Ljóðheimar og sagna
vefsíða Pjeturs Hafsteins Lárussonar


Aftur á forsíðu


Reykjavíkurljóð

 

 

REGNIÐ Í REYKJAVÍK ER ÞURRT

ljóð eftir

Pjetur Hafstein Lárusson

 

 

HRINGRÁS TÍMANS

VETUR

 

VETRARNÓTT

Borgin sefur
berst um draumavegu.
Hvítglófuðum höndum
næðir kári um hús
og garða naktra trjáa.
Liggja í faðmlögum
vetur konungur
og nótt, drottning dægra.
Köld eru þeirra atlot
og unaðssnauð.

 

VETRARMORGUNN

Markar í snjóinn
spor sín kaldur morgunn.
Brátt fennir í slóð
milli nætur og dags.
Sofandi vaka
vakandi svefn í senn
hefja mót rísandi degi
skímu síns dökka bikars.

 

VETRARDAGUR

Marrar í vetri
undan skósólum lúinna fóta.
Svefngenglar flökta
á dekknegldum klárum
milli steinsteypuvirkja
í erindum mörgum og merkum
þó aðeins einu
— að þreyja þorra og góu.

 

VETRARKVÖLD

Skjáskjótast myndir
frétta og glæpa
framandi borga.
Hengdir og skotnir
fantar og öðlingsmenn
í Chicago, Sarajevó
og Lundúnaborg hinni fornu
fyrir augum fólks
í reykvískum hægindastofum
uns slökkt er með takka
á heimi úr filmubútum
og sigið til svefns
í náttklæðum undurmjúkum.

 

VOR

VORNÓTT

Vornóttin sveipuð dökku líni
kemur og fer
með fyrirheit gróandi garða
og eld í hjörtum.
Mild er sú nótt
og dulúð hennar djúp.
Stígur um döggina
seiðandi vornæturdans.

 

VORMORGUNN

Klakinn á Tjörninni þynnistuns 
hverfur sá spegill vetrar.
Vængjaður vorþytur er kveðast á
þröstur og kría.
Regnvotum vörum
heilsast á gráum strætum
kumpánar Kvosarinnar.
Torgið í gleði kyssir
fráar iljar.

 

VORDAGUR

Flettir í bókum
gluggum nýrra tíma
og liðinna alda,
æska á braut
sem horfin er hærugráum.
Bjartur er hennar dagur
meðan líf færist í grasið
fyrst í skjóli húsveggja
síðan lengra út garðana.
Þjóðfaðir stendur á grænkandi hóli
umkringdur stofnum
hverfulla hugmynda
og heldur um skjöldinn
slappri hendi.

 

VORKVÖLD

Tíminn fálmar skuggum
yfir göturnar.
Glóir á lögg
í glasi þyrstra kverka.
Áköfum höndum fer strákur
um vorsáin brjóst.
Tjarnarsefið bifast
yfir sofandi önd á hreiðri.

 

SUMAR

SUMARNÓTT

Í gullnum bláma
himins og hafs
siglir mót ókomnum tímum
sofandi borg.
Í austri rísa úthverfin
sem vellandi brim.
Hnígur og rís hver alda
á tíma.

 

SUMARMORGUNN

Brosir dagsbrún
lokkandi vörum,
seiðir til starfa og leiks.
Í gangverki vanans
bítast tannhjólin á
um hendur og orð.
Gamall maður gaukar lítilræði að róna.
Báðir eiga þeir sína sögu
að geyma og gleyma.

 

SUMARDAGUR

Sumarið syngur í blómskrúði Austurvallar
kjaga um grasbalann börn og drykkjurútar.
Áhyggjulausir dansa sólargeislar
á léttum bárum Tjarnarinnar.
Sjálf sorgin er farin í frí
og lögst í flakk
á afar hagstæðum greiðslukjörum.

 

SUMARKVÖLD

Blæbrigðarík er dulúð borgarinnar.
Ástfangin hjörtu verma gamla kirkjugarðinn.
Sigurður Breiðfjörð teygar döggina
síþyrstum vörum.
Eilíf er líðandi stund
líðandi stund aðeins mynd
aðeins ómur
aðeins ilmur
í laufkrónu dauða og lífs.

HAUST

HAUSTNÓTT

Nóttin er djúp
hún er haf
hún er auga
hvíslandi rödd.
Haustið er söknuður — bið
milli gróinna minninga
og hvítrar auðnar.
Nú fellur snær
og hverfa gengin spor.
Óp eða þögn
hver greinir þar á milli?

 

HAUSTMORGUNN

Grá fyrir hærum
starir Esjan út flóann.
Farfuglar hópast í flokka.
Kveðjur brátt bornar
frá engli með rauðan skúf — í peysu.
Bröndóttur köttur læðist um garð
skotrar augum að trjágrein
kvíðir hörðum vetri.
Í skólastofum mætast glampandi augu
en grúfa sig jafnharðan
feimin yfir skræðurnar.

 

HAUSTDAGUR

Forðum um móa og mýrar
nú um malbik og steyptar hellur
berumst við sveipuð
gráma haustþokunnar.
Léttum fetum læðist
vetur að hugskotum
býr í haginn 
    hörfar
en aðeins fyrir næsta horn.
Við vonum hið besta
bíðum þó myrkurs og drunga.

 

HAUSTKVÖLD

Vindar næða í skrælnuðu laufi.
Ég heyri þau falla
hin þungu högg kveðjustundarinnar.
Einfara ber yfir Torgið
skuggi, aðeins skuggi
án fylgdar.
Tregi fyllir hjörtu
þau bærast milli vonar og ótta.
Allt er hljótt
nema næðandi vindur í laufi
og þung högg kveðjustundarinnar.

 

 

SLÓÐ

 

SÍÐASTI VÍKURBÓNDINN

Kneyfað skal til botns
úr hverjum bikar
— morgundagur fjarri öllum sanni.
Ó, að þið liðnu dagar
auðs og sælu
væruð ei horfnir burt
sem dögg af grasi!
Valdsmaður forðum
nú hornkarl á Arnarhóli,
landnámsjörð Ingólfs
orðin að dönsku þorpi.

Hjaltadalur, Hjaltadalur,
hvar eru þau nú
bernsku minnar spor?

 

KEMBARINN Í INNRÉTTINGUNUM

Minnug síns hlutverks
gekk gleymskan yfir kirkjugarðinn forna
í hlaðvarpa Víkurbænda.
Þar hvílir þú lúin bein
gamli kembari
leiðið horfið, spor þín máð.
En stytta fógetans
gín yfir garðinum
— minnismerki vona
sem þú ef til vill deildir með honum
meðan hann sat höfuðbólið í Viðey
en þú lagðist þreyttur til hvílu
í ördæðiskoti í kyrkingslegu þorpi.

 

GÖTUHÚSASLARKARINN

Ekki fer af honum annað sagna, en kotungshokur í
Götu, ölæðisinnrás í Múrinn og landnám í Þingholtum. 
Nú jæja, það skilar hver sínu þótt axarsköft sumra rati 
í sagnir meðan tíðindaleysið tryggir öðrum eilífa þögn.

 

PÓLITÍIÐ

Meðan þeir gengu "götuna fram eftir veg", var hlutskipti
þitt að hlykkjast um hana fram og aftur með 
stromphatt á höfði til merkis um stöðu og stétt og nefið 
í hvers manns koppi í laganna nafni. Slyngur að veiða 
sök upp úr brotagemsum. Sagður sannorður 
hversdags, í því hófi, sem að sögu fellur.

Alexíus Árnason pólití: teikning úr Íslandsleiðangri Richards F. Burtons árið 1872

 

STEINSMIÐURINN

Styrkum höndum
meitli hjóst í stein.
Klappaðir nafn
og ártöl tvö þar undir
þó stundum aðeins eitt.

Enn má sjá þess merki
í kirkjugarðinum við Suðurgötu
að farið hafirðu höndum
um margan harminn.

Og líkt og tíminn
fölva slær á þig,
máir hann einnig
handaverkin þín.

 

AMTMANNSEKKJAN

Gamla konan tók sér á kné
tvö móðurlaus börn.
Hún leiddi þau áleiðis
svo fjarri bræðravígum
sem kostur var.

Þegar hún fann dauðann nálgast
bar hún á eld öll bréf
sem henni höfðu borist á langri ævi
enda óráðlegt að flytja armæðu milli kynslóða.

Guði fól hún börnin
þau voru hennar kyn.

 

SKÓSMIÐURINN

Feril sinn hóf hann á þeirri rósemdariðju að smíða 
mönnum skó. Síðar fór hann að versla og hafði meira 
umleikis en títt var um skósala. Markaði hann bæinn 
sporum sínum og má enn sjá þá slóð víða — þó utan 
alfaraleiða.

 

BÓNDINN

Ungur yfirgaf hann bæinn og hóf búskap í dal einum, 
sem gengur inn af Hvalfirði. Er dalur sá kenndur við kú 
frá fornri tíð. Var hún svo kostarík, að af hlutust 
mannvíg. Hann þótti sérlundaður. Hann forðaðist 
Reykjavík eins og pestarbæli. Þó lét hann leggja sig 
þar til hinstu hvílu. Má vera að hann hafi betur treyst 
ættmennum sínum en sveitungum til samfylgdar fyrsta 
spölinn á langri leið.

 

FÓSTRA

Gamla konan var úr Þingholtunum og allt hennar kyn, 
allar götur aftur fyrir hundadagakónginn. Gömul hús 
vildi hún láta jafna við jörðu; þau minntu hana á 
tæringu. Þó mátti það standa, sem enn stóð af því, 
sem hennar fólk hafði reist. Þeir höfðu aldrei lagst á þá 
ætt, — berklarnir. Þessi gamla kona var amma mín og 
fóstra. Hún hafði lent í þrálátri útlegð norður á 
Akureyri. Þegar staðarmenn vildu upphefja bæ sinn á 
kostnað Reykjavíkur með því að tala um regnið fyrir 
sunnan, þá svaraði hún stutt og laggott: Regnið í 
Reykjavík er þurrt.

 

DRAUMÓRAMAÐURINN

Hver maður er tveggja heima
    draums og vöku.

Í draumi er hann herra sinna daga
í vöku draumsins þræll.

Og þú sem ætíð gekkst um draumsins vegu
áttir þær stundir öðrum sælli
er draumur og vaka leiddust hönd í hönd.

 

KONA HANDAN SEILINGAR

Móðir
systir
frænka.

Svo fjarri
svo nærri.

Ávallt í sjónmáli
ávallt handan seilingar.

Ýmsum þótti líf þitt undarlegt.
Þó voru andlátsorð þín:
"Það er skrýtið að deyja",
rétt eins og aldrei
hefði neitt á dagana drifið
fyrr en á skapadægri.

Við kvöddumst ekki,
höfðum svo sem ekki heilsast heldur.

En nú, að loknu margslungnu lífi þínu
sem engin undraðist meira
en þú sjálf
hefur tregi tekið sér bólstað
í hjarta mínu.

 

TVÖ DIMMBLÁ BLÓM

Tvö dimmblá blóm
spretta í garði við lygnan vog.
Tvö dimmblá blóm.

Ekki fölar myndir
liðinna daga
heldur kvikur tregi
líðandi stundar.

Og þó veit ég alföður
örmum vefja
þau dimmbláu blóm
er sorg mína bæra.

 

 

SJÓNHENDINGAR

 

ÞEGAR STRÍÐIÐ KOM ÖÐRU SINNI

Einu sinni sem oftar voru menn að stríða úti í heimi. En 
þótt herirnir hefðu tekið kúrsinn, ýmist á París eða 
Berlín, Shanghai eða Tókíó, þá sá einn þeirra ástæðu til 
að ösla inn hafnarkjaftinn í henni Reykjavík. Byrjuðu 
komumenn á því að höggva sér leið inn í 
Landsímahúsið, enda ekki siður stríðsmanna að banka 
nett á dyr. Nokkrum árum síðar lauk stríðinu og hinir 
vígreifu dátar breska heimsveldisins héldu til síns 
heima. Skildu ýmsir þeirra eftir sig tvífætta ávexti 
dvalar sinnar eins og gengur. Nú liðu árin, uns þar 
kom, að ákveðið var að kvikmynda hernámið. Vaskir 
menn klæddust úníformum og enn máttu dyr 
Landsímans þola axarhögg. Vildi þá svo til, að í andyri 
Hótel Borgar stóð roskin kona og horfði á aðfarirnar. 
Hafði hún á sínum tíma alið hermanni barn, en nánari 
urðu þeirra kynni ekki. Sem nú einhver gekk fram hjá 
þeirri gömlu, heyrðist hún segja, í þeirri fölskvalausu 
gleði, sem ástin ein fær vakið til lífs: Guð, það er bara 
alveg eins og Bretinn sé kominn aftur. — Þeir 
roðnuðu,— vangarnir.

 

PAT JOHNSON

Pat Johnson er einkennilegur maður.
Hann kom vestan frá Ameríku
nánar tiltekið frá Williamsport, Pennsylvaníu
og settist að í bænum
til að safna frímerkjum.
Í þessum eina tilgangi
yfirgaf hann vini og vandamenn
og sagði lausri ágætri stöðu
við rafveituna vestur þar,
maður á besta aldri.
Einkennilegur maður, Pat Johnson.
Hann leigði sér kytru í Skuggahverfinu,
nærist helst á súpu og brauði
er kauðskur í klæðaburði
og lætur ekki sjá sig á almannafæri
nema þá í frímerkjabúðum
og á pósthúsinu, þangað sem hann fer
á útgáfudegi nýrra frímerkja.
Nei, það verður tæpast af honum skafið
karlálkunni honum Pat Johnson
   
hann er einkennilegur maður.

En spurðu mig ekki
hvert sé einkenni hans
því sannast sagna
hef ég aldrei séð votta fyrir því
að hann skeri sig úr fjöldanum.

Einkennilegur maður, Pat Johnson.

 

GAMLI KIRKJUGARÐURINN
OG KÚRLANDS-ÞJÓÐVERJINN

Aðeins fallandi lauf.

Nei, garðurinn deyr ekki.
Laufskrúði krýndur mun hann gleðja
augu okkar að vori
anga sem aldrei fyrr
(þykir okkur jafnan).
Við munum ganga þrönga stíga hans
sum hönd í hönd
önnur ein og í þungum þönkum.
Hvað sem öðru líður munum við ganga
þessa sömu stíga
og dást að litbrigðum laufsins
þá sem nú
staðnæmast við stöku leiði
láta hugann reika
en segja fátt
þá sem nú.
En það verður ekki sama laufið
ekki sama laufið
og við ekki sama fólkið.

Far vel, ó þið fölgulu dagar uppskerunnar.
Far vel.

Þegar líða tekur á ágúst
læðist að óljós grunur um viðskilnað.
Ljúfsár tregi sækir á hugann
líkastur dökku skýi
sem enn hefur ekki tekist að dylja sólu.
Ekki enn.

Gamli Kúrlands-Þjóðverjinn
fer ekki lengur næmum höndum
um leiði Reykvíkinga.
Við höfum sett hann á eftirlaun
og nú bíður hann þess
að leggjast til hvílu
fjarri ættjörð sinni
meðal þeirra sem dauðir
vöktu honum þanka
um hverfulleik lífsins.

Aðeins fallandi lauf.

 

HELGUR MAÐUR FRÁ TURKESTAN

Hann hét víst Sun Wu Koungh. Ég sá hann iðulega í 
bænum á bernskuárum mínum, þennan hvíthærða 
öldung frá Turkestan, hingað kominn af duldum 
ástæðum, sem menn réðu lítt í. Hann mun hafa verið 
helgur munkur af reglu Zen-búddista. Göngu sinni lauk 
hann hér norður undir pól og var grafinn í 
Fossvogskirkjugarði. Síðar voru bein hans grafin upp 
og niður öðru sinni, þá í Mexíkó, þar sem auðugir 
áhangendur hans vildu njóta nærveru þeirra. Svona 
getur helgin lagst í flakk.

Ljósmynd af styttu Guðmundar Elíassonar af zen-búddamunknum Sun Wu Koungh

 

INDVERSK STÚLKA Í LEIÐ 2

Augun dimmir skógar.
Svella í barmi
Indíalönd hin fornu.
Tígrisdýr læðist
í skógarins svarta hári.

Á Torginu nemur vagninn staðar.
Hinn forni heimur rís úr sæti sínu
og hverfur út í reykvíst haustregnið.

 

GÖMUL HJÓN Á BEKK

Ekki minnist ég slíkra hlýinda í borginni, að ég hafi séð 
gömlu hjónin án þykkra ullaryfirhafna. Þau sátu jafnan 
á bekk, ýmist á Torginu eða Austurvelli, milli þess, sem 
þau gengu milli ruslafata og tíndu upp úr þeim ýmislegt 
lauslegt, sér til viðurværis. Yfirhafnirnar báru vott um 
löngu liðna velmektardaga. Þau voru tvíein og héldu 
því áfram með einhverjum hætti eftir að konan dó.

 

TVEIR SKUGGAR

Hver maður á sér skugga
sem fylgir honum hvert sem leið liggur.
Eins var það með þau mæðgin
    þau fékk ekkert aðskilið.
Saman örkuðu þau um göturnar
hann, þessi miðaldra rengla
hún, lítil gömul kona
með festu fjallsrótar
jafnt í fasi sem ásjónu.
Þau báru út blöðin
og voru jafn fastur punktur í bæjarlífinu
og blöðin sjálf.
Þegar gamla konan dó
skilaði sonur hennar blaðburðarpokanum
og gerðist pylsusali við Laugaveg.
Þetta var í upphafi Bítlaæðis
og hann, sem jafnan hafði gengið látlaust til fara
gerðist nú litríkur sundurgerðarmaður í klæðaburði.

Það er gamla sagan
    dauðinn lífgar.

 

DÓSÓÞEUS TÍMÓTHEUSSON

Hvítfaxa gengur um bæinn
öldungur ennishár
með íbjúgt nef jafnt sem nafn
kynjað austan frá ströndum fornra sagna.
Að öðru leyti er maðurinn að vestan.

Hann gengur jafnan
með hendur fyrir aftan bak
líkt og áhyggjufullur herstjóri
nóttina fyrir einhverja af þessum úrslitaorrustum
sem engum úrslitum ráða
nema þá á landakortum.

Ólíkt slíkum kónum
brosir hann oftast
enda eru þeir dús,
heimurinn og hann.
Saman hafa þeir baðað sig
í mörgum sólargeislum
sem glitrandi stigu dans
á ljúfra veiga skálum.

 

 

UNDIR FÓTUM FÖRUMANNA

AÐALSTRÆTI

Stolt berðu nafn þitt
meðan hvíta hárið
bærist í vindum
hverfulla tíma sem gleymdu
að forðum varstu ekki aðeins
aðal lítils þorps
heldur lífæðin eina
og geymdir við þínar rætur
minni um upphaf þjóðar
og drauma nýrra tíma.

 

HAFNARSTRÆTI

Hér hafa hjörtu borið harmasár
og sorgir kvalið
þyngri en tárum tæki.

En huggun veitti lítið koggaglas
   
alsælu svartadauðaflaskan blíða.

"Sjáið þennan letilýð", fólkið kvað
er skjögruðu um stéttir þínar
rónarnir völtum fótum.
Þá gleymdist oft
að mörg er búmannsraunin
harmabænda.

Og eins þótt ekki yrði á suma logið
er hitt þó víst
að allir bera í hjarta sínu
bernskunnar Fagurey.

 

AUSTURSTRÆTI

Þar sem að Skálinn forðum
var þingstaður spekinga
"makka" nú hvítklæddir krakkar
brasaðan Dónald í brauði.
Á móti velkir Valdi í sínum lúkum
pylsu með öllu
og selur á kostakjörum.
Enn má hér líta sveimhuga
sem líkt og í draumi
horfa á gamla símastaura syngja
í sólskinu og verða græna aftur.
Því svo er mikill blekkinganna kraftur
að jafnvel liðnir tímar ganga aftur.

 

VESTURGATA

Vestur úr bænum lá þröngur stígur. Bar hann nafn 
Hlíðarhúsa, sem við hann gréru úr jörðu. Úr þessari 
torfþyrpingu réru menn til fiskjar en konur gerðu að 
aflanum þegar í land kom. Þannig höfðu kynslóðir 
troðið sína slóð um aldir, uns þar kom, að fólkið reis úr 
rekkju í litlu þorpi, sem í fyllingu tímans varð borg. 
Þann dag drógu Hlíðarhúsamenn báta sína í naust 
hinsta sinni og hurfu í fjöldann.

 

SKÓLAVÖRÐUSTÍGUR

Hreykir sér kappi á háum stalli
líkt og hann bíði þess
að ávarpa skarann á Kjaftaklöpp.

Brotin er Varðan
en turn rís til himins
kirkju sem kennd er við
hógvært hempuskáld.

Hér gengu forðum
elskendur ungir
og staupglaðir menn
og þyngdu með grjóti
gamlan harm í Steinkudys.

Já, tíminn líður
við færumst ögn um set
til upphafs þess
er endalokin boða.

 

LÆKJARGATA

Heilagur tifaði andinn hér forðum tíð
og Lækurinn rann til sjávar.
Var ekki einn dag
sem tíminn staldraði við
og skotraði augum
upp að Lærða skóla?

Loks kom að því
að bunustokkur batt Lækinn
   
Austrið og Vestrið urðu að einum bæ.

Hugsaði hver þó sitt
og gerir enn.

 

LAUGAVEGUR

Ormurinn langi
hvað er þér á höndum,
ætlarðu inn í Laugar eða niður í bæ?
Roguðust forðum
bakveikar konur og mæddar
með óhreinan þvott þessa bæjar
á bakinu inn í Laugar
og tandurhreint lín til baka.

Þeirra varstu Þrautagöngustígur.

Nú ertu allur annar, elsku karlinn
hellum lagður og malbikaður á milli.
Fráleitt að for og leðja hefti för
kvenna á rölti milli þinna búða.

Kínverskur ertu nú í annan endann
hinn er víst orðinn eineygt sjónarspil
og sendir öllum landslýð stofumyndir
af misþyrmdu fólki úti um allar jarðir.

Já, bernsku minnar fráu fóta gata
aldrei mun hattur minn lyftast
of hátt frá höfði
er heilsa ég þér
af tilhlýðilegri virðing.

 

HVERFISGATA

Til austurs úr nafla alheims
rís hún í lágri brekku
undir stalli Ingólfs,
þessi langa gata
sem er rótgrónum bæjarbúum
tákn óendanleikans
enda býr fjarskinn einn austan hennar.

Þaðan eiga fáir afturkvæmt.

 

SUÐURGATA

„Það verður aldrei bylting í þorpi"
sagði skáldið að vestan.
Þó hafði það gerst
meðan skáld þetta sleit barnsskónum
að bylting lét á sér kræla
í hálfgildings þorpi við Faxaflóa.
Ekki var þó sótt að neinnri Vetrarhöll í það skiptið
heldur varið hús eitt við Suðurgötu
að þar mætti herbergjast umkomulaus drengur
austan úr sovétum.
Verjendum varð ekki að ósk sinni
og var drengurinn fluttur út í heim.
Lauk hann þar síðar ævi sinni
í gasklefum nasista
enda af kyni Abrahams.
Af umstangi þessu
varð nokkurt rót í bænum.
Þó héldu syrgjendur áfram
að bera ástvini sína til grafar
þennan spöl frá dómkirkjunni
suður í kirkjugarð
fram hjá þessu húsi
sem tendrað hafði eld í hjörtum svo margra.
Á þeirri leið vex blómstrið eina
kristnum lýð.

Undarlegt að helbláan mökkinn
skuli enn bera yfir götuna
alla leið austan frá Auschwitz.

 

TJARNARGATA

Undir Dauðramannabrekku
reistu þeir hús sín,— höfðingjarnir.
Þar ráðskuðust þeir með sálir hinna lifandi
eins og slíkra er siður.
Þeir dauðu í garðinum ofan götunnar
létu sér fátt um finnast
vitandi sem var
að brátt yrðu höfðingjarnir grafnir meðal þeirra
valdalausir með öllu.
Sömuleiðis héldu endurnar áfram
svamli sínu á Tjörninni
og töldu sig síst búa
á fínni stað en áður.

 

 

MYNDIR Á STANGLI

 

VIÐ STYTTU JÓNASAR

Gamall bekkur í hvítum garði
   
laufvana tré.
Þó ilmar það, blómið
í hendi stallbúans
sem við Eyrarsund bar í brjósti
græna dali handan hafs.

Bekkurinn auður
auður ei.

 

Í BREIÐHOLTINU

Fyrir neðan húsið stendur kirkja þýskrar villutrúar en 
austan þess kirkja heilagrar Guðsmóður. Skammt frá er 
lítil tjörn handa Guði og mönnum að spegla í ásjónu 
sína á lygnum sumarkvöldum. Gildir þá einu, hverju 
dauðlegir trúa.

 

SVEFNVEIÐAR

Svefninn sökkvir öngli
í djúpa vornótt.
Ég bít á agnið
   
ljúfa draumastund.
Regndropadans á götunni
værir hugann.
Annars er borgin þögul og væntir dags
handan við himinbál og hafs
sem roðar austrið
fjarri draumi og vöku.

 

MORGUNMYND AÐ SUMRI

Tjörnin á sér ótal augu.
Þau skjótast í sefinu
sólríku sefinu
í leit að æti
stökkva upp úr vatninu
gára flöt þess
eitt andartak
hverfa
einnig gárurnar.

Hverful eru augu Tjarnarinnar
sem augu mín mæta.

 

VIÐ BORGIN

Ég er borgin
garðar hennar, port og götur.
Saga hennar er saga mín
sól hennar, stjörnur og máni
mínir hnettir
mín himinblik.
Og borgin er ég
hugsanir mínar
sorg og gleði.
Saman höfum við lifað
og saman munum við deyja
        mér.

 

REGNKVÖLD Á KNÆPU

Mjúklega læðist skugginn
gegnum regn borgarinnar
   
     tíminn fer fetið.
Allir þið gleymdu dagar
þið drukknuðu nætur.
Máni siglir myrk höf
skýja, augum hulinn.
Regnið syngur gangstéttinni
taktbundið tilgangsleysi.
Í tæmdu glasi
hverfur einsemdin
milli fingra fölrar handar.

 

HUGLEIÐINGAR VIÐ TJÖRNINA

Sé alls gætt er Reykjavík ekki borg
heldur umgjörð utan um Tjörnina.
Þeir sem leið eiga um
varpa skugga sínum
á bakka Tjarnarinnar
og sumir spegla mynd sína
í vatnsfleti hennar.

Að ferðalokum hverfa þessar myndir
   
         þó ekki allar.

 

Í KIRKJUGARÐINUM

Þau traustu spor
sem hingað hélstu á leið
án vonar eða vilja
um afturhvarf,
þau vísa mér þá braut
sem liggur greið
að þessum garði
— heim til þín.

 

HAUST Á KLAMBRATÚNI

Bláan ber skugga yfir túnið
fuglar hópast í flokka.

Hann er dimmblár, skugginn.

Þeir blaka vængjum, fuglarnir
hefja sig til flugs
og stefna til suðurs.

Hann er dimmblár, skugginn
og svalur.

 

HÚM

Húmið leggst sem silki
á greinar trjánna
á sölnað gras
og gráar götur borgarinnar.

Að engu fer hann sér óðslega
kötturinn svarti í mánaskini.

Hvers væntir þröstur á grein?

 

SUMBL Í VESTURBÆNUM

Í svartri þokunni
sáldrar hann sálinni
yfir öldurhúsin

heldur svo heim á leið
með rauðvín í poka.

Út úr þokunni
stígur kona
á svörtum klæðum.

Þau lyfta glösum
hægt
í svartri þokunni.

 

BORGARFRELSI MANNS OG HUNDS

Svo frjáls ertu hundur
sem nemur spottans lengd
milli háls þíns
og handar þín herra.

Meira verður ekki krafist.

En hugðu að því
að frelsi herra
og helsi hunds
eru af sömu rót

spottans lengd.

 

GÖMUL MYND

Að hjóla gegnum Höfðaborgina, þennan reit fátæktar 
og ömurleika, á nýju glæstu reiðhjóli,— það var ögrun, 
skildist mér síðar. Þó var mér á einhvern hátt þegar 
ljóst, að ég verðskuldaði grjótið, sem á mér buldi.

 

VORLJÓÐ

Eilítil snjómugga
og vetur konungur glefsar í Tjörnina
þiðnandi ísi
mæddur af birtunni
sem sækir lengra og lengra
fram í morgunkyrrðina
lengra og lengra
dag frá degi
uns sól vekur með kossi
dansandi bárur Tjarnarinnar
meðan mannheimar sofa.

 


Aftur á forsíðu