan „stóra sannleika?” Auðvitað hafnaði Steinn þeim „stóra sannleika” sem hann hataði. Halldór Laxness leitaði hans hins vegar lengst af ævi sinnar, jafnvel á svo ólíkum slóðum, sem innan kaþólsku kirkjunnar og heimskommúnísmans. Fann loks sinn sannleika „í túninu heima”, líkt og við gerum víst flest undir hnígandi haustsól. En það er önnur saga.
Fullyrðing Laxness um að Steinn Steinarr hafi dáið glaður á ekki við rök að styðjast; um það vitnar viðtal Ingu Huldar Hákonardóttur við Ásthildi Björnsdóttur, ekkju Steins. Viðtalið birtist í bók Sigfúsar Daðasonar, „Maðurinn og skáldið, Steinn Steinarr.” Þar segir Ásthildur m.a.: „Hann (Steinn) hafði óskaplega lífslöngun og vonaði alltaf, að sér mundi batna! Ég er viss um, að honum fannst hann eiga margt ógert. Hann langaði svo til að lifa.” Síðar í sama viðtali segir Ásthildur: „Hann dó að kvöldi hvítasunnudags, það var fallegt dánardægur, en hann dó ekki glaður.”
Fullyrðing Laxness um gleðiríkan dauða Steins Steinarrs dæmir sig auðvitað sjálf, eins þótt hún komi lipurlega út á prenti.
4.7.2008
Hvenær er skáldskapur sannur og hvenær ekki? Eins og eðlilegt er, verður svars við þessari spurningu aðeins leitað í hjarta þess, sem spyr. Já, og meðal annarra orða; hvað er sannleikur í skáldskap? Þar liggur heldur ekkert einfalt svar á lausu. Samt er það svo, að báðar þessar spurningar krefjast svars, því ósannur skáldskapur er annað að tvennu, innihaldsleysi eða skrum, nema hvoru tveggja sé.
Ég ætla mér ekki þá dul, að svara ofangreindum spurningum fyrir annarra hönd. Aftur á móti leyfi ég mér að fullyrða, að skáldskapar verði ekki notið til fulls, án þess, að hver svari fyrir sig. Skáldskapur er nefnilega ekki aðeins til skemmtunar, fegurðarauka eða upplýsingar. Jafnvel þótt hann sé sannur, flytur hann engan „stóra sannleika.” Hann er sannastur, þegar hann leitar og þeim mun áhrifameiri, sem hann leiðir til dýpri leitar hvers og eins. Hann „smælar ekki framan í heiminn,” heldur leitar innsta kjarna hans.
Óhjákvæmilegt hlýtur það að vera, að brosmildir menn eignist sér viðhlæjendur marga, meðan fáir fylgi þeim eftir, sem taki engin gildi án fyrirvara. Steinn Steinarr leitaði innsta kjarna mannlegrar tilveru; þrjóskan forðaði honum frá því, að leita þeirrar lýðhylli, sem óhjákvæmilega leiðir til skrums og innihaldleysis. Því gat hann óhikað endað ljóð sitt „Að fengnum skáldalaunum” á eftirfarandi erindi:
Því einnig ég man þann lærdóm, sem lífið mér kenndi,
hve lágt eða hátt, sem veröldin ætlar mér sess:
Þau bláköldu sannindi, að allt, sem innt er af hendi,
í öfugu hlutfalli borgast við gildi þess.
5.7.2008
kúri ég volandi.
Þetta er ekki, ekki, ekki,
ekki þolandi.
Þannig kvað Steinn Steinarr eitt sinn, væntanlega að gefnu tilefni. Í slíku blíðviðri sem nú er, verður ekki skrifað um mann, sem þannig hefur ort.
11.7.2008
Bær í Breiðafirði
Grænt, rautt og gult.
Og golan þýtur
í þaksins stráum.
Tvö fölleit andlit
með augum bláum
á eftir mér stara
í hljóðri spurn:
Hvert ertu að fara?
Fáum er gefin sú list, að gera langa sögu stutta, eins og Steinn gerir í ljóðinu hér að ofan, en það birtist í „Ferð án fyrirheits." Hvort hér er sögð saga þjóðar eða einstaklings skal ósagt látið, enda skiptir það ekki máli; andblærinn er hinn sami. Og auðvitað skilur efahyggjumaðurinn Steinn Steinarr eftir spurn í lok ljóðsins: „Hvert ertu að fara?"
Leiðin er greið eða torfær eftir atvikum, en hún er jafnan vandrötuð. Þannig er það oftast í þeim skáldskap Steins, þar sem hvorki er farið með gamanmál, né af öðrum sökum ort af ákveðnu tilefni á ytra borði mannlegar tilveru.
12.7.2008
Steini Steinarr var ekki gefið hjartans lítillæti gagnvart þeim, sem á hans tímum þóttust þess umkomnir, að dæma rétt frá röngu í heimi lista og bókmennta. Þannig fékk Bjarni Benediktsson bókmenntagagnrýnandi Þjóðviljans að finna fyrir varðstöðu Steins um vitsmunalega bókmenntaumræðu, eftir að sá fyrrnefndi hafði lítillækkað Tómas Guðmundsson í ritdómi. Steinn svaraði umræddum skrifum Bjarna í Þjóðviljanum 21. júní 1952. Eftir að hafa látið vöndinn ríða á gagnrýnandanum, segir hann í lok greinarinnar: “Ekkert af þessu mun nokkrum siðuðum manni þykja svaravert en mörgum góðum sósíalsista mun renna það til rifja að sjá málgagn sitt undirorpið svo marklausu bulli og mannskemmandi kjaftæði.”
Tíu árum áður, þann 11. október árið 1942, hafði Sigurður Nordal fengið að kenna á svipu Steins vegna efnisvalsins í Íslenskri lestrarbók Nordals. Á þessum tímum var Sigurður Nordal nánast helgur maður í hinum hátimbruðu sölum “íslensku bókmenntastofnunarinnar.” Menn gengu fyrir horn, ef þeir þurftu að anda í návist hans, slík var virðingin. En það forðaði honum ekki undan svipuhöggum Steins. Má og með fullum rétti segja, að efnisval Sigurðar Nordals í þessa kennslubók, hafi verið harla furðulegt á köflum, eins og Steinn bendir á. Þannig má það undarlegt heita, að Nordal skuli hafa komið til hugar, að flokka grein eftir Konráð Gíslason sem bókmenntir. Liggur nokkuð annað að baki, en að Nordal hafi speglað sig í þeim ágæta fræðimanni Konráði Gíslasyni?
Að því slepptu, sem Steinn segir í lok greinarinnar, þar sem hann fjallar um frágang bókarinnar, segir hann í lokin: “Ég veit, að það er bæði erfitt verk og vanþakklátt að taka saman bók eins og þessa, en það er samt sem áður mjög leiðinlegt, ef í því starfi þarf að felast einhver neikvæð íhaldssemi eða fjölskyldusjónarmið.”
Skyldi Steinn Steinarr hafa fgengið birt efni í Lesbók Morgunblaðisins nú, ef hann væri á lífi, eða vera kallaður til skrafs og ráðagerða í “Víðsjá” Ríkisútvarpsins? Svari hver fyrir sig.
18.7.2008
Var Steinn Steinarr leiðtogi þeirra skálda, sem næst komu á eftir honum og sumir kalla atómskáld? Það held ég tæpast. Það er nú eitt út af fyrir sig, að þessi s.k. atómskáld, voru aldrei sérstakur hópur, hvað þá heldur „skóli" upp á útlenskan móð. Þetta voru menn, sem að vísu aðhylltust svipaðar skoðanir varðandi skáldskap. Þeir töldu nauðsynlegt að losa ljóðlistina úr viðjum vanahugsunar ytra forms. En í skáldskapnum héldu þeir hver sína leið.
En þótt Steinn hafi tæpast verið leiðtogi eftirkomenda sinna, þá var hann tvímælalaust fyrirmynd þeirra. Steinn Steinarr var, eins og áður hefur komið fram í þessu spjalli mínu um hann, merkisberi nýrrar hugsunar í íslenskum bókmenntum. Ég er meira að segja ekki frá því, að margir hafi fylkt sér undir merki hans, án þess endilega að leggjast í skáldskap eða aðrar listir. Sú efahyggja, sem hann boðaði leynt og ljóst, er afsprengi trylltrar aldar, sem gat af sér meiri hörmungar, en menn höfðu áður þekkt. Var nema von, að gömul „sannindi" væru dregin í efa.
Fyrst farið er út í þessa sálma, er vert að vekja athygli á því, að ekki má rugla saman efahyggju, slíkri sem Steinn aðhylltist og afstæðishyggju hins s.k. „póstmódernisma." Að sönnu efaðist Steinn Steinarr um margt. En gildi mennskunnar var honum ljóst. Þar af leiðandi gerði hann kröfur, bæði til sjálfs sín og annarra. Ekkert hefði verið honum fjær, en að leggja að jöfnu fjallið og hundaþúfuna, eins og gert er innan vébanda „póstmódernismans." Til þess var sannleiksleitin einfaldlega of ríkur þáttur í eðli hans.
19.7.2008
Ég var að bera saman efahyggju Steins og afstæðishyggju "póstmódernismans" í spjalli mínu í gær. Munurinn er augljós; efahyggjan verður að standa á ákveðnum grunni, afstæðishyggjan ekki. Þvert á móti þarfnast hún þess beinlínis, að hafa laust undur löppum. Þess vegna getur hún ekki leitt neitt af sér, annað en skoðanaleysi og þar með virðingarleysi fyrir því, sem gildi hefur og jafn vel aðdáun á því, sem lítils er um vert.
Efahyggjan, eins og hún birtist m.a. í verkum Steins Steinarrs, er hins vegar leit að gildum. Hún krefst festu og skilgreiningar á því, hvað sé vel gert og hvað miður. Efahyggjumaðurinn dregur allt í efa, ekki vegna þess, að hann líti niður á allt sem gert er, heldur vegna þess, að hann veit, að leitin að fullkomnunni er endalaus. Hún mun vitanlega aldrei skila þeim árangri, að fullkomnunin finnist. En svo lengi sem maðurinn leitar hennar, nálgast hann hana. Mannkynið á allar framfarir því að þakka, að menn hafa séð, að jafnvel megi bæta það, sem gott er. Það sem miður fer í heimi hér, má rekja til þess, að einstaklingar eða hópar, jafnvel heilu þjóðirnar, telja sig hafa fundið „stóra sannleik." Þetta á jafnt við í andlegum efnum sem veraldlegum. Efahyggja manna á borð við Stein Steinarr er því beinlínis nauðsynleg til aukins mannlegs þroska.
25.7.2008
Steinn Steinarr var huldumaður að eðlisfari. Víst var hann fyrirferðamikill á kaffihúsum og þess er hvergi getið, að hann hafi drukkið í laumi. En hann var var um sig. Hann átti fjölda kunningja eins og gengur. En kunningskapur og vinátta er ekki það sama. Minningargrein hans um Magnús Ásgeirsson, sem birtist í Alþýðublaðinu 11. ágúst 1955 ber reyndar með sér hlýar tilfinningar í hans garð, jafnvel svo að greina megi vináttu. Samt sem áður er Steinn þarna fyrst og fremst að minnast bróður úr ríki andans. Þó hef ég fyrir því traustar heimildir, að hann hafi ekki á heilum sér tekið, lengi eftir lát Magnúsar. Um það má raunar lesa í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, síðara bindi, en þar er beinlínis haft eftir honum: Mér finnst ég ekkert erindi eiga niður í bæ síðan Magnús dó. Má vera, að Magnús Ásgeirsson hafi verið einn um það, að ávinna sér vináttu Steins til lengdar.
Vitanlega verður ekkert um þetta fullyrt. En mörg verka Steins bera með sér einstæðingsskap. En hann var stoltur í sínum einstæðingsskap. Eins og Laxness segir frá í minningagrein sinni um Stein, drakk hann oftar kaffi úr bolla ókomna gestsins hjá Erlendi í Unuhúsi, en aðrir menn; og hvarf svo út í myrkrið.
Í bernsku var Steinn Steinarr niðursetningur. Hann var að vísu svo heppinn, að lenda hjá góðu fólki. En það eru eftir sem áður grimm örlög, að verða viðskila við fjölskyldu sína og það sakir fátæktar. Það hefur hlaupið styggð í margan manninn af minna tilefni. Hugsanlega er þar að finna skýringu þess, að Steinn hleypti fólki varlega að sínum innra manni nema í skáldskap.
Árni Pálsson prófessor sagði um brennivínið, að vissulega væri það flóttaleið, en bætti því svo við, að margur hefði bjargað sér á flótta. Það er mikið til í því. En skáldskapur er ekki síður greiðfær flóttaleið undan þeim, sem of nærri manni vilja komast.
26.7.2008
Hófspor í vatni,
húmblátt auga,
flaxandi fax.
Og hugsun mín hvarf
í hinn heita jarðveg,
sem hálfstrokið vax.
En nafn mitt hélt áfram
á nafnlausum vegi
til næsta dags.
Þetta ljóð Steins er að finna í kaflanum „Ýmis kvæði" í „Kvæðasafni og greinum". Getur nokkur maður ort svona, nema hann sé einfari? Mér er það nokkuð til efs. En einfara er gjarnan að finna í fjöldanum; það er gömul saga og ný.
Óneitanlega leiðir þetta hugann að „sósíalrealískum´" skáldskap, þ.e.a.s. skáldskap eða skáldskapartilraunum, sem eiga sér félagslegar og pólitískar rætur. Svo vill til, að sá sem hér skrifar er ekki alveg saklaus í þeim efnum sjálfur. Steinn Steinarr var það raunar ekki heldur. En hann óx upp úr því. Að vísu hætti hann ekki að yrkja um mannlegt samfélag, en forsendurnar urðu hans eigin, ekki þess samfélags, sem ort var um. Þar skilur á milli.
„Sósíal realisminn" komst langt með, að drepa niður ljóðrænan þankagang heillar kynslóðar. Það sem kallað var skáldskapur var í raun meira í ætt við forystugreinar dagblaða eða jafnvel einhvers konar bókhald. Sagan er þeirrar náttúru, að endurtaka sig, þó í breyttri mynd sér, bókmenntasagan ekki síður en aðrir hlutar hennar. Það er því hætt við, að „sósíal realisminn" eigi eftir að rísa upp úr sinni köldu gröf. Vonandi veldur hann ekki öðrum eins skaða þá og hann gerði á sínum tíma.
Á tímum „sósíal realismans" áttu skáldin að vera einskonar framlenging á stjórnmálamönnum og skilyrðislaust þjónar þeirra. Sú tíð er liðin; í bili. En skáld og rithöfundar hafa eignast nýja herra að lúta. Nú er það markaðshyggjan sem ræður. Skáldsakpur skal þar af leiðandi vera auðmeltur og umfram allt í samræmi við formúlur, sem ganga greiðlega upp.
Ekkert er nýtt undir sólinni, ekki heldur sú óaran, sem hér er lýst. Steinn Steinarr átti það til, að vera nokkuð óvæginn í ritdómum. En það var þessi formúleraða vanahugsun, sem hann réðst þá gegn. Og vissulega var hún til á hans tímum. Þá var hún hins vegar í sínu afmarkaða hólfi; nú nartar hjörð henna gras um víðan völl.
1.8.2008
Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir,
og stjarna, sem vökul á bládjúpum kvöldhimni skín.
Í sölnuðu grasinu þýtur hinn hvíslandi þeyr:
Ó, þú, sem einn sólbjartan vordag varst hamingja mín.
Ó, herra, sem sendir oss spámenn og spekingafans,
og spansgrænu heimsins þvoðir af volaðri sál.
Ég hef legið á gægjum við ljóra hins nýríka manns,
og látið mig dreyma hið fánýta veraldarprjál.
Eitt þögult og dularfullt hús stendur andspænis oss,
og enginn veit lengur til hvers það var forðum reist.
En nafnlausir menn, eins og nýkeypt afsláttarhross,
standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst.
Og nóttin legst yfir hið sorgmædda sjálfstæði vort.
Úr saltabrauðsleik þessa heims er ég kominn til þín.
Ég veit að mitt fegursta ljóð hefur annar ort,
og aldrei framar mun dagurinn koma til mín.
Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir,
hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir.
***
Svo kvað Steinn og ekki meira um það.
2.8.2008
Sá er stundum háttur þjóða, að eigna sér menn, af þeim mun meiri ákafa, sem þær hafa forsmáð þá meira. Þetta á ekki hvað síst við um listamenn. Er þetta þeim mun undarlegra, sem listir eru í raun alþjóðlegar í sínum innsta kjarna, í þeim skilningi, að hver sem er getur notið þeirra, hverrar þjóðar, sem hann er. Bach lætur þannig ekkert verr í tyrkneskum eyrum en þýskum, enda þótt hann hafi verið Þjóðverji.
Þar eð tungumál er verkfæri skálda og rithöfunda, gefur auga leið, að aðgangur að verkum þeirra takmarkast við tungumálakunnáttu lesenda. Japani hefur ekki aðgang að Steini Steinarr, nema þá í gegnum þýðingar. Og góðar þýðingar eru auðvitað túlkun á skáldskap en ekki afrit, yfirfærðar milli málsvæða. Samt er það nú svo, að skáld eru sprottin upp úr umhverfi sínu, eins og annað fólk, og verk þeirra bera þess vitanlega merki. En er það merki endilega þjóðlegs eðlis?
Vissulega er Steinn Steinarr íslenskt skáld. En hann hefði allt eins getað verið Mexíkani eða Kanadamaður. Enda þótt sum yrkisefni hans séu íslenskrar náttúru, þá eru flest þeirra alþjóðleg í eðli sínu; gætu m.ö.o. hafa verið ort hvar sem væri. Eða dettur nokkrum lifandi manni í hug, að einhver knýjandi nauðsyn hafi verið að yrkja Tímann og vatnið við Laugaveginn? Tæpast.
Þegar öllu er á botninn hvoflt er Steinn Steinarr ekki aðeins íslenskt skáld, heldur jafnframt alþjóðlegt.
8.8.2008
Ekki þarf lengi að fletta í ljóðum eða lausamáli Steins Steinarrs til að sjá fortakslausa fyrirlitningu hans á ofbeldi, sérstaklega þegar ríkisvaldið tekur það í þjónustu sína. Nægir í því sambandi að nefna ljóðið Kreml:
Kreml
Sjálfur dauðinn,
sjálfur djöfulinn
hefur byggt þessa bergmálslausu múra.
Dimmir, kaldir og óræðir
umlykja þeir
eld hatursins,
upphaf lyginnar,
ímynd glæpsins.
Dimmir, kaldir og óræðir
eins og Graal
- Graal hins illa.
Hefði ekki verið ráð að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hefðu hugsað sinn gang áður en þegið var boð um Pekingför?
9.8.2008
Ég verð að játa, að ég er ekki svo fróður um ævi og örlög þess ágæta bandaríksa rithöfundar, Johns Steinbeck, að mér sé ljóst, hvar hann bar beinin. Hitt veit ég, að hann endaði ævina sem hænsnabóndi. Það á hann sammerkt með Steini Steinarr, en síðustu árin sem hann lifði, var hann eins og kunnugt er, hænsnabóndi suður í Fossvogi.
Svo sem eins og tuttugu árum eftir dauða Steinbeck, var slegið fróðleiksmáli á fyrrum granna hans. Þeir voru spurðir, hvort þeir hefðu nokkuð gleymt hinum fræga nágranna sínum. Nei, nei, það mundu allir eftir honum John Steinbeck hænsnabónda, enda hafði maðurinn verið vel látinn í sinni sveit. Hitt kom flestum þessara sveitunga hans í opna skjöldu, að hann hafði skrifað bækur. Sömuleiðis var heimsfrægð hans þeim lokuð bók. Hafði hann þó fengið bókmenntaverðlaun Nobels.
Nú er Steinn Steinarr hænsnabóndi í Fossvoginum öllum gleymdur. Aftur á móti lifir nafni hans skáldið góðu lífi í vitund þjóðarinnar. Það er ekki sama, hvar menn tína eggin undan púddunum.
16.8.2008
Don Quijóte ávarpar vindmyllurnar
Ég, hinn aumkunarverði riddari réttlætisins,
ég, hinn hörmulegi og skoplegi verjandi sakleysisins
segi við yður:
Sjá!
Hér mun nú barizt verða.
Minn Herra gaf mér hatrið til lyginnar,
minn Herra kenndi mér að þekkja lygina,
hvaða dularbúningi sem hún býst.
Minn Herra léði mér fulltingi sannleikans,
hins hreina, djúpa, eilífa sannleika,
sem ég þó aðeins skynja til hálfs.
Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.
***
Ha, pólitík?
16.8.2008
Á síðasta ári voru tvær aldir liðnar frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Þess var að vonum veglega minnst og létu opinberir aðilar ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. Nú, á aldarafmæli Steins Steinarrs, bregður hins vegar svo undarlega við, að ríki og borg sameinast í þögninni. Sjálfur vakti ég athygli stjórnmálamanna á þessum tímamótum, svo mér er fullkunnugt um, að þau hafa ekki farið fram hjá þeim. Allir voru þeir sammála um, að vert væri að minnast tímamótanna. Hvað veldur þá þögn þeirra?
22.8.2008
Í síðustu viku var ég að velta því fyrir mér, hvers vegna opinberir aðilar gera ekkert til að minnast aldarafmælis Steins, eftir allt tilstandið á tveggja alda afmæli Jónasar Hallgrímssonar árið 2007. Auðvitað hef ég ekki fundið á þessu nokkra skýringu. Þó sakar ekki að velta málinu fyrir sér.
Vitanlega er ég ekki að agnúast út í hátíðarhöldin til heiðurs Jónasi; þó nú ekki væri. Þeir Jónas Hallgrímsson og Steinn Steinarr eiga það sammerkt, að báðir vega þeir að yfirvöldum síns tíma, hvor með sínum hætti. Hjá Jónasi eru það dönsk stjórnvöld, sem fá á baukinn, meðan Steinn veitist að íslenskum stjórnarherrum og pólitíkusum, sem neðar stóðu í metorðastiganum, en langaði auðvitað ósköpin öll upp á hærri skör. Það er langt um liðið síðan Jónas dró fjaðurpenna yfir örk. Danskurinn er ekki lengur hér. Aftur á móti sitja hér enn að völdum, a.m.k. í megin dráttum, sömu valdaöflin og Steinn hýddi háðuglega fyrir ekki svo löngu síðan. Það skyldi þó ekki hugsast, að þessi öfl telji, sjálfra sín vegna, best að breiða þögn yfir minningu Steins? Enn spyr sá, sem ekki veit. Hitt veit ég, að allt á sína skýringu, hvort heldur það er gert eða ógert látið.
Auðvitað má ekki gleyma þeim möguleika í þessu sambandi, að stjórnmálamönnum hafi einfaldlega yfirsést aldarafmæli Steins. Ef til vill veit enginn í menntamálaráðuneytinu eða menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar, að Steinn Steinarr hafi nokkru sinni verið til. Hann var jú að eigin sögn „aðeins til í eigin ljóði." Það skyldi þó aldrei hafa átt að taka þau orð skáldsins bókstaflega. Hvað veit ég, fáfróður maðurinn?
30.8.2008
Skáldskapur er tvíhöfða skepna, annar hausinn hefur hátt á torgum en hinn stundar feluleik. Þessa gætir víða í skáldskap Steins og þá ekki síður í því, sem hann lætur hafa eftir sér í blaðaviðtölum og greinum. Árið 1950, segir hann t.d. í blaðagrein, sem sjá má í „Kvæðasafni og greinum:"
„Ég veit sáralítið um þessa svokölluðu ljóðlist. Samt trúi ég því, að Matthías gamli og Einar Ben. hafi verið dýrleg skáld -- og síðan ekkert. Mér er óskiljanlegt, hvers vegna engir komu í þeirra stað. Að vísu hefur vinur minn, Sigurður Jónasson, útskýrt þetta fyrir mér, en það er dularfulls eðlis og verður ekki nánar tilgreint hér. Einnig trúi ég því, að til séu skáld í útlöndum, en það eru undarlegir menn og ekki við alþýðu hæfi. Um gildi ljóðlistar, andlegt eða líkamlegt, get ég ekkert sagt með neinni vissu. Heyrt hef ég raunar, að bændur í afskekktum sveitum kunni ennþá fáeinar vísur, sem þeir hafa sjálfir ort, en hér í Reykjavík hef ég aldrei heyrt ódrukkinn mann hafa yfir kvæði síðan haustið 1933."
Svo mörg voru þau orð og ber að taka bókstaflega að hætti Steins. Sjálfur hef ég aldrei vitað til þess, að Íslendingar hampi ljóðlist sérstaklega, nema þá til að verma hjörtu kvenna eða argaþrasast í pólitík og þá oftast með stuðlum og höfuðstöfum. Er það að vonum, því umrædd þjóð er svo veraldlega þenkjandi, að hún telur jafnvel hamingju sína mælanlega í lítrum eins og mjólk. Skyldi það ekki bara vera rétt hjá Steini, að ódrukkinn maður hafi síðast haft yfir kvæði á Íslandi haustið 1933. Sennilega hefur þetta verið um mánaðarmótin september/október.
5.9.2008
Hví skyldi Steinn Steinarr vera svo mörgum hugstæður, sem raun ber vitni? Svari hver fyrir sig. Hvað mig varðar, þá urðu ljóð hans og lausamál fyrst til að grípa hug minn þegar ég var milli tektar og tvítugs. Þar við bættist, að ég var svo heppinn, að kynnast ýmsum, sem þekkt höfðu Stein. Með aðstoð þessa fólks, fékk ég ef til vill gleggri sýn á hann, en aðra þá, sem aldrei hafa á vegi mínum orðið í lifanda lífi. Því fór það svo, að skáldið og verk þess ófust saman í huga mér. Þar í milli hefur ekki slitnað síðan.
Það hefur væntanlega ekki farið milli mála í þessu spjalli mínu um Stein, að ég set hann í öndvegi íslenskra skálda, allar götur frá því hann birti fyrst ljóð sín á fjórða áratug síðustu aldar og til þessa dags. En ólíkt flestum öðrum skáldum, er líf hans og verk svo samtengd, að tæpast verður sundur greint. Það er ekki mitt að meta, hver eða hvað mótar mönnum örlög. En þegar öllu er á botninn hvolft er ævi Steins, þrákelkni hans, biturð en um leið óbugað stolt stærsta sköpunarverkið, sem eftir hann liggur og órjúfandi hluti skáldskapar hans.
Af eldri skáldum þeirrar náttúru, að líf þeirra og ljóð verði ekki sundur skilið, koma upp í hugann þeir séra Hallgrímur Pétursson, Bólu-Hjálmar og Stephan G. Og má þá ekki gleyma samtíðarmanni Steins, Vilhjálmi frá Skáholti. Lífsþráður þessara allra skálda er ólíkum þráðum spunninn, bæði Steins og þeirra sem að framan eru nefndir. En það er galdur í honum hjá þeim öllum, eins og í verkum þeirra.
12.9.2008
Nú er dimmt á Núpufelli,
nú er hljótt um Skálholtsstað,
Hólar gömlu í hárri elli
horfa á prest sinn mylja tað,
loks er andinn lagður að velli,
ljósið slokknað - nóg um það.
En þú, sem kátur kaupir og selur
kverðin fornu snjáð og lúð,
veizti, að hljóðlát hjá þér dvelur
heimsins gleymda tign og skrúð?
Á meðan pening minn þú telur
mundu að þetta er ódýr búð.
Svo mörg voru þau orð. Lengi hefur mig langað til að vita, um hvern sé ort. Helst dettur mér Guðmundur Gamalíelsson í hug í því sambandi, en hann rak um langt skeið fornbókaverslun í Lækjargötu 6A. Síðar tók Jóhann Pétursson rithöfundur, oftast kenndur við vitavörslu, við þessari verslun og gæti svo sem einnig komið til greina í þessu sambandi. Er einhver lesandi svo fróður, að geta svalað forvitni minni?
19.9.2008
Árið 1933 kom út einhver sú yndælasta ljóðabók, sem enn þann dag í dag hefur komið fyrir sjónir Íslendinga. Hér á ég við „Fögru veröld", Tómasar Guðmudssonar. Önnur eins ljóðræn hugljómun hafði ekki gripið þjóðina, síðan Davíð frá Fagraskógi hóf sig til flugs á sínum „Svörtu fjöðrum" árið 1919.
Tveimur árum eftir útgáfu „Fögru veraldar", þ.e. árið 1935, samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur, að tillögu nokkurra málsmetandi skálda og menntamanna, að veita Tómasi 3000 króna styrk til utanfarar. Síðan hefur Tómas Guðmundsson verið hið opinbera borgarskáld Reykjavíkur, með ákveðnum greini.
Eins og ég hef áður fjallað um bæði hér á „blogginu" og víðar, er þó ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Tómas var nefnilega ekki það borgarskáld, sem margur hyggur. Í þekktasta Reykjavíkurljóði sínu, „Austurstræti", kemst hann m.a. svo að orði:
„Og jafnvel gamlir símastaurar syngja,
í sólskininu og verða grænir aftur."
Svona yrkir enginn, nema sá, sem á rætur sínar að rekja til sveita, eins og Tómas gerði. Hin raunverulegu borgarskáld Reykjavíkur á 20. öld, voru auðvitað Steinn Steinarr og Vilhjálmur frá Skáholti. Þeir áttu það hins vegar sammerkt, að vera ekki hallir undir Sjálfstæðisflokkinn, eins og Tómas Guðmundsson. Og það var sá flokkur, með fulltingi Morgunblaðsins og skólakerfisins, sem gerði Tómas að borgarskáldi. Við hin, nutum einfaldlega ljóða hans á eigin forsendum og út frá þeim sjálfum, í allri þeirra fegurð og tærleika. Og gerum enn.
Á áttunda áratug síðustu aldar var Tómasi reist stytta í Austurstræti. Þetta var lítil brjóstmynd á háum stalli. Skáldið var þá enn á ferli um bæinn og bar sig vel, þrátt fyrir háan aldur. Hann gekk hnarreistur um götur og torg. Þessu var þó ekki þannig varið, þegar hann neyddist til að ganga fram hjá styttunni þeirri arna. Ég varð nokkrum sinnum vitni að þessu. Þegar Tómas nálgaðist styttuna, fór hann allur í keng og hraðaði sér sem mest hann mátti í burtu. Það var engu líkara, en honum þætti hausinn á stallinum senda sér illþyrmislegt augnaráð. Síðar hurfu þeir báðir af götum borgarinnar, skáldið og hausinn.
En nú hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til, að enn verði komið upp styttu af Tómasi Guðmundssyni. Minnihlutamenn í borgarstjórn benda á, að það væri meira í takt við tímann, að reisa honum minnismerki með öðrum hætti og Mogginn tekur undir það í leiðara í gær. En það er eins og enginn, hvorki Moggamenn, né meirihlutamenn eða fulltrúar minni hlutans í borgarstjórn viti af því, að í ár er aldarafmæli Steins Steinarrs. Ætlar þetta fólk, að fagna þeim merku tímamótum í menningarsögu lands og borgar, með því að reisa minnismerki um Tómas Guðmundsson?
27.9.2008
Í „Kiljunni," bókmenntaþætti Ríkissjónvarpsins, hélt stjórnandi þáttarins, Egill Helgason því fram um daginn, að seinustu æviárin hafi Steinn Steinarr verið „stækur hægrimaður," eins og hann komst að orði. Því er ekki að neita, að þessi skoðun Egils kom mér á óvart, enda veit ég ekki, hvað maðurinn hefur fyrir sér. Tæpast dregur hann þessa ályktun um pólitískar skoðanir Steins út frá frægri gagnrýni hans á Sovétríkin og innrás þeirra í Ungverjaland 1956 eða gagnrýni hann á Halldór Laxness fyrir að fara á s.k. „Heimsmót æskunnar" í Moskvu árið eftir innrásina. Hvoru tveggja var mjög gagnrýnt af þeim vinstri mönnum hérlendis, sem ekki voru bundnir á klafa stalínisks rétttrúnaðar Kristins E. Andréssonar og félaga.
Hvað sem því líður, þá þarf ekki sérlega nákvæman lestur á verkum Steins, hvorki ljóðum hans né lausu máli, til að sjá, að meint „hægri mennska" hans á ekki við rök að styðjast. Vonandi hefur Egill einfaldlega verið að tala fyrir hljóðnemann, eins og verða vill í slíkum þáttum. Í það minnsta ætla ég rétt að vona, að nafn Steins Steinarrs verið ekki notað til að endurvekja kalda stríðið í íslenskri bókmenntaumræðu. Nóg er nú samt.
4.10.2008
Mánudaginn, þann 13. október verður öld liðin frá fæðingu Steins Steinarss. Það sem af er þessu ári, hef ég fjallað um hann og verk hans um helgar hér í þessu spjalli. Vegna aldarafmælisins mun ég hins vegar birta næsta spjall um skáldið á afmælisdaginn. Og er þá mál að linni.
En meðal annarra orða; það er mikið talað um kreppu. Áður var ímynd mönnum töm á tungu. Engum var ætlað að vera eitt eða neitt, það eina sem skipti máli, var að ímyndin væri í lagi. Og er ég alls ófróður um, við hvað var átt. Skyldi þó aldrei vera, að skýringar væri að leita í ljóði Steins,
„Hámarksverð á bókum"
Hámarksverð á bókum,
blóðheit kona,
barn í sveit.
Í dag hef ég setið
á sundbol og lesið
„Úr síðustu leit".
Og allt sem ég vissi
var ímynd þess hlutar
sem enginn veit.
13.10.2008
Hver var hann, þessi ungi Dalamaður, með verstfirskt blóð í æðum, sem tók að arka um götur Reykjavíkur í byrjun fjórða áratugs síðustu aldar og hefja hvassar orðræður á kaffihúsum? Og hvern mann hafði hann að geyma? Var hjarta hans biturt?
Vissulega má kasta slíkum spurningum fram í hausthúmið. En myrkrið er ekki fjarri húminu. Það er því vissara, að hver svari fyrir sig; hafi sína eigin glætu að lýsa sér til skilnings.
Í kirkjubókinni fyrir vestan var drengurinn skráður Aðalsteinn Kristmundsson. Skírnarnafnið er í senn göfugt og hart. En hinum unga manni hefur sýnilega ekki þótt harkan í því næg, því þegar hann tók sér sæti í höllu Braga, herti hann enn á nafninu. Þaðan í frá hét hann Steinn Steinarr. Hina ytri göfgi lét hann sér í léttu rúmi liggja, en harkan; hún skyldi standa fyrir sínum.
Ég hygg að Steinn hafi verið mjög kröfuharður maður, jafnt á sjálfan sig sem aðra. Skáldskapur hans er meitlaður; í honum gætir hvergi flausturs. Allt er þar hnitmiðað. En um leið og skáldinu var tamt að beita sig aga við bókmenntaiðju sína, þá fór þar bitur maður. Það sýna mörg verka hans og um það ber öllum þeim, sem hann þekktu saman.
Reyndar er biturð Steins ekkert undrunarefni. Þegar í bernsku mátti hann þola þau grimmu örlög, að verða niðursetningur. Hann hlaut að vísu gott atlæti hjá þeim, sem fóstruðu hann. En smán niðursetninga var slík, að meira að segja þeim sjálfum tókst sjaldnast, að koma orðum að henni. Þetta mættu þeir hugleiða, sem nú hafa endurvakið hreppaflutningana, með því að senda örvasa gamalmenni landshlutanna á milli, til að láta þau deyja drottni sínum jafnvel fjarri maka og öðrum ástvinum.
Steini Steinarr var ómæld þrjóska í blóð borin. En nægði hún honum til að sigrast á grimmum örlögum bernskunnar eða fylgdi niðurlægingin honum ef til vill ævina út? Þessu er ekki auðsvarað. Ofan á hreppaflutningana bættist, að Steinn var aldrei heilsuhraustur og fjarri því að vera, það sem kallað er verkmaður. Honum var því í raun um megn, að vinna fyrir sér, þótt hann reyndi það, á sínum yngri árum. Og menntavegurinn var ekki greiður fátækum einstæðingi á fyrri hluta síðustu aldar.
Hvað varð þá til bjargar, þessum einstæðingi á grásteindum strætum framandi borgar? Því svarar hann sjálfur í lokaljóði bókarinnar „Ferð án fyrirheits”. Það heitir „Undirskrift” og hljómar svo:
Lesendum þessarar bókar, ef einhverjir eru,
hef ég ekkert frekar að segja í raun og veru.
Sjá, hér er ég sjálfur, og þetta er allur minn auður,
hið eina, sem ég hef að bjóða lifandi og dauður.
Ég veit, að þið teljið mig aldrei í ykkar hópi
og ætlið mig skringilegt sambland af fanti og glópi.
Ég er langt að kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur,
og niður í myrkursins djúp liggja enn mínar rætur.
Ég ber þess að sjálfsögðu ævilangt óbrigðult merki,
því örlög hvers manns gefa lit sinn og hljóm sinn hans verki:
Það var lítið um dýrðir og næsta naumt fyrir andann.
Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld. Ég kvaðst á við fjandann.
Það var þrjóskan, sem hélt Steini Steinarr á floti allt hans líf. Þess skyldi þjóð hans minnast með virðingu og líta um leið í eigin barm.
En jafn ágæt og þrjóskan er bágstöddum mönnum, þá dugir hún skammt í ríki andans, nema til þröngra verka. Og því er það, að Steinn var ekki aðeins þrjóskur maður svo af bar; hann var einnig leitandi sál með ríka réttlætiskennd og djúpan skilning á mannlegri tilveru og þessu undarlega eðli hennar, sem frekar er til þess fallið, að varpa fram spurningum en svörum.
Steinn Steinarr var Chaplin götunnar og Sókrates kaffihúsanna. En hvort heldur arkað var um götur eða kaffið á Hressingarskálanum yljaði mönnum og ef til vill dulítið styrkt til bragðbætis, þá var hið orðsnjalla skáld jafnan sveipað huliðshjúpi. Ég hef fyrr sagt frá því, í þessu spjalli mínu um Stein, hversu tvískiptur maður hann var; á skrafþingum var hann hrókur alls fagnaðar, þótt oft væri stutt í biturðina. En í mannlegum samskiptum var einlægnin honum tömust, þegar tveir áttu í hlut. En það breytir ekki því, að í ljóðavef hans, er einlægnin sterkasti þráðurinn. Hirði ég ekki um, að færa rök fyrir því.
Vaknar nú sú spurning, hvað Steinn Steinarr hafi verið íslenskri ljóðagerð og þar með íslenskri menningu. Skal í því sambandi gripið til sígildrar mótsagnar í ljóði hans sjálfs, „Hin mikla gjöf”, en lokaerindi þess hljóðar svo:
Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.
Þannig kemur Steinn mér fyrir sjónir; „hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.” Maðurinn sjálfur er aðeins hjóm eða hismi utan um þann kjarna, sem líf hans er; ást hans og hatur, biturð og gleði, verk hans og iðjuleysi, leit hans, sannfæring, trú. Og það er í þessu víðfema lífi, sem við mætumst á krossgötum, eins þótt leiðir okkar hafi í raun aldrei legið saman. Á suma köstum við kveðju, aðra ekki, lifandi eða dauða.
Það er langt síðan leiðir okkar Steins Steinarrs lágu saman á slíkum krossgötum. Og höfum ekki orðið viðskila síðan. Að vísu hef ég um skeið ánetjast verkum annarra skálda og listamanna í öðrum greinum. En Steinn hefur aldrei verið mér fjarri, frá því fundum okkar bar fyrst saman. Hvers vegna?
Ég get lesið ýmis skáld mér til ánægju og þroska. En mörg ljóða Steins hafa það umfram ljóð annarra skálda, sem ég þekki, að ég fæ ekki einungis notið þeirra; þau varpa fram einhverri þeirri spurn, sem ég verð að leita svara við. Er þetta vegna þess, að þau eru aldarspegill? Að hluta til. Þó er þetta enn frekar fyrir þá sök, að í þessum ljóðum Steins hljómar rödd hins sí leitandi mannsanda, með öllum hans kostum og öllum hans göllum, í allri hann stærð og í allri hans smæð. Og þannig áfram.
Nú þegar þess er minnst, að öld er liðin frá fæðingu skáldsins og hálf öld frá dauða hans, gerast þau tíðindi, að það er að renna upp fyrir þjóðinni, að hún lifir ekki lengur á sjálfsblekkingum, svo sem hún hefur lengi gert. Það er ekki lengur „ímyndin”, sem skiptir máli, heldur myndin sjálf, maðurinn í allri sinni nekt, með birtu og skuggum. Og ef til vill ekki úr vegi, að ljúka þessum fátæklegu vangaveltum um skáldið og manninn Stein Steinarr, með ljóði hans, „Afturhvarf”
Ó, græna jörð, ó mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.
Ég viðurkenni mína synd og sekt:
ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns
og elti vafurloga heimsku og hjóms
um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.
Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!